Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Fýllinn við Ísland
Einhver fyrsti fuglinn sem sjómaðurinn mœtir, er hann kemur úr hafi, er fýllinn. Þessi sérkennilegi fugl er orðinn fylgispakur sjómanninum og af stimum talinn til bestu vina. Er þess skemmst að minnast, þá Guðlaugur Friðþórsson, þreytti sitt mikla afrekssund, þá talar hann um að fýllinn hafi fylgt sér.
Meðfylgjandi ritgerð er eftir nemenda í Framhaldsskóla Vestmannaeyja og greinir frá hingað komu fýlsins og lifnaðarháttum.
Fýll (fulmarus glacialis) er af ætt Fýlinga (Proceallariedae) sem er stærsta ætt stormfugla. Fýlinn er einnig nefndur: fúlmár, fýlingur, fýlungi, fýlungur, gráleggur, sladdi, malimúkki og múkki. Algengt er að sjómenn kalli hann múkka, þar sem hann fylgir mikið bátum í leit að æti. Breiðfirsk kona tjáði mér að malimúkki hefði verið notað þar um slóðir um fýlinn.
Fýllinn er hvítur á höfði, hálsi og kviði. Á baki, vængjum og stéli er hann ljósgrár, vængbroddarnir eru dökkir. Nefið er grængrátt eða blágrátt og gult í oddinn, en fæturnir eru ljósgráir. Afbrigði er til af fýl, algrár, hann finnst helst á norðlægum slóðum. Þetta afbrigði er ekki til á Íslandi nema einstaka fugl. Hann kallast „kolapiltur", í Vestmannaeyjum, en ,,smiður" í Grímsey. Lítill litamunur er á ungum og fullorðnum fuglum, og enginn á kynjum.
Fýllinn er mjög algengur bjargfugl umhverfis landið í dag, en þannig hefur það þó ekki alltaf verið. Samkvæmt gömlum heimildum bendir allt til þess að fýllinn hafi verið mjög sjaldgæfur. Honum hafi hins vegar fjölgað mjög skyndilega á fyrri hluta 18. aldar. Elsta heimild um varp fýlsins er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þar er getið um veiðimáta Grímseyinga og varpstaði hans, þessi heimild er frá 1713. Í ágætu yfirliti yfir fuglalíf Vestmannaeyja í Vestmannaeyjalýsingu séra Gissurar Péturssonar, prests á Ofanleiti 1687-1713, er fýllinn ekki nefndur á nafn. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1750-1757, er hins vegar getið þriggja varpstaða fýlsins hér við land og eru það Grímsey, Reykjaneseyjar og Vestmannaeyjar.
Fýllinn verpir í sjávarhömrum, ýmist einn útaf fyrir sig eða innan um annan bjargfugl. Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og raunar víðar um land eru varpstöðvar langt frá sjó, svo sem í Emstrum um 50 km inni í landi. Fýllinn sækist eftir að verpa á gróðursælum stöðum í berginu, en þó verpir hann einnig á gróðurlausum stöðum. Varpið byrjar í maí sunnanlands og fram í júní norðanlands. Eggið er eitt og er sjö vikur að ungast út.
Þar sem fýlavarp var mest, var áður mikil búbót að því. Sigið var í björg, bæði til að ná eggjum og ungum, jafnvel fullorðnum fuglum. Í Vestmannaeyjum lágu þungar sektir við að taka fýlsegg, vegna þess að miklu meiri matur var í unganum að hausti. Fýlaferðir hófust sautján vikur af sumri og voru í um vikutíma. Hlöðver Johnsen segir í bók sinni ,,Bergið klifið", frá verkun fýlsins:
„Fýllinn er reyttur og krufinn, saltaður, síðan lagður í bleyti og soðinn í eina klukkustund og borinn fram með rófum og kartöflum. Innvolsi úr honum var hent, nema kviðmörinn var tekinn og nýttur í fýlabræðing. Að reyta og verka fýl var heldur hvimleitt verk og óþefur mikill af hálfmeltri fæðu í maga og fýlaspýjunni sem hann dregur nafn sitt af. Ekki var lyktin heldur góð þegar fýll var soðinn, en vel verkaður og feitur, saltaður fýll þótti herramannsmatur." (Bls. 126, Hlöðver Johnsen). Fýll var einnig veiddur að vetrarlagi í Vestmannaeyjum. Vetrarfýllinn var fullorðinn fugl nokkuð ólíkur unganum, var ekki nærri eins feitur og hann þurfti mun lengri suðu. Þessi veiði stóð frá haustmánuðum og fram yfir áramót. Einstaka maður fer enn í vetrarfýl í Vestmannaeyjum. Fýlafiður var notað í sængur og þótti ekki eins gott og fiður af lunda sbr. Einar ríka í bók sinni: „Fýlafiðrið var miklu verra. Það var grófara og þyngra, og af því lagði sterka lykt. Mátti oft kenna það á þef af mönnum, ef þeir sváfu við sængur með fýlafiðri. Var því sælzt til að hafa það í undirsængur." (Bls. 197, Þórbergur Þórðarson). Sjávarbændur skiptu einnig á sölvum og söltuðum fýl og fýlafiðri.
