Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Útgerð Jóns Ólafssonar á Hólmi og afkomenda hans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Friðrik Ásmundsson

Útgerð Jóns Ólafssonar á Hólmi og afkomenda hans frá 1916

Engin útgerð í Vestmannaeyjum hefur verið eins lengi í eigu sömu ættar og Ófeigsútgerðin hér. Hún hófst með kaupum Jóns Ólafssonar á Hólmi, tengdaföður Þorsteins Sigurðssonar á Blátindi, á vélbátnum Hjalta VE 188 árið 1916. Viktor Helgason, tengdasonur Þorsteins, og fjölskylda hans eiga nýjasta Ófeiginn, VE 325, sem var smíðaður í Hunnebostrand í Svíþjóð og kom nýr til Vestmannaeyja 3. mars 1990. Ólafur Friðriksson framkvæmdastjóri í Skipalyftunni teiknaði hann og réð öllu fyrirkomulagi í samráði við Viktor. Ófeigur þykir einstaklega vel heppnað skip og í samræmi við það hefur hann reynst vel, og frá upphafi undir skipstjórn Guðmanns Magnússonar hefur aflast mikið á þetta skip.
Að sögn Viktors hefur hann verið einstaklega heppinn með skipstjóra síðan hann tók við rekstri útgerðarinnar, en auk Guðmanns má nefna Lýð Ægisson sem var harðduglegur sjósóknari.
Við samantekt þessa var að mestu stuðst við munnlegar heimildar Þorsteins á Blátindi og að auki Einars á Arnarhóli, Hjörleifs í Skálholti, Gunnars á Grímsstöðum, Páls Magnússonar, Steinum Austur-Eyjafjöllum, og Viktors Helgasonar. Einnig fengust skráningar og afskráningar úr skipshafnaskrám sýslumannsembættisins hér í Vestmannaeyjum.

Hjalti VE 188
Árið 1916 keyptu Jón og Kristmundur Jónsson frá Skógum vélbátinn Hjalta VE 188 frá Mjóafirði. Hann var smíðaður í Danmörku 1907 og var 8,50 rúmlestir með 10 hestafla Gideonvél. Jón átti 4/5 hluta í bátnum og Kristmundur 1/5. Var Jón skipstjóri á honum til vertíðarloka 1919. Þá seldu þeir hann til Hornafjarðar.

Ófeigur VE 217
Árið 1920 keypti Jón ásamt Gunnari Ólafssyni á Tanganum og Jóni Hinrikssyni í Garðinum bát úr Reykjavík sem hét Ófeigur. Þar var hann smíðaður úr eik og furu 1916 og var 12,40 rúmlestir að stærð, með 22 hestafla Alpha-vél.
Að sögn Hjörleifs Sveinssonar í Skálholti, sem nú er nýlátinn, átti Jón 2/4 hluta í bátnum, en hinir sinn fjórða hlutinn hvor. Sama kemur fram í bók Þorsteins Jónssonar í Laufási, Aldahvörf í Eyjum.
Jón var skipstjóri fyrstu 14 vertíðarnar. Pétur Ísleifsson í Nýjahúsi 1934. Karl Guðmundsson í Reykholti 1935, en tók þá nýjan Ófeig sem Jón lét smíða í Danmörku. Björgvin Sigurjónsson Sandi 1936 og 1937. Sigurður Sigurjónsson Þingeyri, síðar þekktur undir nafninu Siggi á Freyjunni, 1938 og 1939. Þórður Þórðarson Sléttabóli 1940 og þar til báturinn fórst 1. mars 1942 með allri áhöfn, 4 mönnum. Þá fórust einnig Þuríður formaður með 4 manna áhöfn og Bliki, en þar varð mannbjörg. Gissur hvíti, skipstjóri Alexander Gíslason. Landamótum, bjargaði þeim.

