Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Stórhöfðaviti 100 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. september 2019 kl. 14:40 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. september 2019 kl. 14:40 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
GUÐJÓN ÁRMANN EYJÓLFSSON


Stórhöfðaviti 100 ára


Guðjón Ármann Eyjólfsson

Inngangur
Árið 1906 var merkisár í sögu Vestmannaeyja. Upphaf vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum er markað við það ár en það var einnig árið þegar vitaljósið á Stórhöfða lýsti í fyrsta skipti sjófarendum, en kveikt var á vitanum haustið 1906, (líklega 1. september).

Þetta var merkisatburður í augum allra Vestmannaeyinga. Faðir minn sem var fæddur 1897 og þá 9 ára gamall, sagði mér að heimilisfólk á Búastöðum og af fleiri bæjum hefði gert sér sérstaka ferð suður á Foldir eins og austurhlíðar Helgafells voru nefndar til þess að sjá vitaljósið.

Stórhöfðaviti nýbyggður 1906 - 1910, norður hlið

Viti á Stórhöfða kom alveg á réttum tíma í Vestmannaeyjum með vélbáta- og tækniöld, þó að Eyjamenn sjálfir og meira að segja þingmaður og sýslumaður Vestmannaeyinga, hinn merki stjórnmálamaður og síðar forsætisráðherra, Jón Magnússon, sýndu aðdraganda vitabyggingar í Vestmannaeyjum takmarkaðan áhuga á Alþingi.
Það var Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra landsins, sem lagði til í fjárlagafrumvarpi árið 1905 að kr. 15.000, yrði varið til byggingar vita á Stórhöfða. Í umræðum á alþingi sagði Jón Magnússon m.a.: „Vestmannaeyingar leggja lítið kapp á að fá vita þennan, því þeir þarfnast hans ekki svo mjög.... Ég get því eigi skoðað þennan vita mér viðkomandi sérstaklega sem þingmanni Vestmannaeyinga.“ Og Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri sagði í blaðagrein í Lögréttu: „Verður öllu hœgara fyrir Franzmenn og botnvörpuna að halda sig hér við Eyjarnar, innan sem utan landhelgi, en Eyjabúum verður hann að litlu liði.“
Annað átti þó eftir að koma í ljós og í eitt hundrað ár hefur vitinn á Stórhöfða verið mikilvægur hlekkur í öryggi sjófarenda hér við land auk þess sem þar hafa verið gerðar mikilvægar veðurathuganir og unnið stórmerkilegt vísindastarf með merkingu fugla.

Myrkvað land
Ef við reynum að gera okkur í hugarlund aðstæður við siglingar hér við landið um og eftir aldamótin 1900 er þar reginmunur á miðað við nútímann, eitt hundrað árum síðar.

Þá voru engin þeirra tækja til sem í dag þykja sjálfsögð um borð í hverju skipi; engin ratsjá, GPS-tæki, dýptarmælir eða talstöð voru til, enda þessi tæki ekki uppfundin. Við þetta bættist að öll sjókort voru ónákvæm og víðast hvar vantaði allar upplýsingar um grunn og boða, þar eð skipulegar sjómælingar höfðu ekki verið hér að neinu ráði. Eftirlitsskip danska flotans höfðu reyndar verið við sjómælingar á einstaka siglingaleiðum og leiðsögubók um siglingar til Íslands var til frá tímum Lövenörns sem var sérstaklega áhugasamur um sjókortagerð við Ísland. Mörg sjókort voru frá hans tíma, en Paul Lövenörn, fyrsti forstjóri dönsku sjómælinganna (Sjókortasafnsins), átti frumkvæði að strandmælingum hér við land frá 1801 til 1818 og gerð sjókorta við Ísland sem voru gefin út um og eftir 1820. Tilfinnanlega vantaði nákvæmari mælingar af sjálfu landinu til þess að sjómælingamenn hefðu einhverja örugga landfræðilega staði til þess að mæla til.

Teikning dönsku Vitamálastjórnarinnar af Stórhöfða árið 1906

Að vetrinum var hér allt í kolsvarta myrkri í skammdeginu, bæir til sveita voru lýstir með grútar- eða lýsislömpum og þéttbýli var ekkert.
Thorvald Krabbe vitamálastjóri segir svo í ritinu Vitar Íslands í 50 ár, sem var gefið út árið 1928 til að minnast 50 ára sögu vita á Íslandi:
„Hjer lá allt í myrkri fram eftir öllu. - Á vorin þegar fór að birta. fóru skipin aó koma með vörur frá útlöndum, en síðustu skipin fóru þegar leið á haustið og afurðir landsins voru afgreiddar til útlanda. Yfir veturinn þóttist enginn eiga erindi hingað, enda var ekki leggjandi út á Atlantshafið á seglskútum í skammdeginu.“

Einu siglingatækin sem skip höfðu á nokkurra daga siglingu yfir hafið frá meginlandi Evrópu voru kompás, klukka og vegmælir og sextant þegar sá til sólar eða stjarna. Þegar skipin nálguðust landið var mikilvægt að nota lóðið. Á stærri skipum var framan til um stjórnborða, rétt aftan við bóginn, sérstakur pallur þar sem sá stóð sem lóðaði dýpið og sveiflaði lóðinu fram með skipinu, dró inn lóðlínuna og þegar lóðið var á niðurstöðu kallaði hann upp dýpið eða ef ekkert dýpi fannst, t.d.: „tíu faðmar - enginn botn!.“

Landtökuviti

Það var því mikilvægt að hafa einhvern ákveðinn stað eins og góðan vita, svonefndan landtökuvita, til þess að átta sig þegar skip voru að „taka landið“ eins og það er og var nefnt þegar skip komu upp að landinu eftir nokkurra daga siglingu á úthafinu án þess að hafa séð til lands. Um leið og landið sást var mikilvægt að fá öruggan stað skipsins sem byggði á nákvæmum staðarákvörðunum.

