„Einar ríki“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Til aðgreiningar alnafna.)
 
Ekkert breytingarágrip
Lína 59: Lína 59:
[[Flokkur:Útgerðarmenn]]
[[Flokkur:Útgerðarmenn]]
[[Flokkur:Verslunarmenn]]
[[Flokkur:Verslunarmenn]]
[[Flokkur: Verksmiðjueigendur]]
[[Flokkur:Fólk fætt á 20. öld]]
[[Flokkur:Fólk fætt á 20. öld]]
[[Flokkur:Fólk dáið á 20. öld]]
[[Flokkur:Fólk dáið á 20. öld]]
[[Flokkur:Íbúar við Breiðabliksveg]]
[[Flokkur:Íbúar við Breiðabliksveg]]

Útgáfa síðunnar 30. júní 2023 kl. 14:26

Einar Sigurðsson, ríki.

Athafnamaðurinn Einar Sigurðsson fæddist á Heiði í Vestmannaeyjum þann 7. febrúar 1906 og lést 22. mars 1977. Einar var sonur Sigurðar Sigurfinnssonar og seinni konu hans Guðríðar Jónsdóttur, f. 10. júlí 1871, d. 1. júní 1944, og þar með var hann hálfbróðir Högna Sigurðssonar. Hann lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1924 og um haustið, hóf hann eigin atvinnurekstur. Vestmannaeyjar urðu of litlar fyrir athafnasemi Einars og flutti hann til Reykjavíkur 1950 og var þar með starfsemi í viðbót við reksturinn í Eyjum. Þegar Einar hafði mest umleikis í sjávarútvegi var hann með útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum, Keflavík, Reykjavík á Flateyri og víðar. Allt voru þetta einkafyrirtæki og var Einar oft með milli fimm og sexhundruð manns í vinnu.

Einar gegndi mörgum trúnaðarstörfum og var í forystu á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Hann var einn af stofnendum og lengi í forystu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, í stjórn skipafélagsins Jökla, Tryggingamiðstöðvarinnar, Umbúðamiðstöðvarinnar, Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og stjórnarformaður Coldwater í Bandaríkjunum.

Einar var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum 1942-1950 og varaþingmaður 1959-1963. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir og lengi formaður Knattspyrnufélags Vestmannaeyja. Einar var góður sundmaður og frægt varð þegar hann synti út brimgarðinn við Eyjafjallasand til að komast um borð í bát, sem var á leið til Eyja. Einar iðkaði löngum sund og Mullersæfingar sér til heilsubótar.

Ritstörf voru Einari hugleikin. Auk þess að halda dagbækur var hann lengi ritstjóri vikublaðsins Víðis í Vestmannaeyjum og gaf út nokkra árganga af mánaðarritinu Gamalt og nýtt. Um árabil annaðist Einar vikulegan þátt í Morgunblaðinu, Úr verinu, og flutti þar fréttir og eigin viðhorf um sjávarútvegsmál.

Einar stofnaði bókasafn árið 1943 og lánaði starfsfólki sínu bækur. Um fjögur þúsund bindi voru i safninu og voru allar nýjar íslenskar bækur voru keyptar í safnið. Bókavörður var Haraldur Guðnason. Einnig efndi Einar til námskeiða fyrir starfsfólk sitt og voru einkum kennd erlend mál og íslenska.

Fagur fiskur í sjó

Þórbergur Þórðarson, rithöfundur, skráði bernskuminningar Einars og athafnasögu til ársins 1947. Kom þessi saga út í þremur bindum. Hér á eftir fylgja nokkur brot úr 2. bindinu, Einar ríki, Fagur fiskur í sjó, þar sem segir frá upphafi athafnaferils Einars ríka:

Ég tel, að ég hafi byrjað minn atvinnurekstur 20. nóvember 1924, daginn sem ég opnaði búðina. Upp á þann dag hef ég haldið síðan sem tímamót í lífi mínu.

