„Sigurður Sigurfinnsson (hreppstjóri)“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 81: | Lína 81: | ||
}} | }} | ||
[[Flokkur: | [[Flokkur:Bændur]] | ||
[[Flokkur.Kaupmenn]] | |||
[[Flokkur:Formenn]] | [[Flokkur:Formenn]] | ||
[[Flokkur:Hreppstjórar]] | [[Flokkur:Hreppstjórar]] | ||
[[Flokkur:Fólk fætt á 19. öld]] | |||
[[Flokkur:Fólk dáið á 20. öld]] | |||
[[Flokkur:Íbúar við Sólhlíð]] | |||
[[Flokkur:Íbúar á Kirkjubæ]] | |||
[[Flokkur:Íbúar við Heimagötu]] | |||
[[Flokkur:Íbúar við vestmannabraut]] |
Útgáfa síðunnar 28. júní 2007 kl. 14:37
Sigurður Sigurfinnsson var fæddur 6. nóvember 1851 í Yzta-Bæliskoti undir Eyjafjöllum, og lést 8. september 1916.
Ætt og uppruni
Foreldrar hans voru Sigurfinnur bóndi að Yztabæliskoti og Yztabæli u. Eyjafjöllum, f. 30. júní 1824, d. 10. júní 1879, Runólfs skálds í Skaganesi, f. 1798, d. 1862, Sigurðar prests Ögmundssonar, Högnasonar og konu (1823) Runólfs, Ingveldar húsfreyju, f. 1798, d. 1868, Jónsdóttur, Bjarnasonar. Móðir Sigurðar og kona Sigurfinns var Helga húsfreyja, f. 30. ágúst 1815, d. um 1890, Jóns bónda að Brekkum í Holtum, Jónssonar.
Sigurður var fóstraður frá því á fyrsta ári hjá Einari Magnússyni bónda í Yztabæli og k.h. Sigríði Ísleifsdóttur húsfreyju og ólst hann upp hjá þeim, þar til hann varð fullvaxta.
Lífsferill
Sigurður fluttist til Eyja árið 1872, bjó í Görðum við Kirkjubæi og hóf sjómennsku.
Hann varð formaður 1874 og stjórnaði bæði opnum bátum og hákarlaskútum og síðar vélbátum. Má nefna t.d. hákarlajaktina Neptúnus. Á honum lenti skipshöfn hans í ofsaveðri 27. apríl 1888 útsuður af Ingólfshöfða og brotnaði flest á skipinu, sem brotnað gat. Komust þeir loks til Eyja. Þá fórust 5 frönsk skip og 6 strönduðu um þær mundir.
Á sumrum stundaði Sigurður kaupmennsku í nærsveitum.
Hann fékk ábúð á jörð þeirri á Vilborgarstöðum, sem Gísli Bjarnasen verzlunarstjóri lét eftir sig, er hann flutti til Kaupmannahafnar. Var úttekt jarðarinnar gerð 1883. Sigurður húsaði að hluta að nýju og hóf aukna ræktun. Hann ræktaði tveggja dagsláttu tún á heiðinni milli Vilborgarstaða og Stakkagerðis og flutti þangað jarðarhúsin og kallaði að Heiði. Þar bjó hann síðan til æviloka.
Sigurður var að mestu leyti sjálfmenntaður í siglingafræði en hlaut nokkra tilsögn Jósefs Valdasonar í Fagurlyst (föður Jóhanns alþingismanns og ráðherra).
Hann var í hópi þeirra fyrstu, sem keyptu vélbát til Eyja, en það var Knörr, 12-14 brúttólestir, sem hann keypti 1905 og átti í félagi við fleiri. Honum sigldi hann á seglum til Danmerkur til þess að fá vél í hann, 8 hestafla Dan-vél, og sigldi honum síðan heim. Þeir voru tíu sólarhringa á leiðinni og lágu undir Hjaltlandi um hríð vegna veðurs.
Þegar um haustið eftir komuna til landsins var báturinn nýttur til ferða til Stokkseyrar með vörur, en var notaður til fiskveiða á vertíð 1906. Gekk það fremur illa og var báturinn seldur. Árið 1908 byggði Sigurður bátinn Skeið upp úr opnu skipi og var formaður á þeim bát í tvær vertíðir. Eftir það hætti hann formennsku.
Félagsmál
Sigurður varð oddviti 1902, þegar Þorsteinn Jónsson læknir hætti, og gegndi því starfi meðan hann lifði. Hann sat í hreppsnefnd frá 1901, í sýslunefnd sem varamaður í fjölda ára. Hreppstjóri varð hann 1895 eftir drukknun Lárusar Jónssonar á Búastöðum.
Hann var mikill framfaramaður. Hreppsnefndin boðaði, fyrir forgöngu hans, til almenns fundar 1907 til að fjalla um verzlunarmál og var sá fundur fjölmennur. Fundurinn lýsti yfir óánægju sinni með verð á útfluttum og innfluttum vörum. Kosin var nefnd þriggja manna, Þorsteins í Laufási, Gísla Lárussonar í Stakkagerði auk Sigurðar til að afla upplýsinga um vöruverð og semja um kaup á erlendum vörum og semja um sölu á innlendum vörum. Var sett á stofn pöntunarfélag, sem starfaði í nokkur ár, en síðan stóðu sömu menn að stofnun Kaupfélagsins Herjólfs. Á síðasta áratug nítjándu aldar neitaði Bryde kaupmaður að selja mönnum salt, en vildi fá fiskinn upp úr sjó. Þótti af þessu mikill bagi og varð til þess að stofnað var pöntunarfélag til saltkaupa.