Stórhöfðaviti í Október árið 2000

Þegar rætt var um uppbyggingu vitakerfis á Íslandi á þessum árum, um og eftir aldamótin 1900, má segja að strandir landsins séu allar óupplýstar og fyrst og fremst er áformað að reisa landtökuvita í öllum Landsfjórðungum, á suður-, vestur- norður- og austurlandi.

Óskar J. Sigurðsson við fyrsta heimilisbílinn 1957

Nú á tímum hefur tækninni fleygt svo fram að með aðstoð gervitungla og rafrænna sjókorta er unnt að fylgjast með stað skipsins hvenær sem þess er óskað og margir yngri sjómenn þurfa að fá sérstaklega útskýrt hvað hugtakið „að taka land“ merkir.
Á ensku er það nefnt „to make a landfall“ eða „to make the land“ en á dönsku „at anduve“ og landtökuviti nefndur „anduvningsfyr“ (e. „landfall light“).

Vitinn á Pharos
Þó að hér við land væri allt í myrkri fram eftir öllu voru vitar þekktir allt frá fornöld. Eitt af sjö furðuverkum veraldar var vitinn á eyjunni Pharos (Faros) sem var leiðarviti inn til Alexandríu í Egyptalandi. Vitinn á Pharos var 56 metrar á hæð, byggður árið 331 fyrir Krists burð. Byggingin var úr hvítum steinum sem voru bræddir saman með blýi og var ljós vitans logandi bál sem var efst á turninum.
Fyrsti viti á Norðurlöndum var reistur árið 1202 á Falsterbo á Skáni. Brennivitar voru reistir á Jótlandsskaga, eyjunni Anholt í Kattegat og Kullenhöfða, norðan Eyrarsunds 1560 - 1561.

„Allraþegnsamlegast ávarp“
Það sýnir vel þá þörf sem landsmenn höfðu fyrir vita og öruggari siglingar að landinu og umhverfis Ísland, að frumvarp um byggingu vita á Íslandi var lagt fyrir Alþingi árið 1874, fyrsta löggjafarþing eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá og Alþingi fékk löggjafar- og fjárveitingavald. Frumvarpið fjallaði um hvernig mætti fjármagna byggingu vita með sérstöku vitagjaldi sem yrði 15 aurar á hvert stærðartonn skipa sem kæmu að landi á milli Reykjanes og Hornbjargs.

Frumvarpið um vitagjaldslögin ásamt heimild og áskorun til dönsku stjórnarinnar að leita samninga við ríkisstjórnir Frakka og Englendinga um að fiskiskip þessara þjóða hér við land greiddu vitagjald voru samþykkt í neðri deild Alþingis sem var þá skipt í tvær þingdeildir en fellt í efri deild.
Áskorun til konungs um byggingu vita á Reykjanesi var þó samþykkt í báðum deildum. Áskorunin hófst með þessum orðum:
„A 11 r a þ e g n s a m l e g a s t á v a r p um að hans hátign allramildilegast vildi sjá svo fyrir, að fje verði veitt úr ríkissjóði til vitagjörðar á Reykjanesi m.m.“

Í áskoruninni er lýst samgönguleysi Íslendinga:

„Ein af ástœðunum til þessa samgönguleysis er sú, að hjer er alls enginn viti til leiðbeiningar sjóferðamönnum og því eru þeir mjög tregir til allra vetrarferða hingað til landsins, enda ábyrgðarfjélögin ófáanleg til að taka skip í ábyrgð á slíkum vetrarferðum, nema að minsta kosti gegn afarháu gjaldi.“

Horft til Stórhöfða ofan við Lyngfellisdal sem er næst, til hægri er Súlnasker og Suðurey

Í nokkurn tíma stóð í þrefi við dönsk stjórnvöld, en Flotamálastjórnin (Marineministeriet) var í fyrstu andsnúin málinu og taldi vita á Íslandi óþarfa frá 15. mars til 1. september vegna þess hvað nætur væru bjartar hér á landi, en frá 1. september til 15. mars liggi venjulega allar siglingar til Íslands niðri vegna illviðra. Aðeins fáein skip, í mesta lagi 70, geti haft nokkurt gagn af vita á Reykjanesi. Við þetta má til skýringar bæta að á þessum árum var við völd í Danmörku ein mesta íhaldsstjórn sem um getur þar í landi eftir að þingræði komst á í Danmörku árið 1849. Þetta var Estrup-stjórnin svonefnda sem lét af völdum árið 1901 og hafði þá ríkt þar í landi í 19 ár.

Fyrsti ljósvitinn á Íslandi
Á fjárlögum 1878-1879 var þó samþykkt fjárveiting bæði úr landssjóði Íslands (kr. 14.000) og úr ríkissjóði Danmerkur (kr. 12.000) til byggingar vita á Reykjanesi. Auk þess var samþykkt að danska ríkið greiddi laun og ferðakostnað Alexanders Rothes verkfræðings sem skyldi sjá um verkið. Fyrsti ljósviti landsins var reistur á Valahnúk á Reykjanesi, alveg fram við sjó, skammt frá brún, árið 1878 og var kveikt á vitanum 1. desember l878. Vegna landhruns og ágangs sjávar varð síðar að flytja vitann ofar í landið á svonefndan Bæjarhól.

Stuttu eftir að Reykjanesvitinn var tekinn í notkun voru skip sem fóru framhjá Reykjanesi á þeim tíma sem logaði á vitanum, þ. e. frá 1. ágúst til 15. maí 1881, talin og reyndust það vera 813 skip en árið 1911 voru þau 1517.

