Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Mótornámskeið 1959

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Mótornámskeið 1959

Það var einhvern tíma nú í vetur sem leið, aö Gústi Óskars í Fiskiðjunni hnippti í mig og spurði hvort ég vissi ekki að við ættum tvítugsafmæli um þessar mundir. Ég hváði við þessu og vissi ekki nein dæmi slíks. Og hann hélt áfram, hvort ég væri virkilega búinn að gleyma mótornámskeiðinu okkar hér um árið. Og þá rann upp fyrir mér ljós. -Hvaða helvíti er maður orðinn gamall- var það fyrsta sem mér datt í hug. -Eru virkilega komin tuttugu ár síðan við sátum saman uppi á Breiðabliki-. Og það fór ekki á milli mála. Þetta samtal varð kveikjan að því, að undirritaður settist niður við ritvélina sína og fór að rifja upp eitthvað af því sem gerðist haustið 1959 og í ársbyrjun 1960.

Það mun hafa verið í september 1959 að ég var á rölti um bæinn í blíðskaparveðri. Ég hafði lokið gagnfræðaprófi um veturinn þetta ár snemma eins og þá tíðkaðist til að gefa nemendum kost á að komast í vinnu yfir hávertíðina. En í stað þess að fara í fisk eins og flestir bekkjafélagarnir, settist ég inn á skrifstofu og vann þar fram á vorið. Þá var ég búinn að fá nóg af inniveru og lágu kaupi og skellti mér norður á síld með Hauki Jóhanns á Faxa (síðar Metu). Ekki mun ég hér lýsa því úthaldi, það verður e.t.v. seinna gert, en þrátt fyrir sjóveiki og aðra byrjunarörðuleika kunni ég ágætlega við sjómennskuna auk þess sem hluturinn var þokkalegur.

Og sem ég var á mínu rölti þarna eins og fyrr greinir, var ég helst í þeim hugleiðingum að leita mér að plássi á reknetum um haustið. Þá mæti ég gömlum skólafélaga úr Gagnfræðaskólanum, sem einnig hafði verið á síld um sumarið, Erling Péturssyni. Hann stöðvar mig og segir umyrðalaust: -Ertu með á mótornámskeið í haust?-

Húsið Breiðablik
Gamla rafstöðin, hús Vélskólans í Vestmannaeyjum

Ég vildi fá nánari skýringar og hann kvað upp úr með, að Fiskifélagið ætlaði að halda námskeið í mótorfræðum þetta haust og væri hægt að komast á það.

Á þessum tíma þurftu menn ekki marga daga til að ákveða hlutina og framhaldið varð, að við röltum upp að Vesturhúsum til Helga Benónýssonar sem um árabil var forgöngumaður um slík námskeið og létum innrita okkur. Sá galli var að vísu á, að við vorum ekki orðnir nógu gamlir, vantaði eitt ár upp á 18 ára aldurinn sem var lágmarksaldur, en Helgi bað okkur að hafa ekki áhyggjur af því. Ekkert væri auðveldara en skrifa ráðuneytinu bréf og biðja um undanþágu. Og það var gert. Í því bréfi var rætt um skort á menntuðum vélstjórum og í því bréfi lærði ég ennfremur, að ef menn skrifa bréf í ráðuneyti, á maður alltaf að segja: „hið háa ráðuneyti" og hefur alltaf þótt það hálfskrýtið. Þetta var nokkurs konar bænaskrá þar sem allra auðmjúklegast var farið fram á að við fjórir eða fimm of ungir (en afskaplega efnilegir) menn fengjum að spreyta okkur á því að bæta úr hallæri því sem væri á vélstjórnarmenntuðum mönnum í landinu. Og hið háa ráðuneyti sá aumur á okkur og útgerðarmönnum sem alltaf vantaði vélstjóra á bátana sína og veitti umbeðið leyfi. Það gekk líka furðu fljótt fyrir sig að fá svarbréf af ráðuneyti að vera. Og þar með var ekki aftur snúið. Aftur var maður sestur á skólabekk og ekki misseri liðið síðan síðasti skóli var kvaddur og þau ummæli viðhöfð að skólaganga skyldi fá að bíða í nokkur ár.

