„Blik 1973/Guðfinnur Jónsson frá Urriðavatni“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 9: Lína 9:
<br>
<br>
<br>
<br>
[[Mynd: Guðfinnur Jónsson.jpg|thumb|350px|''Guðfinnur Jónsson.'']]
[[Mynd: Guðfinnur Jónsson.jpg|thumb|400px|''Guðfinnur Jónsson.'']]
Að þessu sinni óska ég að Blik geymi nokkur orð um mætan verkamann, sem hefur lifað hér og starfað undanfarna tvo áratugi og vel það. Hann á rætur sínar að rekja austur á Hérað, er sveitamaður íslenzkur í húð og hár, og á ég þá við það bezta, sem þar leynist undir yfirborðinu. Þessi samþegn okkar er Guðfinnur Jónsson frá Urriðavatni í Fellum, til heimilis hér að [[Vestmannabraut]] 63 B. <br>
Að þessu sinni óska ég að Blik geymi nokkur orð um mætan verkamann, sem hefur lifað hér og starfað undanfarna tvo áratugi og vel það. Hann á rætur sínar að rekja austur á Hérað, er sveitamaður íslenzkur í húð og hár, og á ég þá við það bezta, sem þar leynist undir yfirborðinu. Þessi samþegn okkar er Guðfinnur Jónsson frá Urriðavatni í Fellum, til heimilis hér að [[Vestmannabraut]] 63 B. <br>
Guðfinnur Jónsson fæddist að Urriðavatni 9. desember 1912 og varð því sextugur á s.1. jólaföstu. Hann er sonur Jóns bónda Ólafssonar á Urriðavatni og Oddbjargar Sigfúsdóttur frá Meðalnesi í sömu sveit. Þeir bræður hér, [[Einar Guttormsson|Einar læknir]] og [[Guðlaugur Guttormsson|Guðlaugur bóndi Guttormssynir]], eru hálfbræður Guðfinns, — sammæðra. <br>
Guðfinnur Jónsson fæddist að Urriðavatni 9. desember 1912 og varð því sextugur á s.1. jólaföstu. Hann er sonur Jóns bónda Ólafssonar á Urriðavatni og Oddbjargar Sigfúsdóttur frá Meðalnesi í sömu sveit. Þeir bræður hér, [[Einar Guttormsson|Einar læknir]] og [[Guðlaugur Guttormsson|Guðlaugur bóndi Guttormssynir]], eru hálfbræður Guðfinns, — sammæðra. <br>

Útgáfa síðunnar 8. janúar 2010 kl. 21:31

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON

Guðfinnur Jónsson frá Urriðavatni



Guðfinnur Jónsson.