Stórhöfðaviti og íbúðarhús 1910 - 1931

Reykjanesviti var næstu 20 árin eini viti landsins. Það var ekki fyrr en sumarið 1897 að vitar voru byggðir á Garðskaga og Gróttu. í Skuggahverfi (sbr. Vitastíg) var á vegum hafnarnefndar Reykjavíkur reistur innsiglingarviti inn til Reykjavíkur (Skuggahverfisvitinn). Sumarið 1902 voru reistir litlir leiðarvitar sem sýndu stöðugt hvítt ljós, á Arnarnesi við Ísafjarðardjúp og í Elliðaey á Breiðafirði.

Stórhöfðaviti og íbúðarhús 1912, norð-austur hlíð

Í kjölfar þessa, um aldamótin 1900 kemst mikil hreyfing á vitamál við Íslands strendur. Þegar sjómenn sáu og fundu það hagræði og öryggi sem ljósvitar á ströndum landsins veittu óskuðu þeir eftir fleiri vitum og skriður komst á málið.
Fiskveiðiþjóðir Vestur-Evrópu höfðu frá því um l890, þegar fyrstu ensku togararnir hefja veiðar hér við suðaustur- og suðurland, stóraukið sókn sína á Íslandsmið og um aldamótin hefja þýskir togarar hér veiðar og síðar (1904/05) franskir togarar.
Skútuöld, þegar Íslendingar fara að sækja á fjarlægari mið á þilskipum, hefst hér á landi um 1870 og um aldamótin 1900 er gerður út fjöldinn allur af skútum frá Reykjavík, Vesturlandi og Vestfjörðum. Árið 1901 eru t.d. 46 skútur (kútterar) gerðar út frá Reykjavík.

Skútuskipstjórar í Reykjavík óska eftir vita í Vestmannaeyjum
Hinn 23. janúar 1901 skrifar Skipstjórafélagið Aldan í Reykjavík bréf til landshöfðingja þar sem þeir óska sérstaklega eftir vita „á Vestmannaeyjum.:“
„Skipstjórafélagið Aldan“ leyfir sjer hjermeð að óska þess, að yður hávelborni herra landshöfðingi mœtti þóknast, að hlutast til um það, að stjórnin leggi fyrir næstkomandi alþingi frumvarp til laga um vitabygging á svœðinu frá Selvogstanga nálægt Þorlákshöfn til Dyrhólaeyjar. Mest gagn álítum vjer aó vitinn gjörði, ef hann stæði á Vestmanneyjum og þarnæst á Dyrhólaey.
Um nauðsyn þessa vita þurfum vjer eigi að rita, því vjer vitum að hr. Landshöfðinginn sjér glöggar en vjer, hve ómissandi viti á Vestmannaeyjum er, eða á öðrum stað á nefndu svæði, bæði fyrir skip sem fara frá útlöndum hingað og fyrir fiskiskip frá Faxaflóa, sem nú sœkja mestallan afla sinn á vetrarvertíðinni í Eyrarbakkabugtina og kringum Vestmannaeyjar. Meðan vitalaust er á nefndu svœði er mjög hœttulegt, þegar mörg skip eru þar í náttmyrkri og álandsstormur skellur á.

Virðingarfyllst.


Reykjavík 23. janúar 1901


Í umboði skipstjórafjelagsins „Aldan“


Þorsteinn Þorsteinsson, p. t. formaður


Jafet Ólafsson. p.t. ritari


Finnur Finnsson, gjaldkeri



Þannig samþykkt á fundi, sem haldinn var fjelaginu „Aldan“ 23.janúar 1901.“

Landshöfðingi var þessu samþykkur og lagði til við dönsku vitamálstjórnina að viti yrði byggður í Vestmannaeyjum en stjórnin var því mótfallin.
Í ársbyrjun 1901 eru því miklar vangaveltur um byggingu vita á Íslandi til þess að lýsa upp ströndina eins og það er nefnt.
Á milli flotamálaráðuneytisins og ráðuneytis Íslandsmála fara mög bréf og einnig berast ráðuneytinu áskoranir, t.d. berst áskorun frá 16 skipafélögum og Íslandskaupmönnum um að reisa átta landtökuvita allt umhverfis allt landið. Á suðurströndinni er lagt til að byggðir verði vitar á Dyrhólaey (Portlandi) og í Vestmannaeyjum. Í þessum hópi er danski Vestmannaeyjakaupmaðurinn J.P.T. Bryde.

Mikil sókn Evrópuþjóða á Íslandsmið
Félag þýskra siglingafræðinga (Deutscher Nautischer Verein) tók. 15. og 16. febrúar 1906 til umræðu á fundi félagsins efni sem nefnist, Bygging ljósvita á suðurströnd Íslands (Errichtung eines Leuchtfeuers an der Sudkuste von Island).

Þar kemur fram í ræðu skipstjóra frá Geestemunde að samkvæmt upplýsingum þýska ræðismannsins (væntanlega í Reykjavík) hafi samtals 268 togarar frá Bretlandseyjum sótt á Íslandsmið árið 1905, þ.e. 155 togarar frá Grimsby, 90 frá Hull og 23 frá Aberdeen.

