„Heimaeyjargosið“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 1: Lína 1:
{{Snið:Gosannáll}}
Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973 og því lýst lokið 3. júlí sama ár. Gosið er fyrsta eldgos sem hefst í byggð á Íslandi. Giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum er minnst þegar gosið er rifjað upp. Þótt að nú á 21. öldinni rísi upp kynslóð sem ekki upplifði atburðina örlagaríku eru þeir þó greipaðir í hjörtu Eyjamanna. Minningarnar lifa og munu fara frá manni til manns. Þannig hefur gosið grópað huga Eyjamanna og einn af þeim hlutum sem gera íbúa Heimaeyjar einstaka.
Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973 og því lýst lokið 3. júlí sama ár. Gosið er fyrsta eldgos sem hefst í byggð á Íslandi. Giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum er minnst þegar gosið er rifjað upp. Þótt að nú á 21. öldinni rísi upp kynslóð sem ekki upplifði atburðina örlagaríku eru þeir þó greipaðir í hjörtu Eyjamanna. Minningarnar lifa og munu fara frá manni til manns. Þannig hefur gosið grópað huga Eyjamanna og einn af þeim hlutum sem gera íbúa Heimaeyjar einstaka.



Útgáfa síðunnar 30. júní 2005 kl. 09:36

Gosannáll

  • 22. janúar: Þennan dag var illviðri með tólf vindstigum. Allur skipafloti Vestmannaeyinga var í höfn. Um kvöldið lægir svo og gerir hið besta veður. Svolitlir jarðskjálftar finnast en ekkert sem hægt hefði verið að túlka á stórtíðindi.
  • 23. janúar: Eftir jarðskjálftakippi hefst eldgos í Heimaey kl. 1:40 um nóttina. Allir íbúar fluttir á brott utan 250-300 manns.
  • 24. janúar: Eldur í Kirkjubæ. Logandi hnullungar kveikja í húsum. Mikið gos og sprengingar. Gosmökkur í 8-9 km hæð.
  • 25. janúar: Ýmis konar starfsemi fyrir Eyjafólk í Hafnarbúðum á Höfuðborgarsvæðinu. Erfitt að fá leyfi til Eyjaferða, aðeins vísindamenn og ljósmyndarar fá landgöngu. Vindáttin snýst, mörg hús grafast og kviknar í sumum.
  • 26. janúar: 17 hús brenna. Vélbátar í Eyjum í stöðugum búslóðaflutningum milli Eyja og Þorlákshafnar. Gaus í Stakkabót og gossprungan þá 3 km löng.
  • 27. janúar: 20 hús brunnin. 70 hús undir ösku og vikri. Hiti í höfninni um 15 gráður.
  • 30. janúar: Búið að tæma nær öll hús austan Skólavegar. 150 hús brunnin og sokkin. Vont veður þegar vinnuflokkar moka vikur af húsþökum, negla fyrir glugga og bjarga eignunum. Nýtt eldfjall greinilega orðið til og hefur þegar náð 180 m hæð.
  • 31. janúar: Öll stjórnsýsla flutt til Reykjavíkur. Búið að negla fyrir glugga 900 húsa. Rúmlega 11 hús kominn á kaf
  • 1. febrúar: Talið að þurfi allt að þúsund manns til að moka af húsþökum í Eyjum. 500 manna vinnuflokkur kemur til starfa. Eyjabátarnir koma með afla í aðrar hafnir á landinu.
  • 3. febrúar: Fiskimjölsverksmiðjan byrjar móttöku á loðnu til vinnslu.
  • 4. febrúar: Karl Sigurbjörnsson vígður sóknarprestur til Vestmannaeyjasóknar og nefndur eldklerkur. Einkennilegar aðstæður fyrir nývígðan prest. Mötuneyti í Ísfélaginu fyrir 1000 manns. Hraun fer að renna í innsiglinguna af miklum krafti en dró úr því 9. febrúar.
  • 5. febrúar: Lokað fyrir 14 þúsund glugga og mokað af um þúsund þökum.
  • 6. febrúar: Háspennulínan til Eyja slitnaði og önnur vatnsleiðslan rofnaði. Reynt að byggja varnargarða og tilraunir hefjast með hraunkælingu.
  • 7. febrúar: Lög nr. 4 um neyðarástand vegna jarðelda á Heimaey samþykkt á Alþingi. Rafstrengur frá meginlandinu slitnar og rafveita Vestmannaeyja tekur við að framleiða rafmagn með díselvélum. Önnur vatnsleiðslan fer í sundur. Aðeins eru 200 metrar frá hraunjaðrinum til Heimakletts.
  • 8. febrúar: Skólabörn úr Eyjum nú á 36 stöðum á landinu.
  • 9. febrúar: Heimaey hefur stækkað um 2 ferkílómetra.
  • 10. febrúar: Gagnfræðaskóli Vestmannaeyja tekinn til starfa í Laugalækjarskóla.
  • 14. febrúar: Þorrablót í Samkomuhúsinu, 500 blótuðu Þorra. Gas gerir mönnum lífið leitt.
  • 15. febrúar: Eitrað gas tekur að streyma frá eldstreyminu yfir bæinn og safnast í kjöllurum.
  • 16. febrúar: Þak bókasafnshússins féll vegna vikurþunga. Bækur fluttar í Gagnfræðaskólann. Frostskemmdir í 10. hverju húsi.