Um hádegisbil þennan dag fór veður að versna af suðaustri. Varðskip, sem lá í Vestmannaeyjum, lét þá úr höfn til að fylgjast með og aðstoða báta ef með þyrfti. Bogi Einarsson var háseti þar, síðar í mörg ár skipstjóri hjá Skipaútgerð ríkisins, m.a. með fyrsta Herjólf, sagði Einari J. Gíslasyni á Arnarhóli og hann undirrituðum eftirfarandi: „Þegar við vorum komnir rétt vestur fyrir Flúðir komum við að Ófeigi. Skipshöfnin var þá að láta línustampana niður í lest og gera betur sjóklárt. Þeir veifuðu til okkar um að allt væri í lagi hjá þeim. Þar með héldum við áfram ferð okkar að sinna þeim sem lengra voru í burtu."
Þetta var það síðasta sem sást til Ófeigs. Hann átti stutt til hafnar.
Hjörleifur Sveinsson var vélstjóri frá upphafi 1920 en hætti þegar Jón fór í land fyrir vertíðina 1934. Hann eignaðist 1/4 hlut í bátnum 1923 sem hann átti til 1939 að Jón keypti af honum og átti bátinn þar með einn.
Árið 1928 var sett í bátinn 48 hestafla Tuxham-vél. Hjörleifur sagðist hafa verið með þennan bát eina línuvertíð en man ekki hvenær.

Ófeigur II VE 324
Jón Ólafsson sólþurrkaði bein og sundmaga af afla Ofeigs. Norskir feðgar, sem hér voru og þóttu góðir viðskiptis, keyptu þetta og var andvirðið látið ganga upp í verð nýs báts sem þeir útveguðu frá Frederikshavn í Danmörku. Það varð Ófeigur II VE 324. Hann var 22 rúmlestir með 60 hestafla Hundested-vél og var fyrst á vetrarvertíð 1936. Jón átti þennan bát einn strax í upphafi og báða Ófeigana einn frá 1939.
Karl Guðmundsson var skipstjóri vetrarvertíðirnar 1936 og 1937 og Jónas Bjarnason á síld norðanlands sömu sumur. Hann var svo alveg með bátinn 1938, 1939 og 1940. Guðfinnur Guðmundsson frá Brekkuhúsi 1941 til 1946, þá lést hann. Angantýr Elíasson frá Hlaðbæ var skipstjóri 1946.
Á línuvertíðinni þann vetur fengu þeir á sig slæman brotsjó. Þrjá menn tók fyrir borð. Angantý tókst snilldarvel að leggja að þeim og einum hásetanum, Sigurbergi Sigurgeirssyni frá Hlíð A-Eyjafjöllum, tókst að kippa þeim inn á höndunum einum, hverjum á fætur öðrum. Ekkert tjón varð á bátnum. Páll Magnússon frá Steinum A-Eyjafjöllum var beitumaður á Ófeigi þessa vertíð. Hann sagði undirrituðum þetta.

Jón á Hólmi dó 21. desember 1946. Dánarbú hans gerði bátinn út á vetrarvertíð 1947 og var Sigurjón Ólafsson í Bæ skipstjóri. Einar Skæringsson í Baldurshaga sá um allan rekstur, útvegun og uppsetningu veiðarfæra, fiskaðgerð, söltun, þurrkun og pökkun saltfisksins fyrir erlendan markað. Einar var frá Rauðafelli, Austur-Eyjafjöllum, Rangárvallasýslu. Hann hóf vinnu hjá Jóni við verkstjórn og akstur 1932. Hann lauk starfi þar um haustið 1947 þegar útskipun saltfisksins var lokið. Þeir voru allatíð miklir mátar og minnist Einar Jóns með þakklæti og virðingu. Svo mun vera um marga fleiri sem voru hjá Jóni eða bjuggu á heimili hans eins og tíðkaðist á þeim tíma hjá útgerðarmönnum hér. Höfundi þessarar greinar er einnig kunnugt um það að Jón reyndist heimilum þeirra manna, sem fórust með Ófeigi VE 217, afar vel.
Um vorið 1947 kaupa þeir Þorsteinn Sigurðsson á Blátindi og Ólafur Sigurðsson skipstjóri frá Skuld Ófeig II af dánarbúi Jóns á Hólmi. Útgerð þeirra félaga var einstaklega vel heppnuð meðan báðir lifðu. Ólafur lést um aldur fram 16. mars 1969. Og áfram var sami myndarskapurinn hjá Þorsteini eftir það. Þeir létu sniíða tvo nýtísku stálfiskibáta, annan í Hollandi, hinn í A-Þýskalandi.

