Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum 1996-1997

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum 1996-1997
og stutt yfirlit yfir starfsemina í 33 ár

Laugardaginn 24. maí 1997, voru skólaslit Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Þetta voru síðustu skólaslitin en skólinn var stofnaður árið 1964 og hófst starfsemin 1. október það ár.
Á þessum skólaslitum útskrifuðust fimm nemendur af 1. stigi og átta af 2. stigi. Hæstur í 1. stigi varð Ólafur Ólafsson af Álftanesi með meðaleinkunn 9,08, annar Trausti B. Traustason, Akureyri, með 8,78, og þriðji varð Theodór Haraldsson, Neskaupstað, með 8,61 í meðaleinkunn.
Í 2. stigi varð hæstur Einar Ólafur Ágústsson frá Ísafirði með meðaleinkunn 9,29. annar varð Bjarni Halldórsson, Vestmannaeyjum, með 9,26 og þriðji Hrafn Sævaldsson, Vestmannaeyjum, með 8,45. Prófdómarar voru þau Áslaug Tryggvadóttir og Jóhann K. Ragnarsson. Að venju voru margar viðurkenningar veittar fyrir námsárangur. Rotarýklúbbur Vestmannaeyja veitti Einar Ólafi bókaverðlaun fyrir hæstu einkunn í íslensku. Hann hlaut einnig loftvog frá Sigurði Einarssyni útgerðarmanni fyrir hæstu meðaleinkunn og að auki fékk hann bók í verðlaun frá Eyjabúð fyrir reglusemi og ástundun í námi. Og á sjómannadaginn í júní tók Einar Ólafur við Verðandaúrinu frá skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðanda fyrir hæstu meðaleinkunn við Stýrimannaskólann vorið 1997.
Sveinn Ásgeirsson 2. stigi hlaut sjónauka í verðlaun frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja fyrir hæstu einkunn í siglingafræði. Einar Ólafur og Bjarni Halldórsson hlutu bókaverðlaun frá Bjarna Jónassyni, veðurfræðikennara, fyrir hæstu einkunn í veðurfræði. Einnig fékk Bjarni bókaverðlaun frá danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku og einnig fékk hann boð í danska sendiráðið. Sigurgeir Jónsson veitti bókaverðlaun fyrir vel samdar ritgerðir í íslensku og hlutu þeir Einar Ólafur, Hrafn Sævaldsson og Sigþór Eiðsson frá Akureyri, allir af 2. stigi, þessi verðlaun. Skólinn veitti Ingibjörgu Ólafsdóttur smágjöf að skilnaði en hún hefur ræst skólahúsið að Vesturvegi 38 í 30 ár.
Að lokum afhenti undirritaður fjórum mönnum, sem lengst hafa starfað með honum við skólann, smágjöf að skilnaði. Þetta voru Hilmar Rósmundsson og Þórður Rafn Sigurðsson, sem setið hafa lengst allra í skólanefnd, Brynjúlfur Jónatansson tækjakennari, sem kenndi við skólann frá upphafi, og Sigurgeir Jónsson sem kenndi við skólann frá því hann lauk sjálfur námi 1983.
Skólastjóri þakkað nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum skólans fyrir gott samstarf og sleit honum í síðasta skiptið.

Eins og kom fram í upphafi var þetta síðasta starfsár skólans. Upphafið má rekja til þess að sjómannafélögin, Verðandi og Jötunn, höfðu margoft hvatt til stofnunar stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Í framhaldi af því flutti Guðlaugur Gíslason alþingismaður frumvarp á Alþingi um stofnun Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Þetta var á þinginu 1962-1963, en það náði þá ekki fram að ganga. Á næsta þingi 1963-1964 endurflutti Guðlaugur frumvarpið og urðu þingmennirnir Lúðvík Jósepsson og Pétur Sigurðsson meðflutningsmenn. Það var svo samþykkt sem lög frá Alþingi 18. desember 1964 og forseti Íslands undirritaði þau á gamlársdag það ár.
Skólinn hóf starfsemi sína 1. október 1964 og starfaði síðan til ársins 1997 eins og fram hefur komið. Fyrstu skólanefndina skipuðu Ársæll Sveinsson útgerðarmaður, Guðlaugur Gíslason alþingismaður, Páll Þorbjörnsson kaupmaður og fyrrverandi skipstjóri, Sigurður Stefánsson bæjarfulltrúi og lengi formaður Sjómannafélagsins Jötuns og undirritaður. Fyrsti skólastjóri var Guðjón Ármann Eyjólfsson sjóliðsforingi, til loka skólahalds í Reykjavík 1974, en undirritaður tók við skólastjórninni 1. október 1975.