Vitahúsið á Stórhöfða 1963. Í baksýn gosmökkurinn frá Surtsey, en gos hófst þar 14. nóvember 1963. til vinstri Súlnasker, Geldungur og Hellisey
Eldgosið á Heimaey sem hófst 23. janúar 1973. Til vinstri Heimaklettur, Sæfell og Helgafell

Frá Dunkerque í Norður-Frakklandi (Flandri) hafi 65 seglskip og frá Gravelines (skammt frá Dunkerque) 25 seglskip farið til veiða á Íslandsmið og einn togari. Við þetta má bæta 63 skútum frá Paimpol í Bretaníu og 5 togurum frá Boulogne og Fécamp. Samtals sóttu því 153 skútur og 6 togarar Íslandsmið frá Frakklandi.
Frá Þýskalandi, eingöngu frá Wesersvæðinu (Bremerhaven, Cuxhaven), voru 48 þýskir togarar á Íslandsmiðum þetta árið, en með smíði nýrra togara árið 1905 er upplýst á fundinum að 66 þýskir togarar muni verða á Íslandsmiðum næsta árið.
Samtals hafa því að minnsta kosti verið 475 erlend fiskiskip á Íslandsmiðum árið 1905. Þessi fjöldi fiskiskipa á Íslandsmiðum er tekinn sem dæmi um þörfina fyrir að byggja vita á suðurströnd Íslands. Félagið óskar eftir að þýska stjórnin ásamt Frökkum og Englendingum hafi áhrif á dönsku stjórnina sem láti byggja ljósvita á Íslandi.
Á fundinum kemur fram að á síðustu 25 árum (1880-1905) hafi 237 skip strandað á suðurströnd Íslands og aðeins einu þeirra hafi verið bjargað, hin 236 hafi algjörlega tapast. Á þessum skipum hafi verið 2110 manns og hafi 87 þeirra drukknað, en 8 hafi látist af vosbúð eftir strandið eða á leið til bæja.

Landtökuviti á Dyrhólaey
Miklar umræður og skiptar skoðanir voru um hvar landtökuviti fyrir suðurströnd Íslands ætti að standa.

Nefnd skipuð fjórum sjóliðsforingjum, fyrrverandi skipherrum með langa og mikla reynslu á dönskum varðskipum hér við land, skilaði hinn. 8. mars 1905 merkilegri skýrslu og tillögum um byggingu vita og vitamál á Íslandi.

Vitakort 1. desember 1898
Vitakort 1. desember 1908

Þeir töldu að viti á Dyrhólaey væri í raun og veru heppilegasti landtökuvitinn vegna þess að þetta væri syðsti oddi landsins og sæist langt að og væri Dyrhólaey einnig kennileiti til landtöku að deginum og þegar skip nálguðust Vestmannaeyjar.

Með tilliti til hættulegra strauma sem leggi í norðlæga átt og m.t.t. skipa sem koma frá Færeyjum leggja þeir þó til að landtökuviti fyrir suðurströndina verði fyrst byggður við Dýralæk, sunnan við Þykkvabæjarklaustur. Brinch vitaverkfræðingur lagðist gegn vita á þessum stað. Frammi við sjóinn væri hverjum manni ólíft vegna sandroks og myndu rúður í vitanum því fljótlega eyðileggjast en af sjó myndi vitinn ekki sjást vegna brims. Hann lagði til að landtökuviti fyrir suðurland yrði á Dyrhólaey og hefur það reynst rétt og skynsamleg tillaga.
Skipherrarnir álíta lítinn vita á Vestmannaeyjum geta komið að góðu gagni við vetrarsiglingar til landsins en álíta að viti á Elliðaey myndi koma að betri notum fyrir íslenska fiskimenn og skip sem væru að koma erlendis frá en viti á Stórhöfða vegna skerja og óhreinnar siglingaleiðar sunnan við Heimaey. Nefndin lagði mikla áherslu á að vel yrði séð fyrir gæslu vitanna og eftirliti og ljúka skýrslunni með þeim orðum að viti sem væri illa gætt væri verri en enginn viti.

Viti á Stórhöfða
Með fjárveitingu, kr. 15.000, til byggingar Stórhöfðavita á fjárlögum árið 1905 er ákveðið að byggja vita á Stórhöfða. Hinn nýskipaði ráðherra Íslands, Hannes Hafstein, tekur þar fyrst og fremst mið af tillögum íslenskra skipstjóra og Aasberg skipstjóra á póstskipinu Lauru en hann var sá eini í hópi skipstjóra dönsku póstskipanna sem héldu þá uppi siglingum á milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur sem lagði til að viti yrði byggður á Stórhöfða.

Fyrsta steinsteypta húsið í Vestmannaeyjum
Með bréfi Stjórnarráðs Íslands 8. febrúar 1906 er Gísla J. Johnsen boðið að taka að sér byggingu vita á Stórhöfða fyrir áætlað verð kr. 2.700. Gísli tilkynnir stjórnarráðinu í bréfi rituðu 18.mars 1906 um borð í farþegaskipinu Ceres, „að fyrir hinar áætluðu kr. 2700 sé ég mér als ekki fært, að byggja greindan vita fyrir.“

Hann gerir síðan glögga grein fyrir því að allar aðstæður við byggingu vita á Stórhöfða séu óvenjulegar og erfiðar: „Áœtlunin virðist ganga út frá að vitinn sé reistur á þeim stað, þar sem alt efni er við hendina en hér fer því fjarri; fyrst og fremst liggur vitinn alllangt frá mannabyggðum og verður því að flytja alt til hans ímist á bátum eða hestum, og hefur slíkt auðvitað mjög mikinn kostnað í för með sér. Lending nálægt vitastœðinu er als ekki góð, og vitinn, eða staðurinn sem hann á að byggjast á liggur mörg hundruð fet yfir sjávarmál. Allan sand verður að flytja á hestum upp að vitastœðinu. Vatn hygg ég að verði að flytjast langt að, og af því þarf mikið í alla steypu. Sem sagt, alt verður að flytjast að, neðan frá kaupstað ímist á bátum eða hestum. Reisa verður eitthvert skýli nálœgt vitastæðinu meðan á byggingunni stendur, því ekkert slíkt er þar í nánd. Slíkt er auðvitað óumflýjanlegt til geimslu á sementi, verkfærum o.fl.“

