„Heimaeyjargosið“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 62: | Lína 62: | ||
== Hvað á fellið að heita? == | == Hvað á fellið að heita? == | ||
[[Mynd:Hraun06.jpg|thumb|Svona var um að litast á hrauninu í maí 1973.]] | |||
Fljótlega var farið að tala um nafn á nýja fellið og sýndist sitt hverjum. Lýst var eftir nafni í stuttri grein í Morgunblaðinu og tillögum rigndi inn, bæði í Eyjapistil og í lesendabréfum til dagblaðanna. Margir vildu nefna það Kirkjufell vegna Kirkjubæjanna, aðrir voru mun frumlegri og vildu nefna fellið Þrym, Gribbu, Bessa, Gám, Glám, Hroll, Spáfell eða Bæjarfell. Alls bárust á þriðja tug nafna. | Fljótlega var farið að tala um nafn á nýja fellið og sýndist sitt hverjum. Lýst var eftir nafni í stuttri grein í Morgunblaðinu og tillögum rigndi inn, bæði í Eyjapistil og í lesendabréfum til dagblaðanna. Margir vildu nefna það Kirkjufell vegna Kirkjubæjanna, aðrir voru mun frumlegri og vildu nefna fellið Þrym, Gribbu, Bessa, Gám, Glám, Hroll, Spáfell eða Bæjarfell. Alls bárust á þriðja tug nafna. | ||
Útgáfa síðunnar 22. ágúst 2006 kl. 14:59
Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973 og var því lýst lokið þann 3. júlí sama ár. Gosið er fyrsta eldgos sem hefst í byggð á Íslandi. Giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum er minnst þegar gosið er rifjað upp. Þó að nú á 21. öldinni rísi upp kynslóð sem ekki upplifði atburðina örlagaríku eru þeir þó greyptir í hjörtu Eyjamanna. Minningarnar lifa og munu fara frá manni til manns. Þannig hefur gosið grópað huga Eyjamanna og er eitt af því sem gerir íbúa Heimaeyjar einstaka.
Undanfari
Það voru bjartsýnir Eyjamenn sem horfðu fram á veginn við áramót 1972-1973. Hafið hafði þá verið gjafmilt og einnig kaupendur fisksins. Í nýrri og enn stærri landhelgi, þá nýstækkaðri úr 12 sjómílum í 50, höfðu Vestmannaeyingar veitt vel. Árið 1972 áttu Vestmannaeyingar 8,4% af útflutningsverðmæti landsmanna. Nóg atvinna var í plássinu og íbúar Vestmannaeyja höfðu aldrei verið fleiri, eða 5273 þann 1. des. 1972. Þetta bjartsýna fólk fór því að sofa áhyggjulaust að kvöldi mánudagsins 22. janúar 1973.
Ekki er hægt að segja að Eyjamenn hafi fengið viðvörun um eldgos daginn fyrir upphaf þess. Þegar jarðhræringarnar eru skoðaðar þá voru að vísu tvær mjög litlar jarðskjálftahrinur tvo daga fyrir gosið sem mega teljast fyrirboðar. Þessar hrinur mældust í Mýrdal og á Laugarvatni og töldu menn upptök nálægt Veiðivötnum eða við Heimaey. Mönnum fannst upptökin frekar vera við Veiðivötn, þar sem það var mun algengara. En annað kom svo í ljós. Upptökin voru á tvöfalt meira dýpi en vanalega og telja menn nú að slíkt dýpi sé fyrirboði um eldgos. Stærsti jarðskjálftinn, um 3 á Richter, mældist kl. 1:40 aðfaranótt 23. janúar. Það var 15 mínútum fyrir sjáanlegt upphaf gossins. Enginn gerði sér þó í hugarlund á þessu stigi málsins að þessar jarðhræringar hafi verið fyrirboðar eldgoss á Heimaey.
