Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Frá frönskum sjómönnum fyrr á tíð
Talsvert hefur verið skrifað um frönsku fiskimennina, sem voru hér við land á öldinni sem leið og langt fram á þessa öld.
Þeir skildu eftir nokkrar minjar og má þar helst nefna sjúkrahúsin þrjú, sem reist voru á Fáskrúðsfirði, í Reykjavík og í Vestmannaeyjum. Byggingar þessar standa enn í Reykjavík og í Vestmannaeyjum, en sjúkrahúsið á Fáskrúðsfirði var flutt þaðan út í Hafnarnes og var þar notað sem fjölbýlishús. Á Búðum í Fáskrúðfirði byggðu Frakkar einnig kapellu og sjómannaheimili.
Þrátt fyrir þessar myndarlegu byggingar og ekki síst það mannúðar- og líknarstarf, sem þar var unnið af bæði frönsku og íslensku hjúkrunarfólki, eru ekki síður merkilegar þær sagnir og sögur, sem enn lifa í hugum Frakka og íslendinga um veru frönsku sjómannanna hér við land. Nokkrar bækur hafa verið ritaðar um þetta litríka tímabil í sögu þessara þjóða og m.a. heimsfræg skáldsaga. Einn frægasti rithöfundur í Frakklandi á síðari hluta 19. aldar, Pierre Loti skrifaði bók, sem byggist á lífi franskra skútusjómanna við Ísland.
Lýst er lífinu á Bretaníuskaga, sem er vestast í Frakklandi úti við Ermasund.
Skipin sem sigldu á Íslandsmið voru aðallega frá þremur borgum: Pompól (Paimpol), sem er á Bretaníuskaga norðanverðum, Dunkerque og Gravelines, sem voru útgerðarbæir í Flandri, nyrst í Frakklandi við landamæri Belgíu og Frakklands. Flest voru skipin á Íslandsmiðum frá Pompól frá árinu 1865 til 1908, 40 til 60 skip á hverri vertíð, en árið 1895 voru þau flest, eða 80 talsins. Þetta þóttu falleg skip og þróuðu Pompólar sérstaka gerð Íslandsskútu: tvímastraða með rásegli í framsiglu, 100 til 180 tonn að stærð, lipur skip, hraðskreið og létt á báru, 27 til 35 metrar á lengd, 6 til 7 metra breið og ristu fullhlaðin 3,70 til 4,50 metra. Áhöfnin var 23 til 26 menn á hverju skipi.
Sjómenn sem sigldu á miðin við Ísland voru kallaðir Íslendingar (Islandaise) en íbúar Bretaníu eru af keltneskum stofni og á þessum tíma var fyrst og fremst töluð þar bretónska. Stór hluti íbúanna skildi ekki annað tungumál. Fátækt var landlæg, þar til sóknin á Íslandsmið hófst, þá gengu í garð uppgangstímar. í Pómpól eru enn til nöfn, sem minna á forna frægð Íslandsferðanna eins og Islendingabryggja, íslendingagata og Íslendingakrá. Árið 1980 kom út í Frakklandi bók, sem heitir „Yves frændi“ og fjallar um Íslandssjómanninn Yves le Roux (íslensk útgáfa 1981). Til heiðurs honum og öðrum Íslandsförum var gata í Pompól skírð „Gata Íslendingsins Yves le Roux“.
Bók Pierre Lotis um Íslandssjómanninn (Pécheur d'Islande), sem kom út árið 1886, náði fljótlega heimsfrægð og er enn mikið lesin. Árið 1930 kom hún út í íslenskri þýðingu Páls Sveinssonar og hlaut þá nafnið „Á Íslandsmiðum“. Bókin lýsir einkar vel lífi fólksins á Bretaníuskaga, sem bíður ástvina sinna hálfan veturinn, sumarið og fram á haust, en sjómenn voru sjö mánuði að heiman á norðlægum slóðum. Ein þeirra sem bíður er Góð (Gaud), unnusta aðalsöguhetjunnar Jóhanns (Yamm) sem er háseti á skútunni Maríu. En Jóhann var einn þeirra mörgu sem aldrei kom aftur. ,,það var eina nótt í ágústmánuði að brúðkaup þeirra Ránar og hans fór fram langt norður í höfum úti við Ísland; var þar skuggalegt umhorfs og ham-fariráalla vegu“ skrifar Loti. Setning þessi er víðfræg og stendur á frönsku og íslensku á minnisvarða um franska sjómenn í gamla kirkjugarðinum við Suðugötu í Reykjavík. Lýsingar Pierre Lotis á lífi og fiskveiðum sjómanna hér við land eru þó óraunsæjar, en skáldlegar; bókin er sígild og hefur ákveðna töfra enda heldur hér góður rithöfundur á penna.