Stórhöfðaviti, t.h. Suðurey, Hellisey, Geldungur og Súlnasker

Gísli segir einnig í bréfi sínu: „og sömuleiðis ber að gœta þess, að opt geta því nœr heilir dagar farið til einskis, því vel getur verið að óveður sé skollið á þegar komið er á vitastœðið, og það er að minnsta kosti 2 - 2 1/2 kl.tíma gangur, fram og tilbaka neðan frá kaupstað.“
Gísli J. Johnsen býðst síðan til að taka að sér byggingu vitans „samkv. teikningunni fyrir kr. 3.500,oo og að henni sé lokið fyrir hinn áskilda tíma, ef ekki koma fyrir ófyrirsjánlegar hindranir frá náttúrunnar hálfu.“ Þessu tilboði er tekið með bréfi dags. 26. mars 1906 og ritar Hannes Hafstein ráðherra sjálfur undir bréfið með H. og skal byggingunni lokið 10. júní 1906.
Hinn 22. júní 1906 tilkynnir Gísli J. Johnsen stjórnarráðinu að vitabyggingin á Stórhöfða sé „nú því nœr fullgerð bœði utan og innan og því ekkert því til fyrirstöðu að ljósfœrin verði sett upp strax.“ Í stað þess að hlaða vitann úr blágrýtissteinum eins og sýnt var á teikningu dönsku vitamálastjórnarinnar var húsið steinsteypt og mun Stórhöfðaviti vera fyrsta húsið í Vestmannaeyjum sem var steinsteypt. Páll Bjarnason múrarameistari frá Reykjavík sá um múrverkið, en hann var einn af lærisveinum Balds sem byggði Alþingishúsið. Yfirsmiður var Elías Sæmundsson sem m.a. byggði Björgvin, Bergstaði og fleiri hús.

Ljóstækin komu til Vestmannaeyja með póstskipinu Ceres í lok júnímánaðar og ásamt þeim Brinck vitaverkfræðingur og tveir járnsmiðir.
Uppsett á Stórhöfða ásamt ferðakostnaði Brincks og aðstoðarmanna hans kostuðu ljósfærin kr. 15.363,25. Ljóstækin voru sams konar og í Garðskagavita, olíulampi með tveimur kveikjum og 5 fl. ljóskrónu sem sýndu 3 leiftur á 10 sekúndna fresti.

Eini ljósvitinn á suðurströnd Íslands

Stórhöfðaviti var eini ljósvitinn á suðurströnd landsins fram til 1910 þegar gasblossaviti á 7 metra hárri járngrind var reistur á Dyrhólaey.

Friðrik Guðmundsson f. 1888 - d. 1980
Guðmundur Ögmundsson f. 1842 - d. 1914
Heimasætan í Stórhöfða, Sigríður Jónathansdóttir upp úr 1920. Síminn er nýlega kominn í Stórhöfða

Heildarkostnaður við byggingu Stórhöfðavita, þ.e. bygging vitans ásamt ljóstækjum og uppsetningu ofan á lágreist hús, geymslu og varðklefa fyrir vitavörðinn (sbr. teikningu), var því um 19.000 krónur og var allur kostnaður greiddur af Landssjóði. Húsnæði sem ætlað var vitaverðinum reyndist strax of lítið og hinn 10. september 1906 biður Guðmundur vitavörður um að dyraskúr eða anddyri verði byggt norðan við húsið og telja Magnús Jónsson sýslumaður og Brinch vitaverkfræðingur það einnig „bráðnauðsynlegt“ því að „einhverju sinni, er hann [Brinch] gekk inn í vitann, fauk önnur hurðin af hjörunum og allanga leið frá vitanum; en sökum þrengsla inni fyrir í vitanum er ekki hœgt að láta hurðina falla inn.“ (bréf Magnúsar Jónssonar sýslumanns til Stjórnarráðs Íslands 19. september 1906).

„Fyrsti rjettnefndi landtökuvitinn“
Dyrhólaeyjarviti og íbúðarhús vitavarðar sem nú er á Dyrhólaey voru byggð árið 1927 og var þar sett upp öflugt vitaljós ásamt radíóvita. Kveikt var á vitaljósinu 14. október 1927, en radíóvitinn var gangsettur ári síðar, 28. október 1928.
„Þetta er fyrsti rjettnefndi landtökuvitinn sem hér hefur verið reistur“ skrifaði Thorvald Krabbe vitamálastjóri í ritinu„Vitar Íslands í 50 ár“um Dyrhólavita

Íbúðarhús vitavarðar á Stórhöfða
Árið 1910 var byggt bárujárnsklætt timburhús fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans, vestan við vitann ásamt dyraskúr norðan við steinhúsið; umhverfis vitann var afgirt svæði fyrir tún. Árið 1931 var byggt steinsteypt íbúðarhús eftir teikningum Sigurðar Thoroddsen verkfræðings og var hluti þess á tveimur hæðum. Húsið var stækkað og allt hækkað í tvær hæðir á árunum 1964-1965.

Rafvæðing
Haustið 1942 var reist vindmylla á Stórhöfða og var íbúð vitavarðarins þá fyrst raflýst. Myllan brotnaði niður nokkru síðar í óveðri og hinn 7. mars 1943 var sett upp ljósavél og var það til mikilla bóta, en vélin þurfti mikla umhirðu.
Óskar J. Sigurðsson segir í merkilegri grein í jólablaði Dagskrár í Vestmannaeyjum 1985: „7. mars 1943 kom svo bensín-ljósavél og skánaði ástandið þá til muna en þessi vél þurfti einnig ærna umhirðu.
1. desember 1943 var vitinn loks raflýstur í fyrsta sinn og þá með 60 W peru. Við það sat til 16. mars 1957 en þá var sett í vitann 1000 W pera enda þá komin dísel-ljósavél. Þessi aukning var byltingu líkust og ljósið þá orðið almennilegt að telja má. Það er stórkostlegur munur á ljósi frá olíulampanum sem notast var við allt til ársins 1943.“ „Það var svo hinn 21. maí 1979 klukkan 1215 að rafkerfi Stórhöfðavita var tengt samveitukerfinu (Rafveitu Vm.).“
Vélahús úr steinsteypu var byggt austan við íbúðarhúsið árið 1956.