Sigurður varð formaður Framfarafélagsins, sem Jón Magnússon sýslumaður stuðlaði að og stofnað var 13. ágúst 1893. Var Sigurður formaður, unz félagið var lagt niður 26. apríl 1914. Þetta félag stuðlaði að ýmsum framförum, svo sem búnaðarframkvæmdum og íshúsbyggingu. Ísfélagið var svo stofnað 1901.
Sigurður tók að sér forstöðu bjargráðanefndar, sem átti að stuðla að slysavörnum. Hún hafði forgöngu um stofnun Sundfélags Vestmannaeyja árið 1894 og var Sigurður formaður félagsins og um skeið sundkennari.
Árið 1890 stóð Sigurður í fararbroddi um stofnun styrktarsjóðs ekkna þeirra manna, sem drukkna eða hrapa til bana, einnig styrktarsjóð aldurhniginna sjómanna eða heilsubilaðra 1908.
Hann var forseti Bátaábyrgðarfélagsins 1908-1915.
Hann var hann bindindismaður og starfaði mikið í Góðtemplarareglunni, stóð m.a. að stofnun Góðtemplarastúku í Eyjum 1888.
Sigurður var fréttaritari „Fjallkonunnar” 1890-1902 og ritaði þar margt um athafnalíf í Eyjum. Hann var vel skáldmæltur og vel ritfær.
Ráðríkur þótti hann enda mun hann oft hafa þurft að taka ákvarðanir, þegar hinir linari stóðu ráðþrota og klumsa.
Ritverk
- Ritgerðir í Fjallkonunni: Um sjómennsku 1891; Sjávarútvegur í Vestmannaeyjum 1893; Styrktarsjóður handa ekkjum og börnum drukknaðra sjómanna 1893; Mannslán og skipsáróður 1894; Kúðaós sem verzlunarstaður 1894; Félög og sjóðir í Vestmannaeyjum 1894; Ónotalegar samgöngur 1894; Nokkur skilyrði fyrir framför landbúnaðarins 1895; Hvalveiði við Vestmannaeyjar 1897.
- Frásögn um ferðina til Íslands með Knörr, í Óðni 1906.
- Frá Vestmannaeyjum, í Lögréttu 1906.
- Lendingar og ýtingar, í Andvara 1915, undir dulnefninu Sæfinnur á Öldu.
- Gömul örnefni í Vestmannaeyjum, í Árbók fornleifafélagsins 1913.
Auk þessa eru margar óprentaðar ritgerðir, meðal annars löng grein um slysfarir á Íslandi.
Eftirmæli
Örn Arnarson kvað lengi um Sigurð,- m.a.:
Ennþá getur Íslendinga,
eilífðin sem verður löng,
hafi þeir það eitt að iðju
englum með að kyrja söng.
Ásatrú á hugann hálfan.
Hálfu fremur margur kýs
Einherji í Valhöll vera
en vængjað þý í paradís.
--------
Flestir þeir, er Sigurð sáu
sitja skrift og reikning við,
heldur kusu að hafa séð hann
herklæddan að fornum sið.
Hörð var lundin, þung var þykkjan,
þráði fremur tvísýnt stríð,
en að sinna sveitarmálum,
sjá um börn og þurfalýð.
--------
Oftast var hann einn á braut,
eins og hendir margan landann,
unni fáum, engum laut,
óttaðist hvorki guð né fjandann.
Sigurður bjó fyrst í Görðum við Kirkjubæi, en síðar keypti hann Kokkhús. Um 1880 byggði hann Boston við Vestmannabraut og síðar Dalbæ þar. Að síðust bjó hann á Heiði.
Maki I (1875, skildu): Þorgerður Gísladóttir húsfreyja, f. 16. ágúst 1840, d. 8. ágúst 1919.
Börn: Högni, f. 1874; Hildur, dó ung.
Maki II: Guðríður Jónsdóttir húsfreyja, f. 10. júlí 1871, d. 1. júní 1944.
Börn: Einar, f. 1906; Baldur bílstjóri, f. 22. maí 1908 á Heiði, jarðsettur 19. desember 1961.
Heimildir
- Upphaflega meginviðbót skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Björn Magnússon. Vestur-Skaftfellingar. Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur, 1970-1973.
- Brynleifur Tobíasson. Hver er maðurinn. Reykjavík: Bókaforlag Fagurskinna (Guðmundur Gamalíelsson), 1944.
- Hilmir Högnason. Munnleg heimild.
- Jóhann Gunnar Ólafsson. Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja eitt hundrað ára. Reykjavík: Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja, 1962.
- Legstaðaskrá.
- Páll Eggert Ólason o. fl. Íslenzkar æviskrár. Reykjavík: Hið íslenzka Bókmenntafélag, 1948-1976.
- Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.
- Þorsteinn Þ. Víglundsson: Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, Blik, 1960.
- Þorsteinn Þ. Víglundsson: Framfarafélag Vestmannaeyja. Blik, 1953.
- Örn Arnarson (Magnús Stefánsson). Illgresi, þriðja útgáfa. Reykjavík: Byggingarsjóður Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, 1949.