Skólahúsnæðið var að Breiðabliki, þar sem kenndar voru bóklegar greinar. Stýrimannaskólanámskeið var einnig í gangi þetta sama haust í sama húsnæði. Verkleg kennsla fór svo fram í Gömlu Rafstöðinni.

Skólastjóri var ráðinn Reykvíkingur sem getið hafði sér gott orð sem kennari og vélstjóri, Guðmundur Eiríksson að nafni. Hann stóð sig hið besta í sínu starfi, var strangur og ákveðinn sem kennari en einnig léttur í lund og hafði góða kímnigáfu. Hann bjó í risinu í Baðhúsinu (þar sem nú stendur Sparisjóður Vestmannaeyja) ásamt konu sinni og barni.

Verklega kennslan var að morgninum og fram til hádegis. Aðallega voru það tvær vélar sem átt var við. Önnur var Alpha-diesel í ágætu lagi og hin sem stóð uppi á palli í austurenda hússins, gömul M.A.N. diesel vél með gríðarlega stóru svinghjóli. Sú vél var raunar ekki í lagi þegar bryjað var og var það eitt af okkar fyrstu verkefnum að rífa hana sundur og koma henni í gagnið að nýju.

Aðstoðarkennari í verklegu var Tryggvi GunnarssonHorninu) og miðlaði hann okkur strákunum mörgu góðu úr sínum þekkingarbrunni. Þá minnist ég þess að númer eitt hjá Tryggva var góð og snyrtileg umgengni og hreinlega gekk hann af göflunum ef ekki var vel um alla hluti gengið. Þá man ég líka mæta vel eitt sinn þegar Tryggvi reiddist og ekki að ástæðulausu. Hann átti gamlan bensínmótor sem hafði legið ónotaður alllengi og kom með hann einn daginn og var nokkrum úr nemendahópnum falið að rífa mótorinn sundur og reyna síðan að koma honum í lag á ný. Byrjað var á verkinu með pomp og prakt og gekk vel framan af. En svo kom að því að rær og boltar voru fastari en góðu hófi gegndi. Sótti þá einhver ráðagóður úr hópnum slaghamar og hugðist sýna rokknum hvar Davíð keypti ölið. En þá sýndi sig sem endranær að oftast er betra að beita lagni en afli við vélar. Viðureigninni lyktaði þannig að kraftamaðurinn stóð með gapandi munn og slaghamar í hægri hendi yfir brotinni og ónýtri blokkinni. Og þá reiddist Tryggvi svo um munaði. Mikið ógn og skelfing var maður feginn þá að hafa ekki lent í þessum hóp enda voru það niðurlútir og hljóðlátir menn sem tóku við reiðilestrinum. En sennilega höfum við allir lært okkar lexíu af þessum mistökum enda er það oftast þannig að menn læra mest af mistökum, þótt stundum sé sá lærdómur dýru verði keyptur eins og að þessu sinni.

Mjög stóðu menn misjafnt að vígi í náminu. Við sem nýskriðnir vorum út af skólabekk áttum auðvitað léttara með bóklega námið, en hinir sem margir hverjir höfðu verið vélstjórar á undanþágu um margra ára skeið, stóðu langtum betur að vígi í því verklega. Það sem okkur var algert nýnæmi var hlutur sem þeir margir hverjir kunnu jafnvel og kennararnir og jafnvel betur. Oft hef ég hugsað um það síðan, hversu betur þetta námskeið hefði komið okkur peyjunum að gagni ef við hefðum átt þess kost að grufla í vélum eins og eitt úthald eða tvö undir umsjón góðra manna í stað þess að koma eins og pamfílar inn i nám sem við vissum hvorki haus né sporð á. Hugmyndir þess sem þetta ritar, um vélar höfðu verið þær að vél væri hlutur úr málmi og inni í henni væri aðskiljanlegur fjöldi tannhjóla og annarra tilfæringa sem hreyfðust á flókinn hátt fram og til baka. Svo í fyrsta mótorfræðatímanum. þegar hinn einfaldi leyndardómur mótorsins var upplýstur, lá við að maður tryði ekki kennaranum. Sú einföldun á dæmin að tannhjólin hurfu á braut og í staðinn kom buna af bensíni sem kviknaði í, var afskaplega furðuleg uppgötvun og vélin hætti að vera jafn leyndardómsfullur gripur og hún hafði fram að þessu verið.

