„Ritverk Árna Árnasonar/Fuglaveiðar í Vestmannaeyjum“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: <br> <br> <br> <center>Úr fórum Árna Árnasonar</center> <big><big><center> Fuglaveiðar í Vestmannaeyjum</center></big></big> <small>Hér er grein sem Árni Árnason skrifað...)
 
m (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Fuglaveiðar í Vestmannaeyjum“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 21. ágúst 2013 kl. 12:30




Úr fórum Árna Árnasonar


Fuglaveiðar í Vestmannaeyjum


Hér er grein sem Árni Árnason skrifaði í „Verkstjórann“, málgagn verkstjórastéttarinnar og gefið var út af Verkstjórasambandi Íslands, 14. árgang, febrúar 1960, og hefur því verið með því síðasta, sem út kom á prenti frá honum.

Fuglaveiðar


Frá upphafi Íslandsbyggðar og allt fram á þennan dag hefur Vestmannaeyja verið getið í sambandi við fisk- og fuglaveiðar. Voru það til skamms tíma undirstöðurnar að tveim aðalatvinnugreinum Eyjabúa. Auðugustu fiskimið landsins voru í námunda við eyjarnar, og þar var og er stærsta fuglaveiðihéraðið, sem nytjað var til hins ýtrasta. Ekki er lengur hægt að segja, að fuglaveiðarnar séu annar aðalatvinnuvegur eyjaskeggja, en hins vegar eru þær enn stundaðar mjög mikið, eða af um 70 manns yfir veiðitímabilið, sem varir frá því 11 vikur eru af sumri þar til 16 vikur eru af.
Fram yfir síðustu aldamót voru Vestmannaeyjar forðabúr nærsveitanna á meginlandinu, er þröng og matarskortur var þar fyrir margra dyrum. Jafnvel fóru Norðlendingar skreiðarferðir til Eyja og segir, að „engir fóru erindisleysu, en hlutu alúðlega fyrirgreiðslu og gnægð matar í fugli og fiski.“
Þá segir í gömlum ritum, að í Eyjum var frá upphafi Íslandsbyggðar legið við til fisk- og fuglaveiða, en föst byggð engin fyrr en árið 930, að talið er, að Herjólfur Bárðarson Bárekssonar hafi fest sér byggð í dalnum fagra, sem enn ber nafn hins fyrsta landnámsmanns Eyjanna og nefnist Herjólfsdalur.
Þar hefur Þjóðhátíð Vestmannaeyja verið haldin frá því árið 1874 til þessa dags. Er það einhver sérstæðasta hátíð, sem haldin er á landi hér fyrir margra hluta sakir. Ekki síst fyrir það, að þá flytjast allir bæjarbúar, sem vettlingi valda, inn í Herjólfsdal og búa þar í tjöldum í 3 daga. Bærinn sefur á meðan Þyrnirósarsvefni, þar eð öll störf og dagsins erjur eru lögð til hliðar og víkja fyrir allsherjar vináttu og bræðralagi.
Á fyrri öldum hefur verið margt um manninn í Eyjum ofan af meginlandinu til hvers konar veiða. Varði hver maður eða samfangsmenn feng sinn með oddi og egg. Virðist oft hafa verið eftir sótt af festu og árangri. Þannig lenti t.d. Eyfellingum og Landeyingum saman í bardaga um veiðifeng. Frá þeirri orustu fékk Þorgeir skorargeir viðurnefni sitt, af því að drepa Landeyingana í skorunni. Er líklegt talið, að skora sú sé vestur á Dalfjalli, upp úr svonefndri Sauðatorfu, og hafi Landeyingar verið „að sækja“ Blátind og Miðdagstó til eggja.
Skálholtsstóll sótti matarbirgðir til Eyja til þess að halda uppi rausn og risnu staðarins. Voru þá og síðar fluttir stórskipafarmar úr Eyjum til meginlandsins af fiski, fugli og eggjum. Það var þess vegna eðlilegt, að út til Eyja hvörfluðu hugir og augu ungra og gamalla, út til þessarar tignarháu hamraborgar, sem öllum gat miðlað af örlæti sínu.
Helsta verslunarvara eyjabúa, önnur en fiskurinn, var fuglinn, fiðrið og eggin. Var fiður ávallt í góðu verði í versluninni, en fuglinn seldur til meginlandsins í stórum stíl í skiptum fyrir landsafurðir, sem lítið var um í Eyjum, svo sem kjöt, smjör, skyr, landtorf o.m.fl. Aðstæður eyjabúa voru slæmar til kvikfjárræktunar, beitilönd lítil og ræktun, vegna mjög takmarkaðs landrýmis. Búpeningur var þess vegna í mjög smáum stíl hjá bændum. Kjöt var ekki oft á borðum eyjabúa, þótt hins vegar væru margir munnar að metta og kjötþörfin mikil, ekki síst hjá smábændum og þurrabúðarmönnum. Þeir voru oftast allmargir og áttu óhægt að afla sér nefndra afurða innanhéraðs. Menn reyndu þess vegna að notfæra sér fuglinn af fremsta megni, og kom hann að langmestu leyti í stað annars kjötmetis.
Það lætur þess vegna að líkum, að í Eyjum urðu snemma góðir fuglaveiðimenn og bjargmenn og hefur þeim allt fram á þennan dag verið við brugðið vegna áræðis og leikni.

