Heimaeyjargosið:Gosannáll
Fara í flakk
Fara í leit
Hér gefur að líta dagsetningar helstu atburða í Heimaeyjargosinu 1973.
Gosannáll
- 22. janúar: Þennan dag var illviðri með tólf vindstigum. Allur skipafloti Vestmannaeyinga var í höfn. Um kvöldið lægir svo og gerir hið besta veður. Svolitlir jarðskjálftar finnast en ekkert sem hægt hefði verið að túlka á stórtíðindi.
- 23. janúar: Eftir jarðskjálftakippi hefst eldgos í Heimaey kl. 1:40 um nóttina. Allir íbúar fluttir á brott utan 250-300 manns.
- 24. janúar: Eldur í Kirkjubæ. Logandi hnullungar kveikja í húsum. Mikið gos og sprengingar. Gosmökkur í 8-9 km hæð.
- 25. janúar: Ýmis konar starfsemi fyrir Eyjafólk í Hafnarbúðum á Höfuðborgarsvæðinu. Erfitt að fá leyfi til Eyjaferða, aðeins vísindamenn og ljósmyndarar fá landgöngu. Vindáttin snýst, mörg hús grafast og kviknar í sumum.
- 26. janúar: 17 hús brenna. Vélbátar í Eyjum í stöðugum búslóðaflutningum milli Eyja og Þorlákshafnar. Gaus í Stakkabót og gossprungan þá 3 km löng.
- 27. janúar: 20 hús brunnin. 70 hús undir ösku og vikri. Hiti í höfninni um 15 gráður.
- 30. janúar: Búið að tæma nær öll hús austan Skólavegar. 150 hús brunnin og sokkin. Vont veður þegar vinnuflokkar moka vikur af húsþökum, negla fyrir glugga og bjarga eignunum. Nýtt eldfjall greinilega orðið til og hefur þegar náð 180 m hæð.
- 31. janúar: Öll stjórnsýsla flutt til Reykjavíkur. Búið að negla fyrir glugga 900 húsa. Rúmlega 11 hús kominn á kaf
- 1. febrúar: Talið að þurfi allt að þúsund manns til að moka af húsþökum í Eyjum. 500 manna vinnuflokkur kemur til starfa. Eyjabátarnir koma með afla í aðrar hafnir á landinu.
- 3. febrúar: Fiskimjölsverksmiðjan byrjar móttöku á loðnu til vinnslu.
- 4. febrúar: Karl Sigurbjörnsson vígður sóknarprestur til Vestmannaeyjasóknar og nefndur eldklerkur. Einkennilegar aðstæður fyrir nývígðan prest. Mötuneyti í Ísfélaginu fyrir 1000 manns. Hraun fer að renna í innsiglinguna af miklum krafti en dró úr því 9. febrúar.
- 5. febrúar: Lokað fyrir 14 þúsund glugga og mokað af um þúsund þökum.
- 6. febrúar: Háspennulínan til Eyja slitnaði og önnur vatnsleiðslan rofnaði. Reynt að byggja varnargarða og tilraunir hefjast með hraunkælingu.
- 7. febrúar: Lög nr. 4 um neyðarástand vegna jarðelda á Heimaey samþykkt á Alþingi. Rafstrengur frá meginlandinu slitnar og rafveita Vestmannaeyja tekur við að framleiða rafmagn með díselvélum. Önnur vatnsleiðslan fer í sundur. Aðeins eru 200 metrar frá hraunjaðrinum til Heimakletts.
- 8. febrúar: Skólabörn úr Eyjum nú á 36 stöðum á landinu.
- 9. febrúar: Heimaey hefur stækkað um 2 ferkílómetra.
- 10. febrúar: Gagnfræðaskóli Vestmannaeyja tekinn til starfa í Laugalækjarskóla.
- 14. febrúar: Þorrablót í Samkomuhúsinu, 500 blótuðu Þorra. Gas gerir mönnum lífið leitt.
- 15. febrúar: Eitrað gas tekur að streyma frá eldstreyminu yfir bæinn og safnast í kjöllurum.
- 16. febrúar: Þak bókasafnshússins féll vegna vikurþunga. Bækur fluttar í Gagnfræðaskólann. Frostskemmdir í 10. hverju húsi.
- 17. febrúar: Flutningar hefjast með Hercules flugvélum. Lögreglan flýr lögreglustöðina. Mikil gashætta.
- 20. febrúar: Bærinn í stórhættu. Eldfellið hefur skriðið niður í bæinn.
- 21. febrúar: Miklum varnarvegg komið fyrir til varnar bænum. Hraunið komið hálfa leið til Bjarnareyjar.
- 24. febrúar: 64 hús hurfu á 8 klukkustundum. Birgðir og atvinnutæki flutt úr verslunum
- 25. febrúar: Hraunrennslið stöðvast í bili. Loðnu landað úr 6 bátum.
- 27. febrúar: 400 hús talin eyðilögð eða skemmd. Á sjötta hundrað Eyjamenn hafa sótt um að búa í innfluttu Viðlagasjóðshúsunum. 492 manns eru í Eyjum.
- 2. mars: Um 300 metrar ruddir út á nýja hraunið, á köflum glóandi, til þess að koma þangað vatnsleiðslum til hraunkælingar. Kaupfélagið opnar sölubúð á Hólagötu.
- 8. mars: Hraun hefur runnið að Skansi og Grænuhlíð. Flakkarinn ferðast um 200 metra á dag og er 370 metra frá hraunkantinum. Öskufall er í Landeyjum.
- 13. mars: Hraunið rennur nú mest í suðaustur hjá Flugnatanga. Hraunkanturinn víða 30-40 m hár. Dæluskipið Hákur fengið til að dæla sjó á hraunið.
- 15. mars: Gasmengun hefur aukist og er mest í Dauðadalnum. 425 manns í Eyjum.
- 21. mars: Hin vatnsleiðslan talin vera að gefa sig. Eyjamenn sækja vatn í brunna. Gasmengun minnkandi.
- 22. mars: Hrauntunga, 150 m breið, rennur á bæinn norðvestanverðan og stöðvast við Heimagötu.
- 23. mars: Hraun rann með miklum látum vestur að Heimagötu og kveikti hitinn í húsum. 70 hús hurfu undir hraunið á fáum klukkustundum.
- 26. mars: Hraun fer enn að renna og 30 hús fara undir hraun. Vatnsleiðslan komin í sundur. Rafstöðvarhúsið farið undir hraun. Mörg gömul og merk hús fara undir hraun, t.d Brydeshús, sundlaugin, Godthåb, bankahúsið gamla og verslun Haralds Eiríkssonar. Gaseitrun hættulega mikil.
- 27. mars: Reglugerð um Viðlagasjóð, nr. 62, kom út í dag. 270 hús farin í hraun og vikur.
- 28. mars: Hraun rann niður Formannabraut, bókasafnshúsið undir hraun sl. nótt. Stórvirkar véldælur frá Bandaríkjunum koma.
- 29. mars: Vonskuveður með 7-8 stiga frosti og byl. 30 skip leita hafnar. Hraunið komið inn í Fiskiðju og Ísfélag.
- 30. mars: Stórt fiskhús í eigu Ísfélagsins í rúst. Háþrýstidælur og vatnsmagn aukið um 50%. Hraun virðist vera að stöðvast niður undir bryggju.
- 2. apríl: Lítil breyting á gosinu. Dælt af krafti á hraunið.
- 4. apríl: Um hádegi gaus kolsvörtum öskumekki. Harðinn í hrauntröðinni minnkar.
- 5. apríl: Hraunrennsli ekkert og engin gosmengun.
- 6. apríl: Sóleyjargata hreinsuð, grafið 4-5 m niður á tvö hús og var annað nánast óskemmt. Gosvakt austur á hrauni.
- 11.-16. apríl: Tvær götur hreinsaðar Heiðarvegur og Fjólugata. Dælt á hraunið af krafti. Hraun rennur neðansjávar við innsiglinguna. Lundinn sést fyrst 13. apríl.
- 17.-23. apríl: Litlar breytingar á hraunrennsli. Öðru hverju há öskugos. Fiskimjölsverksmiðjan bræddi loðnu.
- 24. apríl: Hraun rann með 60 m hraða í þröngum farvegi austur, hægði svo á sér.
- 25. apríl: Mikill hiti í húsum við Kirkjubæjarbraut, viður svíður og málning flettist af. Einhverjir hafa sett niður kartöflur.
- 30. apríl: Engar sérlegar breytingar á gosinu , sem er oftast kraftlítið.
- 1. maí: Hátíðarhöld. Sigurður Guðmundsson flutti ræðu, knattspyrnuleikur háður og kvikmyndir sýndir. Sjö menn hafa sótt um byggingarlóðir í Eyjum.
- 5. maí: Stjórn Viðlagasjóðs samþykkir að hefja hreinsun af krafti. Vinna á 10 klst. vöktum. Skal vera lokið um áramót. 226 skráðir hér.
- 23. maí: Bæjarráð samþykkir að Félagsheimilið verði notað sem tómstundaheimili þeirra sem eru við störf í Eyjum.
- 26. maí: Sjór kraumar og vísbendingar um neðansjávargos inn við Ál.
- 1. júní: Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn í Eyjum eftir gos. Línurnar lagðar um uppbyggingu og hreinsun.
- 5. júní: Almannavarnarnefnd tilkynnir að þeir sem áttu lögheimili í Eyjum 23. janúar megi fara þangað frjálsir ferða.
- 3. júlí: Almannavarnarnefnd Vestmannaeyja tilkynnir að gosið sé hætt að áliti sérfræðinga. Fjölskyldur koma heim og uppbygging samfélagsins hefst.