Um kvöldið þennan fyrsta verzlunardag minn hef ég skrifað í dagbókina: „Í gærkvöldi kom Esja með nokkuð af vörunum mínum frá Reykjavík og „Íslandið“ í morgun með varninginn frá Skotlandi. Ég hafði ætlað að opna í morgun á venjulegum búðartíma, en gat það ekki, því að ég þurfti að komast í bankann til þess að leysa út vörurnar, og bankatími hófst ekki fyrr en klukkan ellefu. Ég gat þess vegna ekki byrjað höndlunina fyrr en eftir hádegið. Ég seldi því lítið í dag.“

Ég lét mála stórt skilti, sem ég festi fyrir ofan búðardyrnar: Verzlunin Boston. Fyrsta húsið, sem faðir minn eignaðist í Eyjum, kallaði hann Boston. Nú var hætt að nefna húsið Gömlu brauðsölubúðina. Nú voru allir farnir að segja Boston, og loddi það nafn við slotið í 40 ár, en þá var það rifið. Það var líka hætt að kenna mig við Heiði. Nú hét ég Einar í Boston, og stóð svo, þangað til ég fór líka að verzla í Vöruhúsinu. Eftir það var ég kallaður Einar í Vöruhúsinu.

Haustið leið með litlum tilbreytingum. Verzlanir voru opnar frá klukkan 9 á morgnana til klukkan 7 á kvöldin og laugardaga líka. Þetta fannst mér ekki nóg. Ég sældist til að opna hálftíma fyrr á morgnana og loka hálftíma seinna á kvöldin. Fólkinu þótti þetta gott. Karlarnir komu snemma í morgunmund, skelþunnir eftir kvöldið áður og nóttina og fengu sér pilsner, og neftóbaksmaður fékk sér á baukinn, og Siggi Munda, með taumana niður munnvikin, var búinn með tóbakstöluna sína og bað mig um einn pakka af mellemskro frá Brödrene Braun. Og Oddný í Gröf, tuttugu barna móðir, hafði orðið sein fyrir að fá sér á könnuna og kom með þeim fyrstu til að ná sér í kaffipakka og rótarbréf. Um áramótin 1933 og 1934 hafði ég verzlað í tæp 10 ár. Þá hafði ég komið upp átta sölubúðum, sem fyrr greinir. Í þeim unnu þá 16 fastir starfsmenn. Það voru ekki skilyrði í Vestmannaeyjum til að færa frekar út kvíarnar á sviði verzlunar. En ef ég hefði setzt að í Reykjavík og byrjað höndlun þar, þegar ég kom úr Verzlunarskólanum, myndi ég ef til vill aldrei hafa fengizt við annað en verzlun alla mína ævi.

Verzlun í Eyjum nægði nú ekki lengur athafnasemi minni. Ég fór því að snúa mér að öðrum viðfangsefnum með verzluninni og búskapnum, en ég nytjaði túnin áfram, þó að ég væri hættur að hafa skepnur. Frystihúsið í Vöruhúsinu, sem ég byggði upphaflega til að geyma í kjöt, freistaði mín til að fara að framleiða ís. Pönnum var stungið inn á milli spírala, svokallaðra rekka, og pönnurnar síðan fylltar af vatni. Þetta var gert í frystinum. Í honum var meira frost en í öðrum klefum hússins, því að þar var fryst nýtt kjöt. Ísinn var síðan sleginn úr pönnunum, og var þetta ákaflega frumstæð aðferð. Það er eitthvað annað nú, þegar mannshöndin kemur ekki nálægt ísgerðinni og hann fellur sjálfkrafa úr vélinni í ísgeymsluna.

Næst fór ég að kaupa nýjan fisk og ísa hann til útflutnings, aðallega ýsu á vertíðinni. Ísframleiðslan í frystinum var allsendis ónóg, og sótti ég ís til viðbótar inn í Daltjörn og upp á Vilpu. Þetta var erfitt verk. Fyrst að höggva ísinn í tjörnunum, draga jakana upp úr vatninu, flytja þá heim á bílum og mala þá síðan í handknúnum kvörnum.

Útgerð

Einar keypti í árslok 1939 Garðs- og Godthåbseignirnar sem Gísli J. Johnsen hafði átt. Eignirnar höfðu staðið tómar í nokkurn tíma en stóðu á besta stað í bænum. Á grunni þessara húsa byggði Einar Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Hana rak Einar til ársins 1973. Sama ár og Einar keypti þessi hús hóf hann útgerð á bátnum Sæbjörgu VE-244, 12 tonna báti. Seinna eignaðist hann fjölda báta og skipa, ýmist einn eða í félagi við aðra.

Myndir



Heimildir

  • Haraldur Guðnason. Við Ægisdyr: Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár, I. bindi. Reykjavík, Vestmannaeyjabær, 1982.
  • Þórbergur Þórðarson. Fagur fiskur í sjó, 2. bindi. Reykjavík, 1968.