Blik 1959/Síðasta förin til súlna í Eldey 1939

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2010 kl. 19:32 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2010 kl. 19:32 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



ÞORSTEINN EINARSSON:


Síðasta förin til súlna í Eldey 1939


Þorsteinn Einarsson,íþróttafulltrúi, höfundur greinarinnar um Eldeyjarförina 1939, var kennari við Gagnfrœðaskólann í Vestmannaeyjum árin 1934—1941, alls 7 ár. Síðan hefir Þorsteinn Einarsson sýnt og sannað á margvíslegan hátt tryggð sína og hlýjan velvildarhug til skólans og starfs hans, og þakka ég það hér með innilega. Þ.Þ.V.

Meðan fuglabjörg voru bezt nytjuð í Vestmannaeyjum, voru súluungar teknir þrisvar á sumri. Oft var farið seinnihluta júlímánaðar; þá var súlan aðsótt um leið og farið var til fýla og loks var aðalsúlnatekjan um eða upp úr mánaðamótum ágúst—september.
Þegar farið er um súlubyggð í fyrstu viku júlí, má flokka þroskastig afkvæma í þrjá flokka, og er nær jafn stór hver flokkur.
Þroskastigin eru:

1. egg,
2. ber ungi eða lítt dúnklæddur,
3. dúnungi eða skerlingur.

Í samræmi við þessi þroskastig eru súluungar fullgerðir á tímabilinu frá því í síðustu viku júlí þar til í fyrstu viku september.
Eins og fyrr segir, átti aðalsúlnatekjan sér stað í lok ágúst. Og eftir að farið var að sækja Eldey, fóru Vestmannaeyingar í eyna um þetta leyti.
Ráða má af orðalagi í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, að Eldey hafi verið nytjuð til forna, og mun hún þá hafa legið undir jarðir í Hafnahreppi. Eftir að Eldey var klifin að nýju 1894 af þeim Vestmannaeyingunum Ágústi Gíslasyni, Hjalta Jónssyni og Stefáni Gíslasyni, var eyjan talin ríkiseign og nytjar hennar leigðar. Í fyrstu mynduðu nokkrir Vestmannaeyingar félag með sér og keyptu félaginu leigurétt á eynni. Síðar mun Hjalti Jónsson hafa náð einn leigurétti á eynni. Af Hjalta keypti Hreggviður Bergmann ásamt Finnboga Guðmundssyni í Gerðum leiguréttinn á kr. 3.500,00. Hreggviður keypti að lokum hluta Finnboga fyrir kr. 1.500,00 og gerði við veginn upp eyna og lagði þá tvöfalda þrepakeðju, sem nú liggur sem skrautfesti með brún eyjarinnar. Keðjustigi þessi lá af efsta stalli í 24 m lofti að brún eyjarþekjunnar. Er talið, að vegagerð Hreggviðs hafi kostað um kr. 1.000,00.
Séra Jes A. Gíslason hefur skráð hjá sér frá því 1910, hversu Eldey var nytjuð, enda einn þeirra, sem tóku eyna á leigu. Á tímabilinu 1910 til 1938 er farið í 21 skipti í eyna. Þar af er farið úr Eyjum 18 sinnum.









ELDEY út af Reykjanesi er talin strærsta súlubyggð á jarðarhnettinum. Árið 1953 töldust þar vera 15.200 súluhjón. Talið eftir myndum af eynni.




Í eitt þessara skipta er bæði farið úr Höfnum og Eyjum. Áhugi Suðurnesjamanna á afla úr Eldey mun aðallega hafa verið bundinn við öflun matfanga til loðdýrabúa, sem þá voru víða starfrækt. Munu eigendur búanna frekar hafa óskað að fá fullorðna súlu, því að ungarnir reyndust of feitir.
Vestmannaeyingar öfluðu súlu til manneldis og drápu því eigi ófullgerða súluunga, og sjaldan sást á Heimaey fullorðin súla í súluungakös úr Úteyjum.
Aðsókn í Eldey 1937, þegar bæði var farið úr Höfnum (4.— 5. sept) og úr Eyjum fáum dögum síðar, sýnir glögglega mat þessara tveggja byggða á aflanum, því að aðeins voru þar 2 skerlingar fyrir, er Eyjamenn komu upp á eyna, en venjulega voru rúmlega 1.000 skerlingar eftir, er Eyjamenn höfðu aðsótt.
Rústeruð súla vegur um 2 kg, og 1938 var fullgerður súluungi seldur í Eyjum á kr. 5,00.
Von í 15 til 20 þús. kr. afla var 1939 ekki svo lítið tælandi. Því var það, að nokkrir Eyjaskeggjar ákváðu sín á milli að afla sér leyfis til Eldeyjarfarar og grípa fyrsta leiði síðast í ágúst til aðsóknarinnar. Fært í Eldey er talið í norðlægri átt, eða logni og ládeyðu, því að steðjinn er slæmur og varasamur austan í Flánni, sem er smá tangi norðaustur úr eynni.
Þann 25. ágúst virtist vera komið Eldeyjarleiði, sex vindstig af norðvestri og spáð lygnandi. Árni J. Johnsen var köllunarmaður og kallaði hann veiðimenn til Eldeyjarfarar. Vélbáturinn „Vonin“ VE 279 lagði úr höfn kl. 18,30. Léttabátur var hafður á þilfari. Veiðimenn voru búnir sem venja er til fjallaferða, vopnaðir súlukeppum og vel nestaðir.