Árið 1936 kom upp veiki í Vestmannaeyjum, sem líktist skæðri lungnabólgu. Nokkrar konur dóu úr veikinni, en hana mátti rekja til smits, sem fýllinn hafði borið. Þetta var svonefnd páfagaukaveiki. Fýlaveiðar voru bannaðar vegna þessa 1940, og lágu þær nær alveg niðri til 1960, en einstaka maður veiddi sér þó á laun til matar, þar sem fýllinn þótti mikið lostæti. Margar getgátur eru uppi um það hvernig smitið hafi borist í manninn. Ein er sú að aðeins fengu þær konur veikina er verkuðu fýlinn. Er því trúlegast að þær hafi eftir að hafa troðið fiðri uppí fýlinn, svo ekki rynni út úr honum lýsið, brugðið fingri að munni og þá fengið smitið.
Miðaldra maður tjáði mér að fýll hefði alltaf verið borðaður á heimili hans, þrátt fyrir að móðir hans og konur almennt hefðu haft megnustu ímugust á fýl. Þar af leiddi að verkun og matreiðsla fýls, færðist yfir á hendur fjölskyldufeðra. Af þessu má leiða líkur að fýlaveikin, er fyrst og fremst herjaði á konur, hafi yfirfærst sem andúð á fuglinum og neyslu hans.
Af hátterni fýlsins hefur oft verið hægt að ráða í veðráttuna. Það bregst ekki að bjartviðri er í nánd þegar bergin eru full af fýl, en þegar bergið er allt í einu orðið autt og ekkert heyrist í fýlnum veit það á austan rigningu. Ef fýllinn flaug lágt eða sat á sjónum og hjó í hann töldu Vestmannaeyingar veðrabrigði í nánd. Í Mýrdal áttu menn von á hláku þegar fýllinn var kominn í bergið. Ekki var það þó einhlítt, því eins gat það verið undir snjókomu.
Suðursveitungar töldu, að það færi að brima ef fýllinn flaug nokkra hringi umhverfis skip og þótti þá rétt að drífa sig í land.
V-Skaftfellingar og Vestmannaeyingar notuðu talsvert fugl til beitu á handfærum. Þótt fýllinn hin besta beita, einkum görnin og fillan (fitulag).
Fýlaveislur voru alltaf haldnar eftir að veiði var lokið og voru þær venjulega hjá þeim er áttu sókningsbátinn. Sigfús M. Johnsen segir í ,,Sögu Vestmannaeyja" frá fýlaveislum. ,,Að afstöðnun fýlaferðum héldu veiðimennirnir í sama leigumála sér skemmtun, er nefnd var fýlaveizla. Á borðum var reyktur fýlungi, er jafnan þótti hér hátíðamatur, rúsínugrautur með sírópi eða kjötsúpa af nýju kjöti og jafnvel kindasteik. Fýlaveizlurnar stóðu venjulega alla nóttina og fram á morgun. Kaffi var drukkið óspart og brennivín og koníak út í. Fýlaveizlan var haldin hjá bátseigendum, er leigðu fýlamönnum bát til að sækja á fýlinn, er veiddur var í úteyjum. Var það talið jafnan happ að fá að leggja til bát til sóknar í úteyjar og greitt í skipshlutinn sóknarhlutur með vissri tölu af fugli. (bls. 167. Sigfús m. Johnsen)." Fýlaveislur eru haldnar enn þann dag í dag af þeim er saman eru um veiðina. Það er mikil stórveisla mikið etið af fýl, ýmist úr salti eða reyk. Meðlæti með fýlnum eru nýjar kartöflur og rófur. Drykkjarföng eru öl og dreypt er á snafsi s.s. ísköldu gömlu brennivíni. Vestmannaeyjum, 17. febrúar 1987.
HEIMILDASKRÁ:
Sigfús M. Johnson: Saga Vestmannaeyja, Ísafoldprentsm. h.f. Reykjavík 1946 Óskar Ingimarsson og Þorsteinn Thorarensen: Fuglar, Fjölvi, Reykjavík 1984. Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir, Menningarsjóður, Reykjavík 1. bindi 1980, 2. bindi 1982 3. bindi 1983, 4. bindi 1985 og 5. bindi 1986.
Guðjón Ármann Eyjólfsson: Vestmannaeyjar byggð og eldgos, Ísafolsverksmiðja h.f., Reykjavík 1973.
Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók, 1. bindi, snæbj. Jónss. & Co. h.f.2.útg. 1958.
Náttúrufræðingurinn, 4 hefti 1952.
Jóhann Gunnar Ólafsson: Árbók Ferðafélags Íslands, 1948.
Þorbergur Þórðarson: Einar ríki, 1. bindi, Fagurt er í Eyjum, Helgafell, Rvík 1967.
Hlöðver Johnsen: Bergið klifið. Minningar veiðimanns. Alm. bókafélagið, 1986.