Þar eru margir fimir í fjöllum
fírugir að störfum öllum
vistaföng að vinna sér…,

segir Jón skáldi eða Torfabróðir í brag sínum um Vestmannaeyjar. Steinn Sigurðsson skólastjóri og skáld segir líka:

Orka og táp við eyjar þessar
ávallt finnur gæði nóg.

Og enn fremur:

Heita menn til harðræðanna
Helga líkt og mest á Þór.
Sjómannsdirfð og sigamanna
saman trútt um aldir fór.

Margir fleiri kveða þessu líkt og auðsætt af því, að í Eyjunum voru engir veiðiglópar að verki.
Svartfuglinn var veiddur á flekum, en sú veiðiaðferð var bönnuð nokkru fyrir aldamótin. Þótti hún að vonum mjög ómannúðleg. Má alveg furðulegt heita, að jafn viðurstyggileg veiðiaðferð skuli enn leyfð sums staðar á landi hér.
Svartfuglasnaran var og mikið notuð hér frá ómunatíð, en upp úr síðustu aldamótum var hún einnig bönnuð til veiða, þar eð hún þótti ganga um of á stofninn, þ.e.a.s. egglægjuna. Það var heldur ekkert smáræði, sem snarað var eftir að aðstæður til bjargsiga breyttust til batnaðar við útrýmingu ólarvaðanna. Á Bjarnabæli í Bjarnarey voru t.d. snaraðir 1.800 svartfuglar, er fyrst var komið þar, og í Bládrangnum, sem hrundi í jarðskjálftanum árið 1896, voru snaraðir 2.100 svartfuglar við fyrstu snörun á einum degi o.s.frv.
Nytjafuglabjargsig í Eyjum eru æði stórkostleg og hættuleg, ekki hvað síst hin ægilegu loftsig. Það þarf traustar taugar hins mannlega líkama að horfa á þær kaldhæðnislegu aðfarir sigmanna í þeim hildarleik, hvað þá heldur að taka þátt í þeim.

Hörð eru sig í Háubælum og hættuleg.
Hábrandinn og hræðist ég,
en Hellisey er ógnarleg.

