Hannes Sigurðsson (Brimhólum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. september 2020 kl. 17:11 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. september 2020 kl. 17:11 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Hannes Sigurðsson.

Hannes Sigurðsson frá Brimhólum fæddist 16. ágúst 1881 og lést 14. febrúar 1981, tæplega aldargamall.
Meðal sveitunga sinna í Eyjum var hann ætíð kallaður Hannes á Brimhólum.

Virkilega áhugaverðar hljóðupptökur eru til af frásögnum Hannesar frá langri ævi hans. Hljóðupptökurnar má finna á vefnum Ísmús á þessum tengli.

Frekari umfjöllun

Hannes Sigurðsson á Brimhólum, frumkvöðull, ráðsmaður, skipstjóri, bóndi, verslunarstjóri, fæddist 16. ágúst 1881 á Seljalandi u. V.-Eyjafjöllum og lést 14. febrúar 1981.
Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson bóndi, f. 17. september 1841, d. 28. febrúar 1924, og kona hans Margrét Sveinsdóttir húsfreyja, f. 9. mars 1849, d. 9. september 1890.

Hannes var með foreldrum síum á Seljalandi fyrstu ár sín, en móðir hans lést, er hann var níu ára.
Hann var með ekklinum föður sínum á Seljalandi 1890 og 1901.
Með Hálfdáni bróður sínum átti hann frumkvæði að byggingu samkomuhúss að Seljalandi 1905. Þeir fengu byggingarefni til láns hjá Gísla Johnsen. Grófara viðarefni var fleytt og dregið á árabát og panell og járn flutt innanborðs á sama bát. Húsið var 10x10 álnir, byggt af Sveini smið í Eyjum. Húsið var notað m.a. til dansleikja og var líklega hvati að stofnun ungmennafélags í sveitinni í janúar 1906.
Markárfljót gekk yfir í vexti og braut ræktarlönd. Hannes var hvetjandi og skipuleggjandi að byggingu varnargarðs við Seljaland og tókst framkvæmdin með vinnuframlagi sveitunganna.
Hannes sótti sjó á juli frá Eyjafjallasandi um skeið. Hjá honum var ung kona háseti, Katrín Unadóttir frá Moldnúpi.
Hann var á Seljalandi u. V.-Eyjafjöllum 1910, ráðsmaður og bústjóri fyrir smjörbúinu Hofsá.
Hannes flutti til Eyja 1911, var verkamaður, en síðar bóndi og einn af forystumönnum bænda, gjaldkeri Búnaðarfélagsins og varð forstöðumaður verslunar félagsins um árabil, þar sem selt var m.a. áburður, kjarnfóður og útsæðiskartöflur.
Þau Guðrún giftu sig 1911, eignuðust sjö börn, en misstu yngsta þeirra nýfætt.
Þau bjuggu á Lögbergi við giftingu og þar fæddist Jón Hjaltalín 1912, voru á Hjalla 1912-1919, á Steinsstöðum 1919-1923, en komin á Brimhól í lok árs 1923 og þar bjuggu þau lengi, en fluttust síðan til Jóns sonar síns að Helgafellsbraut 7. Þar voru þau til Goss og fluttu með honum úr Eyjum.
Þau voru síðast hjá Jóni syni sínum í Fögrubrekku 34 í Kópavogi.
Guðrún lést 1976 og Hannes 1981.

I. Kona Hannesar, (24. júní 1911), var Guðrún Jónsdóttir frá Bakka í A.-Landeyjum, húsfreyja, f. þar 24. maí 1884, d. 5. maí 1976.
Börn þeirra:
1. Jón Hjaltalín Hannesson rafvirki, vélstjóri, f. 20. júní 1912 á Lögbergi, d. 26. nóvember 2017.
2. Guðný Marta Hannesdóttir saumakona, f. 28. júní 1913 á Hjalla, d. 15. júlí 2011.
3. Hálfdán Hannesson bifvélavirki, f. 4. október 1914 á Hjalla, d. 12. febrúar 2011.
4. Ragnheiður Hannesdóttir húsfreyja, f. 12. október 1915 á Hjalla, d. 5. mars 2015.
5. Elínborg Hannesdóttir hattagerðarkona, saumakona, f. 23. ágúst 1917 á Hjalla, d. 19. maí 2010.
6. Þóra Hannesdóttir húsfreyja, saumakona, f. 2. júní 1919 á Steinsstöðum, d. 6. febrúar 2000.
7. Sigurður Hannesson, f. 21. apríl 1922 á Steinsstöðum, d. 28. apríl 1922.

Myndasafn af Hannesi og fjölskyldu


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.