Einn af fjórum logndögum ársins. Peningalyktin svífur yfir.

Mikill hluti kennslunnar var fólginn í því að kennararnir útbjuggu ýmsa galla 4 vélunum og síðan áttum við að finna þá. Var Tryggvi einkar útsjónarsamur að útbúa vélarnar þannig að annað hvort fóru þær alls ekki í gang eða þá að gangurinn var þannig að ekki fór á milli mála að eitthvað var athugavert. En svo var líka í sumum tilfellum hægt að sjá á þeim Tryggva og Guðmundi í hverju gallarnir voru fólgnir. Ef vélin fór strax í gang og nemandinn var í rólegheitum að kíkja til og frá eftir einhverju grunsamlegu, gat komið fyrir að þeir fóru að tvístíga og verða órólegir. Þá var nokkuð öruggt mál að gallinn var annað hvort í smurningskerfinu eða kælivatninu, því að auðvitað vildu þeir ekki bræða úr vélinni vegna seinagangs viðkomandi. En þetta var ákaflega lærdómsríkt fyrir okkur og smám saman fórum við sjálfir að útbúa ýmsa galla og gangsetningartruflanir og var sumt af því ekki af léttara taginu. Þá voru sumir gallarnir uppfundnir af hreinum prakkaraskap. Einhverju sinni faldi einn okkar sig bak við vélina með hamar og lok af potti. Þegar sá sem átti að setja í gang og finna gallann skaut á vélina, byrjaði huldumaðurinn að lemja í lokið og fylgdi snúningshraðanum eftir megni. Auðvitað krossbrá fórnarlambinu við þessi aukahljóð og drap á vélinni í skyndingu. Hamarshöggin smá dóu út um leið og vélin stöðvaðist og síðan tók það piltinn æði langan tíma að finna út hvað olli hávaðanum og kom raunar ekki í ljós fyrr en skólastjórinn skipaði okkur að prófa aftur að setja í gang.

Þá var afskaplega vinsælt að koma hlutunum þannig fyrir, að fórnarlambið fengi annað hvort olíugusu eða loft framan í sig um leið og hann skaut á vélina.

Lokaprófið í verklegri vélfræði fór einmitt fram á þennan hátt. Hver nemandi dró miða með númeri sem þýddi ákveðinn galla á annað hvort Ölfunni eða Maninum. Ég man að taugarnar voru ekki í allt of góðu lagi þegar ég dró miða, sem á stóð M-8. Þá vissi ég að ég átti að sprey ta mig á Maninum og var logandi hræddur um að fá ventlastillingu sem ég var satt að segja ekki allt of klár í. Ekki var það svo til að bæta ástandið, þegar Tryggvi glotti við tönn og sagði: -Góður galli þetta-.

Vélinni var törnað og hún sett í startstöðu. Hjartað barðist á tvöföldum hraða þegar ég gekk að hjólinu sem hleypti loftinu á. Svo snéri ég hjólinu snöggt í heilhring og beið auðvitað eftir að allt færi að snúast. En það eina sem gekk og hamaðist var hjartað, allt hitt stóð rammfast og eina hljóðið sem heyrðist fyrir utan hjartsláttinn, var smá fruss frá loftkútnum. Ég lokaði aftur fyrir loftið, kíkti á hvort svinghjólið hefði nokkuð bifast og sá að svo var ekki. Smástund stóð ég og hugsaði málið og svo rann upp fyrir mér ljós. Nú skildi ég glottið á Tryggva. Þarna var á ferðinni galli sem ég hafði sjálfur fundið upp um veturinn. Tuttuguogfimmeyringur var notaður til að blinda loftið frá kútnum. Ég náði í lykil og losaði róna frá. Og viti menn, peningur með skjaldarmerki Íslands sat í opinu. Og nú var það ég sem brosti framan í Tryggva og prófdómarann.

-Reyndu aftur-, sagði Tryggvi, -það gætu verið fleiri gallar-.

En að þessu sinni var allt í lagi og Maninn malaði værðarlega. Eftir að hafa aðgætt kælivatn, smurtrukk og fleira, drap ég á vélinni og tjáði prófdómaranum að ég gæti ekki fundið neitt athugavert við vélina að tuttuguog-fimmeyringnum undanskildum. Og það reyndist rétt vera. Eftir nokkrar spurningar um fagleg efni var mér svo tjáð að ég mætti fara og hefði staðist prófið.