Að þessu sinni óska ég að Blik geymi nokkur orð um mætan verkamann, sem hefur lifað hér og starfað undanfarna tvo áratugi og vel það. Hann á rætur sínar að rekja austur á Hérað, er sveitamaður íslenzkur í húð og hár, og á ég þá við það bezta, sem þar leynist undir yfirborðinu. Þessi samþegn okkar er Guðfinnur Jónsson frá Urriðavatni í Fellum, til heimilis hér að Vestmannabraut 63 B.
Guðfinnur Jónsson fæddist að Urriðavatni 9. desember 1912 og varð því sextugur á s.1. jólaföstu. Hann er sonur Jóns bónda Ólafssonar á Urriðavatni og Oddbjargar Sigfúsdóttur frá Meðalnesi í sömu sveit. Þeir bræður hér, Einar læknir og Guðlaugur bóndi Guttormssynir, eru hálfbræður Guðfinns, — sammæðra.
Nokkra mánuði eftir fæðingu dvaldist kornabarnið á Urriðavatni, en var síðan utan þess heimilis næstu tvö árin. Á þeim tveim árum varð örlögunum skákað til. Það leiddi til þess, að smásveinninn Guðfinnur var fluttur aftur heim að Urriðavatni. Þar ólst hann síðan upp undir handarjaðri föður síns og bústýru hans, sem var jafnframt föðursystir Guðfinns.
Haustið 1930 hóf Guðfinnur nám við Bændaskólann á Hvanneyri, þá tæpra 18 ára gamall. Þar dvaldist hann síðan tvö næstu árin við nám á vetrum og við heyskap og aðra sveitavinnu að sumrinu.
Mér er það mikil ánægja að birta hér frásögn Guðfinns, er hann gerðist Hvanneyringur eins og ég 13 árum áður. Og ekki er ég frá því, að þetta hlutskipti, nám í sama skóla, hafi fremur dregið okkur Guðfinn hvorn að öðrum en hitt. Mér er ekki annað kunnugt, en að við Guðfinnur séum einu nemendur Halldórs skólastjóra Vilhjálmssonar hér í bæ, sem lukum búfræðinámi, meðan hann var enn lífs. Þá gleymi ég ekki forseta bæjarstjórnar hér, Sigurgeiri Kristjánssyni, sem naut kennslu skólastjórans fyrri veturinn, sem hann dvaldist á Hvanneyri.
Nú gef ég Guðfinni sjálfum orðið um tildrög þess, að hann gerðist Hvanneyringur. Frásögn hans hér hefst, er sveitadrengurinn feiminn og hlédrægur leggur á stað frá æskuheimili sínu til langdvalar í öðrum landsfjórðungi.
Guðfinni segist svo frá:
„Ég hvarfla huga til sumarsins 1929 heima á Urriðavatni. — Fagurt júníkvöld var ég að leita að kúnum. Þær fann ég fljótlega að þessu sinni og rak þær heim í fjós. Þegar ég kom inn í bæ, var mér tjáð, að kominn væri gestur. Það var Benedikt M. Blöndal, bóndi og skólastjóri að Mjóanesi. Þar var þá einkaskóli, sem þau hjónin áttu og ráku. Inni í stofu ræddust þeir við faðir minn og hann. Faðir minn vildi finna mig að máli. Annars mundi ég ekki hafa tranað mér inn í stofuna.
Með hálfum huga, uppburðarlítill og feiminn, rölti ég inn í stofuna til þeirra.
Áður hafði ég séð Benedikt Blöndal. Hann var hinn mannvænlegasti maður, vel á sig kominn og í hærra lagi á vöxt og hafði aðlaðandi viðmót. Hann vann nú að því að mæla jarðabætur bænda fyrir Búnaðarsamband Austurlands, því að hann var trúnaðarmaður þess.
Benedikt var búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri og síðan búnaðarkandidat frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn (1908). Sama ár gerðist hann kennari við Búnaðarskólann á Eiðum og var þar næstu 10 árin. Síðan gerðist hann kennari við Alþýðuskólann á Eiðum, þegar hann var stofnaður 1918 og Búnaðarskólinn lagður niður. Þau hjón, Sigrún og Benedikt Blöndal stofnuðu eigin skóla í Mjóanesi 1924 og ráku hann næstu 6 árin eða til 1930.
