Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Kojuvaktin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Kojuvaktin


Í bók sinni, Formannsævi í Eyjum, frá 1950, segir höfundurinn Þorsteinn Jónsson skipstjóri í Laufási frá upphafi netaveiða. Þar kemur m.a. þetta fram:
„Þó var fiskurinn hvergi meiri en uppi við Sandana þegar hann var í loðnugöngum. Það er nærri því lygilegt að segja frá þeirri óhemju - gengd sem þar var stundum. En netaveiði á þessum slóðum var svo mörgum annmörkum háð, að yfirleitt má efast um hagnað, þrátt fyrir mikinn afla. En gaman var að fiska þarna, þegar saman fór norðanátt og fiskgengd. Ekki voru netaþyngslin þegar verið var með þau á fjögurra til átta faðma dýpi. Þorskurinn er svo hlálegur að hann er ekki hið minnsta landhræddur. Fór hann oft svo grunnt að útlit var fyrir að hann væri að tæla í bráðan voða þá sem ofsóttu hann.“ Og síðar:
„Út af Austur-Landeyjum er sérstaklega mikið útfiri en alla leið vestur á Þjórsá er útgrynni mikið. Þar verður breyting á. Úr því er miklu mun aðdýpra, þangað til skerjaklasinn tekur við vestan Þjórsár. Ég stundaði enga veiði sem var eins áhættusöm og þorskanetaveiði undir Sandi í umhleypingasömu tíðarfari. Bát og áhöfn var stofnað í sífellda hættu, sérstaklega í álandsvindum, því alltaf var hætta á að netin lentu í skrúfúnni þegar þau komu í flækjum. En það var daglegur viðburður. Þar sem enginn haldbotn er, heldur aðeins laus sandur meðfram ströndinni, bárust netin ótrúlega langt yfir nóttina, að ég ekki tali um, þá frátök gerði um nokkurt skeið. Þá mátti eiga víst, þó trossurnar hefðust að þær væru nær ónýtar, svo svarf sandurinn þær illilega. Það voru heldur ekki neinar smáræðis - bæjarleiðir sem hér var um að ræða. Eina slíka trossu, sem lögð var hér inn af Eyjunum, rak á land í Reynisfjöru austan við Dyrhólaey. Nokkrar rak á land nálægt Jökulsá á Sólheimasandi“.

Ögmundur Ögmundsson í Auraseli í Fljótshlíð var föðurafi Ástgeirs Guðmundssonar í Litlabæ hér í Eyjum, þekkts bátasmiðs og formanns og forfaðir Bæjaranna kunnu hér í Eyjum. Margir töldu Ögmund fjölkunnugan eða jafnvel göldróttan. Á árnum 1874 til 1882 var séra Oddgeir Gudmundsen, síðar prestur hér í Eyjum, prestur á Felli í Mýrdal. Það var á þessum árum að áin Hafursá fór að flæða til austurs yfir slægjulönd bændanna í Steig, á Hryggjum og Skeiðflöt í Mýrdalnum. Hún fór alveg úr farvegi sínum og stórskemmdi slægjulöndin. Maður var sendur til Ögmundar sem var orðinn aldinn og bað hann ásjár. Ögmundur taldi litlar líkur á að hann gæti nokkuð gert en lét tilleiðast. Þegar hann kom austur í Mýrdal, hitti hann Einar bónda í Steig sem lánaði honum gráan fresskött og grátt ullarreyfi. Þegar allir höfðu gengið til náða, gekk Ögmundur einn út til árinnar. Strax morguninn eftir þegar menn komu á fætur og litu til hennar, var hún komin í sinn fyrri farveg. Ögmundur gaf engar upplýsingar um athafnir sínar enda yfirlætislaus maður. En hvað sem öllu leið, hafði hann breytt farvegi Hafursár ná grönnum hennar til heilla.
Ögmundur var nábúi prestsins á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Einhverju sinni, eftir þennan atburð í Mýrdalnum, fór hann í kirkju sem oftar. Eftir messu bauð presturinn honum heim í stofu og sýndi honum blaðið Þjóðólf sem nýlega var komið út. Þar var grein eftir séra Oddgeir á Felli sem skopaðist að verkum Ögmundar austur þar. Á leiðinni heim heyrði Ástgeir, sonarsonur hans, sem var með honum, hann segja: „Skyldi presturinn á Felli þurfa að kvarta um vatnsleysi á næstunni?“ Skömmu síðar sendi Ögmundur séra Oddgeiri þau skilaboð að hann skyldi ekki láta sér bregða þótt bæjarlækurinn færði sig ofurlítið nær prestsetrinu. Það var áin Klifandi sem rann vestan við túnið á Felli. Í næstu rigningum og eftirfarandi leysingum réðist Klifandi á tún prestsins með miklum ákafa og braut af því stóra spildu. Áin eyddi túnum og innan nokkurra ára varð að flytja bæjarhúsin upp undir fjall þar sem þau standa enn.
Stytt og endursagt úr bókinni, Endurminningar Gunnars Ólafssonar kaupmanns og útgerðarmanns á Tanganum sem kom út 1948.

Á sjöunda tug síðustu aldar fengu skipstjórar á Eyjaflotanum, og annars staðar, svokallaðar VHF talstöðvar um borð í bátana. Þetta var kærkomið því lítið fór fyrir þeim, hægt var að hafa þær við hliðina á sér í andófinu og á togi á trollinu. Ekki þurfti lengur að fara aftur í kortaklefa til þess að tala í talstöðina. Þetta var því kærkomið tæki. Bjarnhéðinn Elíasson skipstjóri og útgerðarmaður, aflamaður og sjósóknari, var mikill talstöðvarmaður og þekktur stórspjallari sem hafði oft frá mörgu að segja. Margfrægur fyrir mögnuð svör og lýsingarorð. Sögur af honum hafa verið sagðar aftur og aftur þegar um karlinn hefur verið rætt og er þá oft mikið hlegið. Einhverju sinn, þegar hann var á sjó, kom í veðurfréttunum að lægð væri á milli Lands og Eyja á norðaustur leið. Með það sama var hann kominn í stöðina og sagði. „Heyrðuð þið þetta drengir? Lægð milli Lands og Eyja. Hú hú hún hlýtur að vera upp á rönd“.