Gos hefst
Loftskeytamaðurinn Hjálmar Guðnason bað vin sinn Ólaf Gränz að koma í miðnæturgöngutúr rétt áður en gosið hófst. Löbbuðu þeir félagar vanalegan rúnt, með bryggjunni, ströndinni, í átt að Kirkjubæ og svo upp á Helgafell. Hin tilkomumesta sýn birtist þeim þegar þeir skoðuðu bæinn á toppi Helgafells. Jörðin hreinlega opnaðist og eldtungur hennar skutust upp á yfirborðið. Á sama tíma var hringt í lögregluna og henni tilkynnt að jarðeldur væri kominn upp austan Kirkjubæjar. Vantrúuð lögreglan fór á stjá og sá strax hvað var í gangi. Gos var þá hafið á 1600 metra langri sprungu og magnaðist mjög á fyrstu mínútunum. Fólk var þá vaknað í austurbænum og byrjað að vekja nágranna. Var þá kveikt á brunalúðrum og á innan við klukkutíma frá upphafi gossins var bærinn vaknaður og streymdi fólkið niður á bryggju. Flestum ber saman um að upphaf gossins hafi verið þegar klukkuna vantaði um fimm mínútur í tvö.
Flestir bæjarbúar voru sofandi á þessum tíma en Hjálmar Guðnason og Ólafur Gränz voru eins og áður segir í miðnæturgöngu. Þeir voru því með þeim fyrstu sem sáu eldinn. Í fyrstu töldu þeir að eldur hefði komið upp í austustu húsunum í bænum, en þegar þeir höfðu áttað sig á því hvað þarna var að gerast, sneru þeir við og hlupu heim til að vekja konur sínar og börn.
Guðjón Ármann Eyjólfsson lýsir fyrstu gosnóttinni mjög ítarlega í bók sinni Vestmannaeyjar byggð og eldgos. Þar er einnig farið í sögur margra annarra af gosinu, en örvilnun fólks, skelfing og hugrekki kemur fram vel í mörgum frásögnunum.
Meðal frásagna í bók Guðjóns frá fyrstu gosnóttinni er frásögn Kristjáns Kristóferssonar og Þóru Valdimarsdóttur á Kirkjubóli. Þóra segir svo frá: „Ég var háttuð, en ekki sofnuð, seint um kvöldið. Ég vissi ekki hvað klukkan var. Þá verð ég allt í einu vör við ansi mikinn kipp, jarðskjálftakipp. Ég hentist fram úr rúminu og kveikti ljósið og lít á klukkuna. Þá er klukkan tíu mínútur gengin í tvö. Það var mitt fyrsta verk að fara niður í kjallara til að vita hvort þetta sé í „fýrnum“, af því að alltaf er maður hræddur um miðstöðina. En þegar ég ætla að opna eldhúshurðina, sem liggur að stiganum niður í kjallara, þá finn ég strax, að eitthvað er að. Hurðin er orðin skekkt í og ég má taka fast í til þess að geta opnað hurðina. Þá bregður mér svolítið. Ég fór samt niður stigann og sé, að allt er í lagi með miðstöðina og fer upp. En mér líkar ekki þessi titringur á ofnunum. Það er þessi eilífi nötringur og einkennilegheit í „fýrnum“ og ég fer niður aftur.“ Kristján maður hennar segist þá vakna og fara niður og athuga með miðstöðina. „Ég heyrði nú eitthvað undarlegt hljóð sem ég kannaðist ekki við. Mér fannst hljóðið vera í ofnunum, eitthvað titringshljóð. Ég fer síðan norður í verkstæðisherbergi sem var við hliðina á miðstöðvarherberginu en heyri ekkert þar. Slekk ég síðan á „fýrnum“ og geng upp. Þetta heldur samt áfram og mér dettur nú í hug Katla. Geng að norðurglugganum og dreg frá honum, en þaðan er ekkert skyggni austur og norður til landsins, svo að ég fer aftur inn í kokkhúsið og dreg frá eldhúsglugganum að sunnan en þar er ekkert að sjá. Þá fer ég aftur inn í rúm. Þegar ég er rétt lagstur í rúmið heyrist mér fara þungavinnuvél eftir götunni, svo að ég fer enn fram úr og ætla að athuga hvað sé á ferð eftir götunni. Það skiptir ekki mörgum mínútum; sem ég stend þarna við gluggann og þar til hljóðið er orðið líkast og í þotu; svo hækkar hljóðið all verulega og þá kemur fyrsti neistinn upp. Klukkan hefur þá verið svona um hálf tvö. Ég kallaði í Þóru, en fyrstu sekúndurnar var þetta ekki svo mikið að sjá og við horfðum á þetta hjónin. Þetta var svona eins og þegar búið er að kveikja á góðum bletti í sinu, og þetta stóð yfir augnablik.“
Gosannáll
Margir héldu dagbækur í gosinu og fylgdust náið með gangi mála. Bæði er framgangur hraunsins skráður sem og eyðileggingin. Hægt er að skoðan þennan ítarlega gosannál.
