Blik 1980/Minning feðranna er framhvöt niðjanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. október 2010 kl. 11:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. október 2010 kl. 11:18 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1980


„Minning feðranna er framhvöt niðjanna“
Þannig hefur íslenzkur andans maður komizt að orði


Í 28. árgangi Bliks 1971 var minnzt Björgunarfélags Vestmannaeyja og hins gagnmerka brautryðjendastarfs, sem Eyjamenn beittu sér fyrir og inntu af hendi af miklum manndómi og sérlegri fórnfýsi, þegar þeir réðust í það stórvirki að kaupa björgunar- og varðskip. Tilgangurinn var sá að vernda líf sjómanna sinna og verja fiskimið sín fyrir innlendri sem erlendri ásókn.
Björgunarskipið Þór, Vestmannaeyja-Þór, eins og hann var venjulega nefndur utan Eyjanna, keyptu Vestmannaeyingar af danska ríkinu. Það kom til Eyja í marzmánuði 1920.

Mynd þessi er af líkani, sem Byggðarsafn Vestmannaeyja lét gera af Vestmannaeyja-þór. Ég minnist þess, þegar ég sagði Eyjafólki, að mig langaði til að láta búa til líkan af skipinu, en mig skorti fé. Þá stóð ekki á konum sem körlum í kaupstaðnum að afhenda mér peninga til þessara framkvæmda. – Það er við hæfi að minna á, að á þessu ári eru rétt 60 ár liðin, síðan björgunarskipið kom til Vestmannaeyja frá Danmörku.
(Sjá Blik 1971, bls. 25). Þ.Þ.V.

Næstu 6 árin gerðu síðan Vestmannaeyingar þetta skip út við björgunarstörf og landhelgisgæzlu. Árið 1926 var skipið selt íslenzka ríkinu.
Á þessum 6 árum, sem Eyjamenn gerðu skip þetta út, vaknaði skilningur ráðandi manna íslenzku þjóðarinnar á því, hversu landhelgisgæzla við strendur landsins væri aðkallandi nauðsyn. Og þá ekki síður björgunarstörfin. Sá skilningur leiddi til þess, að ríkissjóður lét smíða björgunar- og varðskip erlendis. Jafnframt keypti hann Vestmannaeyja-Þór og stofnaði þar með til allsherjar landhelgisgæzlu og björgunarstarfs.
Vestmannaeyja-Þór strandaði á Sölvabakkaskerjum utan við Blönduós í desembermánuði 1929.
Svo liðu 43 ár. Þá frétti Hermann Einarsson ritstjóri Eyjablaðsins Dagskrár, að skrúfunni af Vestmannaeyja-Þór hefðu verið bjargað á land. Þá skrifaði hann í blað sitt á þessa leið: „Hvernig væri að bæjarvöldin reyndu að nálgast þennan hlut, sem væntanlega gæti orðið verðugur minnisvarði um það framtak og forustuhlutverk, sem Vestmannaeyingar höfðu í landhelgismálum Íslendinga?“
Hér var vissulega við manninn mælt. Stjórnarmenn Björgunarfélags Vestmannaeyja undir forustu Jóns Í. Sigurðssonar og Lárusar Ársælssonar brugðust skjótt við og festu kaup á skrúfunni.
Þegar Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún við Vestmannabraut, fyrrverandi bæjarstjóri kaupstaðarins, fékk þessar fréttir, tók hann að hugleiða, hvernig gera mætti skrúfuna að verðugum minnisvarða hins mikla og mikilvæga framtaks og brautryðjendastarfs Eyjafólks í björgunar- og landhelgismálum íslenzku þjóðarinnar.
Svo dundi gosið yfir, og hugir manna festust við afleiðingar þess. Allt, sem varðaði hugsjónamál og menningarleg minni lagðist í lágina.
Árið 1976 tók Ól.Á.Kr. að hugleiða á ný, hvernig gera mætti skrúfuna af Vestmannaeyja-Þór að verðugum minnisvarða. Þetta varð honum hugsjón. Hann er fagteiknari eins og kunnugt er, og hann gerði margar teikningar af hugsanlegu minnismerki og fórnaði til þess mikilli vinnu og töluverðum fjármunum. - Og smám saman nálgaðist hugsjónin veruleikann. Enda voru undirtektir stjórnarmanna Björgunarfélags Vestmannaeyja drengilegar og hvetjandi og margra fleiri Eyjamanna.
Hinn 18. marz 1977 skrifaði Ólafur Á. Kristjánsson grein í Eyjablaðið Dagskrá. Greinina nefndi hann „Steinn í vörðu minninganna um afrek forfeðranna“. Þar lætur hann í ljós, hversu ánægjulegt það væri Eyjafólki í heild að reisa „minnismerki um þessa frægð forfeðranna“, eins og hann orðaði það í greininni, og nota til þess öðrum þræði þessa skipsskrúfu.