Ólafur var skipstjóri á Ófeigi II 1948 til 1955 þegar nýr Ófeigur, Ófeigur III, kom frá Hollandi. Árið 1949 var báturinn lengdur í Dráttarbraut Gunnars Marels Jónssonar og einnig var skipt um vél. Nýja vélin var Hundested, 110 hestöfl. Árni Hannesson frá Hvoli, sem var vélstjóri hjá Ólafi, varð skipstjóri í upphafi árs 1955 til ársloka 1956. Á vetrarvertíð 1957 er Emil Guðmundsson á Hólagötu 30 skipstjóri og Guðjón Ólafsson á Landamótum um sumarið, 8. júlí til 30. október. Í ársbyrjun 1958 verður Árni Hannesson aftur skipstjóri þar til báturinn er seldur í árslok það ár þeim Guðna Runólfssyni í Steini og Sigurjóni Ólafssyni í Bæ. Sigurjón var skipsstjóri. Báturinn fékk nafnið Hrímnir VE 300.
Guðni og Sigurjón seldu Hrímni til Bolungarvíkur um vorið 1960. Kaupandinn var Guðmundur Rósmundsson útgerðarmaður þar. Báturinn hét áfram Hrímnir og fékk einkennisstafina IS 140. Guðmundur gerði hann út á línu, net, rækju og þessi bátur varð sá fyrsti sem gerður var út á skel (hörpudisk) á Íslandi að sögn Guðmundar. Hann var sjálfur skipstjóri allan tímann sem hann gerði bátinn út, til ársins 1979. Þá fór hann í úreldingu eftir ákeyrslu á bryggju. Guðmundur var þá ekki um borð. Í júní 1967 var skipt um vél í honum hér í Vestmannaeyjum. Í hann fór árs gömul G.M.-vél úr Birni riddara sem þá fór í úreldingu. Þegar Hrímnir fór í úreldingu vildi Guðmundur gefa hann hingað. Hann sagði að þetta hefði verið einstaklega góður bátur og mikið happaskip og smíðin á honum alveg einstök. Hérna var hann gerður út á línu og net á vetrarvertíðum, síld norðanlands fyrstu sumrin og þau síðustu á humartrolli hér.

Ófeigur III VE 325
Þorsteinn og Ólafur létu smíða þennan bát í Hollandi. Hann var fyrsti stálfiskibátur sem Íslendingar eignuðust. Hann var 66 rúmlestir með 220 hestafla Grenaa-vél.
Koma hans vakti mikla athygli. Hann var vel heppnaður og varð mikið happa- og aflaskip.
Nú gerðu þeir félagar út tvo báta til ársloka 1958. Árni Hannesson vélstjóri hjá Ólafi tók gamla bátinn eins og áður kom fram. Þessi Ófeigur var hér fyrst á vetrarvertíð 1955 og var Ólafur skipstjóri til ársloka 1959 er nýr Ófeigur, Ófeigur II VE 324, kom nýsmíðaður frá A-Þýskalandi. Þa gerðu þeir aftur út tvo báta eftir stutt hlé.
Grétar Skaftason, sem var stýrimaður á Ófeigi III frá upphafi, varð skipstjóri á honum 25. nóvember 1959 til 5. maí 1962. Sigurbjörn Sigurfinnsson varð þá skipstjóri til 19. maí 1966. Örn Friðgeirsson tók hann þá til 10. maí 1974. Ólafur Sigurðsson var með hann í nokkra daga 16. maí til 7. júní 1967. Stefán Friðriksson var skipstjóri 31. maí til 15. september 1974. Gísli Kristjánsson 31. október 1974 til 13. maí 1976. Örn Friðgeirsson aftur 4. júní 1976 til 15. ágúst 1978. Lýður Ægisson tekur hann 21. febrúar 1979 og til miðs september 1983 þegar útgerðin keypti Árna í Görðum. Lýður tók hann þá. Yngvi Geir Skarphéðinsson varð skipstjóri á Ófeigi III á eftir Lýð eða fra upphafi árs 1984 til ársloka 1986. Guðmann Magnússon tók hann þá til loka árs 1987. Í upphafi árs 1988 varð Ægir Örn Ármannsson skipstjóri þar til báturinn strandaði á Hafnarnesi við Þorlákshöfn 19. febrúar það ár. Þar ónýttist hann en áhöfnin bjargaðist í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Ófeigur III var gerður út fyrstu árin á línu og net á vetrarvertíðum og síld norðan- og austanlands á sumrin. Seinni árin var hann eingöngu á netum á veturna og trolli á sumrin. Árið 1987 var hann fyrst eingöngu á trolli.
Ófeigur III var lengdur á Akranesi 1965, varð hann þá 86 rúmlestir. Ný Caterpillar-vél var sett í hann. Nýtt stýrishús sumarið 1973, og aftur ný Caterpillar 1977.