Þannig segir gamla vísan. Eru í henni talin verstu og erfiðustu bjargsigin, sem til skamms tíma þótti alveg sjálfsagt að síga til fanga, þótt það væri annars vegar að þreyta fangbrögð við dauðann. Slík stórsig hlotnast ferðamanninum aldrei að sjá, en hins vegar oft bjargsig í Fiskhellanefi á Heimaey. Þótt það sé æðistórfengleg sjón, gefur það sig raunverulega litla hugmynd um stórhrikaleik fyrrnefndra stórbjargsiga í úteyjunum.
Nú eru þessi stóru og hættulegu bjargsig að leggjast niður, þar eð súlan er lítt nytjuð, en til hennar var sigið í Hábrandinn og Hellisey, svartfuglasnaran bannfærð með lögum. Það þykir alls ekki borga sig að síga svo erfið bjargsig til svartfuglaeggja, t.d. í Háubæli og í Bjarnarey. Nú til dags fara menn mest lausir á bandi til eggja og taka hin smærri sig víða um úteyjarnar.
Mikið var af bjargfugli í eyjunum, og er tímar liðu, voru veidd nær óteljandi kynstur af honum, bæði á Heimaey og í úteyjunum, einkum lunda, fýl og súlu. Veiðarnar voru stundaðar af hinu mesta kappi af ungum og gömlum, konum og körlum. Í stærstu úteyjunum voru samtímis 8 til 32 menn til veiða, en Heimaeyjarveiðina önnuðust unglingar, konur og eldri menn, sem ekki þóttu liðtæk í úteyjarnar. Þær voru ávallt skipaðar frískleikamönnum.
Veiðitækin voru greflar, lang- og stuttgreflar. Það voru sköft með krók á öðrum endanum, sem lundinn var kræktur með út úr holunum, en á hinum endanum var spaði til þess að grafa með og róta. Síðar voru upp teknar alls konar netjaveiðar, netin lögð yfir holurnar eða notuð við bjargbrúnirnar og þá dregin yfir fuglinn, sem sat þar. Stundum voru þau líka strengd milli tveggja staura, sem reistir voru með neti fyrir neðan lundabyggðina í brekkunum. Síðan var sitjandi fuglinn rekinn út úr brekkunni, og flaug hann þá í netið milli stauranna.
Með þessum veiðiaðferðum var stefnt til hreinnar útrýmingar á fuglinum vegna ofveiði. Voru þess vegna allar þessar netjaveiðar bannaðar 1869, en greflarnir þá upp teknir aftur ásamt öðrum holuveiðum. Sum árin var gefin upp á hreppskilaþingum 300 til 500 þúsund fugla veiði, og einstakir bændur tíunduðu yfir 1.000 pund af fiðri eftir sumarið. Mun þá hafa fengist nálægt 5 pundum fiðurs af hverri lundakippu, sem telur 100 stykki af fugli.
Menn seldu fugl í tunnutali til meginlandsins, og margir bændur, hinir efnaðri, áttu 2 til 3 stórkagga af saltfugli frá árinu áður, er nýmetið kom á vorin. Menn komu til Vestmannaeyja úr nærsveitum, og það allt austan úr Mýrdal, til fuglaveiða og öfluðu oftlega allt að þrem stórum köggum af fugli frá vori til sláttarbyrjunar, en hver kaggi rúmaði 1.200 reyttar og saltaðar lundabringur með kríkum.
Af þessu er auðsætt, hve mjög hefur verið veitt á þessum árum í fyrrnefnd veiðitæki.
Þetta breyttist mjög mikið, þegar lundaveiðiháfurinn kom til sögunnar og var almennt tekinn í notkun. Þann fyrsta fékk Árni bóndi Diðriksson í Stakkagerði árið 1875, (en Árni var einn af slyngustu veiðimönnum Eyjanna), frá Færeyjum, og var háfurinn tekinn í notkun sumarið eftir, 1876. Sama ár fengu Mýrdælingar sinn fyrsta lundaveiðiháf gegnum Brydesverslun hér, einnig frá Færeyjum. Var það Bryjólfur Eiríksson á Götum, er fyrstur reið á vaðið.
Mönnum gekk vitanlega mjög illa með háfinn fyrst í stað og vildu þá að vonum grípa til gömlu veiðiaðferðanna, sem bannfærðar voru við komu háfsins, en meðferð hans lærðist furðu fljótt. Urðu brátt hinir mestu veiðisnillingar samankomnir í Eyjum, og svo er enn þann dag í dag.
Að sumum hafi gengið erfiðlega með háfinn, bendir vísa Ólafs skálds Magnússonar til, er hann sagði:

Veiðin mín er voða smá,
víst er það ei gaman.
Til helvítis ég henda má
háf með öllu saman.

Önnur vísa Ólafs bendir og til hins sama. Var hann þá sendur út til þess að athuga, hvort „fuglinn væri við“, eins og það heitir á veiðimannamáli, og hvort veiðiátt væri hagstæð. Kom hann þá aftur inn í viðlegutjaldið og sagði við veiðifélaga sinn, sem var Lárus Jónsson, hreppstjóri á Búastöðum:

Hér að skreppa hlýt ég inn,
hörð að kreppir pína.
Farðu, hreppaforinginn,
fljótt í leppa þína.