Bóklega kennslan fór fram að Breiðabliki, eins og áður er sagt og var eftir hádegi. Kennslugreinarnar voru vélfræði, mótorreikningur, almennur reikningur og íslenska. Guðmundur skólastjóri var aðalkennari í þeim greinum nema hvað Eyjólfur Pálsson sá um íslenskuna. Ég minnist alltaf tímanna að Breiðabliki með sérstakri ánægju. Breiðablik var eitthvert skemmtilegasta skólahúsnæði sem ég hef dvalist í, þrátt fyrir að það var að mörgu leyti óhentugt sem skóli. En húsið hefur sál og oft fannst manni eins og það hugsaði með manni. Það er gott til þess að vita, eftir margra ára niðurníðslu, að kominn skuli vera nýr eigandi að því sem hefur hug á að endurreisa húsið í sinni upprunalegu mynd og hressa upp á sálarlíf þess.

Áður var greint frá því að Stýrimannaskólinn var í húsinu á morgnana á meðan við dunduðum á Gömlu Rafstöðinni. Ekki var frítt við að okkur þætti nemendur þess skóla líta niður á okkur olíuskvettara og höfðum það stundum á orði að engu væri líkara en þeir væru strax komnir í hólinn. Í ljós kom að í okkar hópi leyndust nokkrir drátthagir menn og var nú hafist handa um að skreyta stofuna með myndum af verðandi skipstjórnarmönnum í ýmsum stellingum og fylgdu nöfn með. Ekki var Guðmundur skólameistari tiltakanlega hrifinn af uppátækinu þótt hann léti það óátalið og sagði myndirnar langt frá því að vera líkar þeim aðilum sem nöfn myndanna gáfu til kynna. Það töldum við hina mestu firru og sögðum myndimar nauðalíkar mönnunum. Velflestar ef ekki allar myndirnar voru raunar fengnar að láni frá Walt Disney og þóttu minna allmjög á Andrés önd og Mikka mús ásamt fleiri persónum af því sauðahúsi og töldum við sem fyrr segir mjög við hæfi að ljá hinum verðandi skipstjórnarmönnum slík gervi.

Í ljós kom að þeir morgunmenn voru lítt listelskir og kunnu ekki að meta þá viðleitni okkar að hressa upp á tóma veggi skólastofunnar með eigin litteratúr. Ævinlega fundum við myndverk okkar sundurtætt í ruslakörfunni að loknum hádegisverði þegar við mættum í skóla. Ekki var þó gefist upp og nýjar myndir komu í stað hinna burtrifnu. Hélt svo fram um alllangt skeið eða þar til skólastjórar beggja námskeiðanna kváðu upp úr með það að frekari skreytingar húsnæðisins skyldu heyra sögunni til. Eftir það fengu veggirnir að horfa tómum ásjónum sínum yfir okkur ef frá er talin ein mynd af Lúðvík van Beethoven sem fékk að hanga áfram, enda ekki teiknuð af nemendum vélskólans.

Þannig stóð á veru Beethovens í skólastofunni að Tónlistarfélagið eða Tónlistarskólinn nema hvort tveggja hafi verið, höfðu einnig aðsetur að Breiðabliki og stunduðu sitt starf þar að kvöldlagi. Nokkurt magn tónbókmennta var á hillum í einu horni stofunnar og höfðum við gluggað lítils háttar í þær bækur en þótt lítið til koma og hallað okkur aftur að námsbókunum. Þar á meðal voru ein tuttugu eintök af Sögu tónlistarinnar, nafni höfundar er ég búinn að gleyma. Einhverju sinni gerðist það að loknum frímínútum, þegar einn tími var eftir að Guðmundur skólastjóri hafði öðrum hnöppum að hneppa en sinna mótorreikningi og gaf því bekknum frí. Tveir úr hópnum höfðu orðið seinir fyrir, höfðu hlaupið í sjoppu eftir tóbaki í fríinu og voru ekki komnir þegar fríið var gefið. Við tæmdum því töskur þeirra af öllu því sem gat flokkast undir fræðilegar bækur en settum í staðinn tíu eintök af Sögu tónlistarinnar í hvora tösku. Auðvitað datt þeim ekki í hug að kíkja í töskurnar áður en þeir fóru heim en komu þrútnir af bræði daginn eftir í skólann og grýttu tónmenntunum upp í hillurnar með orðbragði sem ekki er rétt að hafa eftir.