Steingrímur Arnar flugvallarstjóri og fyrrverandi stýrimaður var samkennari Guðjóns Ármanns við skólann frá upphafi fram að eldgosi 1973 og prófdómari frá 1975 til dauðadags 20. maí 1980.
Brynjúlfur Jónatansson var tækjakennari frá byrjun 1964 til skólaslita 1997. Aðrir, sem kenndu lengi, eru bræðurnir Gísli og Snorri Óskarssynir sem kenndu tungumál og stærðfræði, Jón Hauksson sjórétt, Kjartan Bergsteinsson fjarskipti, Bjarni Jónasson veðurfræði og Einar E. Jónsson heilbrigðisfræði. Sigurgeir Jónsson kenndi tungumál frá 1982 þegar hann kom nemandi í skólann, og að auki stærðfræði og siglingafræði í 1. stigi eftir að hann lauk námi til síðasta dags skólans. Undirritaður hefur kennt siglingareglur og stöðugleika í báðum stigum og siglingafræði í 2. stigi. Veiðarfæragerð var lengi kennd í Veiðarfæragerð Vestmannaeyja og seinna í Netagerð Ingólfs, og Viðar Elíasson hefur lengst allra kennt fiskmeðferð. Prófdómarar auk Steingríms Arnars voru lengst þau Angantýr Elíasson skipstjóri, Sævaldur Elíasson stýrimaður og Áslaug Tryggvadóttir framhaldsskólakennari. Hilmar Rósmundsson og Þórður Rafn Sigurðsson voru lengst allra í skólanefnd og báðir formenn lengi. Einar Guðmundsson, Óskar Matthíasson og Þorsteinn Sigurðsson voru einnig lengi í skólanefnd. Guðrún Sigurjónsdóttir Brimhólabraut 13 var lengst af eins og húsmóðir og mamma á heimavistinni, að minnsta kosti sögðu strákarnir stundum að þetta væri eins og hjá mömmu þegar um hana var rætt, en hún hafði þann starfa í mörg ár, blessunin, að þrífa hjá þeim.

Að sjálfsögðu hafa ýmsir fleiri komið að störfum við skólann og er öllum, sem hér eru taldir og öllum sem störfuðu við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, færðar þakkir. Margir fleiri eiga þakkir skildar þótt þeir störfuðu ekki við skólann. Nokkrir þeirra komu ár eftir ár á skólaslit til þess að fagna nýútskrifuðum skipstjórnarmönnum. Sömu mennirnir, þeir sem taldir voru hér að framan, komu þangað líka ár eftir ár og veittu nemendum sem sköruðu fram úr á einhvern hátt verðlaun. Árni Johnsen alþingismaður var einstaklega duglegur að bjarga málum skólans í stjórnkerfinu þegar á þurfti að halda. Og undirritaður vill geta þess hér að samskipti hans við starfsmenn menntamálaráðuneytisins voru ánægjuleg og góð allan hans starfstíma við skólann.
Margar stofnanir eins og Björgunarfélag Vestmannaeyja, Eykyndill, Sjómannafélagið Jötunn, Verðandi, Útvegsbændafélag Vestmannaeyja, LÍÚ og enn fleiri stofnanir og einstaklingar sýndu Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum margoft virðingu með gjöfum og alls konar stuðningi. Og oft fundum við, sem við skólann störfuðum, fyrir hlýhug og virðingu í garð skólans. Allt er það þakkað hér.
Skömmu eftir að skólinn tók til starfa 1964 stofnuðu bræðurnir Björn Guðmundsson útgerðarmaður og Tryggvi Guðmundsson kaupmaður sjóð við skólann sem var til minningar um foreldra þeirra, þau Áslaugu Eyjólfsdóttur og Guðmund Eyjólfsson frá Miðbæ. Sjóðurinn var stofnaður til þess að styrkja efnalitla nemendur skólans meðan þeir eru í námi. Það var svo 13. mars 1980 að dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfesti skipulagsskrá sjóðsins. Frá þeim tíma hefur hann komið mörgum nemendum skólans í góðar þarfir.
Skömmu eftir lát Steingríms Arnars 1980 stofnuðu flokkssystkini hans í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins sjóð við skólann til minningar um Steingrím. Formaður ráðsins á þessum tíma var Helgi Bernódusson frá Borgarhól. Hlutverk sjóðsins er að styrkja starfsemi Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Sannarlega hefur það gengið eftir því öll tölvukaup skólans hafa verið fjármögnuð með fé úr Steingrímssjóði.
Þessum aðilum, bræðrunum frá Miðbæ og flokksystkinum Steingríms heitins Arnars í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins, eru hér færðar bestu þakkir.
Að síðustu eru Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja færðar bestu þakkir fyrir ánægjuleg og góð samskipti í 33 ár.

Friðrik Ásmundsson.