Benedikt Blöndal var skólamaður af lífi og sál og vildi að sem flestir ungir menn öfluðu sér einhverrar fræðslu og menntunar.
Er ég hafði um stund hlustað á þá pabba minn og hann ræðast við, segir faðir minn: „Drenginn er farið að langa í einhvern skóla til framhaldsnáms.“
Benedikt þagði litla stund en segir síðan: „þetta líkar mér vel. Allir verða víðsýnni við það að afla sér einhverrar menntunar og fræðslu.“
Þessi orð skólamannsins urðu til þess að herða mig, — urðu mér hvatning.
Næsta vetur (1929—1930) varð það afráðið, að ég sækti um skólavist að Bændaskólanum á Hvanneyri, og skyldi ég hefja þar nám haustið 1930.
Sumarið 1930 var ég í kaupavinnu til þess að afla mér fjár. Það sumar hafði ég miðlungskaup um sláttinn, eins og þá var almennt greitt, eða kr. 36,00 fyrir hverja viku.
Í septemberlokin lagði ég svo af stað áleiðis til Hvanneyrar. Fyrst varð ég að fara til Reyðarfjarðar. Þá voru skipakomur strjálar við Austfirði, og stóðu skipin enga áætlun.
Esju hafði seinkað um tvo daga. Varð ég því að bíða á Reyðarfirði eftir skipinu. Þar beið faðir minn með mér, því að hann vildi ekki skiljast við mig fyrr en ég væri kominn um borð í skipið.
Ég fékk far á 1. farrými, því að ekkert rúm var ónotað á 2. farrými. Fargjaldið á 1. farrými frá Reyðarfirði til Reykjavíkur var þá kr. 41,00 eða sex krónum dýrara en á 2. farrými.
Ég kvaddi föður minn og var hinn hressasti. Veður var blítt og stillt á firðinum. Úti fyrir fjarðarmynninu var hins vegar nokkur stormur. Þá tók sjóveikin að segja til sín. Ég skreið þess vegna fljótlega í sæng.
Eftir tveggja daga ferð með viðkomu í höfnum þar eystra kom Esja til Reykjavíkur. Þar settist ég að um sinn hjá bróður mínum, sem bjó í húsi Páls Stefánssonar frá Þverá í Axarfirði. Þarna var vel tekið á móti mér. Ég dvaldist síðan í borginni næstu tvo dagana og skoðaði mig um. Að morgni hins þriðja dags lagði ég af stað með v/s Suðurlandi frá Reykjavík upp í Borgarnes (eins og það er orðað) með viðkomu á Akranesi.
Í Borgarnesi reyndust engin farartæki tiltæk upp að Hvanneyri. Ég kom því föggum mínum til geymslu og lagði af stað fótgangandi. Ég varð þarna samferða eldri deildar nemanda Bændaskólans. Sá hét Magnús Gestsson frá Ormsstöðum í Dalasýslu. Veturinn áður hafði hann stundað nám í yngri deild skólans.
Heppnin var með okkur, göngugörpunum, því að brátt kom bifreið, sem hirti okkur upp af förnum vegi. Hún var að vísu á leið vestur í Mýrasýslu, en gaf okkur þó kost á fari upp að Hvítárbrúnni nýju. Frá brúnni gengum við síðan að Hvanneyri.
Þegar við komum heim á skólasetrið, gengum við að íbúðarhúsi skólastjórans Halldórs Vilhjálmssonar og drápum þar á dyr. Auðvitað hafði Magnús, sem kunnugur var öllum staðháttum, forustu um að knýja dyra. — Til dyra kom ung stúlka, sem heilsaði okkur hlýlega. Þetta var Valgerður dóttir skólastjórahjónanna, þá heimasæta í föðurgarði, síðar skólastjórafrú á Hvanneyri, því að hún giftist Runólfi Sveinssyni, sem tók við skólastjórn þar að Halldóri Vilhjálmssyni látnum.
Þegar við komum inn í innra anddyrið, stóð þar hurð opin. Þar gengum við í stofu. Maður sat þar við borð og skrifaði. Mjög var hann þrekinn um herðar. Brátt stóð hann upp og heilsaði okkur, — fyrst Magnúsi og síðan mér, og bauð okkur velkomna. Þetta var Halldór skólastjóri Vilhjálmsson. Hann var hálfsextugur að aldri. Hann var að vexti rúmlega meðalmaður á hæð en afar þrekinn um herðar. Andlitið frítt, augun hvöss og gáfuleg, ennið ekki ýkjahátt en breitt, hnakkinn breiður og fallegur.
