Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Til sjós með Gaua á Hvoli

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Árni á Eiðum


TIL SJÓS MEÐ GAUJA Á HVOLI

Guðjón Kristinsson vakti fyrst á sér athygli sem góður aflamaður þegar hann var með bát fyrir lngólf Theódórsson. Sá bátur hét Sæbjörg VE 55, 32. brl., en var nefndur „Hönkin“ í daglegu tali. Þessi nafngift var ósanngjörn því vel aflaðist á bátinn, auk þess var fleytan hið ágætasta sjóskip. Það eina sem réttlætt gæti uppnefnið er að Sæbjörg var ekki fallegasta fleytan.
Um áramótin 1959 tekur Guðjón við formennsku á Kára VE 47. 63. brl., sem var í eigu Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja. Ég var ráðinn vélstjóri hjá Guðjóni, en áður hafði ég verið háseti með honum á Voninni VE 113. Róðrar hófust í byrjun janúar. Róið var með línu svo sem venja var. Þessa vertíð aflaðist lítið á línuna í upphafi, enda veðurfar rysjótt og mikið um landlegu.
Mér er minnisstæður róður sem farinn var í febrúar. Á róðrartíma kl. 1 var farið af stað. Haldið var fyrirKlettinn og vestur með Eiði. Veður var ekki sem best, suðvestan gúlpur með talsverðu brimi sem átti að lægja með morgninum. Þegar komið var vestur fyrir Smáeyjar, og sjór tók að þyngjast, varð ég þess var að í hvert sinn er báturinn seig að aftan þá spýttist sjór inn í vélarrúmið að aftanverðu. Lekinn var það mikill að ef lensidæla bilaði eða rör stíflaðist niður í kjalsogi þá væri sjórinn óðara kominn upp í gírinn, og þá var hætta á ferðum. Ég fór upp í stýrishús og lét Guðjón vita hvernig komið væri og taldi víst að snúið yrði við. Ekki varð mér að ósk minni og áfram var haldið og það sem verra var, að heldur fór veður versnandi.
Ég sat yfir lensidælunni allt útstímið því mikið var í húfi að hún stöðvaðist ekki. Það kom að því að línan var lögð vestur við Einidrang og þegar ljósbaujan fór fyrir borð var loks slegið af. Með því að lýsa út fyrir borðstokkinn urðum við þess áskynja að skammdekkið hafði lyfst upp á tveggja metra kafla og þar var fundin ástæðan fyrir lekanum. Okkur tókst að troða strigapokum í rifuna og eftir það lak minna.
Línudráttur hófst áður en bjart var orðið enda komið hið versta veður, öfugt við það sem spáð var. Hugsað var um það eitt að ná inn línunni og hafi verið fiskur á línunni reyttist hann af, svo hart var andófið. Aflinn á alla línuna, en bjóðin voru 40, var um 400 kg svo ekki var stór hluturinn eftir þennan róður.
Annan róður kann ég að nefna sem var ólíkt skemmtilegri. Það var í byrjun mars að það gerði hið besta veður, norðan andvara og sjólaust. Haldið var í róður fyrir miðnætti, sem þýddi að nú skyldi kanna nýjar leiðir, og það var veðrið til þess. En hvert? Þeirri spurningu varð fljótt svarað því Guðjón setti stefnuna fyrir sunnan Bjarnarey, til austurs. Keyrt var fulla ferð þar til komið var austur í Reynisdýpi. Þar bugtaði Guðjón línuna niður. Legið var yfir línunni í blíðskapar veðri. Þegar menn höfðu fengið sér morgunverð var endaduflið innbyrt. Þegar stjórinn skall í dekkið var blómlegt að horfa út fyrir borðstokkinn. Línan var gráseiluð af fiski. Þarna fór í hönd einn skemmtilegasti línuróður sem ég man eftir. Og ekki vantaði fjölbreytnina hvað tegundirnar varðar. Skiptist nokkuð jafnt þorskur, ýsa og langa, ennfremur fékkst nokkuð af lúðu, keilu og skötu. Það tapaðist þó nokkuð af línu því botninn var víða slæmur en mest sá maður eftir aflanum sem tapaðist. Það var gaman að leggjast að bryggjunni um kvöldið með 18 lestir á dekkinu, fyllti allt miðdekkið og aftur báða ganga.