  • 17. febrúar: Flutningar hefjast með Hercules flugvélum. Lögreglan flýr lögreglustöðina. Mikil gashætta.
  • 20. febrúar: Bærinn í stórhættu. Eldfellið hefur skriðið niður í bæinn.
  • 21. febrúar: Miklum varnarvegg komið fyrir til varnar bænum. Hraunið komið hálfa leið til Bjarnareyjar.
  • 24. febrúar: 64 hús hurfu á 8 klukkustundum. Birgðir og atvinnutæki flutt úr verslunum
  • 25. febrúar: Hraunrennslið stöðvast í bili. Loðnu landað úr 6 bátum.
  • 27. febrúar: 400 hús talin eyðilögð eða skemmd. Á sjötta hundrað Eyjamenn hafa sótt um að búa í innfluttu Viðlagasjóðshúsunum. 492 manns eru í Eyjum.
  • 2. mars: Um 300 metrar ruddir út á nýja hraunið, á köflum glóandi, til þess að koma þangað vatnsleiðslum til hraunkælingar. Kaupfélagið opnar sölubúð á Hólagötu.
  • 8. mars: Hraun hefur runnið að Skansi og Grænuhlíð. Flakkarinn ferðast um 200 metra á dag og er 370 metra frá hraunkantinum. Öskufall er í Landeyjum.
  • 13. mars: Hraunið rennur nú mest í suðaustur hjá Flugnatanga. Hraunkanturinn víða 30-40 m hár. Dæluskipið Hákur fengið til að dæla sjó á hraunið.
  • 15. mars: Gasmengun hefur aukist og er mest í Dauðadalnum. 425 manns í Eyjum.
  • 21. mars: Hin vatnsleiðslan talin vera að gefa sig. Eyjamenn sækja vatn í brunna. Gasmengun minnkandi.
  • 22. mars: Hrauntunga, 150 m breið, rennur á bæinn norðvestanverðan og stöðvast við Heimagötu.
  • 23. mars: Hraun rann með miklum látum vestur að Heimagötu og kveikti hitinn í húsum. 70 hús hurfu undir hraunið á fáum klukkustundum.
  • 26. mars: Hraun fer enn að renna og 30 hús fara undir hraun. Vatnsleiðslan komin í sundur. Rafstöðvarhúsið farið undir hraun. Mörg gömul og merk hús fara undir hraun, t.d Brydeshús, sundlaugin, Godthåb, bankahúsið gamla og verslun Haralds Eiríkssonar. Gaseitrun hættulega mikil.
  • 27. mars: Reglugerð um Viðlagasjóð, nr. 62, kom út í dag. 270 hús farin í hraun og vikur.
  • 28. mars: Hraun rann niður Formannabraut, bókasafnshúsið undir hraun sl. nótt. Stórvirkar véldælur frá Bandaríkjunum koma.
  • 29. mars: Vonskuveður með 7-8 stiga frosti og byl. 30 skip leita hafnar. Hraunið komið inn í Fiskiðju og Ísfélag.
  • 30. mars: Stórt fiskhús í eigu Ísfélagsins í rúst. Háþrýstidælur og vatnsmagn aukið um 50%. Hraun virðist vera að stöðvast niður undir bryggju.
  • 2. apríl: Lítil breyting á gosinu. Dælt af krafti á hraunið.
  • 4. apríl: Um hádegi gaus kolsvörtum öskumekki. Harðinn í hrauntröðinni minnkar.
  • 5. apríl: Hraunrennsli ekkert og engin gosmengun.
  • 6. apríl: Sóleyjargata hreinsuð, grafið 4-5 m niður á tvö hús og var annað nánast óskemmt. Gosvakt austur á hrauni.
  • 11.-16. apríl: Tvær götur hreinsaðar Heiðarvegur og Fjólugata. Dælt á hraunið af krafti. Hraun rennur neðansjávar við innsiglinguna. Lundinn sést fyrst 13. apríl.
  • 17.-23. apríl: Litlar breytingar á hraunrennsli. Öðru hverju há öskugos. Fiskimjölsverksmiðjan bræddi loðnu.
  • 24. apríl: Hraun rann með 60 m hraða í þröngum farvegi austur, hægði svo á sér.
  • 25. apríl: Mikill hiti í húsum við Kirkjubæjarbraut, viður svíður og málning flettist af. Einhverjir hafa sett niður kartöflur.
  • 30. apríl: Engar sérlegar breytingar á gosinu , sem er oftast kraftlítið.
  • 1. maí: Hátíðarhöld. Sigurður Guðmundsson flutti ræðu, knattspyrnuleikur háður og kvikmyndir sýndir. Sjö menn hafa sótt um byggingarlóðir í Eyjum.
  • 5. maí: Stjórn Viðlagasjóðs samþykkir að hefja hreinsun af krafti. Vinna á 10 klst. vöktum. Skal vera lokið um áramót. 226 skráðir hér.
  • 23. maí: Bæjarráð samþykkir að Félagsheimilið verði notað sem tómstundaheimili þeirra sem eru við störf í Eyjum.
  • 26. maí: Sjór kraumar og vísbendingar um neðansjávargos inn við Ál.
  • 1. júní: Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn í Eyjum eftir gos. Línurnar lagðar um uppbyggingu og hreinsun.
  • 5. júní: Almannavarnarnefnd tilkynnir að þeir sem áttu lögheimili í Eyjum 23. janúar megi fara þangað frjálsir ferða.
  • 3. júlí: Almannavarnarnefnd Vestmannaeyja tilkynnir að gosið sé hætt að áliti sérfræðinga. Fjölskyldur koma heim og uppbygging samfélagsins hefst.

Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973 og því lýst lokið 3. júlí sama ár. Gosið er fyrsta eldgos sem hefst í byggð á Íslandi. Giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum er minnst þegar gosið er rifjað upp. Þótt að nú á 21. öldinni rísi upp kynslóð sem ekki upplifði atburðina örlagaríku eru þeir þó greipaðir í hjörtu Eyjamanna. Minningarnar lifa og munu fara frá manni til manns. Þannig hefur gosið grópað huga Eyjamanna og einn af þeim hlutum sem gera íbúa Heimaeyjar einstaka.

Undanfari

Það voru bjartsýnir Eyjamenn sem horfðu fram á veginn við áramót 1972-1973. Hafið hafði verið gjafmilt og einnig kaupendur fisksins. Í nýrri og enn stærri landhelgi, þá nýstækkaðri úr 12 sjómílum í 50, höfðu Vestmannaeyingar veitt vel í soðið. Árið 1972 áttu Vestmannaeyingar 8,4% af útflutningsverðmæti landsmanna. Nóg atvinna var í plássinu og íbúar Vestmannaeyja höfðu aldrei verið fleiri, 5273 þann 1. des 1972. Þetta bjartsýna fólk fór því að sofa áhyggjulaust að kvöldi mánudagsins 22. janúar 1973.