Um franska strandmenn í Skaftafellssýslu skrifaði Páll Sveinsson í formála „Á Íslandsmiðum“: ,,Var strandmönnum þá komið fyrir á bæjum ergátu hýstþá og voru þeirœtíð vel þokkaðir af heimilsfólki, ekki sísl börnum, enda hefir mér alltaf fundizt þeir taka öðrum erlendum sjómönnum fram i háttprýði og góðu viðmóti.“
Vegna ritsnilldar Pierre Lotis hafa fiskveiðar Frakka hér við land verið sveipaðar nokkurri rómantík. Í raun var þetta þó ekkert sældarlíf, því að aðbúnaður var allur mjög bágborinn. Oft á tíðum var þetta reglulegt hundalíf. Í bókinni um Yves le Roux, sem Jón Óskar rithöfundur þýddi, eru aftur á móti mjög raunsannar lýsingar af kjörum frönsku sjómannanna og er rakin nokkuð saga fiskveiðanna við Ísland. Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, ritaði ágætan formála að bókinni og skrifar m.a. „Siglingasaga Frakka til Íslands er látlaus harmsaga einstaklinga. Það er saga sjóslysa, sjúkdóma, vosbúðar og hörmunga, en jafnframt saga mikillar karlmennsku og æðruleysis, líkt og saga allra þeirra sem sóttu sjóinn frá Íslandi. Saga íslenska sjómannsins er þó nokkuð á aðra lund, því þótt hafið umhverfis landið hafi í aldaraðir heimt marga landa okkar í greip sér og vosbúð einatt verið mikil, þurftu íslenzkir sjómenn aldrei að dvelja víðsfjarri átthögum sínum 7 mánuði ársins til þess að sjá fjölskyldu sinni farboða.“
Í 83 ára útgerðarsögu Pompól á íslandsmiðum sem stóð frá 1852 til 1936, þegar síðasta skútan, la Glycine, var gerð þaðan út, fórust yfir 100 skip með um 2000 sjómönnum eða nærri íbúatölu bæjarins.
Skútur frá Pompól fóru af stað til Islands upp úr miðjum febrúar. Flest skipin létu í haf frá Pompól í stórstraumnum um og eftir 20. febrúar, og það var orðtak þar um slóðir: „Erfiður mánuður, það er þorskmánuður.“ Skútur frá Dunkerque og Gravelines fóru seinna af stað eða í lok mars. Skipin frá Pompól sigldu vestan við Scillyeyjar og Írland og voru viku til hálfan mánuð á leiðinni til Íslands eftir því hvern byr þau fengu í hafi.
Í kirkjugarðinum í Plúbaslanekju (Ploubazlanec), sem er smáþorp skammt frá Pompól, er ,,múr þeirra sem fórust á hafi úti“. Þar er fjöldi minningartaflna og krossa um sjómenn, sem komu aldrei aftur úr Íslandsför. „Fórst við Ísland“ stendur á þeim nær öllum. Á miðgóu, aðfaranótt 6. mars, árið 1873 fórust t.d. 13 skútur (heimild Páll Sveinsson, franskar heimildir segja 14 skip) úti fyrir Hornafirði eystra og drukknuðu þar á annað hundrað manns, en einn þriðji hluti skipbrotsmanna, eða nær 60 manns, komust af og héldu lífi. Mörg lík rak á Nesfjörur og þar eystra er grafreitur með nöfnum þeirra.