ctr


Stjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja 1980.


Stjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja tók þessari hugmynd Ólafs mjög vel og var þá afráðið að hann ynni áfram að því að koma þessari hugsjón í framkvæmd.
Þá lét Ólafur í ljós þá hugmynd sína, að minnisvarðinn yrði reistur á grasigróna þríhyrningnum í Friðarhöfn.

Ólafur Á. Kristjánsson, frá Heiðarbrún, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjakaupstað

Bæjarstjórn kaupstaðarins gat fallizt á þá hugmynd hans.
Ýmsir kunnir Eyjamenn lögðu nú hönd á plóginn. Ólafur teiknaði, braut heilann og teiknaði. - Árni Johnsen, blaðamaður kom því til leiðar, að Landhelgisgæzlan lét eitt af skipum sínum flytja skrúfuna til Reykjavíkur og síðar til Eyja. Þá hafði Ólafur lokið við að teikna aðaluppdráttinn að minnisvarðanum. Þar hafði hann tekið tillit til þess, að fjórða blaðið hafði brotnað af skrúfunni við tugi ára legu í sjó. Þrjú voru eftir og það dugði hugvitinu.
Í marzmánuði 1977 sendi Ólafur myndir af minnisvarðateikningum sínum til Vestmannaeyja. Svo að segja samstundis birti Dagskrá eina myndina og flutti Eyjafólki jafnframt hvatningarorð að safna nú fé og reisa minnisvarðann hið fyrsta. Að þessari hugsjón var síðan unnið af áhuga og fórnfýsi.
Hinn 25. júní 1977 var Ól. Á. Kr. látinn taka fyrstu skóflustunguna að minnisvarðanum. Síðan hlóð Runólfur Dagbjartsson, múrarameistari, varðann úr brimsorfnum blágrýtishnullungum og naut hjálpar og aðstoðar Sigurðar Jónssonar frá Engey við það starf. Hann hafði þá hliðsjón af teikningum Ólafs og svo líkani af minnismerkinu, sem Óskar Kristjánsson bróðir Ólafs hafði gert að beiðni bróður síns.
Samfara þessum framkvæmdum tók að berast fé frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum í kaupstaðnum til greiðslu á keyptri vinnu og efni. Fyrsta fjárframlagið barst minnismerkjasjóði frá Slysavarnadeildinni Eykyndli í Eyjum. Alls gáfu þessi samtök minnismerkjasjóði kr. 525.000.- Mörg önnur rausnarleg framlög bárust sjóðnum.
Vélsmiðjurnar í Eyjum, Magni, Völundur og Þór, gerðu við skrúfuna eftir „sjóvolkið“ mikla. Hvert þessara fyrirtækja lagði sitt til.
Lárus Ársælsson, gjaldkeri Björgunarfélags Vestmannaeyja, annaðist fjármálin af gætni og prýði, svo að aldrei skorti fé. Kristinn Sigurðsson, slökkviliðsstjóri, frá Skjaldbreið við Urðaveg, smíðaði steypumót og annaðist alla aðdrætti. Síðast málaði Ragnar Engilbertsson, málarameistari, skrúfuna með sérstakri málningu, sem Málning h/f í Kópavogi gaf Björgunarfélaginu til þessara framkvæmda.
Garðar Sigurjónsson, rafveitustjóri Eyjamanna, flóðlýsti minnisvarðann.
Þannig studdi hönd hönd í þessu markverða framtaki Eyjafólks.


