Þrídrangar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. júlí 2005 kl. 17:47 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. júlí 2005 kl. 17:47 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þrídrangar eru í raun fjórir drangar, sem standa um 10km vestur af Heimaey. Stóridrangur eða Háldrangur sem er stærstur, um 40 m hár og gróðurlaus. Örskammt frá Stóradrang er Þúfudrangur og Klofadrangur og sá fjórði er líklega nafnlaus.

Eyjamenn fóru ekki oft út í Þrídranga sökum þess hversu langt er að fara, en Austur-Landeyingar fóru gjarnan þangað til þess að nýta söl og stunda selveiði.

Vitinn

Árið 1939 var reistur viti á Stóradrangi, og þyrlupallur var reistur þar nokkrum árum síðar. Árið 1938 var vegur lagður upp í Stóradrang fyrir komandi framkvæmdir. Nánast ómögulegt er að klífa Stóradrang og lögðu menn sig því í mikla hættu við að mynda leið upp á dranginn. Í leiðinni könnuðu menn dranginn. Boruðu þeir fyrir járnkeðjuveg.

Mikið þrekvirki var unnið við að steypa og byggja vitann í dranganum. Ótrúlega mikil vinna var fólgin í þessu verki og meira en að segja það að byggja vita lengst út í reginhafi. Vinna við vitann hófst 12. júní 1939 og var ekki lokið fyrr en tæpum mánuði seinna, 3. júlí. Var þá lokið við að byggja sjálft vitahúsið og var þá ljósabúnaðurinn eftir. Hann kom ekki fyrr en í maímánuði 1942. Þá tók aftur við mikil vinna sem stóð í góðan mánuð frá byrjun júní fram í júlí. Þann 5. júlí 1942 var svo lokið við uppsetningu ljósvita í Stóradrangi. Hafði verkið gengið vel og það sem mikilvægara er; slysalaust.

Vitabyggingin á Þrídröngum er sennilegast ein sú erfiðasta sem framkvæmd hefur verið við strendur Íslands. Allt gekk þó vel og eru sæfarendur fyrr og síðar þakklátir fyrir þetta unna þrekvirki.



Heimildir

Eyjólfur Gíslason. Þrídrangavitinn og bygging hans. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 1966. bls. 7-14.