Björgunaraðgerðir á fólki og munum
Bæjarbúar söfnuðust fljótt og vel niður á bryggju. Mikið þakkarefni er veðrið sem hafði verið daginn fyrir gosið. Þá höfðu allir bátar komið í land vegna óveðurs en veðrið hafði skánað til muna með kvöldinu. Loftskeytastöðin hafði kallað út hið alþjóðlega neyðarkall "may-day" og tilkynnt að byrjað væri að gjósa í bænum. Bátar, sem voru að veiðum í nágrenni eyjanna, hættu þegar og héldu þangað til að ná í fólk og hjálpa til.
Fyrsti báturinn lagði af stað með fólk um kl. hálf þrjú, aðeins um hálftíma eftir upphaf eldgossins. Af því má sjá að þrátt fyrir að gosið hefði verið óvænt voru menn í viðbragðsstöðu. Bátarnir tóku frá 50 manns og upp í 400. Sjóferðin var ekki skemmtileg. Vont var í sjóinn og ofan á sjóveiki og vanlíðan, bættust áhyggjur um framtíð bæjarins, ættingja og vina, húsa og lífsviðurværis. Björgunaraðgerðir fóru þó almennt vel fram og undir morgun komu bátar til Þorlákshafnar þar sem tekið var á móti flóttafólkinu. Langflestir voru fluttir með skipum en nokkur hundruð manns með flugvélum. Þeir sem fóru með flugvélunum voru þó aðallega eldri borgarar og sjúklingar. Allur tiltækur flugfloti, jafnt stórar og smáar vélar, fór strax um nóttina frá Reykjavík. Að morgni fyrsta gosdags var búið að flytja alla íbúa eyjunnar upp á meginlandið, að undanskildum 200-300 manns sem urðu eftir til að sinna þeim verkum sem þurfti að vinna.
Strax og ljóst var að björgunaraðgerðir á fólki höfðu heppnast sem skyldi var hafist handa við að bjarga því sem var hægt að bjarga af eignum fólks. Hafist var handa í austurbænum, þeim hluta sem stóð næst eldsupptökum. Hjólin tóku að snúast eftir nokkra daga. Björgunarsveitir komu ofan af landi og fljótt varð til samfélag. Samfélag þar sem flestir unnu kauplaust, fengu einungis mat og húsaskjól í laun og ekkert var öruggt varðandi starfsumhverfi. Sjálfboðaliðar úr trésmiðafélögum í Reykjavík negldu fyrir glugga sem sneru að eldgosinu. Nokkur hús féllu saman vegna gjalls á þökum og því fóru trésmiðirnir einnig í að styrkja húsþök, á meðan stúdentar ruddu gjalli af þökunum. Nóg var að gera og var mikið álag á lúnu hjálparfólki. Heilu búslóðirnar voru fluttar upp á land eða komið í örugga geymslu. Bílaeign Vestmannaeyinga var mikil og hátt í þúsund bílum var komið upp á land. Með ótrúlegu þrekvirki náðist að koma í veg fyrir milljarðatjón á eignum bæjarbúa.
Nýbyggða sjúkrahúsið var á þessum tíma með flatt þak, og var jarðýtu komið fyrir ofan á þakinu til þess að moka gjalli ofan af því svo að það myndi síður leggjast saman. Austan til á sjúkrahúsinu var hægt að keyra bílum alveg upp á þakið á gjallinu, en byggingin er um þrjár hæðir. Svipaða sögu er að segja af mörgum öðrum húsum, en unnið var við að sópa gjallinu af húsunum eins og best var unnt, til þess að minnka skemmdirnar.
