„Blik 1967/„Principal“ kórinn og stjórnandi hans“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 24: | Lína 24: | ||
Síðari kona Jóns Ágústs (A.J. Johnson) var Elín Kristjánsdóttir kaupmanns Hallssonar í Reykjavík. Þau voru barnlaus.<br> | Síðari kona Jóns Ágústs (A.J. Johnson) var Elín Kristjánsdóttir kaupmanns Hallssonar í Reykjavík. Þau voru barnlaus.<br> | ||
Jón Ágúst Kristjánsson bankagjaldkeri lézt 14. nóv. 1949 rúmlega sjötugur að aldri. | Jón Ágúst Kristjánsson bankagjaldkeri lézt 14. nóv. 1949 rúmlega sjötugur að aldri. | ||
[[Mynd: Á skaki 2.jpg|thumb|300px]] | |||
{{Blik}} | {{Blik}} |
Útgáfa síðunnar 23. október 2009 kl. 21:33
Vorið 1903 fluttust til Vestmannaeyja hjónin Jón Ágúst Kristjánsson frá Marteinstungu í Holtum og Guðrún Tómasdóttir frá Barkarstöðum í Fljótshlíð. Um haustið stofnaði Jón Ágúst blandaðan söngkór í Eyjum og æfði hann til söngmenntar og menningarauka í byggðarlaginu. Sú starfsemi hans er ástæðan til þess, að þeirra hjóna er minnzt hér í Bliki að þessu sinni.
Jón Ágúst Kristjánsson fæddist að Marteinstungu í Holtum 9. ágúst 1879. Þar bjuggu foreldrar hans þá. Faðir Jóns var Kristján Jónsson frá Litlu-Tungu í Holtum. Móðir Jóns Ágústs og kona Kristjáns bónda var Ólöf Sigurðardóttir frá Barkarstöðum, systir Tómasar bónda þar Sigurðssonar. Hjónin Jón Ágúst og Guðrún voru þannig systkinabörn.
Ekki er mér kunnugt, hvar Jón Ágúst lærði söngfræði, en víst er um það, að ungur að árum eða veturna 1898-1900 kenndi hann orgelleik bændasonum og heimasætum þar í Holtunum og var þar farkennari jafnframt. Jón Ágúst var á ýmsa lund vel gefinn og hlaut mætan vitnisburð sóknarprests síns við ferminguna.
Haustið 1900 fluttist Jón Ágúst úr heimasveit sinni í Fljótshlíðina og gerðist kennari þar fram yfir áramót. Eftir áramótin fór hann á vertíð til Vestmannaeyja og var þar háseti á teinæringnum Skrauta hjá Sigurði formanni Sigurðssyni í Frydendal (sjá Gamalt og nýtt árið 1951, bls. 140-141).
Sumarið eftir vetrarvertíðina í Eyjum 1901 réðist Jón Ágúst kaupamaður til frænda síns, Tómasar bónda á Barkarstöðum. Þar mun Guðrún bóndadóttir hafa reynzt segulaflið, en henni kynntist Jón Ágúst haustið áður, er hann var farkennari í Fljótshlíðinni. Guðrún var þá 19 ára gömul. Hún var einkadóttir Tómasar bónda og fyrri konu hans Guðríðar Þóru Árnadóttur hreppstjóra á Reynifelli, sem lézt 2. jan. 1884, og höfðu þau hjón þá verið gift í 3 ½ ár. Guðrún Tómasdóttir var því alin upp hjá föður sínum og stjúpu, síðari konu Tómasar Sigurðssonar, Margréti Árnadóttur, móðursystur sinni.
Jóni Ágúst og Guðrúnu heimasætu reyndist töðuilmurinn á slættinum 1901 angandi sætur og unaðslegur þarna í tilhugalífinu á Barkarstöðum, og til hjónabands hugðu þau næsta vor.
Vorið 1902, 29. apríl, á 20 ára afmælisdegi Guðrúnar heimasætu, gengu þau Jón Ágúst og Guðrún í hjónaband. Fyrsta hjónabandsár sitt bjuggu þau að Seljalandi undir Eyjafjöllum, en vorið 1903 fluttust þau til Vestmannaeyja, eins og fyrr getur, og búsettu sig þar.
Brátt reistu hjónin sér dálítið íbúðarhús norðan við Vilborgarstaðaveginn og nefndu það Laufás.
Haustið 1903 stofnaði Jón Ágúst blandaðan söngkór í Eyjum og kallaði hann „Principal,“ sem er enskt orð og þýðir „hinn helzti“ (aðal-). Þá var „Söngfélagið“, karlakór Sigfúsar Árnasonar, við lýði og hafði sungið fyrir Eyjabúa undanfarin 9 ár. Sumir litu svo á, að með „Principal-“nafninu væri miðað að kór Sigfúsar, sem þá væri settur skör lægra, væri sem sé enginn ,aðal-..., heldur 2. flokks. Ýmsir lögðu þetta nafnval Jóns á kórnum út á hinn verri veg fyrir honum. Nafnið þótti í alla staði lýti á kórnum hans, óþjóðlegt og oflátungskennt. Eyjabúar voru þá þjóðlegir í anda og engir tilbeiðendur enskrar eða bandarískrar menningar eða engilsaxneskra orðslettna. Íslenzki búningurinn í öllum myndum fór þeim bezt, fannst þeim.
Fyrst í stað æfði Jón Agúst kór sinn í gömlu verzlunarhúsunum á Tanganum (Júlíushaab), sem höfðu staðið að mestu auð og tóm um einn tug ára, eða síðan verzlunin var lögð þar niður 1893.
Eftir að Jón Ágúst lauk við að byggja íbúðarhús sitt Laufás, æfði hann kórinn þar heima í dagstofunni.
,,Principal-“kórinn söng nokkrum sinnum fyrir almenning og gat sér góðan orðstír og góðvilja þeirra, sem ekki létu nafnið og merkingu þess brjála dómgreind sína eða villa sér sýn.
Þegar Sigfús Árnason á Löndum sagði af sér organistastarfinu við Landakirkju 1904 eftir 25 ára starf, sótti Jón Ágúst Kristjánsson söngstjóri um stöðuna ásamt hinum 19 ára syni Sigfúsar, Brynjólfi á Vestri-Löndum, sem hlaut hana. Þótti þá Jóni Ágúst söngstjóra sér misboðið og afréð þá þegar flutning þeirra hjóna burt úr Eyjum.
Árið 1905 seldu þau hjón Jón og Guðrún húseignina Laufás ungum hjónum í Eyjum, Þorsteini Jónssyni frá Hrauni og Elínborgu Gísladóttur verzlunarstjóra Engilbertssonar og fluttu til Reykjavíkur sama ár og þaðan svo til Ameríku eftir nokkra mánuði. Þar með voru örlög „Principal-“kórsins ráðin. Hann söng aldrei framar fyrir Eyjabúa.
Þau hjónin Jón Ágúst og Guðrún dvöldust síðan í Ameríku 15 ár. Árið 1910 fluttust þau aftur heim til ættjarðarinnar og settust þá að í Reykjavík. Brátt gerðist Jón Ágúst þar starfsmaður Landsbankans. Þar var hann síðan starfandi í 33 ár eða frá 1910-1943 og lengst af gjaldkeri sparisjóðsdeildar.
Í Ameríku skipti Jón Ágúst Kristjánsson um nafn og skrifaði sig A.J. Johnson. Þetta nafn með hinum engilsaxneska svip bar hann síðan til dauðadags. Því miður vitnar nafnið á söngkórnum hans í Eyjum og svo breytingar hans á eigin nafni um litla virðingu fyrir íslenzku þjóðerni og íslenzkum menningararfi.
Frú Guðrún Tómasdóttir lézt 21. nóv. 1918.
Þau hjón eignuðust 5 börn. Þrjú af þeim dóu á 1. aldursári. Karl sonur þeirra náði 34 ára aldri. Var bankamaður í Reykjavík og lézt 1939.
Dóttir þeirra, Ágústa Guðrún, f. um 1914, var búsett á Siglufirði, þegar síðast var vitað.
Síðari kona Jóns Ágústs (A.J. Johnson) var Elín Kristjánsdóttir kaupmanns Hallssonar í Reykjavík. Þau voru barnlaus.
Jón Ágúst Kristjánsson bankagjaldkeri lézt 14. nóv. 1949 rúmlega sjötugur að aldri.