Víðar eru grafreitir franskra sjómanna, t.d. er uppbyggður grafreitur í Haukadal í Dýrafirði prýddur trjám. Í kirkjugarðinum á Fáskrúðsfirði er minnisvarði yfir gröfum 49 franskra sjómanna. Á minnisvarðann eru skráð 30 nöfn, en 19 hvíla þar óþekktir. Þar er þetta vers bæði á frönsku og íslensku:
Þau héldu beint á hafsins sviðeitt hundrað skip er vorið leið svo óralangt á Íslands mið hvar ólgusjór og vindur beið.
Árið 1906 voru skipin flest á Íslandsmiðum og í Norðurhöfum eða 180 talsins með 3868 sjómönnum um borð.
Frönsku sjúkrahúsin
Sjúkrahúsið, sem Frakkar reistu í Vestmannaeyjum við Kirkjuveg 20 árið 1905-1906 og enn stendur, mikið breytt, var fyrsta sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum. Áður hafði veikum erlendum sjómönnum, sem margir voru settir á land í Eyjum, verið hjúkrað á einkaheimilum og í eina veitingahúsinu í Eyjum, sem dönsk merkiskona, maddama Roed, rak til ársins 1878, er Jóhann Jörgern Johnsen (d.1893) fékk veitingaleyfið. Eftir velheppnaða för dr. Schleisners til að kveða niður ginklofann og með stofnun fæðingarheimilis í Landlyst árið 1847, sem var fyrsta fæðingarstofnun á Íslandi, áttu Vestmanneyingar gott tækifæri á að eignast fyrsta sjúkrahús landsins. Philip Theodor Davidsen, héraðslæknir í Vestmannaeyjahéraði frá 1852-1860, lagði til við dönsku stjórnina að Landlyst, sem hafði þá staðið ónotuð um hríð yrði gert að almennu sjúkrahúsi, „og stóð ekki á fylgi dönsku stjórnarinnar, en úr framkvæmdum varð ekki fyrir úrtölur innlendra stjórnvalda og tómlœti eyjaskeggja. Þannig gekk Vestmanneyingum úr greipum tækifæri til að eignast fyrstir Islendinga raunverulegt sjúkrahús“ segir í bókinni Læknar á Íslandi eftir Lárus H. Blöndal og Vilmund Jónsson.
Árið 1883 byggði Jóhann Jörgen vandað tvílyft timburhús, Frydendal, síðar Bjarma við Miðstræti, og tóku þau hjónin og eftir lát Jóhanns kona hans, Sigríður Árnadóttir, á móti sjúklingum fram til aldamóta. Eftir 1904 var tekið á móti erlendum sjúklingum í Hlíðarhúsi, oftast kallaður Hóll, hjá frú Soffíu Andersdóttur, ekkju Gísla Stefánssonar kaupmanns og útvegsmanns (d.1904). Guðrún Sveinsdóttir á Sveinsstöðum, móðir Ársæls Sveinssonar og þeirra systkina, tók einnig iðulega veika, útlenda sjómenn inn á heimili sitt og hjúkraði þeim. Á Sveinsstöðum, sem stóð fram að eldgosi norðan við Njarðarstíg, var herbergi í suðvesturhorni, sem ætlað var til móttöku erlendra sjómanna.
Þjónusta lækna og hjúkrunarfólks í Vestmannaeyjum við erlenda sjómenn á þessari öld fram til útfærslu landhelginnarárið 1952, og reyndar lengi eftir það, þó að útlendu sjúklingarnir væru þá ekki eins margir, er merkileg saga. Oft fóru læknar svaðilfarir um borð í skip, sem lágu fyrir utan í úfnum sjó, til að sinna þar sjúkum sjómönnum eða koma þeim í land.