Hluti af súlnabyggðinni í Eldey 1939. „Eyjan var lífleg yfir að líta“... „Súluungar virtust óvenju margir og vel gerðir.“ (Sjá grein Þ.E.) — G.Fr.J. tók myndina.




Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en Vonin kom undir Eldey kl. 4 að morgni þess 26. ágúst. Vindur var enn af norðvestri og hægari. Sjór var þungur úr hafi og því nokkur dráttur við steðjann. Var þegar freistað að komast upp og tókst tveim göngumönnum að komast upp á Flána. Þeir héldu svo með bandhankir um axlir upp á neðsta stall suðausturhliðar eyjarinnar. Þangað upp til sín drógu þeir af báti svo hina fimm göngumennina. Þegar göngumennirnir höfðu tygjað sig til uppgöngunnar á stallinum var lagt til uppgöngu á eyna norður Bringi, upp og austur stallana, upp klettahrygginn með stuðningi af keðju og allt upp á efsta stall og þá upp keðjustigann á brún. Gekk uppgangan greiðlega.
Eyjan var lífleg yfir að líta. Súluungar virtust óvenjumargir og vel gerðir. Unginn raðaði sér með brúnum, svo að fara varð gætilega til þess að missa ekki of marga fram af. Yfir iðandi ungfuglamergðinni sveif fullorðni fuglinn eins og stórgerð logndrífa.
Í austri hafði dregið upp mikinn sorta og var því austanátt fyrirsjáanleg. Mátti nú engan tíma missa og var þegar byrjað að rota (slá) súluunga með norðaustur og austur brún („Kanti“). Var hinum slegnu súlum þegar kastað niður í sjó. Þeim, sem voru á báti við eyna, gekk mjög illa að ná fuglinum sökum straums og vaxandi suðaustan áttar, sem jók hafbrimið.
Um tíu leytið var komið rok. Vegna þess hve bátverjum gekk illa að tína upp fuglinn úr sjó, urðu göngumenn að draga úr ofanköstunum með því að kasta litlu í einu. Um hádegi tók að rigna og samfara regninu óx rokið. Var nú vart liggjandi lengur undir eynni sökum roks og brims. Bátverjar hófu því að hrópa í kapp við vindgný og brimorg aðvaranir til göngumanna, að þeir hröðuðu sér niður. Þeir sem uppi voru, heyrðu engin orðaskil og gáfu því einum niður í bergið, til þess að fá greint, hvað bátsverjar vildu þeim. Sigmaður bar til baka þau skilaboð, að bátsverjar vildu fá þá niður strax og óskuðu að freista þess að ná þeim í vaðdrætti á skip, þar sem þeir töldu algjör frátök við Flána. Göngumenn vildu þó bíða útfalls, þar eð þeir töldu, að þá myndi slá á brimið. Kusu þeir að bíða uppi, þó að segja mætti, að þar væri berangur, því að nær ekkert afdrep er þar að hafa. Urðu göngumenn fljótt gegnblautir, enda fáklæddir og algjörlega vant hlífðarfata. Gerðist nú ævi þeirra ill af vosbúð og urðu þeir að hafa sig alla við að kuldinn yfirbugaði þá ekki.
Um þrjú leytið lagði einn göngumannanna af stað niður til þess að taka á móti dóti þeirra, en það ætluðu þeir að gefa niður á neðsta stall. Varð þessi undanfari að fara mjög varlega, því að það, sem stíga þurfti á eða grípa í til stuðnings, var slepjað af dritrennslinu, og víða varð hann að kafa niður í myrkjuna eftir handfesti. Gekk ofanferðin vel, þar til komið var í mitt bjarg, þar sem „vegurinn“ liggur um fláa (bring) milli stalla. Bolti sá, sem átti að vera efst í fláanum til handstuðnings, var brotinn. Var göngumanninum fyrirmunuð frekari ofanferð og hlaut því að nema hér staðar. Hrópaði hann til þeirra, sem biðu við brún, og skýrði þeim frá, hvernig komið væri. Varð að samkomulagi, að hann biði þeirra við fláann. Hinir skildu eftir farangurinn, sem samanstóð af súlukeppum, matarkassa og vatnsbrúsa, og héldu af stað niður.
Hver hafði nóg með sig og gekk ofanferðin seint, því að hver fótfesta var sleip af dritrennsli, og handstuðningur varasamur jafn vel á boltum og keðjum hvað þá á snösum eða öðru.
Þegar kom til þess manns, sem beið niðri í bjarginu, settist einn undir band, meðan hinir höfðu stuðning af því niður fláann. Sá, sem setið hafði undir, gat eigi notið bandsins og og gaf það niður en einn félaga hans settist klofvega á brík neðan við fláann. Eftir að hafa náð góðri handfestu, renndi hinn sér niður fláann og stöðvaðist á félaga sínum, sem sat á bríkinni.