Ófeigur II VE 324
Í árslok 1959 kom nýsmíðaður Ófeigur II VE 324 frá A-Þýskalandi hingað. Þeir Þorsteinn og Ólafur áttu hann. Tveir sams konar bátar komu hingað skömmu áður, Eyjaberg VE 130 og Leó VE 400. Halkion VE 205 kom ári siðar. Þetta voru systurskip. Nokkrir sams konar bátar dreifuðst víðs vegar um landið. Þeir voru 101 rúmlest og í þeim var 400 hestafla Mannheim-vél. Ólafur var skipstjóri á þessum bát frá upphafi til miðs árs 1966 þegar hann hætti vegna heilsubrests. Einar Ólafsson, Heiðarbæ, síðar lengi kenndur við Kap, tók við bátnum af Ólafi. Hann hafði verið vélstjóri hjá honum. Einar var með bátinn til vors 1971. Gunnlaugur Ólafsson, síðar á Gandí, tók þá við til 12. maí 1976. Þá tókGísli Kristjánsson skipstjóri bátinn til loka júlí mánaðar 1978. Þá var Ófeigur II seldur til Þorlákshafnar. Þar fékk hann nafnið Hlein AR 18. Hann kom aftur hingað í júní 1980, þá í eigu Georgs Stanleys Aðalsteinssonar. Hér hét hann áfram sama nafni. Í febrúar 1981 var hann seldur til Stykkishólms. Þar fékk hann nafnið Haförn SH 122. Eigandi Rækjunes hf.
Hinn 31. október 1983 fórst báturinn á Breiðafirði. Þá var hann á landleið af skelfiskveiðum. Þrír fórust en þrír björguðust. Tveir þeirra komust í gúmmíbjörgunarbát og einn upp á nálægt sker.

Ófeigur VE 324
Í september 1983 keypti útgerðin Árna í Görðum VE 73 af Birni Guðmundssyni útgerðarmanni. Fékk hann þá nafnið Ófeigur VE 324. Þessi bátur var smíðaður á Akranesi 1971, 103 rúmlestir með 500 hestafla Alpha-vél. Lýður Ægisson varð þá skipstjóri og til loka árs 1987, en þá tók Guðmann Magnússon við. Báturinn var seldur til Blönduóss 1989 og hlaut þá nafnið Ingimundur gamli.

Ófeigur VE 325
Eins og í upphafi kom fram kom svo nýjasti Ófeigur, VE 325, nýsmíðaður til landsins 3. mars 1990 frá Hunnebostrand í Svíþjóð.