Eldingu laust niður í vitann
Klukkan hálf tólf að kveldi hinn 12. mars 1921 laust eldingu niður í vitann á Stórhöfða „Lá við miklu slysi af þessu, þar sem fólkið í húsinu virtist hafa misst meðvitund um tíma, en þegar það rankaði við aftur, var allt í björtu báli í vitanum. Sem betur fór varð eldsins vart áður en hann náði til olíunnar, en stiginn og þilið í varðklefanum og anddyrinu brunnu.“ (Vitar á Íslandi í 50 ár). Tókst heimilisfólkinu að slökkva eldinn og var eldingavari settur á vitann.

Veðurathuganir

Veðurathuganir hófust á Stórhöfða í september 1921 og síðan er Stórhöfði ein þekktasta veðurathugunarstöð á Norður-Atlantshafi. Veður er athugað og skeyti send til Veðurstofu Íslands átta sinnum á sólarhring, á þriggja klukkustunda fresti, allt árið um kring, helga daga sem virka.

Breskir hermenn í Stórhöfða 1940 eða 1941 ásamt syni vitavarðarins, Óskari J. Sigurðssyni

Árið 1968 var settur upp vindmælir af fullkomnustu gerð í Stórhöfðavita, en fyrri vindmælar sem voru settir upp 1949 og 1950 brotnuðu niður.
Veðurhæð er miðuð við meðalvindhraða í 10 mínútur. Mestur vindhraði sem hefur mælst á Stórhöfða eru 110 hnútar á klst. (57m/s) sem mældust 3. febrúar 1991. Þetta var í suðsuðvestan ofsaveðri. Um morguninn hafði verið suðaustan stormur sem snerist til suðvestlægrar áttar. Áætlað var að mesta vindhviða hafi verið 125-130 hnútar, en vindmælirinn mældi ekki meira en 120 hnúta. Þetta eru 18-19 vindstig eftir Beaufort- kvarðanum sem mælir mestan vindstyrk að 12 sem er fárviðri, 68 hnútar (35 m/s) á klstd. eða meira. Minnstur loftþrýstingur sem hefur mælst á Íslandi mældist í Vestmannaeyjum 2. desember 1929 eða 920 hektopascöl (hPa).

Vitaverðir
Um stöðu vitavarðar Stórhöfðavita árið 1906 sóttu aðeins tveir menn. Þeir voru Guðmundur Ögmundsson þurrabúðarmaður í Batavíu í Vestmannaeyjum, sem stóð við Heimagötu, og Stefán Gíslason bakari í Ási, en „með því kröfur Stefáns bakara eru langt fram yfir það. er getur um i auglýsingunni“ var umsókn hans hafnað.
Stefán fór fram á að frá 1000 krónur í árslaun fyrsta árið, en síðan 700 kr. „með þvi móti,að byggt verði handa mjer og mínum íveruhús á kostnað landssjóðs“... og „2. að jeg fái allan Stórhöfða til umráða og afnota þar með talin allan fugl sem kann aó veiðast þar, svo sem fýl, svartfugl og lunda ásamt öllum eggjum er þar kunna að finnast, einnig hagbeit og Stórhöfði sje undan skilin núgildandi fuglaveiðisamþykkt Vestmanneyja.
Með ofanskrifuðum skilmálum vil jeg taka að mjer vitavarðarstöðuna, en eigi meó öðrum kjörum.“ (Bréf Stefáns Gíslasonar til Stjórnaráðs Íslands ló.júlí 1906).

Guðmundur Ögmundsson vitavörður 1906-1910
Að höfðu samráði við Brinch vitaverkfræðing var Guðmundur í Batavíu ráðinn fyrir 600 krónur árslaun, sem Brinch vitaverkfræðingur telur að „megi naumast vera minni.“ Guðmundur í Batavíu var ekkjumaður.

Það hefur áreiðanlega ekki verið neitt sældarlíf hjá Guðmundi að gæta vitans þetta fyrsta ár, haustið 1906 og veturinn 1907. Það sem var honum til happs var að Friðrik sonur hans, fæddur í Batavíu 1888 og þá 18 ára, síðar þekktur og vel látinn vélstjóri og sjómaður í Eyjum, var honum til aðstoðar og dvaldi í Stórhöfða þegar hann var ekki við sjóróðra. Yfir veturinn var Guðmundur því langtímum saman einn suður í Stórhöfða, en hafði þó fjórar kindur og nokkur hænsni í sama kofa sem styttu honum stundir í einverunni en hann var dýravinur og sat oft á tali við dýrin (Haraldur Guðnason, Saltfiskur og sönglist).

Guðfinna Þórðardóttir f. 1875 - d. 1959 og Jónathan Jónsson f. 1859 - d. 1939

Byrjunarörðugleikar
Sandfok

Vatnsleysi og sandfok gerðu allar aðstæður á Stórhöfða þessi fyrstu ár búsetu í Höfðanum mjög erfiðar, en austan og sunnan við vitahúsið var mikill uppblástur og með hverju árinu færðust rofin nær vitanum. Mjög mikill sandbylur var í austanveðrum og rúður í vitahúsinu svo sandblásnar að „þær gjöreyðilögðust á einu eða tveimur árum.“ skrifar Thorvald Krabbe.