Ekki er hægt að segja að Vestmannaeyingar hafi fengið viðvörun um eldgos daginn fyrir upphaf þess. Þegar jarðhræringarnar eru skoðaðar þá voru aðeins tvær litlar jarðskjálftahrinur tvo daga fyrir gosið sem að mega teljast fyrirboðar. Þessar hrinur mældust í Mýrdal og Laugarvatni og töldu menn upptök nálægt Veiðivötnum eða við Heimaey. Mönnum fannst upptökin frekar vera við Veiðivötn, þar sem að það er mun algengara. En hitt kom svo í ljós. Upptökin voru á tvöfalt meira dýpi en vanalega og telja menn nú að slíkt dýpi sé fyrirboði um eldgos. Stærsti jarðskjálftinn, um 3 á Richter, mældist kl.1:40 á aðfararnótt 23. janúar. Það var 15 mínútum fyrir sjáanlegt upphaf gossins.

Gos hefst

Loftskeytamaðurinn Hjálmar Guðnason bað vin sinn Ólaf Gränz að koma í miðnæturgöngutúr rétt áður en gosið hófst. Löbbuðu þeir vanalegan rúnt, með bryggjunni, ströndinni, í átt að Kirkjubæ og svo upp á Helgafell. Hin tilkomumesta sýn birtist þeim þegar þeir skoðuðu bæinn á toppi Helgafells. Jörðin hreinlega opnaðist og eldtungur hennar skutust upp á yfirborðið. Á sama tíma var hringt í lögreglunni og henni tilkynnt að jarðeldur væri kominn upp austan Kirkjubæjar. Vantrúuð lögreglan fór á stjá og sá strax hvað var í gangi. Gos var þá hafið á 1600 metra langri sprungu og magnaðist vel á fyrstu mínútunum. Fólk var þá vaknað í austurbænum og byrjað að vekja nágranna. Var þá kveikt á brunalúðrum og á innan við klukkutíma frá upphafi gossins var bærinn vaknaður og streymdi fólkið niður á bryggju.

Björgunaraðgerðir á fólki og munum

Bæjarbúar söfnuðust fljótt og vel niður á bryggju. Mikið þakkarefni í sambandi við gosið er óveðrið daginn fyrir gosið. Þá höfðu allir bátar komið í land vegna óveðurs og veðrið hafði skánað til muna með kvöldinu. Lagði fyrsti báturinn af stað með fólk um hálfþrjú, aðeins hálftíma eftir upphaf gossins. Af því má sjá að þrátt fyrir að ekkert hafi verið undirbúið voru menn í viðbragðsstöðu. Bátarnir tóku frá 50 manns upp í 400. Sjóferðin var ekki skemmtileg fyrir neinn. Vont var í sjóinn og ofan á sjóveiki og vanlíðan, bættust áhyggjur um framtíð bæjarins, húsa og lífsviðurværis. Björgunaraðgerðir fóru þó almennt vel fram og undir morgun komu bátar til Þorlákshafnar þar sem að tekið var á móti örvingluðu fólkinu. Langflestir voru fluttir með skipum en nokkur hundruð manns voru fluttir með flugvélum. Allur tiltækur flugfloti, jafnt litlar og smáar vélar, fór strax um nóttina frá Reykjavík og sótti aðallega aldraða og sjúka. Að morgni fyrsta gosdags var búið að flytja alla íbúa eyjunnar upp á meginlandið, að undanskildum 200-300 manns sem urðu eftir til að sinna þeim verkum sem þurfti að vinna.

Strax og ljóst var að björgunaraðgerðir á fólki höfðu heppnast sem skildi var hafist handa við að bjarga því sem var hægt að bjarga af eignum fólks. Hafist var handa í austurbænum, þeim hluta sem að stóð næst eldsupptökum. Hjólin tóku að snúast eftir nokkra daga. Björgunarsveitir komu ofan af landi og fljótt varð til samfélag. Samfélag þar sem að flestir unnu kauplaust, fengu einungis mat og húsaskjól í laun og ekkert var öruggt varðandi starfsumhverfi. Sjálfboðaliðar úr trésmiðafélögum í Reykjavík negldu fyrir glugga sem sneru að eldgosinu. Nokkur hús féllu saman vegna gjalls á þökum og því fóru trésmiðirnir einnig í að styrkja húsþök, á meðan stúdentar ruddu gjallið af þökunum. Nóg var að gera og var mikið álag á lúnu hjálparfólki. Heilu búslóðirnar voru fluttar upp á land eða komið í örugga geymslu. Bílaeign Vestmannaeyinga var mikil og hátt í þúsund bílum komið á fast Ísland. Með ótrúlegu þrekvirki náðist að koma í veg fyrir milljarðatjón á eignum bæjarbúa.