Úr þessu gekk ofanferðin að óskum, þrátt fyrir það, að bjarg og keðjur væri flughált og því allstaðar illstætt. Niður á neðsta stall var komið kl. 5 en þar beðið þar til um sexleytið, að freistað var að komast á skip, þó að eigi væri það árennilegt sökum brims og hvassviðris. Bátsverjar dældu olíu í sjóinn og lægðu þar með mestu kvikuna. Sluppu allir slysalaust um borð og er sá síðasti hoppaði á skip, kváðu við fagnaðaróp skipverja. Gleði allra var mikil yfir því að sleppa ofan úr Eldey á skip með vosbúðina eina, því að tilhugsunin var ömurleg að hanga hlífðarlausir og án afdreps í austan stórrigningu og roki uppi á hárri hafnlausri klettaeyju. Þá voru hinar yfirstignu hættur við tildrið utan í drithálu, rennblautu bjargi og sigurinn yfir brimsúg og kviku engu minna fagnaðarefni. Var nú leitað í hlýjar vistarverur vélbátsins og matazt. Það, sem skyggði á ferðina, var, að veiðin stóð í öfugu hlutfalli við erfiðið og hrakninginn. Þá var það Eldeyjarförum leitt, að þeir höfðu orðið að skilja eftir uppi nokkuð af slegnum súluungum. Veiði þessi var skilin eftir uppi í þeirri von að takast mætti að komast í Eldey næstu daga og slá þá það sem eftir var af fullgerðum súluungum. Var því haldið til Grindavíkur og þar beðið í 1 1/2 sólarhring eftir leiði í Eldey. Meðan beðið var, greiddu Eldeyjarfarar eyjarhlutinn, sem nam 400 súlum. Einhver, sem kom um borð í Vonina, hafði orð á því, að þeir hefðu eigi náð fullorðnum súlum! Þegar sýnt var, að eigi fengist leiði í Eldey og súluungaaflinn lægi undir skemmdum, var haldið til Vestmannaeyja og voru veiðimennirnir leiðir og sárir að skilja þannig við Eldey. Orðnum hlut var eigi um þokað og svo var um þessa Eldeyjarför, þar sem teflt var ávallt út í tvísýnu, von og heppni oftreyst.
Þar sem Vestmannaeyingar sigldu með stefnu á Heimaey, grunaði þá vart, að þeir væru að ljúka síðustu veiðiförinni til súlna í Eldey. Einhverjum á Suðurnesjum, sem litu um borð í Vonina og heyrðu um súludrápið og þá súluunga, sem skildir voru eftir uppi á Eldey, fundust þetta ómannúðlegar aðfarir og sendu því stjórn Dýraverndunarfélags Íslands símskeyti og kærðu aðfarirnar. Í skeytinu var fram tekið að 3.000 ungar hefðu verið drepnir, 1.000 teknir en 2.000 skildir eftir. Þessar upplýsingar voru eigi réttar. 1.300 súluungar náðust á skip, 800 til 900 voru skildir eftir uppi en áætlað að 2.500 til 3.000 ungar væru lifandi. Samkvæmt þessu, hefðu 4.600—5.200 súluungar átt að vera í eynni, er Vestmannaeyingarnir hófu að slá þar súlu í síðasta sinn, og samkvæmt því hefðu 7 til 8 þúsund ungar átt að hafa alizt upp úr eggi það sumar í Eldey.
Árið eftir gerðu Englendingar leiðangur í Eldey til þess að telja súlubyggðina. Fyrir þeim leiðangri stóð H.G. Vevers, sem nú er dýrafræðingur við dýragarðinn í London. Til uppgöngu á eyna réði hann mann úr höfnum, Gísla Guðmundsson. Taldist honum 8.700 hreiður uppi. För Gísla varð hin síðasta upp á Eldey. Tíu árum síðar, er klífa skyldi Eldey, lá keðjan upp við brún, en ókleift 24 m loft af efsta stalli.
Skeyti þeirra Suðurnesjamanna varð til þess, að stjórn Dýraverndunarfél. Íslands ásamt Magnúsi Björnssyni starfsmanni á Náttúrugripasafninu í Reykjavík, fékk því til leiðar komið, að samþykkt voru á Alþingi 1940 lög um friðun Eldeyjar (lög nr. 27/1940). Samkvæmt lögum um náttúruvernd frá 1956 verður Eldey friðland, er náttúruverndarráð ríkisins hefur birt úrskurð um friðlýsingu eyjarinnar. Eldey verður þar með fyrsta friðland þjóðarinnar.
Hvað sem líður gildi friðlýsingar Eldeyjar, þá var forsendan að henni byggð á rangri vitneskju um gamlar fuglatekjuvenjur atorkusamra veiðimanna úr Vestmannaeyjum, og að þeir hrepptu óveður, sem torveldaði þeim að umgangast vel fuglanytjar Eldeyjar, eins og gamall siður er í Vestmannaeyjum.

Þ.E.