Björg Sveinsdóttir f. 1911 - d. 1964 og Sigurður V. Jónathansson f. 1897 - d. 1966

Eftir leiðbeiningum Kofoed Hansen skógræktarstjóra og með aðstoð Búnaðarfélags Íslands voru gerðir varnargarðar og sáð melgrasfræi í verstu uppblásturssvæðin og dró þá nokkuð úr sandfokinu. Óskar J. Sigurðsson man síðast eftir alvarlegu sandfoki árið 1977, en nú hefur allt sandfok í Stórhöfða verið heft og stöðvað. Allur gróður tók verulega við sér eftir að flugvél hafði tvisvar til þrisvar sinnum borið áburð á austanverðan Höfðann þar sem jarðvegur er sendinn yfir hraunlögum hinnar fornu eldstöðvar sem Stórhöfði er.

Óskar J. Sigurðsson f. 1937 og Valgerður Benediktsdóttir f. 1943 - d. 1992
Pálmi Freyr Óskarsson f. 1974

Vatnsleysi
Það hefur löngum verið erfitt að stríða við vatnsleysið í Stórhöfða. Unnt var að safna vatni af helmingi vitahússins en það var svo salt að ekki var hægt að nota það til annars en að þvo sér úr. Sjódrif gengur yfir Höfðann í aftakaveðrum og þess vegna er vatnið svo salt. Vatni er enn safnað í brunn við íbúðarhúsið og verður að gæta þess vel að taka rennur undan þegar verstu austan veðrin ganga yfir og sjórinn þyrlast í strókum upp af Súlukrók sem er austan á Stórhöfða. Austan á Höfðanum, skammt frá bjargbrún, er lind og í henni er gott vatn sem kemur undan hæðinni fyrir ofan. Á sumrin hér fyrr á tíð var iðulega vatnsskortur í Vestmannaeyjum áður en vatn var leitt ofan af landi í vatnsleiðslum til Eyja (1968). Í góðu veðri sótti heimilisfólk í Höfðanum þá vatn í lindina í Stórhöfða í brúsum og stundum áður fyrr á klyfjahestum eða vatnið var með grind borið heim í fötum.

Stormasamt á Höfðanum
Guðmundur Ögmundsson lýsir þeim erfiðleikum sem hann komst í vegna stormanna á Höfðanum, „sem hér eru bæði tíðir og strangir.“
Hinn 10. september 1906 ritaði hann eftirfarandi bréf til Magnúsar Jónssonar sýslumanns í Vestmannaeyjum:

„Háttvirti herra sýslumaður!
Ég finn mig tilknúðan að tjá yður sem vitavörður að ég sunnudaginn 2. þ.mán. í austanroki varð með hjálp annars manns að festa band í boltan á annari útidyrahurðinni, til þess að geta komist út; hjálparmaður minn setti bandið um herðar sér á meðan ég smeygði mér út, og þegar ég var komin út, átti ég fullt i fangi að halda hurðinni opinni á meðan að hann komst út.
Vitahúsið hefir 2 dyr á norðurhlið og falla báðar hurðirnar út, sem er miður heppilegt vegna stormanna sem hér eru bœði tíðir og strangir.
Það sem að minu áliti er bráðnauðsynlegt til umbóta er:
1. að byggja anddyri(skúr) meðfram og áfast við norðurhlið vitahússins;það þarf að vera 10 feta langt, 7 feta breitt, með 2 dyrum, 1 glugga og hæfilegri hœð, svo, það nái upp fyrir hurðirnar á vitahúsinu.
2. Í íveruherberginu þarf að vera 1 rúmstœði, 1 borð, 1 stóll og 1 þvottaborð (Servant).
3. Salerni er nauðsynlegt að sé við vitann. Ég, treysti því að þér, háttvirti herra, gjörið ráðstöfun til að umbœtur þessar verði gjörðar sem allra fyrst, því þær eru nauðsynlegar og fyrsta atriði getur verið lífsspursmál fyrir mig sem gœzlumann vitans.
Virðingarfyllst

Guðmundur Ögmundsson vitavörður.“

Kostnaður við að byggja umbeðinn skúr var áætlaður kr. 307,34.

Thorvald Krabbe verkfræðingur var skipaður umsjónarmaður allra landsvita frá 1. janúar 1910. Hann kom í Stórhöfðavita vorið 1910 og voru rúðurnar þá svo illa farnar af sandroki að „var talið að vitinn sæist yfirhöfuð alls ekki.“
Krabbe taldi vitann niðurníddan eins og hann ritar og skipti bæði um rúður og vitavörð!

Jónathan Jónsson vitavörður 1910 - 1935
Jónathan Jónsson bóndi úr Mýrdal var skipaður í stöðu vitavarðar frá 1. ágúst 1910. Jónathan var bróðir Hjalta Jónssonar skipstjóra og konsúls sem nefndur var Eldeyjar-Hjalti eftir að hann kleif Eldey árið 1894 ásamt þeim bræðrum Stefáni og Ágústi Gíslasonum frá Hlíðarhúsi í Eyjum.
Jónathan var kvæntur Guðfinnu Þórðardóttur og eignuðust þau fjögur börn, Sigríði sem gift var Guðmundi Steinssyni járnsmiði í Eyjum, Gunnar og Hjalta sem voru birgðaverðir hjá Vitamálastofnun í Reykjavík og Sigurð Valdimar sem tók við gæslu vitans af föður sínum árið 1935 og gegndi því starfi af einstakri trúmennsku til dauðadags 4. maí 1966. Jónathan andaðist árið 1939.

Sigurður V. Jónathansson vitavörður 1935-1966
Sigurður V. Jónathansson var kvæntur Björgu Sveinsdóttur frá Álftafirði eystra. Þau hjón bjuggu öll sín búskaparár í Höfðanum. Börn þeirra eru Óskar Jakob sem tók við vitavarðarstarfinu af föður sínum 1966 og gegnir því enn og Erla Kristín sem er búsett í Vestmannaeyjum, gift Gunnari Ólafssyni frá Odda í Vestmannaeyjum.
Auk gæslu vitans voru þau hjón með eina og tvær kýr og nokkrar kindur til nota fyrir heimilið og var heyjað á túni umhverfis og vestan við vitann.