Strax eftir að aflanum hafði verið landað og línan komin um borð var sleppt og haldið á sömu mið, nú átti að endurtaka leikinn. En nú vorum við ekki einir á ferð því formenn annarra báta höfðu fylgst grannt með þegar Kári landaði um kvöldið. Nú var allt gefið í botn, allir vildu verða fyrstir og öllum sóttist siglingin vel í ágætu veðri. Þegar komið var austur að Pétursey fór að kula af austri, en menn létu það ekki aftra sér og lögðu á sömu slóðir og við deginum áður. Þegar línudráttur skyldi hefjast vandaðist málið því að kominn var austan strekkingsvindur. Og það sem verra var allar baujur voru horfnar. Það hafði sett í slíkan straum að allt drógst í kaf. Það er hægt að gera langa sögu stutta því allir misstu línu og flestir alla, þar á meðal við. Sannaðist hér hið fornkveðna að það er ekki alltaf á vísan að róa.
Skömmu síðar, eftir að þessi róður var farinn, voru netin tekin um borð því vart hafði orðið við loðnu grunnt með Sandinum. Nokkur afli fékkst en svo gekk í hafátt og þá var farið með netin út á dýpra vatn, Guðjón sem var manna kunnugastur miðum umhverfis Eyjar, lagði netin grunnt inni á Stakkabót og þar fengum við góðan afla í tvo daga. Því næst var farið suður á Banka.
Dag einn í góðu veðri höfðum við dregið nokkrar trossur í bátinn vegna aflatregðu. Leitað var eftir lóðningum lengi dags en ekki fékkst högg á dýptarmælinn. Það var komið fram á miðjan dag þegar Guðjón sá mikið súlukast fast uppi í Geirfuglaskeri að vestan. Það var ekki tvínónað við hlutina heldur var allt látið fara í súlugerið. Súlan kom upp með síld eftir að hafa stungið sér og ekki var fráleitt að halda að þarna væri fiskur undir. Næsta dag var farið með fyrra móti því spáð var suðaustlægri átt og netin ekki á besta stað ef veður spilltist. Þegar byrjað var að draga reyndist mokafli í netunum af spriklandi þorski. Menn létu hendur standa fram úr ermum því nú hófst kapphlaupið við veðrið því alltaf bætti í vindinn. Vel gekk að draga og þegar drætti lauk var lestin orðin full og slatti á dekki. Þegar lagt var af stað heimleiðis og ég kom niður í vélarrúm tók ég eftir því að hleri milli lestar og vélarrúms var farinn að svigna inn í vélarrúmið undan þunga fisksins. Ég greip til þess ráðs að ná í stíufjalir og stífa hlerann aftur í vél. Nú var spurning hvort þetta héldi því stöku lifrarbroddar fóru að gjægjast eftir því sem hlerinn gliðnaði. Ég stoppaði ekki lengur niðri en nauðsynlegt var. Eða hefði það ekki orðið saga til næsta bæjar að vélstjórinn drukknaði í þorski? Allt fór þetta samt vel og við lönduðum 54 lestum úr þessum róðri, þeim stærsta á vertíðinni.
Eins og ég drap á í upphafi var Gaui á Hvoli góður aflamaður og ákaflega gott að vera með honum. Það var ekki verið að æsa sig upp. Þess þurfti hann ekki.
Guðjón lést fyrir allmörgum árum, langt um aldur fram, og öllum harmdauði. En minningin um góðan félaga lifir.
Sjómenn! Til hamingju með daginn.
Árni á Eiðum