ctr


Þessa mynd tók Sigurgeir Jónasson, ljómyndari í Eyjum, þegar minnisvarðin í Friðarhöfn var afhjúpaður. Frá vinstri Ólafur Á. Kristjánsson, frú María Björnsdóttir, Pétur Sigurðsson, forstj. landhelgisgæzlunnar, og Jón Í. Sigurðsson, formaður björgunarfélags Vestmannaeyja, í ræðustól.


Hinn 23. marz 1977 skrifaði Ólafur Á. Kristjánsson bréf til forstjóra Landhelgisgæzlunnar, Péturs Sigurðssonar. Í bréfi þessu fór hann þess á leit, að Landhelgisgæzlan yrði látin „Leggja sinn stein í vörðu þessa“, eins og bréfritarinn orðaði það, með því að gefa áletrað nafnskilti á minnisvarðann.
Á þessa tillögu Ó1afs gat forstjóri Landhelgisgæzlunnar fallizt. Og það fyrirheit efndi hann.

Á minnisvarðanum stendur þessi áletrun:
Til minningar um Þór, fyrsta björgunar- og varðskip Íslendinga. Björgunarfélag Vestmanaeyja keypti skipið 1920 og hafði það til björgunar- og gæzlustarfa við Vestmannaeyjar. Árið 1926 eignaðist ríkissjóður skipið, sem var þar með fyrsta varðskip í eigu íslenzku landhelgisgæzlunnar.


ctr


Hinn 25. marz 1934 stofnuðu Eyjamenn Slysavarnardeildina Eykindil, sem er kvennadeild björgunarsamtakanna í Vestmannaeyjum. Í Bliki 1971, 28. árgangs ritsins, er drepið á stofnun þessarar merku kvennadeildar í Eyjum.
Hér á Blik því láni að fagna að birta mynd af núverandi stjórnarkonum Eykindils um leið og minnzt er afhjúpunar minnisvarðans í Friðarhöfn og starfs Björgunarfélags Vestmannaeyja.
Aftari röð frá vinstri: Rósa Magnúsdóttir, ritari Eykindils, Lára Þorgilsdóttir, gjaldkeri, Sigríður Björnsdóttir, formaður, Gyða Steingrímsdóttir, Martea Guðmundsdóttir.
Fremri röð frá vinstri: Jórunn Helgadóttir, Eygló Einarsdóttir.


Við hátíðarhöld Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum 9. júní 1979 var minnisvarðinn afhjúpaður. Það gerði frú Sigríður Björnsdóttir frá Bólstaðarhlíð, formaður Slysavarnadeildarinnar Eykyndils í Eyjum.
Þá fluttu þessir menn þar ræður: Ólafur Á. Kristjánsson, Jón Í. Sigurðsson, hafnsögumaður, formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja, og Pétur Sigurðsson, forstjóri Landhelgisgæzlunnar.
Allir minntust ræðumennirnir hins mikla og gagnmerka brautryðjendastarfs Eyjamanna, sem framkvæmt var af mikilli víðsýni og frábærri fórnfýsi, þegar þeir keyptu til landsins fyrsta björgunar- og varðskip Íslendinga og ráku það af mikilli atorku en þröngum efnahag.
(Meginefni þessarar greinar minnar er viðtal, sem ég hefi átt við Ólaf Á. Kristjánsson, annan helzta frumkvöðul minnisvarðans í Friðarhöfn. Ræða sú, sem hann flutti við vígslu minnisvarðans, birtist í Morgunblaðinu 22. júní á fyrra ári (1979)).

Þ.Þ.V.