Í skáldsögunni Mistur (1936) eftir Theódór Friðriksson, sem fjallar urn vertíðarlífið í Eyjumámilli 1920-1935 (framhald af Lokadegi, sem kom út 1926) skrifaði Thedór: „Alt af var verið að brjótast út í togarana eftir særðum og sjúkum verkamönnum. Voru þeir bornir á sjúkrabörum, þegar á land var komið og fluttir á sjúkrahúsið, blóðugir og benjum hlaðnir eftir orustuna við að framleiða verðmæti handa þeim, sem áttu við mildari lífskjör að búa.“
Frönsku sjúkrahúsin hér á landi voru byggð stuttu eftir aldamótin; í Reykjavík árið 1902 (síðar gagnfræðaskóli við Lindargötu) með 20 sjúkrarúmum; á Fáskrúðsfirði 1903 með 17 rúmum og í Vestmannaeyjum 1905-1906 með 9 sjúkrarúmum. Heilsugæsla hér á landi var þá hinfrumstæðasta og sjúkraskýli og ófullkomin sjúkrahús aðeins til í stærstu kaupstöðum eins og í Reykjavík (frá 1866), Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Seyðisfirði.
Það voru tvö frönsk góðgerðar- og líknarfélög, sem unnu að velferð og aðhlynningu franskra sjómanna í þann tíð; sáu um hina félagslegu hlið eins og það væri nefnt í dag. Þannig félög voru fyrst stofnuð í Bretlandi um 1880 og var skipstjórum boðið upp á fyrirlestra og kennslu í meðferð sjúkra og slasaðra. Stuttu síðar voru stofnuð sams konar samtök í Frakklandi. Á stefnuskrá þeirra var að kenna fiskimönnum einnig ýmislegt varðandi sjómennsku og störf þeirra um borð. en stjórnvöld höfðu ekki gert kröfu til þess.
Með konunglegri tilskipun frá 4. ágúst 1819 höfðu frönsk stjórnvöld þó fyrirskipað að lyfjakista skyldi vera um borð í hverju frönsku skipi. Fáir kunnu samt að fara með lyf og var því einnig kennd slysahjálp og meðferð lyfja. Félagið hét „Société des Æuvres-de-Mer“, sem mætti ef til vill útleggja ,,Styrktarfélag sjómanna“. Það var stofnað í París árið 1894 í anda katólsku kirkjunnar af trúbræðrum sem nefndust „Augustins de l'Assomption“ og var félagið og framkvæmdir þess fjármagnaðar meðalmennum samskotum félaga og einstaklinga. Félagið stóð síðan fyrir mörgum stórvirkjum á sviði mannúðar- og líknarmála meðal franskra sjómanna bæði hér við land og annars staðar í norðurhöfum, eins og við Nýfundnaland, þar sem Frakkar höfðu hundruð skipa; flest árin 1902 og 1903 eða 426 skip með 10.666 sjómönnum um borð árið 1903.
Höfuðverkefnifélagsins varútgerð sérstakra spítala- og kirkjuskipa. Árið 1896 reisti félagið sjómannaheimili og sjúkrahús (Maison des Æuvres de Mer) á Fáskrúðsfirði. Katólskt trúboð Dana kom þarna á fót sjúkrahúsi með 6 rúmum eftir að hafa safnað fé í Frakklandi og Danmörku, en einnig naut það stuðnings franska ríkisins. Þrjár hjúkrunarkonur störfuðu á þessu sjúkrahúsi, sem telst fyrsta sjúkrahús á Austfjörðum og var síðar notað sem íbúðarhús og kallað Grund. Læknar frá frönsku herskipunum eða skipum, sem „Styrktarfélag sjómanna“, gerði út gegndu óreglubundið störfum við sjúkrahúsið. Þetta merkilega félag gerði út sjö spítala- og kirkjuskip frá 1896-1939. Í sérstöku fréttabréfi, sem félagið gaf út og kom út árlega, segir hinn 20. janúar 1920, að frá 1897 til 1919 hafi 1437 sjúklingar komið til hjúkrunar um borð og legudagar í spítalaskipunum verið 21.767, en vitjanir 7.265. Skipin gegndu því mjög veigmiklu hlutverki á fiskimiðunum. Í félagslegu tilliti var þjónusta þeirra mönnum til andlegrar uppörvunar og hressingar. Á ofangreindu tímabili tóku skipin á móti eða skiluðu til fiskimanna 537.802 bréfum. Hinn rauði kross, sem var merki spítalaskipanna, var mönnum tákn líknar og vonar á erfiðum stundum.
,,Félag franskra sjúkrahúsa á Islandi“ (Société des hopitaux francais d'Islande) kom í kjölfar ,,Styrktarfélagsins“. Það var stofnað í Dunkerque árið 1901 með það fyrir augum að reisa sjúkrahús á Íslandi fyrir franska sjómenn. Félagið var stofnað að tilhlutan útgerðarmanna í Dunkerque og franska flotamálaráðuneytisins. Það var rekið með frjálsum framlögum og stóð fyrir byggingu frönsku sjúkrahúsanna.
Flokka mátti þá kröm og sjúkdóma, sem sérstaklega hrjáðu frönsku sjómennina, í þrjá höfuðflokka, þó að sjúkdómar væru ákaflega margbreytilegir eins og gengur. Flokkun þessi er skv. bók, sem rituð er af tveimur frönskum læknum, Jean-Loup Avril og Michel Quéméré, en þeir hafa skrifað fróðlega bók, sem nefnist Íslandssjómenn (Pecheurs d'Islande) og kom út í Frakklandi árið 1984. Hér hefur talsvert verið stuðst við þessa bók ásamt fleiri ritum. Læknarnir flokka sjúkdóma sjómanna þannig:
1. Atvinnusjúkdómar og slys. eins og ígerðir, handarmein og bólgnir úlnliðir, sem voru kallaðir „Íslandsblóm“! (fleur d'Islande), lost og kal.
2. Fylgikvillar erfiðrar vinnu og hins slæma aðbúnaðar og nær engrar aðstöðu til hreinlætis, en oft voru tveir um sömu koju og vinnutíminn 15-20 tímar í sólarhring, en aldrei talinn minni en 15 klukkustundir. Er þetta reyndar eins og enn tíðkast hér víða til sjós.
Fylgisjúkdómar þessir voru taugaveiki, skyrbjúgur, berklar, gigt, augnsjúkdómar og áfengissýki, en alkóhólisminn var landlægur meðal erlendra sjómanna, sem fengu skammtaðan nærri því fjórðung lítra af áfengi dag hvern, þó að skammtur skv. reglugerð væri „aðeins" 20 eentilítrar. Þó var minna drukkið hér við land en var á skútunum við Nýfundnaland (heimild: Lacroix).
3. Geð- og taugasjúkdómar vegna hins mikla álags um borð.
Frú Chevillon hét frönsk hjúkrunarkona, sem veitti franska sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum forstöðu árið 1912, en vertíðina 1913 var hún við franska sjúkrahúsið í Reykjavík. Hún sagði svo frá í viðtali í Mbl. 2. ágúst 1912: „Þau (frönsku fiskiskipin) komu svo inn með alla, sem þurftu læknishjálpar við. Mest voru þetta sár af óngulstungum, beinbrot og lungnabólga.“
Franska stjórnin reyndi að hamla á móti ofnotkun áfengis á franska fiskiveiðiflotanum. Um það segir rithöfundurinn og skipstjórinn Louis Lacroix fyndna sögu, en Lacroix þessi ritaði mikið um franska sjómenn, bæði fiskimenn og langferðasjómenn stóru seglskipanna.
Það var árið 1907 að franska stjórnin ákvað að minnka áfengisskammtinn niður í 5 centilítra á dag í norðurhöfum og yrði aðeins útdeilt á fyrstu vakt morgunins sem er eins og allir þekkja kaldasti tími næturvöku. Ef hita stig fór yfir 5 gráður á miðunum átti ekki að útdeila neinu áfengi. Skipstjóri einn, sem var vinur Lacriox, og vildi alltaf fylgja reglugerð um stjórnarinnar, fékk sér þá hitamæli um borð, sem aldrei sýndi annað en frostmark, hvernig sem viðraði. Skipstjórinn var sérlega vel látinn af skiphöfninni! en í dagbækur sínar og skýrslur skráði hann samviskusamlega: „Mjög óvenjulegt hitastig“! Reglugerð stjórnarinnar í þessum efnum var því dauður bókstafur, en „Styrktarfélag sjómanna“ sem gerði út spítalaskipin barðist af alefli gegn misnotkun áfengis. Daggjöld á frönsku sjúkrahúsunum voru sem hér segir:
Í Reykjavík og á Fáskrúðsfirði 1,50 kr. (2F 10) fyrir Frakka, 75 aurar (1F 05) fyrir Íslendinga, en fyrir sjómenn af öðru þjóðerni 2 kr. í Vestmannaeyjum var daggjaldið 1 kr. fyrir Íslendinga; 1,50 kr. fyrir Frakka og 3 kr. fyrir aðra. Frakkar ráku sjúkrahúsið einir fyrstu árin og þá aðeins hluta úr ári, frá því um miðjan febrúar og fram í september. Franskar hjúkrunarkonur sáu að mestu um reksturinn ásamt íslenskum læknum fram til fyrra stríðs 1914, franskir læknar voru öðru hvoru við spítalann og fyrstu árin var franskur matreiðslumaður og piltur til snúninga þann tíma úr árinu, sem sjúkrahúsið var opið. Fólki fjölgaði mjög ört í Vestmannaeyjum á þessum árum og var Vestmanneyingum því brýn nauðsyn að fá eigið sjúkrahús.
Árið 1920 tók bæjarstjórn Vestmannaeyja við rekstrinum hálft árið á móti Frökkum. Þá hafði verið komið fyrir sjúkrarúmum alls staðar þar sem því var við komið á franska spítalanum og urðu 22 þegar flest var. Hinn 5. apríl 1928 tók til starfa nýtt sjúkrahús — Sjúkrahús Vestmannaeyja, sem Vestmanneyingar reistu að mestu sjálfir fyrir eigið fé og framtak og er nú glæsilegt Ráðhús Vestmannaeyja. Allt er þetta skilmerkilega rakið í löngum kafla um heilbrigðishætti. sjúkrahús og þróun heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum eftir þá Örn Bjarnason fyrrv. héraðslækni og Harald Guðnason skjalavörð í bókinni Við Ægisdyr (1982) og hefur m.a. við þessa upprifjun verið stuðst við þá grein ásamt ritinu Læknar á Íslandi. Vestmannaeyjalæknar á fransk spítalanum voru:
Halldór Gunnlaugsson 1907-1924.
Páll V.G. Kolka 1924-1925.
Ólafur Ó. Lárusson 1925-1928.
Auk frú Chevillon, sem var á spítalanum 1912, var þar ungfrú María Hamon, sem send var frá sjúkrahúsunum í París, en hún talaði auk frönsku bretónsku og dálítið í íslensku skv. franskri heimild. Halldór Gunnlaugsson talaði frönsku og varð ræðismaður Frakka í Vestmannaeyjum árið 1910.
Franska spítalafélagið gaf árið 1909 út skýrslu um starfsemi sína. Þar sést að strax varð mikil þörf fyrir þjónustu sjúkrahúsanna og nutu byggðarlögin og allir Íslendingargóð af.
Skýrslan er svohljóðandi:
1904 Fjöldi sjúklinga 25 Legud. 590
1904 Fjöldi sjúklinga 110 Legud. 3265
1905 Fjöldi sjúklinga 159 Legud. 5720
Hér lýkur að segja frá miklu efni og hefur verið stiklað á stóru. Ég vona að þátturinn veiti innsýn í liðna tíð, skilning á kjörum meðbræðra okkar og lífsbaráttu þeirra.
Frakkar og sérstaklega íbúar Pompól og Bretaníu bera mikinn hlýhug til íslendinga.
Á síðari árum hafa hin gömlu tengsl verið styrkt og er mikill áhugi fyrir því í hinum gömlu útgerðarbæjum að varðveita minjar og minningar um tíma Íslandssiglinganna.
Með bestu óskum og kveðjum til sjómanna og allra Vestmanneyinga um góðan og gleðilegan sjómannadag.