Sum hús sem fóru ekki undir hraun urðu samt eldi að bráð, þar sem hraunbombur lentu á þeim og kveiktu í. Önnur hús grófust alveg undir gjall, til dæmis húsin á Suðurvegi, og var talið ógjörningur að grafa flest þeirra upp.
Af hálfu hins opinbera var strax hafist handa við að gera ráðstafanir vegna hamfaranna. Ríkisstjórnin kom saman og ályktaði um björgunarstarf og gæslu eigna í Vestmannaeyjum í samráði við Bæjarstjórn Vestmannaeyja. Rauði Krossinn skyldi annast veglaust fólk og var skipuð nefnd þriggja ráðuneytisstjóra til að vinna með Rauða Krossinum að lausn mála. Ríkisstjórnin skipaði sérstaka Vestmannaeyjanefnd sem skyldi aðstoða Bæjarstjórn Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga í þeim vanda sem að steðjaði.
Nefndin kom til fundar með Bæjarstjórn Vestmannaeyja í Eyjum á skrifstofum bæjarsjóðs fimmtudaginn 25. janúar. Um leið og Alþingi kom saman þann sama dag tók þingið til meðferðar þau vandamál sem urðu við náttúruhamfarirnar. Rædd voru þau áhrif sem eldgosið myndi hafa á hag þjóðarbúsins og hvaða úrræðum ætti að beita til aðstoðar og síðar uppbyggingar í Vestmannaeyjum.
Ávarp Biskups Íslands og Forseta Íslands
Aðalgrein:Ávörp
Daginn sem eldgosið hófst ávarpaði Forseti Íslands, herra Kristján Eldjárn þjóðina sem og Biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson.
Gosið
Öfugt við bjartsýni Eyjamanna í byrjun ársins 1973 voru jarðfræðingar ekki bjartsýnir varðandi hið nýja eldgos. Fyrstu dagana var gosið dæmigert sprungugos. Sprungurnar voru 1600 metra langar og röðuðu 30-40 gígar sér þar. Í gosinu sáust hraunflygsur þeytast upp í 600 metra hæð og hraunkúlur flugu að minnsta kosti 2500 metra upp í loftið. Stundum rigndi glóandi hraunflygsum í svo miklu magni og svo títt á ytri veggi eldfjallsins að ýmsir héldu að um hraunstrauma væri að ræða. Hraunkvikan leitaði út í sjó og kom það sér vel fyrir byggðina og innsiglinguna. En það var aðeins fyrstu dagana. Ekki leist mönnum á blikuna í byrjun febrúar þegar neðansjávarsprunga opnaðist við hafnarmynnið. Frá 4.-20. febrúar var höfninni lokað og umferð bönnuð. Höfnin lokaðist þó ekki en hraunstraumurinn reyndi aftur á taugar manna með straumi í hafnarmynnið frá 9. mars. Þá hafði hraunkælingin sitt að segja.
Í lok febrúar safnaðist hraun saman norðan við gígmynnið. Varnargarðar höfðu verið byggðir til varnar bænum og höfninni. Hraunið tók að streyma í tungu frá gígmynninu og ógnaði varnargörðunum. Ekki var hægt að dæla á hrauntunguna sökum þess að vegalengdin frá sjó var of mikil. Þess vegna gerðist það aðfaranótt 18. mars að varnargarðurinn brast með þeim afleiðingum að 10 hús fóru undir. Næstu daga fóru enn fleiri hús undir hraun. Verst var áhlaup 300 metra breiðrar tungu fimmtudagskvöldið 22. mars sem fór yfir 70 hús og stöðvaðist niðri á Heimagötu. Ótrúlegt fyrirbæri varð til í marsmánuði, Flakkarinn. Þetta fyrirbæri, risavaxinn hraunklettur, brotnaði úr eldkeilunni og flaut ofan á hrauninu í átt að höfninni. Flakkarinn, svokallaði, stoppaði áður en hann olli alltof miklum usla.