Útgerðin
Jón Ólafsson á Hólmi var upphafsmaður útgerðarinnar, frá 1916 til 1947 að Þorsteinn Sigurðsson á Blátindi, tengdasonur hans, og Ólafur Sigurðsson í Skuld kaupa Ófeig af dánarbúi Jóns 1947 og eiga hann til loka árs 1958. Þeir létu smíða Ófeig III, fyrsta stálfiskibát Íslendinga, í Hollandi. Hann var fyrst hér á vetrarvertíð 1955. Þá gerðu þeir út tvo báta til loka árs 1958. Frá því ári til loka árs 1959 gera þeir út Ófeig III einan. Þá kom nýsmíðaður Ófeigur II, stálbátur frá A-Þýskalandi, svo aftur voru gerðir út tveir bátar.
Ólafur dó um aldur fram 16. mars 1969. Ári síðar keypti Þorsteinn af dánarbúinu hluti þess í báðum bátunum. Hann gerði þá síðan báða út einn til ársloka 1973. Um áramótin 1973 og 1974 keyptu tengdasynir hans, þeir Sigurður Elíasson og Viktor Helgason og þeirra fjölskyldur, hvor 40% í útgerðinni. Þorsteinn hélt eftir 20%. Þeir gerðu svo saman út þessa báta til miðs árs 1978 þegar Ófeigur II var seldur til Þorlákshafnar. Ófeigur III var þá aftur einn í eigu útgerðarinnar. Í september 1983, þegar Árni í Görðum var keyptur og fékk nafnið Ófeigur, dró Þorsteinn sig út úr útgerðinni. Tengdasynirnir áttu þar með báða bátana. Og nú voru aftur tveir bátar gerðir út. Um áramótin 1986-1987 hætti Sigurður Elíasson og Viktor eignaðist útgerðina einn.
Hinn 19. febrúar 1988 strandaði Ófeigur III við Hafnarnes og eftir það var Ófeigur einn eftir í eigu Viktors.

Útgerð Þorsteins og Ólafs gekk einstaklega vel. Ólafur fiskaði vel í öll veiðarfæri. Á vetrarvertíðunum hér á línu og netum var hann alltaf í fremstu röð á þessa þrjá Ófeiga sem hann var með. Sama var norðan- og austanlands á síldveiðunum á stálbátunum Ófeigi III og II og haust- og vetrarsíldveiðunum hér sunnanlands. Þar var hann alltaf í fremstu röð. Þegar ný tækni við veiðamar, kraftblökk og astic, kom til sögunnar var hann fljótur að tileinka sér hana. Útgerðin var líka einstaklega góð, alltaf fylgst rneð nýjungum en gætni viðhöfð. Bátarnir fengu mjög gott viðhald. Þar var aldrei misfella á. Öllum ber saman um að samstarf þeirra Þorsteins og Ólafs hafi verið með miklum ágætum alla tíð. Þorsteinn sagði undirrituðum að Ólafur hafi fiskað manna mest á þessa báta. Skar sig úr með öll veiðarfæri, bætti hann við.
Þarna voru lengi um borð sömu úrvalssjómennirnir. Það var eftirsótt að vera hjá útgerðinni. Þorsteinn nefndi sérstaklega Einar Sigurjónsson frá Fit, V-Eyjafjöllum, sem lengst af útgerðartíma þeirra var netamaður við bátana. Sérstaklega trúr og góður starfsmaður.
Gunnar Haraldsson frá Nikhól og síðar Grímsstöðum varð vélstjóri á Ófeigi III þegar hann kom nýr frá Hollandi 1955. Hann var áfram á Ófeigi II þegar hann kom frá A-Þýskalandi. Hann var því með Óla í Skuld á þessum bátum í tæp 12 ár. Hann sagði undirrituðum að þarna hefði verið mjög gott að vera. Alltaf mikill afli. Útgerðin sérstaklega góð, mikið af góðum veiðarfæmm og viðhald eins og best varð á kosið. Hann sagði samstarf þeirra sameignarmannanna, Þorsteins og Ólafs, hefði verið einstaklega gott og náið.

Þorsteinn sá um allan rekstur í landi. Útborgun á launum og uppgjör var heimili hans, Blátindi. Gunnar sagði að þangað hefði verið gott að koma að sækja laun. Venjulega hefði verið farið í eldhúsið til Önnu í létt spjall í þeim ferðum. Hann sagðist minnast þeirra félaga með ánægju og þakklæti fyrir árin á Ófeigunum. Ábyggilega eru allir, sem voru hjá þessari útgerð, sammála Gunnari.
Útgerðinni hélst vel á mönnum, t.d. var Lýður Ægisson skipstjóri í 9 ár eða þar til hann fluttist frá Vestmannaeyjum í lok árs 1987.
Auk Ófeiganna átti Jón á Hólmi hluti í tveim bátum með Gunnari Ólafssyni á Tanganum. Það voru Gissur hvíti VE 5 sem var smíðaður í Reykjavík 1936, 18,60 rúmlestir með 65 hestafla Skandia-vél, og Hilmir VE 282 sem var smíðaður í Danmörku 1917, 38 rúmlestir með 48 hestafla Alpha-vél.
Jón sá einn um útgerð Hilmis og sagði Páll Ingibergsson skipstjóri, mikill aflamaður, kenndur við Hjálmholt og Reyni VE 15, sem var skipstjóri á Hilmi um skeið, að betri útgerðarmann en Jón á Hólmi væri ekki hægt að hugsa sér. Þetta sagði hann undirrituðum þegar hann var til sjós hjá honum á Reyni.

