Sigfús Maríus Johnsen

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigfús M. Johnsen bæjarfógeti.
Jarþrúður Johnsen, kona Sigfúsar M. Johnsen bæjarfógeta.


Sigfús Maríus Jóhannsson Johnsen bæjarfógeti og sýslumaður fæddist í Eyjum 28. marz 1886 og lézt 9. júní 1974.
Foreldrar hans voru Jóhann Jörgen Johnsen, f. 6. október 1847, d. 11. maí 1893 og k.h. Anna Sigríður Árnadóttir, f. 6. júní 1855, d. 20. ágúst 1930.

Lífsferill

Sigfús varð stúdent 1907, cand. phil. í Kaupmannahöfn 1908, lauk lögfræðiprófi frá Háskólanum í K.höfn 1914, varð yfirdómslögmaður 1914-18.
Hann var aðstoðarmaður í Stjórnarskrifstofu Íslands í K.höfn um skeið að loknu prófi. Var settur dómari tímabundið í Vestmannaeyjum 1916, kenndi við unglingaskóla Björns H. Jónssonar í Eyjum 1916-17, var stundakennari við Verzlunarskólann og kenndi verzlunarrétt 1922-25, kenndi við Iðnskólann í Rvk 1925-40.
Hann var settur dómari í Eyjum 1916, var fulltrúi í Stjórnarráðinu 1917-40, hæstaréttarritari 1929-36 og sá um útgáfu hæstaréttardóma og vann jafnframt við Hagstofu Íslands. Honum var falið 1924 að hafa eftirlit með fiskveiðilöggjöfinni frá 1922 og dvaldist þá um hríð norðanlands; settur sama ár setufógeti og setudómari í Skagafirði í ýmsum málum. Var endurskoðandi Áfengisverzlunar Ríkisins 1924-28; kosinn var hann í lóðamerkjadóm Reykjavíkur 1929.

Sigfús var skipaður bæjarfógeti í Eyjum 11. október 1940 og gegndi starfanum til 1949. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og starfaði sem fulltrúi í fjármálaráðuneytinu til 1957. Síðar var hann þrjú ár í Danmörku við fræðistörf, einkum rannsóknir á ættum Íslendinga í Danmörku.

Sigfús var mikill fræðimaður um sögu Eyjanna og mannlíf þar. Nefna má stærsta verk hans:

Þá má nefna:

  • Kláus Eyjólfsson lögsagnari, 300 ára minning, 1927.
  • Þættir úr menningarsögu Vestmannaeyja í Andvara 1927-29.
  • Hákarlaveiðar í Vestmannaeyjum, í sama 1932.
  • Um menn, sem hrapað hafa í björgum í Vestmannaeyjum, í Blöndu IV.
  • Greinar í Lesbók Morgunblaðsins, einkum varðandi sögulegan fróðleik úr Eyjum.
  • Fyrstu mormónarnir, sem skírðir voru á Íslandi, í Bliki 1961.
  • Ættir Íslendinga í Danmörku (í handriti).
  • Ættir Vestmannaeyinga (í handriti).
  • Rit um barnafræðslu á Íslandi 1910-1920 (í handriti).
  • Ferðaþættir í Fálkanum.

Auk þessa skrifaði hann skáldsögur:
Herleidda stúlkan, 1960.
Uppi var Breki, 1968.
Hann reit sjálfsævisögu sína:
Yfir fold og flæði, 1972.

Maki I, barnsmóðir: Sigurveig Guðrún Sveinsdóttir, f. 10. janúar 1887, d. 21. mars 1972.
Barn: Baldur Garðar Johnsen, f. 22. október 1910, d. 7. febrúar 2006.
Maki II (12. júní 1915): Jarþrúður Pétursdóttir, f. 3. júní 1890, d. 9. október 1969.
Foreldrar: Pétur prestur á Hálsi í Fnjóskadal, síðar á Kálfafellsstað í Suðursveit, f. 12. júní 1850, d. 28. apríl 1926, Jóns dómstjóra Péturssonar prests á Víðivöllum Péturssonar og fyrri konu Jóns dómstjóra, Jóhönnu Sofíu Bogadóttur stúdents að Staðarfelli, Benediktssonar. Móðir Jarþrúðar og kona Péturs prests var Helga Skúladóttir á Sigríðarstöðum Kristjánssonar.
Þau Jarþrúður og Sigfús eignuðust ekki börn.

Hinn 18. janúar 1967 gáfu þau Jarþrúður bænum málverkasafn, sem í voru m.a. 34 málverk eftir Jóhannes Kjarval og er safnið nú grunnurinn að listasafni bæjarins. Svo átti að heita, að þau seldu bænum málverkin á kr. 500.000,00, en 40% þeirrar upphæðar skyldi renna í sérstakan sjóð til eflingar og viðgangs listasafninu.
Sjá nánar Blik 1969: Hjónin Sigfús M. Johnsen og Jarþrúður P. Johnsen



Heimildir

  • Upphaflega grein skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Brynleifur Tobíasson: Hver er maðurinn. Reykjavík: Fagurskinna, 1944.
  • Íslenzkir samtíðarmenn. Reykjavík: Bókaútgáfan Samtíðarmenn, 1965-1967.
  • Kennaratal á Íslandi. Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi H.F., 1958-1988.
  • Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1948-1976.
  • Blik, ársrit Vestmannaeyja 1969.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.