Eyjaskeggjar á föstu landi
Strax fyrstu gosnóttina hófst mikil skipulagning á því hvernig fólksflutningunum skyldi háttað. Einhvers staðar þurfti að koma rúmlega 5.000 manns fyrir upp á landi. Á þessum tíma voru Vestmannaeyingar 2,5% landsmanna og því mikið verkefni fyrir höndum að koma börnum í skóla, fólki í vinnu og finna húsnæði fyrir fjölskyldur. Viðlagasjóður og ríkisstjórnin sáu til þess að Vestmannaeyingar fengu allt það nauðsynlegasta. Ýmis félagasamtök hjálpuðu til og gáfu t.d. Aðventistar þeim sem þurftu fatnað. Samhugur og samúð landsmanna var hjá Eyjamönnum. Rauði krossinn átti mikinn þátt í hjálparstarfinu og hjálpaði Eyjamönnum að koma sér fyrir á fastalandinu. Fljótlega bárust rausnarleg hjálparframlög í ýmsum myndum víðs vegar að úr heiminum. Erlendar ríkisstjórnir gáfu peninga og fjársafnanir voru í Noregi og Færeyjum. Frá Norðurlöndum og Kanada voru keypt 550 tilbúin hús og þeim komið fyrir víðs vegar um land, þó einkum suðvestanlands.
Eyjabúar voru mjög þakklátir fyrir þær móttökur sem þeir fengu þessa nótt á meginlandinu. Þeir voru fljótir að koma sér fyrir og gera sig gagnlega í nýjum störfum og lifnaðarháttum á meðan þeir biðu milli vonar og ótta eftir að vita hvort þeim yrði nokkurn tíma fært að snúa heim. Flestir tóku þessum flóttamönnum mjög vel, en þó var Eyjamönnum ekki alls staðar vel tekið, og hafa margir Eyjamenn sögur af því að hafa fengið viðurnefni á borð við „þurfalingar“, sökum þeirrar bágu aðstöðu sem þeir fundu sig í.
Þrátt fyrir gríðarlegan velvilja og umfangsmiklar fjársafnanir voru húsnæðismál erfið viðfangs. Þau þokuðust hægt áfram, en jafnframt hækkaði húsaleiga á Stór- Reykjavíkursvæðinu á sama tíma. Það reyndist erfitt fyrir Eyjamenn að fá lán til þess að tryggja sér íbúðir. Allar dyr voru lokaðar einstaklingum og samtökum húseigenda í Vestmannaeyjum. Aðrir en Vestmannaeyingar gátu aftur á móti fengið lán til að ljúka við og fullgera íbúðir með því skilyrði að þeir leigðu Eyjamönnum íbúðina.
Viðlagasjóður
Aðalgrein:Viðlagasjóður
Viðlagasjóður var stofnun sem var stofnsett stuttu eftir upphaf eldgossins. Hlutverk sjóðsins var að tryggja hag Vestmannaeyinga, m.a. með fjárstuðningi vegna tekjumissis og eignatjóns. Viðlagasjóður hafði ýmis hlutverk og var Vestmannaeyingum ómetanleg hjálp á þessum erfiðu tímum.
Hvað á fellið að heita?
Fljótlega var farið að tala um nafn á nýja fellið og sýndist sitt hverjum. Lýst var eftir nafni í stuttri grein í Morgunblaðinu og tillögum rigndi inn, bæði í Eyjapistil og í lesendabréfum til dagblaðanna. Margir vildu nefna það Kirkjufell vegna Kirkjubæjanna, aðrir voru mun frumlegri og vildu nefna fellið Þrym, Gribbu, Bessa, Gám, Glám, Hroll, Spáfell eða Bæjarfell. Alls bárust á þriðja tug nafna.
Niðurstaða Örnefnanefndar var tilkynnt 24. apríl 1973. Hið nýja eldfjall skyldi heita Eldfell. Ekki voru allir sáttir við það nafn. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur skrifaði Magnúsi Magnússyni bæjarstjóra bréf 23. janúar 1974 vegna misskilnings sem hafði komið fram í útvarpsþætti þá um daginn.
Einn bæjarstjórnarmanna hafði fullyrt að Sigurður væri í Örnefnanefnd og þar með meðábyrgur um það ómyndarlega og rislága nafn Eldfell. „... Eldfell þýðir jú ekkert annað en vulkan, eldfjall og mér fannst óþarft að upplýsa Vestmannaeyinga um það að þetta væri eldfjall.“ Sjálfur aðhylltist bæjarstjórnarmaðurinn nafnið Kirkjufell. Honum fannst það látlaust og eðlilegt og sögulega rétt og fara vel við Helgafell, það fjall sem raunverulega bjargaði bænum með því að varna því að sprungan lenti beint á hann.