Enn þann dag í dag eru veiðarnar stundaðar af mesta kappi, þó kannske meira sem „sport“ en vegna brýnnar nauðsynjar. Eru í öllum úteyjunum 3 til 6 menn, sem liggja þar við í samfleytt 5 vikur. Þess utan er svo við veiðar á sjálfri Heimaey mesti fjöldi manna. Aðeins er nú veiddur lundi og svartfugl, þar eð fýll er bannfærður vegna fýlaveikinnar (páfagauksveikinnar), en aðrir fuglar vart nytjaðir.
Lunda og svartfugl má aðeins veiða í háf, en öll önnur veiðitæki bönnuð, svo sem skot, snara, greflar, net o.fl. Þó eru fýll og súla drepin með „keppum“ svonefndum, sem eru úr harðviði, ca. álnarlangir, og fuglinn rotaður með þeim. En sem sagt er nú til dags vart um veiði þeirra fugla að ræða. Það þykir ekki sæma nútímamenningu að eta kjöt þeirra, og feitmetið, sem fuglinn gefur af sér, notar nú enginn. Menn þurfa ekki að hafa til viðbits fýlafeitibræðing. Nú er nóg af smjöri.
Fuglaveiðar í úteyjum við Vestmannaeyjar eru mjög ónæðissamt verk og erfitt, og síst starf fyrir værukæra menn eða stirðbusa. Þar er ekki sofið út á morgnana, en farið á fætur um fimm- eða sexleytið. Þá er hitað kaffi og etinn einhver kjarnfæðuárbítur. Síðan er farið til veiða, eftir að klæðst er veiðifötunum, keifað upp og niður snarbrattar brekkur niður að bjargbrúninni og sest þar að veiðum í kaldri morgungolunni. Þarna er svo veitt fram á hádegið matar- og kaffilaust, stundum í þungavindi og regni, svo að menn eru blautir inn að skinni og sárkaldir.
Síðan er veiðin „kippuð“ í 80 til 100 fugla kippur, þ.e. fuglinn er hnýttur í snæri, 10 til 15 stk. í hverju greiparknippi, og síðan bundið að hálsum fuglanna. Að því loknu er kippan borin á bakinu, máske margar ferðir, ef um góða veiði er að ræða, upp snarbrattar brekkurnar, sem allar eru sundurgrafnar af lundanum, svo að menn hrasa og velta í öðru hverju spori við að stíga niður í holuopin. Þúfnakollarnir róla og rugga, þegar stigið er á þá eða þeir rifna upp og maður dettur með byrðina. Loksins kemst maður þó upp á brekkubrúnina, rennsveittur og örþreyttur og engu fegnari en að velta af sér kippunni, fleygja sér í grasið og hvílast um stund, áður en næsta burðarferð er farin.
Þegar öllum burði er lokið, fara menn heim í viðlegukofann. Þá er matur tilreiddur í skyndi, borðað vel og kaffi drukkið, en að því loknu farið aftur til veiða og setið til kl. 8 eða 9 um kvöldið. Þá er sú veiði borin upp, gengið frá henni á geymslustaðnum, og þar eftir loks farið í kofann aftur til matar og ýmissa aðkallandi starfa. Eitt er alveg víst, að það eru oft örþreyttir menn, sem leggjast til hvíldar og svefns í úteyjakofunum kl. 11 til 12 á miðnætti.
En þrátt fyrir erfiðið er úteyjalífið gott og heilnæmt líf, hressandi, styrkjandi sálar- og líkamlega, frjálst og óþvingað veiðimannalíf, sem allir dásama ævilangt, er reynt hafa. Það hefur ávallt verið hámark hugsjóna hins unga, veiðifúsa manns. Það hefur einhver undursamleg áhrif á alla, heillandi, æsandi og þó eitthvað svo róandi. Hávaði hins daglega lífs fyrirfinnst ekki, aðeins vængjaþytur, fuglakliður alls konar og þægilegur niður úthafsöldunnar, er hún hjalar við brimsorfið bergið:

Sit ég þar á sumarkveldi,
silfrar jörðu döggin tær.
Vestrið líkt og upp af eldi
aftanroða á fjöllin slær.
Nóttin vefur dökka dúka
dularfull og rökkurhljóð.
Berst mér gegnum blæinn mjúka
báruhjal sem vögguljóð.

