„Sigurður Guttormsson (Sólnesi)“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
m (Verndaði „Sigurður Guttormsson“ ([Breyta=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn) [Færa=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn)))
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 10. október 2019 kl. 20:34

Sigurður Guttormsson frá Hamragerði í Eiðaþinghá á Fljótsdalshéraði, bankamaður fæddist þar 15. ágúst 1906 og lést 10. febrúar 1998 á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi.
Foreldrar hans voru Guttormur Árnason bóndi, f. 2. febrúar 1865, d. 24. apríl 1909, og kona hans Anna Sigríður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 9. október 1867, d. 12. júlí 1920.

Sigurður missti föður sinn, er hann var á þriðja árinu.
Sigríður móðir hans var með börnin í húsmennsku á nokkrum bæjum á Héraði, en fluttist 1911 með þau á Seyðisfjörð og var ráðskona þar í sjóbúð Friðriks Wathne.
Sigurður fluttist til Eyja alkominn 1921, bjó hjá Sigurbjörgu móðursystur sinni og Árna Gíslasyni í Frydendal, hjá Ísleifi Högnasyni og Helgu Rafnsdóttur á Helgafellsbraut 19, ,,Bolsastöðum“ 1927.
Hann vann verkamannavinnu hjá Kaupfélaginu Bjarma, en hóf störf hjá Íslandsbankanum í Eyjum 1923. Sá banki fór í þrot og hætti störfum 1930, en nýr banki, Útvegsbankinn, hóf rekstur nokkrum mánuðum síðar. Hjá þeirri stofnun starfaði Sigurður óslitið meðan starfsaldur leyfði, fyrst í Vestmannaeyjum og síðar í Reykjavík.
Þegar Viggó Björnsson bankastjóri lést var Sigurður settur bankastjóri í nokkra mánuði. Hann vann við Sparebanken í Kaupmannahöfn 1947-1949, en þá fluttist hann heim og bjó í Sólnesi á því ári, en fluttist til Reykjavíkur og starfaði þar við Útvegsbankann.
Eftir starfslok í bankanum vann hann á skrifstofu Hafskipa um árabil.
Sigurður var bæjarfulltrúi fyrir Sósíalistaflokkinn í Eyjum um skeið og ritstýrði Eyjablaðinu.
Hann starfaði með skátum í Eyjum, var í íþróttafélaginu Mjölni, sem seinna gekk í íþróttafélagið Þór, og hinn 6. desember 1926 stofnaði hann með níu öðrum félagið AKÓGES í Vestmannaeyjum. Hann orti fjölda ljóða.
Þau Sigríður Margrét giftu sig 1930, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu í fyrstu í Skálholti við Urðaveg, en vorið 1934 keyptu þau húsið Sólnes af Thomas Thomsen vélfræðingi og bjuggu þar.
Þau Sigríður bjuggu í Reykjavík til ársins 1996, er þau fluttu að Selfossi og bjuggu þar að síðustu.

I. Kona Sigurðar, (1. nóvember 1930), var Sigríður Margrét Gísladóttir frá Skálholti-yngra, húsfreyja, f. 5. febrúar 1912 í Skálholti-eldra við Landagötu, d. 20. maí 2010.
Barn þeirra:
1. Gísli Sigurðsson frá Sólnesi, kennari, f. 23. nóvember 1932 í Skálholti við Urðaveg.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 5. mars 1998. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.