Eftir lát Jóns keypti Þorsteinn einn Hilmi af dánarbúinu og Tanganum og gerði út í mörg ár. Skipstjórar hjá honum þar voru Alexander Gíslason Landamótum, Einar Runólfson á Velli, Bernódus Þorkelsson Sandprýði, Eyjólfur Gíslason Bessastöðum og Sigurbjörn Sigurfinsson frá Grund V- Eyjafjöllum. Hann var með hann í átta ár. Vorið 1962 keypti Haukur Jóhannsson Hilmi og gaf honum nafnið Faxi. Sigurbjörn tók þá Ófeig III eins og áður hefur komið fram. Hann hafði allan tímann verið heppinn á Hilmi og aflasæll. Faxi brann og sökk við Þrídranga 1970. Mannbjörg varð.
Þorsteinn Sigurðsson tók þátt í útgerð fjölda annarra báta og skipa en hér hefur verið talið. Hann var einn þriggja stofnenda og eigenda Fiskiðjunnar hf. 1952. Sameignarmenn hans voru Ágúst Matthíasson Litluhólum og Gísli Þorsteinsson Laufási. Áður höfðu þeir í nokkur ár leigt Hraðfrystistöð Vestmannaeyja af Einari Sigurðssyni á Heiði.
Fiskiðjan var stórfyrirtæki í alls konar fiskverkun og útgerð. Það mun hafa komist upp í að eiga fimm báta mest samtímis og tekið afla af 25 bátum á vetrarvertíð, samtals um 14 þúsund tonn á ári af bolfiski til frystingar og söltunar, auk síldar til frystingar og í salt. Þarna var Þorsteinn við stjórnvölinn um árabil, svo einkaútgerðin á Ófeigunum og Hilmi var síður en svo allt sem á hans vegum var.
Árið 1957 eignaðist Fiskiðjan hf. ásamt Vinnslustöðinni hf. Fiskimjölsverksmiðjuna í Vestmannaeyjum. Þorsteinn varð forstjóri. Undir hans stjórn varð þetta fyrirtæki stórveldi í fiskimjölsframleiðslu. Árið 1977 fór það í umfangsmikinn útgerðarrekstur með kaupum á skuttogaranum Sindra og síðar skuttogarnum Breka og nótaskipunum Sighvati Bjarnasyni og Kap. Þarna er Þorsteinn enn í rekstri útgerðar.
Af framansögðu hefur Þorsteinn átt einn eða með öðrum 14 báta, ásamt því að stjórna miklum rekstri í vinnslu sjávarafurða.

Þetta eru:
Ófeigur II VE 324 með Ólafi Sigurðssyni 1947 -1959.
Ófeigur III VE 325 með Ólafi Sigurðssyni 1955-1970, einn 1970-1974, þá með tengdasonum sínum til ársloka 1983 þegar hann hætti þátttöku í rekstri hans.
Ófeigur II VE 324 með Ólafi Sigurðssyni 1959-1970, einn 1970-1974, þá með tengdasonum sínum til júlíloka 1978 þegar hann var seldur til Þorlákshafnar.
Hilmir VE 282 Einn eigandi 1947-1962.
Fiskiðjan átti á stjórnarárum hans þar eftirtalda báta: Gylfa VE 210, Öðling VE 202. Sindra VE 203, Mars VE 204, Stefán Þór og Má.
Og Fiskimjölsverksmiðjan átti á árum Þorsteins þar: Sindra VE 60. Breka VE 61, Sighvat Bjarnason VE 81 og Kap VE 4.

Friðrik Ásmundsson Löndum.