Veiðiskapurinn lokkar mann fram á fremstu brún, tæpustu bergsylluna, bröttustu grastær og tætlur, bergflár og snasir, þar sem dauðinn lúrir í hverju fótmáli. Eitt misspor eða lítilfjörleg mistök geta auðveldlega valdið hrapi veiðimannsins. Tala hrapaðra manna í björgum Vestmannaeyja sýnir, að aldrei er of varlega farið, þar eð um 80 manns hafa hrapað síðustu 100 árin við fuglaveiðar og bjarggöngur og allflestir til dauðs.
En þessi hætta gleymist, þegar komið er á veiðistaðinn, og veiðiæsingurinn hefur gripið manninn, - gleymist að öðru leyti en því, að hver bjargveiðimaður fylgir þeirri gullvægu reglu að fara sem varlegast.
Úteyjalíf fyrri ára og nútímans er í engu líkt, hvað allar aðstæður og aðbúnað snertir. Fyrrum voru engir kofar í úteyjunum, en sofið í tjöldum, sem hlaðið var að með grjóti og torfi, eða sofið í hellisskútum og fjárbólum, sem tjaldað var yfir. Var þá sofið í einni allsherjarflatsæng á gólfinu við teppi, hey og poka. Viðhafður var skrínukostur og skrínan höfð við höfðalagið. Fæðið var mestmegnis brauð og flatkökur, harðæti, soðinn, reyktur eða saltaður fugl, en til viðbits bræðingur í fýlafeiti eða þorskalýsi. Örfáir menn fengu smásmjörklípu og kjötbita í fyrstu ferðina, en það voru aðeins menn frá efnuðustu heimilunum. Oft var fremur sóðalegt í flatsænginni. Menn fóru ekki ávallt sem hreinlegastir upp í hana til matar og hvíldar. Hver öslaði yfir annars bæli, og báru teppin þess glögg merki, sérstaklega í vætutíð.
Ekki var olíuvélum eða olíu til að dreifa, en hitað við spýtnarusl og tað í hlóðum. Gekk það misjafnlega vel og stundum alls ekki, og voru menn þá kaffilausir. Þægindi voru engin, sem talist geta, og óþrifnaður töluverður, einkum er menn voru að grefla- og holuveiðum.
Nú er þetta á allt annan hátt. Veiðimenn er nú í stórum og rúmgóðum sumarbústöðum, björtum og hlýjum, með öllum hugsanlegum þægindum til hreinlætis og hægðarauka í hvers konar störfum. Fatahengi er í forstofunni, sem er dúklögð og rúmgóð og þar vitanlega afþurrkunarmottur. Svefnskálinn hefur 5 til 7 kojur með sama fyrirkomulagi og í skipum, dúklagt gólf, veggir fóðraðir eða málaðir í ljósum litum, gluggar stórir með smekklegum tjöldum fyrir. Í eldhúsinu eru öll hugsanleg áhöld til matreiðslu, þótt enn sé ekki um rafknúin áhöld að ræða. Nú nota menn kosangas til matreiðslu og hitunar. Eldhúsið er vitanlega málað í hólf og gólf, skápar, hillur og skúffur. Þá eru rúmin aldeilis ekki sóðaleg. Hrein og þokkaleg rúmföt, hvít lök, sængur og koddar. Sumir veiðimenn eru jafnvel svo fínir með sig að fara með náttfötin sín með sér.
Skrínukosturinn er horfinn, en upp tekið sameiginlegt mötuneyti, sem gefst mjög vel. Matreiðsluna annast hver sá, sem færastur er að malla og brasa í pottum og pönnum. Gera þeir menn oft hinni raunverulegu matsveinastétt sóma með kunnáttu sinni. Fæðið er í sumum úteyjunum engu lakara en á góðu matsöluhúsi.
Að sjálfsögðu er útvarpssendir og viðtökutæki í hverri útey til öryggis og viðskipta við Vestmannaeyjaradíó og í sambandi við bát þann, sem ferðir annast milli Heimaeyjar og úteyjunnar. Sá bátur nefnist sókningsbátur. Tíðar milliferðir eru nauðsynlegar með tilliti til veidds fugls, að koma honum sem fyrst á markað heima óskemmdum af maðkaflugunni, sem er einn versti vágestur veiðimannanna og sækir mjög í fuglinn.
Dagveiði eins manns fer eftir veðri og vindi, og hvort um góðan veiðimann er að ræða. Það þarf hagstæða vindátt og gott veiðiveður. Heildarveiði í Vestmannaeyjum yfir lundaveiðitímabilið mun vera í meðalveiðiári 50 til 60 þús. stk. Fer þetta mest til neyslu í Eyjum, en þó er mikið selt til Reykjavíkur og í Árnessýslu, og eykst salan mikið frá ári til árs. Gott þykir, að einn maður veiði á dag tvö- til fjögur hundruð fugla, ágætt fimm- til sex hundruð og afbragð, hvað meira er. Stundum veiðist máske allt að 1.000 stk. eða 10 kippur.
Stundum kemur líka fyrir, að lundinn kemur alls ekki upp af sjónum 2 til 3 daga í röð, þrátt fyrir góðar veiðiaðstæður og veður. Gerast menn þá óþolinmóðir að bíða hans og kenna ýmsu þessar kenjar, t.d. ætisleysi, hrafnakomu og fálka í úteyjuna, en þeir fuglar eru lundans verstu fjendur o.fl. eins og sést af eftirfarandi:

Lítið er um lundann enn,
líst mér rétt að halda,
að gjörningar og galdramenn
geri þessu valda.

En svo allt í einu kemur lundinn upp af sjónum. Loftið fyllist af vængjaþyt og alls konar fuglakvaki. Allar brekkur verða hvítar til að sjá sem ullu þaktar, er fuglinn sest þar með hina hvítu bringu sína í óteljandi mergð. Þéttir og stórir hópar fljúga án afláts meðfram brúnum og brekkum, að svo er sem ský dragi fyrir sólu. Þá er uppi fótur og fit meðal veiðimanna. Hver klæðist í veiðifötin, tekur háfinn og trítlar tindilfættur og léttur í lund í þann veiðistað, sem fyrirliðinn hefur úthlutað honum þennan dag. Nú eru brekkurnar ekki erfiðar upp að ganga, því að hugurinn ber mann alla leið upp:

Við tifum um bríkur og bekki,
brattar og rótfúnar tær,
flughratt um fláka og kekki,
flesin og brekkurnar tvær.

Þannig syngja veiðimenn í Álsey, er þeir þjóta um hinar illræmdu brekkur þar til veiða. Erfiðið hefst nú aftur, en enginn dregur af sér. Það er gaman að geta tíundað sem mesta veiði að kveldi, þegar skráð er veiði manna. Það er líka mikið kapp milli úteyjamanna að verða sem allra hæstir með veiði í lok veiðitímabilsins.
Við Vestmannaeyingar eigum okkur ekki meiri tilhlökkunartíma en þegar veiðitíminn byrjar og haldið er í úteyjarnar. Strax á miðjum vetri byrja samræður manna og ýmsar bollaleggingar um samveruna á sumri komanda. Allir bíða með óþreyju, að tíminn líði fram til 1. júlí. Þá byrjar veiðitíminn. En strax í apríl hressast menn mikið, þegar lundinn kemur og fer að setjast í fjöllin. Hann kemur með fyrsta sumardegi, og sjaldan skakkar miklu á komudegi hans.
Heimaey og dætur hennar, úteyjarnar, verða þá iðandi í fuglalífi, loftið verður þrungið af söng þeirra og vængjaþyt. Eyjarnar fara að klæðast sumarskrúða sínum, hinum dökkgræna grasmöttli með brúnum og blágráum móbergsleggingum og balderingum:

Yfir þessu undralandi
einhver töfraljómi skín,
sem perludjásn á bylgjubandi
blómgar eyjar njóta sín.


Eftir veiðina


(Sigfús M. Johnsen í Sögu Vestmannaeyja)


,,Að afstöðnum fýlaferðum héldu veiðimennirnir í sama leigumála sér skemmtun, er nefnd var fýlaveiza. Á borðum var reyktur fýlungi, er jafnan þótti hér hátíðamatur, rúsínugrautur með sírópi eða kjötsúpa af nýju kjöti og jafnvel kindasteik. Fýlaveizlurnar stóðu venjulega alla nóttina og fram á morgun. Kaffi var drukkið óspart og brennivín og koníak út í. Fýlaveizlan var haldin hjá bátseigendum, er leigðu fýlamönnum bát til að sækja á fýlinn, er veiddur var í úteyjum. Var það talið jafnan happ að fá að leggja til bát til sóknar í úteyjar og greitt í skipshlutinn sóknarhlutur með vissri tölu af fugli.“


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit