Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Árni í Görðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓHANN GUNNAR ÓLAFSSON


Árni í Görðum


UPPHAF HINNAR miklu breytingar á efnahag manna í Vestmannaeyjum má að mínu viti, fyrst og fremst rekja til þess að tekin var upp bætt veiðitækni við fiskveiðarnar. Öldum saman höfðu Vestmannaeyingar aðeins notað haldfæri til fiskveiða. Gaf það jafnan lítinn afrakstur, enda var aðeins einum og oft óbeittum króki beitt við veiðina. En skömmu fyrir aldamótin byrjuðu þeir að stunda fiskveiðarnar með línu, og varð þá fljótlega stórfelld breyting á aflabrögðum og úthaldskostnaði, þó aðalstökkið til bættra kjara væri fyrst tekið með vélbátatúvegnum árið 1906. Þrjú áraskip lögðu fyrst línu í sjó 10. apríl 1897. Var það merkisdagur í fiskveiðasögu Vestmannaeyinga. Formenn á skipunum voru þeir Hannes Jónsson lóðs á Miðhúsum, Gísli Lárusson gullsmiður í Stakkagerði og Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum. Gaf þessi tilbreytni svo góða raun, að allir tóku upp þetta veiðarfæri, og útvegur óx í Eyjum með undraverðum hætti. Menn úr nærsveitum tóku að streyma til Eyjanna og taka sér þar bólfestu, sakir þess að miklar sögur fóru að gangi af því, að lífvænlegra væri þar en í öðrum héruðum.
Margir Skaftfellingar fluttust þá til Eyja og voru meðal þeirra fjórir bræður, Friðrik, Árni, Ólafur og Þorsteinn, synir Jóns bónda Árnasonar í Eyjarhólum og konu hans Guðríðar Eyjólfsdóttur.

Skipshöfn á áraskipinu Lísibet. Myndin sennilega tekin snemma vors 1901 eða árið 1900. Efri röð; talið frá vinstri: 1. Guðmundur Þorkelsson, Háagarði, faðir Magnúsar í Hlíðarási og Guðrúnar í Háagarði, flutti til Ameríku. 2. Mýrdælingur, óþekktur. 3. Óþekktur. 4. Ólafur Eiríksson, kennari, Eyjafjöllum. 5. Þorsteinn Bjarnason, Garðakoti, Mýrdal. 6. Magnús Kristjánsson, kennari í Vestmannaeyjum, síðar bóndi í Drangshlíð undir Eyjafjöllum. 7. Árni Jónsson í Görðum. 8. Jóhann Gíslason, Hóli. 9. Óþekktur.- Fremri röð frá vinstri: 1. Pálmi Guðmundsson, Stíghúsi, fórst á róðrarbátnum Sjólyst 20. maí 1901. 2. Friðrik Jónsson, Látrum, formaður á Lísibet. 3. Magnús Guðmundsson, Hlíðarási. 4. Ólafur Jónsson, Landamótum. 5. Ingimundur, sem byggði Nýlendu hér í bæ. 6. Jón Guðmundsson (Sladdi). 7. Sigurður Guðmundsson, Núpi í Fljótshlíð, drukknaði með Árna Ingimundarsyni.

Stunduðu þeir fyrst sjó á útvegi annarra, en komu fljótlega undir sig eigin fleytum, enda voru þeir ráðdeildarmenn og að því skapi duglegir til lands og sjávar, þó ekki væru þeir hávaðamenn eða létu mikið á sér bera.

Árni kom árið 1901 til Eyja og stundaði sjóinn á opnum skipum, en árið 1908 keypti hann, ásamt þremur bræðrum sínum og fjórum öðrum mönnum vélbátinn Heklu, sem var 6.47 smálestir að stærð. Var Friðrik formaður með hann. En árið 1912 keyptu þeir vélbátinn Íslending, sem var nokkru stærri. Var Friðrik með bátinn þrjár vertíðir, en árið 1916 tapaðist báturinn, og öll skipshöfnin, og þar á meðal Ólafur, bróðir þeirra Friðriks og Árna, sem heima átti á Landamótum, og var vélstjóri á bátnum. Voru þeir í stórviðri í björgunarleiðangri í leit að nauðstöddum vélbát.
Síðan komu þeir bræður sér upp nýjum báti árið 1915. Nefndu þeir hann Mýrdæling og áttu þeir hann þrír bræðurnir, ásamt Guðjóni Hafliðasyni á Skaftafelli, sem einnig var Skaftfellingur, og var hann formaður með hann.
Árið 1919 lét Árni byggja lítinn bát, sem hann nefndi Garðar, í félagi við Eyjólf Gíslason í Görðum, sem var formaður. Var hann aðeins 5.23 smálestir að stærð og áttu þeir helminginn hvor, Árni og Eyjólfur. Var það mikið happaskip, þó lítið væri.
Og síðan eignaðist Árni árið 1926 vélbátinn Garðar III, sem var 17.5 smálestir að stærð, með þeim Kristni Ólafssyni bæjarstjóra og Eyjólfi Gíslasyni, sem var formaður með hann. Þann bát seldu þeir 1930, og var Árni ekki viðriðinn útveg eftir það.
Árni var einstakur maður að vinnusemi, hagsýni og dugnaði. Honum féll aldrei verk úr hendi og allt vann hann af mikilli snyrtimennsku. Öll umgengni á vinnustöðvum hans og í heimahúsum bar þessu vitni. Alla tíð verkaði hann sjálfur fisk sinn, og framleiddi ætíð hina bestu vöru.
Árni keypti húsið Garða, sem stendur á ofanverðu horni Vestmannabrautar og Bárugötu, árið 1908 af Friðriki Svipmundssyni, sem hafði látið byggja það.
Árið 1909 kvæntist hann Kristínu Ögmundsdóttur frá Tjarnarkoti í Njarðvíkum, en foreldrar hennar voru Helga Arinbjarnardóttur í Tjarnarkoti og Ögmundur Sigurðsson frá Barkarstöðum í Fljótshlíð. Þau hjón voru samhent í störfum og búsýslu og féll aldrei skuggi á sambúð þeirra. Bæði voru einstaklega barngóð. Þeim varð ekki barna auðið, en ólu upp þrjú fósturbörn, Hauk, sem nú er látinn, Sigurjónu Ólafsdóttur, konu Björns Guðmundssonar, útvegsmanns í Vestmannaeyjum, og Sigurlínu Friðriksdóttur, konu Markúsar Guðjónssonar vélsmiðs í Reykjavík, og eru þær báðar mjög vel giftar. Dvelur Kristín hjá þessum fósturdætrum sínum til skiptis, en þó einkum hjá Ínu í Reykjavík, og eru þær henni hinar beztu og ástúðlegustu dætur.
Árni var glaðlyndur og jafnlyndur og hinn mesti reglu- og sómamaður í öllum greinum.
Árni var einn af stofnendum Kaupfélagsins Fram og í stjórn félagsins um langt skeið.
Árni andaðist 8. ágúst 1954.
Björn Guðmundsson útvegsmaður hefur nú gefið fögru og nýju skipi heiti Árna og er það verðugur minnisvarði um þann ágæta mann, sem um langa ævi vann störf sín öðrum til fyrirmyndar, og var þó umfram allt fyrirmyndarmaður að skapferli og í öllu atferli sínu.

Jóhann Gunnar Ólafsson.