Gosið

Öfugt við bjartsýni Eyjamanna í byrjun árs 1973 voru jarðfræðingar ekki bjartsýnir varðandi hið nýja eldgos. Fyrstu dagana var gosið dæmigert sprungugos. Sprungurnar voru 1600 metra langar og röðuðu 30-40 gígar sér þar. Hraunkvikan leitaði út í sjó og kom það sér vel fyrir byggðina og innsiglinguna. En það var aðeins fyrstu dagana. Ekki leist mönnum á blikuna í byrjun febrúar þegar neðansjávarsprunga opnaðist við hafnarmynnið. Frá 4.-20. febrúar var höfninni lokað og umferð bönnuð. Höfnin lokaðist þó ekki en hraunstraumurinn reyndi aftur á taugar manna með straumi í hafnarmynnið frá 9. mars. Þá hafði hraunkælingin sitt að segja.

Í lok febrúar safnaðist hraun saman norðan við gígmynnið. Varnargarðar höfðu verið byggðir til varnar bænum og höfninni. Hraunið tók að streyma í tungu frá gígmynninu og ógnaði varnargörðunum. Ekki var hægt að dæla á hrauntunguna sökum þess að vegalengdin frá sjó var of mikil. Þess vegna gerðist það aðfararnótt 18. mars að varnargarðurinn brast með þeim afleiðingum að 10 hús fóru undir. Næstu daga fóru enn fleiri hús undir hraun. Verst var áhlaup 300 m breiðrar tungu fimmtudagskvöldið 22. mars sem fór yfir 70 hús og stöðvaðist niðri á Heimagötu.

Eyjaskeggjar á föstu landi

Strax fyrstu gosnóttina hófst gríðarleg skipulagning á því hvernig fólksflutningunum skyldi hátta. Einhvers staðar þurfti að koma rúmlega 4.000 manns fyrir upp á landi. Á þessum tíma voru Vestmannaeyingar 2,5% landsmanna og því mikið verkefni fyrir höndum að koma börnum í skóla, fólki í vinnu og finna húsnæði fyrir fjölskyldur. Viðlagasjóður og ríkisstjórnin sáu til þess að Vestmannaeyingar fengu allt það nauðsynlegasta. Ýmis félagasamtök hjálpuðu til og gáfu t.d. Aðventistar föt öllum sem þurftu. Samhugurinn og samúðin var hjá Eyjamönnum. Fljótlega bárust rausnarleg hjálparframlög í ýmsum myndum víðsvegar að. Erlendar ríkisstjórnir gáfu peninga og fjársafnanir voru í Noregi og Færeyjum. Frá Norðurlöndum og Kanada voru keypt 550 tilbúin hús og þeim plantað víðs vegar um land, þó einkum suðvestanlands.

Hvað á fellið að heita ?

Fljótlega var farið að tala um nafn á nýja fellið og sýndist sitt hverjum. Lýst var eftir nafni í stuttri grein í Morgunblaðinu og tillögum rigndi inn, bæði í Eyjapistil og í lesendabréfum til dagblaðanna. Margir vildu nefna það Kirkjufell vegna Kirkjubæjanna, aðrir voru mun frumlegri og vildu nefna fellið Þrym, Gribbu, Bessa, Gám, Glám, Hroll, Spáfell eða Bæjarfell. Alls bárust á þriðja tug nafna. Niðurstaða Örnefnanefndar var tilkynnt 24. apríl 1973. Hið nýja eldfjall skyldi heita Eldfell. Ekki voru allir sáttir við það nafn. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur skrifaði Magnúsi Magnússyni bæjarstjóra bréf 23. janúar 1974 vegna misskilnings sem hafði komið fram í útvarpsþætti þá um daginn. Einn bæjarstjórnarmanna hafði fullyrt að Sigurður væri í Örnefnanefnd ,,og þar með meðábyrgur um það ómyndarlega og rislága nafn Eldfell. ... Eldfell þýðir jú ekkert annað en vulkan, eldfjall og mér fannst óþarft að upplýsa Vestmannaeyinga um það að þetta væri eldfjall." Sjálfur aðhylltist bæjarstjórnarmaðurinn nafnið Kirkjufell. Honum fannst það látlaust og eðlilegt og sögulega rétt og fara vel við Helgafell, það fjall sem raunverulega bjargaði bænum með því að varna því að sprungan lenti beint á hann.