Fleira var sér til gamans gert þetta haust, ljóðagerð var talsvert stunduð, þótti þeim sem vit höfðu á kveðskapurinn heldur blautlegur og kersknisfullur og æði leirborinn á stundum. Var í ljóðum þessum oft á tíðum farið óvægilegum orðum um ástarlíf skólabræðranna og jaðraði stundum við ystu vel sæmismörk. Ekki man ég lengur neitt af þessum kveðskap og er víst bættur skaðinn.

Lokaprófin tókum við svo í janúar og voru þá raunar flestir búnir að ráða sig í skiprúm á vertíðinni. Svo fór að allir þeir 28 sem setið höfðu á skólabekk þetta haust, náðu prófi og glönsuðu sumir hverjir í gegn eins og Guðmundur sagði. Námskeiðinu lauk með herjans miklu gilli á Hótelinu þar sem átti að slíta skólanum. En það er nú svo að hvernig sem ég reyni að grufla upp það sem þar gerðist, þá minnist ég þess ekki að skólastjóri hafi nokkurn tíma í þeirri veislu slitið skólanum, svo að þess vegna gæti hann verið starfandi enn þann dag í dag að tuttugu árum liðnum. En hvað um það, þetta námskeið var bæði skemmtilegt og fróðlegt og drjúgt sem sat eftir í mönnum. Ég athugaði að gamni mínu um daginn hve margir okkar hefðu gert vélstjórnarstarfið að ævistarfi sínu og komst að því að 7 af 28 eru enn vélstjórar í fullu starfi eða 25%. Og miðað við allt er það bara hin þokkalegast tala.

Nemendur Vélskóla Vestmannaeyja 1959-1960, efstu röð frá vinstri: Jón Sigurðsson (Sigurjónssonar) nú búsettur á Ísafirði, Þormóður Stefánsson, Siglfirðingur, lengi búsettur hér, nú í Hafnarfirði, Eyjólfur Pálsson kennari, Magnús H. Magnússon fyrrv. ráðh. kennari í meðferð senditækja, Guðmundur Eiríksson skólastjóri frá Reykjavík, Tryggvi Gunnarsson kennari, Sveinn Gíslason frá Hvanneyri, Óli Sv. Bernharðsson vélstjóri á Huginn.Önnur röð frá vinstri: Sigurgeir Jónsson kennari frá Þorlaugargerði, Sæmundur Árnason (Hannessonar frá Hvoli), Hreinn Smári Guðsteinsson nú starfsm. Fiskimjölsverksmiðjunnar, Jóhann Ingi Einarsson frá Götu nú bifreiðarstj. í Reykjavík, Leví Konráðsson frá Akureyri, Gunnar Ólafsson frá Odda bifreiðarstj., Águst Óskarsson vélstjóri í Fiskiðjunni, Jón Ármann Sigurjónsson nú netamaður, Sigurður Þ. Ögmundsson vélstjóri á Emmu.Þriðja röð frá vinstri: Gísli Árnason frá Grundarfirði, Ástvaldur Valtýsson vélstjóri á Árntý, Theódór Þ. Bogason frá Nýborg nú í Hafnarfirði, Þórhallur Þorarinsson bifreiðarstj. og vélstjóri, Sigurður Erling Pétursson skipstjóri, Gunnlaugur Björnsson, fórst með Þráni NKFjórða röð frá vinstri: Sævar Sæmundsson, kvæntur Sigrúnu dóttur Bubba á Hilmi nú í Reykjavík, Baldur Ragnarsson Stykkishólmi, Haraldur Traustason skipstjóri, Hannes Helgason frá Vesturhúsum nú í Reykjavík, Jósep Valgeirsson Keflavík, Birgir Pálsson, nú garðyrkjubóndi í Hveragerði, Matthías Sveinsson vélstjóri á Þórunni Sveinsd., Hjörleifur Hallgríms fyrrv. kaupmaður og athafnamaður á Akureyri, Vilmundur Þ. Kristinsson lengi vélstjóri hér.