Óskar Jakob Sigurðsson vitavörður frá 1966
Óskar J. Sigurðsson er síðasti vitavörðurinn á Íslandi sem býr í vitahúsinu en ennþá eru nokkrir vitaverðir sem hirða um vitana og skrá ítarlegar veður en unnt er að gera sjálfvirkt. Óskar er fæddur 19. nóvember árið 1937 og hefur alið allan sinn aldur í Stórhöfða.
Það má segja að Óskar J. Sigurðsson hafi með fuglamerkingum sínum brugðið ljóma vísindanna yfir starf vitavarðar í Stórhöfða. Merkingar Óskars á fuglum eru þekktar um allan heim og hann hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir óþreytandi starf sitt við fuglamerkingar og rannsóknir á fuglum. Samtals hefur Óskar merkt um 84.500 fugla síðan hann hóf fuglamerkingar í maí 1953. Þar af eru um 54.000 lundar, 20.000 fýlar, 8.700 snjótittlingar, auk fleiri fugla, t.d. hefur hann merkt 454 hrossagauka, 259 þúfutittlinga, 134 stelka, eitt keldusvín, eina turtildúfu en samtals hefur Óskar merkt 40 tegundir fugla.

Heimsmet
Hinn 11. apríl 1997 var staðfest í hinni þekktu Heimsmetabók Guinness að Óskar Jakob Sigurðsson vitavörður í Stórhöfða hafi merkt flesta fugla í heiminum og þar með sett heimsmet. Í júlí 2005 fékk veðurathugunarstöðin á Stórhöfða - 4048 Vestmannaeyjar Iceland - sérstakt viðurkenningarskjal frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) sem sent er til þeirra veðurathugunarstöðva sem hafa uppfyllt mestu kröfur um skil veðurathugana, bæði háloftaathugana og veðurfarsathugana, inn í hið alþjóðlega veðurathugunakerfi WMO, þ.e. World Weather Watch. (Bréf Magnúsar Jónssonar veðurstofustjóra, 27. september 2005).
Óskar í Höfðanum eins og hann er alltaf nefndur manna á meðal í Vestmannaeyjum var heiðraður af Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja 28. október 1989 og var heiðursfélagi í Rótaryklúbbi Vestmannaeyja árið 1994. Hann var heiðraður af Sjómannadagsráði Vestmannaeyja 1986 og 17. júni 1997 sæmdur fálkaorðu íslenska lýðveldisins.

Fjórði ættliðurinn
Sonur Óskars J. Sigurðssonar og Valgerðar Benediktsdóttur frá Hólmavík (f. 1943- d. 1992) er Pálmi Freyr, fæddur 1974. Hann er aðstoðarvitavörður og leysir föður sinn af við gæslu Stórhöfðavitans og veðurathuganir. Pálmi Freyr er fjórði ættliðurinn sem gætir vitans, samfleytt síðan 1910.

Landfræðilegur staður
Stórhöfðaviti er á 63°24' N. brd. og 20° 17,3' V.lgd. Ljóshæðin er 125 metrar yfir sjávarmáli og lýsir vitinn 3-leiftur á 20 sekúndna bili.
Sjónarlengd Stórhöfðavita er samkvæmt vitaskrá og sjómannaalmanaki 16 sjómílur miðað við 5 metra augahæð og er þá átt við þá vegalengd sem vitaljósið sést, en það takmarkast af bungu jarðar og er miðað við hæð athugarans og ljóssins yfir sjávarborði.

Lokaorð
Á 100 ára afmæli Stórhöfðavita senda allir sjófarendur sem hafa notið þessa leiðarljóss vitaverði og öllum þeim sem viðhalda hinum mikilvægu öryggistækjum sem ljósvitar landsins eru kveðjur og árnaðaróskir.

Í minningarorðum um Sigurð V. Jónathansson vitavörð í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1967 ritaði Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum (1897 -1995) sem sótti sjóinn frá Vestmannaeyjum í nærri því hálfa öld:
„Fáir menn hafa þráð frekar ljósið eða glaðst meira yfir að sjá það heldur en sjómaðurinn, þegar hann á dimmum nóttum og í illviðrum sá ljósið á vitanum sem stefna skipsins hafði verið sett á og það vísaði honum til hafnar eða í landvar. En áður en miðunarstöðvar og ratsjár komu til sögnnnar, til öryggis og sjófarendum var ekki á annað að treysta við landtöku en ljósvitann.“

Guðjón Ármann Eyjólfsson



Helstu heimildir:
Prentaðar: 1. Thorvald Krabbe vitamálastjóri. Vitar Íslands í 50 ár, 1878 -
1. desember- 1928. Útg. 1928.
2. Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og
Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi - Leiðarljós á landsins
ströndum 1878-2002.
Útg. Siglingastofnun Íslands, Kópavogi
2002. 3. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967.
4. Thorvald Krabbe vitamálastjóri. Island og dets tekniske
udvikling gennem tiderne. Útg. Kaupmannahöfn 1946.
5. Haraldur Guðnason fyrrv. bókavörður. Saltfiskur og sönglist.
Útg. Skuggsjá Hafnarfirði 1975.
6. Dagskrá, fréttablað i Vestmannaeyjum, Jólablað 1985,
Óprentaðar:
Þjóðskjalasafn Íslands. Hb. 2, nr. 821. Ýmis skjöl
varðandi aðdraganda að byggingu Stórhöfðavitans, byggingu
hans og rekstur fyrstu árin, þ.á.m. ráðningu vitavarðar.
Munnlegar:
Óskar J. Sigurðsson vitavörður í Stórhöfða.