Í mínum augum hins 17 ára gamla sveitapilts, var Halldór skólastjóri glæsilegasti maðurinn, sem ég hafði séð og mér reyndist hann bezti maðurinn, sem ég hefi fyrir hitt um ævina. Strax var hann mér þarna eins og umhyggjusamur faðir, og þannig var hann öllum nemendum sínum. Hann var á vissan hátt meiri félagi þeirra en yfirboðari.
Hann bauð okkur sæti þarna í stofunni og ræddi við okkur um stund. Spurningar hans lutu helzt að búskap bænda á Austurlandi og var þeim þá beint til mín. Þar þekkti hann vel alla staðháttu, því að hann var að nokkru leyti alinn upp á Seyðisfirði hjá móðurbróður sínum, séra Birni Þorlákssyni á Dvergasteini.
Eftir að Halldór Vilhjálmsson lauk kandídatsprófi í búfræði við búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, var hann kennari einn vetur við Búnaðarskólann á Eiðum. Svo vel féll nemendum við kennslu hans þar, að nokkrir þeirra fylgdu honum suður að Hvanneyri, þegar hann gerðist þar skólastjóri haustið 1907.
Fyrsta hálfa mánuðinn, sem ég dvaldi á Hvanneyri, borðaði ég á heimili skólastjórans. Þá unnu þar eldri nemendur bændaskólans við land- og hallamælingar á lendum skólans, — námu þá og þannig þær kennslugreinar.
Sunnudaginn 15. október (1930) var skólinn settur. Þá hafði ég unnið hjá skólastjóra hálfan mánuð og aflað mér þannig nokkurra peninga.
Við skólasetninguna kom í ljós, að við urðum aðeins 16, sem hófum nám í yngri deild skólans þetta haust af þrjátíu, sem sótt höfðu um nám þar um sumarið. Tuttugu og tveir nemendur stunduðu þá nám í eldri deild skólans. Alls urðum við því 38 nemendur í báðum deildum skólans veturinn 1929—1930.“
Hér lýkur frásögn Guðfinns Jónssonar um komu sína að Hvanneyri og dvöl hans þar.
Að námi loknu á Hvanneyri (1932) hvarf hann aftur austur í átthagana og heim að Urriðavatni. Síðan dvaldist hann heima á bernsku og æskuheimili sínu næstu nítján árin eða fram á sumar 1951 að hann tók sig upp og flutti hingað til Vestmannaeyja. Þessi nítján ár á Urriðavatni bjó hann einn útaf fyrir sig og átti nokkurn fjárstofn.
Guðfinnur Jónsson kvæntist hér í Eyjum 2. marz 1952. Kona hans var Una Haraldsdóttir. Foreldrar hennar voru Efemía Jóhannsdóttir, ættuð af Snæfellsnesi, og Haraldur netjagerðarmaður Guðmundsson formanns Ívarssonar af Suðurnesjum.
Þau hjón Una og Guðfinnur eignuðust fjögur börn. Tvö þeirra létust við fæðingu. Þau börn hans, sem lifa, heita Jóna Bergljót og Halldór Árni, og eru enn á unglingaskeiðinu.
Konu sína missti Guðfinnur Jónsson 6. nóvember 1966. Síðan hefur hann haldið heimili einn og annazt uppeldi barna sinna og séð þeim farborða.
Guðfinnur er mætur maður í starfi, trúr og atorkusamur starfsmaður, sem unnið hefur Vestmannaeyjakaupstað um árabil vel og dyggilega. Við óskum honum góðs farnaðar hin ókomnu ár. — Allir Hvanneyringar eiga nokkrar sameiginlegar rætur.


ctr

Þessi mynd er af Þórlaugargerðunum í Vestmannaeyjum, hinum kunnu bœndajörðum fyrir „ofan Hraun“. — Íbúðarhúsið á vestara Þórlaugargerðinu (til vinstri) var byggt 1911. Það byggðu þeir feðgar Einar bóndi Sveinsson og Hjörtur á Geithálsi. Íbúðarhúsið á Eystra-Þórlaugargerði byggði Jón bóndi Pétursson árið 1913.