Goslok
Í lok apríl fór eyjan að grænka. Þrátt fyrir gjall og sót kom lundinn og hreinsaði holur sínar. Suðurhluti eyjunnar hafði sloppið ágætlega og því var hann fljótur að grænka. Bjartsýni á goslok dafnaði. Virkni eldgíga var minni í maí og í júní mældist ekkert hraunrennsli frá gígnum. Því voru þessir mánuðir notaðir í hreinsunarstarf. Götur voru mokaðar og grasfræi sáð í jarðveginn. Aðstæður voru ekki góðar í byrjun uppgræðslunnar en með sumrinu náðist góð uppgræðsla. Síðasta goshrinan stóð yfir í aðeins nokkrar mínútur þann 26. júní. Almannavarnanefnd tilkynnti þann 3. júlí að gosinu væri lokið með eftirfarandi tilkynningu; „Að mati sérfræðinga og vísindamanna er það staðreynd, að gígurinn er lokaður og gosvirkni í fellinu hætt. Þar sem ekki er hins vegar enn laust við gasmengun í miðhluta bæjarins, einkanlega á svæði vestur af Heiðarvegi, upp að Hásteinsvegi, Hvítingavegi og Birkihlíð, eru því þeir, sem hug hafa á að setjast að á umræddu svæði, beðnir að hafa samband við Almannavarnanefnd Vestmannaeyja í síma 99-6911 eða 99-6912 og fá þar upplýsingar um ástand með tilliti til gasmengunar. Nefndin vill jafnframt ítreka að foreldrar láti ekki börn sín vera fylgdarlaus á umræddu svæði.“
Í kjölfarið hófst skipulagt hreinsunarstarf í Vestmannaeyjum af fullum krafti. Gekk það starf framar vonum og í lok ágúst var búið að hreinsa meirihluta bæjarins af ösku. Um miðjan september var áætlað að um 800 þúsund smálestum hefði verið ekið af götum Vestmannaeyjabæjar.
Stærð Heimaeyjar fyrir og eftir gos
Fyrir eldgosið í Heimaey var eyjan um 11,2 km2. Strax eftir gos mældist eyjan um 13.44 km2, en síðan hefur hún minnkað eitthvað vegna rofs.
Mesta lengd Heimaeyjar er frá NNA til SSV, það er frá Ystakletti til Stórhöfða. Fyrir gos var vegalengdin á milli þessara staða um 6,98 km og breyttist hún ekki í eldgosinu 1973. Mesta breidd frá austri til vesturs er reyndar frá VNV til ASA og er 4,1 km.
Ef hins vegar er mælt frá hánorðri til hásuðurs og hávestri til háausturs verður niðurstaðan aðeins önnur. Frá norðri til suðurs teygir Heimaey sig um 6,6 km og sú vegalengd breyttist ekki í gosinu 1973. Frá vestri til austurs var vegalengdin 3,5 km fyrir gos en eyjan breikkaði aðeins og var eftir gos 4,6 km.
Lífið eftir gos
Margir af íbúum Vestmannaeyja ætluðu að koma heim strax daginn eftir upphaf gossins. Morgunblaðið greindi frá því þann 26. janúar að gosið væri í rénun og Eyjamenn gætu komist fljótt heim. Þetta gaf mönnum von um að komast fljótt heim. Eflaust hafa margir misst vonina eftir því sem lengra leið á gosið og settust því að uppi á landi.
Flutningur fjölskyldna til Vestmannaeyja hófst fyrir alvöru í ágúst. Um miðjan september var búið að flytja um 1200 bæjarbúa til Eyja og í nóvember 1973 höfðu rúmlega 2000 manns snúið til baka. Þeirra sem sneru til baka beið mikil og erfið vinna. Af 1350 húsum bæjarins, fóru 417 eignir undir hraun og aðrar 400 skemmdust að einhverju eða miklu leyti. Menn voru yfirleitt bjartsýnir á framtíðina og hófu uppbyggingu fljótt og örugglega. Margar fjölskyldur og einstaklingar fluttu ekki til baka. Ástæður þess voru margar, t.d. treysti fólk sér ekki til að flytja aftur þar sem hús þeirra voru komin undir hraun eða það fékk góða atvinnu og húsnæði á meginlandinu. Þann 6. september var svo aftur kveikt á götuljósunum í Eyjum.