Goslok

Í lok apríl fór eyjan að grænka. Þrátt fyrir gjall og sót kom lundinn og hreinsaði holur sínar. Suðurhluti eyjunnar hafði sloppið ágætlega og því var hann fljótur að grænka. Bjartsýni á goslok dafnaði. Virkni eldgíga var minni í maí og virknin í júní var í lágmarki. Því voru þessir mánuðir notaðir í hreinsunarstarf. Götur voru mokaðar og grasfræi sáð í jarðveginn. Aðstæður voru ekki góðar í byrjun uppgræðslunnar en með sumrinu náðist góð uppgræðsla. Síðasta goshrinan stóð yfir í aðeins nokkrar mínútur þann 26. júní. Almannavarnarnefnd tilkynnti þann 3. júlí að gosinu væri lokið.

Lífið eftir gos

Margir íbúar Eyja ætluðu að koma heim bara daginn eftir upphaf gossins. Morgunblaðið greindi frá því þann 26. janúar að gosið væri í rénun og Eyjamenn gætu komist fljótt heim. Þetta gaf mönnum von um að komast fljótt heim. Eflaust hafa margir misst vonina eftir því sem lengra leið á gosið og settust að upp á landi. Stór hluti kom þó til baka og í nóvember 1973 höfðu rúmlega 2000 manns snúið til baka. Þeim sem sneru til baka beið mikil og erfið vinna. Af þeim 1350 húsum bæjarins, fóru 417 eignir undir hraun og önnur 400 skemmdust að einhverju eða miklu leyti. Menn voru yfirleitt bjartsýnir á framtíðina og hófu uppbyggingu fljótt og örugglega. Margar fjölskyldur einstaklingar fluttu ekki til baka. Ástæður þess voru margar, t.d. treysti fólk sér ekki tl að flytja aftur þar sem húsin þeirra voru komin undir hraun eða það fékk góða atvinnu og húsnæði á meginlandinu. Margt jákvætt fylgdi gosinu fyrir bæjarfélagið. Fyrir gos hafði uppfyllingarefni verið stórt vandamál. Hvergi var efni að fá og þurfti mikið jarðrask til þess að útvega efni. Í gosinu kom upp nægilegt uppfyllingarefni fyrir allar framkvæmdir svo langt sem augað eygir. Heimaey stækkaði um 2,2 km² í eldgosinu og býður þessi viðbót upp á óteljandi möguleika varðandi framkvæmdir, ferðamennsku og útivist. Hraunið gerði innsiglu í höfnina enn betri og lokaði á suðaustan-vindinn sem vildi herja á höfnina. Hraunið sem menn héldu að ætlaði að eyðileggja höfnina gerði hana að einni allra bestu höfninni á landinu.

Eldgosið á Heimaey gerði Vestmannaeyinga að enn meiri Vestmannaeyinga. Samhugurinn sem var á meðal Eyjamanna í gosinu gleymist seint og bindur enn íbúana böndum, jafnvel þá sem fæddir eru eftir gos.



Heimildir:

  • Aðalsteinn Eiríksson. 1981. Heimaeyjargosið 1973. Námsgagnastofnun.
  • Haraldur Guðnason. 1982. Við Ægisdyr, Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár I. Vestmannaeyjabær
  • Morgunblaðið 60. árg. 1973. 23.-26. janúar.
  • Þorleifur Einarsson. 1974. Gosið í Heimaey í máli og myndum. Reykjavík: Heimskringla.
<meta:creator>Daníel St.</meta:creator>