Það voru þó einhverjir jákvæðir hlutir fyrir bæjarfélagið sem fylgdu þessum náttúruhamförum. Fyrir gos hafði uppfyllingarefni verið stórt vandamál. Hvergi var efni að fá og þurfti mikið jarðrask til þess að útvega efni. Í gosinu kom upp nægilegt uppfyllingarefni fyrir allar framkvæmdir. Heimaey stækkaði um 2,2 km² í eldgosinu og býður þessi viðbót upp á óteljandi möguleika varðandi framkvæmdir, ferðamennsku og útivist. Hraunið gerði innsiglingu í höfnina enn betri og lokaði á suðaustan-vindinn sem vildi herja á höfnina. Hraunið sem menn héldu að myndi eyðileggja höfnina gerði hana að einni allra bestu höfn á landinu.
Sterk bönd binda Eyjamenn við Heimaey. Eldgosið á Heimaey gerði Vestmannaeyinga að enn meiri Vestmannaeyingum. Samhugurinn sem var á meðal Eyjamanna í gosinu gleymist seint og bindur enn íbúana böndum, jafnvel þá sem fæddir eru eftir gos.
Vikurfok
Í meira en áratug eftir gosið var vikurfok mjög alvarlegt vandamál, sérstaklega í austustu hverfunum. Rúður rispuðust og eyðilögðust, stundum brotnuðu þær hreinlega, lakk á bílum skemmdist og oft þurfti fólk að eyða mörgum tímum í að moka vikri úr innkeyrslunum hjá sér eftir minniháttar veður. Með tíð og tíma hreinsaðist flest lauslegt af hrauninu og jarðvegurinn varð þéttari og bundnari, þá sérstaklega eftir að Eldfell var grætt að einhverju leyti. Í dag er moldrok frá Landeyjum mönnum meira áhyggjuefni en vikurfok sem ekki angrar menn mikið.
Hraunhitaveitan
Eftir að flest kurl voru komin til grafar fóru menn að velta fyrir sér nýjum leiðum til þess að nýta sér þá orku sem leyndist í nýja hrauninu. Stórt svæði á miðju hrauninu var flatt út og holur þar boraðar og vatn leitt þar ofan í til þess að hita hús. Þetta var kallað Hraunhitaveitan.
Ég lifi
Ég lifi eru þættir sem gerðir voru árið 2003 um Vestmannaeyjagosið 1973. Þeir byggja á einstökum, persónulegum og tilfinningaríkum viðtölum við Vestmannaeyinga sem og við þá sem að hjálpar- og björgunarstarfinu stóðu. Ég lifi er saga fólksins sem upplifði þessa hræðilegu nótt, flóttann upp á land, baráttuna við náttúruöflin og goslokin.
Uppgröftur á húsum
Aðalgrein:Pompei Norðursins
Árið 2005, 32 árum eftir lok gossins, hófst uppgröftur á húsum við Suðurveg sem grófust undir vikri. Uppgröfturinn ber heitið Pompei Norðursins.
Heimildir
- Aðalsteinn Eiríksson. Heimaeyjargosið 1973. Námsgagnastofnun, 1981.
- Árni Gunnarsson. Eldgos í Eyjum. Reykjavík: Iceland Review, 1973.
- Ég lifi. Þættir um Vestmannaeyjagosið 1973. Stöð 2 og Storm.
- Guðjón Ármann Eyjólfsson. Vestmannaeyjar - byggð og eldgos. Reykjavík: Ísafoldaprentsmiðja, 1973.
- Haraldur Guðnason. Við Ægisdyr: Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár, I. bindi. Reykjavík: Vestmannaeyjabær, 1982.
- Morgunblaðið 60. árg. 1973. 23.-26. janúar.
- Vísindavefur Háskóla Íslands
- Þorleifur Einarsson. Gosið í Heimaey í máli og myndum. Reykjavík: Heimskringla, 1974.