Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Sjómannamenntun
Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum var slitið laugardaginn 11. maí síðastliðinn.
Útskrifuðust 8 stýrimenn með fiskimannapróf 2. stigs, sem veitir skipstjórnarréttindi á fiskiskip af hvaða stærð sem er og flutningaskip allt að 400 smálestir.
Stýrimenn, sem útskrifuðust voru: Bragi Guðmundsson, Vestmannaeyjum; Friðrik Már Sigurðsson, Vestmannaeyjum; Gunnar Árnason, Akranesi; Gunnlaugur Ólafsson, Ísafirði; Kristján Sigurður Kristjánsson, Vestmannaeyjum; Leifur Gunnarsson, Vestmannaeyjum; Ólafur Eggertsson, Vestmannaeyjum og Sigmar Magnússon, Vestmannaeyjum.
Allir nemendur náðu 1. einkunn eða yfir 6 í meðaleinkunn, hæst er gefið 8.
Hæstu einkunnir hlutu: Sigmar Magnússon, 170 ⅓ stig eða 7,41 í meðaleinkunn; Friðrik Már Sigurðsson 169 ⅓ stig eða 7,36; Bragi Guðmundsson 168 ⅔ stig eða 7,33 og Gunnlaugur Ólafsson 168 ⅓ stig eða 7,32. Allt ágætiseinkunnir, en ágætiseinkunn telst yfir 7,25. Þetta eru því ákaflega jafnar einkunnir og munar aðeins 0,09 á 1. og 4. manni. Meðaleinkunn bekkjarins var 6,88.
Prófdómarar í siglingafræðifögum voru Róbert Dan Jensson, stýrimaður, Reykjavík og Angantýr Elíasson, hafnsögumaður. Formaður prófnefndar var Jón Hjaltason, hrl.
Við skólaslit bárust skólanum stórgjafir. Björn Guðmundsson, útgerðarmaður, afhenti skólastjóra sparisjóðsbók með 50 þús. kr., sem hann og Tryggvi bróðir hans gefa skólanum til minningar um foreldra sína, hjónin Áslaugu Eyjólfsdóttur og Guðmund Eyjólfsson. Þá gaf Friðfinnur Finnsson, framkvæmdastjóri, kr. 2.500,00 í verðlaunasjóð, sem ber nafn hans og konu hans, Ástu Sigurðardóttur. Hefur Friðfinnur gefið fé í sjóð þennan á hverju ári.
Við skólaslitin voru veitt ýmis verðlaun, Finnbogi Friðfinnsson veitti hæsta nemanda bréfapressu Sjóvátryggingafélags Íslands, auk þess veitti skólinn bókaverðlaun og tveir nemendur fengu bókaverðlaun úr sjóði Friðfinns fyrir ástundun og reglusemi við námið.
Á sjómannadaginn verða Sigmari Magnússyni, sem hlaut hæstu einkunn, afhent verðlaun Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda, vandað armbandsúr, áletrað „Verðandaúrið 1968“.
Auk ofantaldra gjafa hafa skólanum borizt margar nytsamar gjafir, má nefna staðalvísi frá Angantý Elíassyni, töflubækur frá Sigurbirni Guðmundssyni, plottskífu frá Rafni Sigurðssyni, landabréfabók frá Guðjóni Ólafssyni og Antoni Bjarnasen.
Einar Gíslason gaf skólanum vandaða biblíu.
Við skólaslit gáfu nemendur skólans s.l. vetur fallegt líkan af áraskipi með Engeyjarlagi.
Fyrsti bekkur lauk prófum í endaðan marz og útskrifuðust þá 8 nemendur með fiskimannaprófi 1. stigs, sem veitir 120 tonna réttindi. Hæstu einkunn við það próf hlaut Sigurður Helgi Sigurðsson frá Siglufirði, 7,60; þá Kristinn Sigurðsson, Vestmannaeyjum með 7,40 og Axel Ágústsson, Seyðisfirði með 7,29, allt ágætiseinkunnir. Eiríkur H. Sigurgeirsson, 7,23; aðrir, sem luku 1. stigs prófi voru: Bjarni Kjartansson, Súðavík; Finnbogi Finnbogason, Vestmannaeyjum; Haukur Böðvarsson, Ísafirði og Logi Snædal Jónsson, Vestmannaeyjum.
Við þessi skólaslit hefur Stýrimannaskólinn hér útskrifað 50 skipstjórnarmenn, 41 með hið meira fiskimannapróf og 9 með fiskimannapróf 1. stigs (120 tonna réttindi ).
Liðinn vetur var kennaraliðið að mestu óbreytt frá því sem verið hefur.
Skólalífið var fjölbreytt og félagslíf talsvert með ekki stærri hóp.
Til markverðra tíðinda má telja, að í lok febrúar fóru nemendur ásamt skólastjóra og Íslenzkukennara til Reykjavíkur til þess að sjá Íslandsklukkuna, leikrit Þjóðleikhússins. Upphaf þessa var, að velunnari skólans, Einar Guttormsson læknir, gaf skólanum hljómplötur Fálkans með Íslandsklukkunni. Var verkið vandlega lesið í skólanum og yfirfarið. - Nemendur höfðu mikla ánægju af sýningu Þjóðleikhússins á þessu sígilda verki, en auk þess sáu þeir Koppalogn Jónasar Árnasonar. Svo vel vildi til, að um þær mundir var í Þjóðminjasafninu hin merkilega sýning af landnámi á Grænlandi og siglingum Íslendinga þangað. Skoðuðu nemendur sýninguna og sjóminjadeild Þjóðminjasafnsins undir handleiðslu dr. Kristjáns Eldjárns, þjóðminjavarðar.
í endaðan janúar héldu nemendur árshátíð, og tókst sú skemmtun vel.
Vélstjóramenntun.
Skemmst er frá að segja að í þeim efnum höfum við Vestmannaeyingar búið við lakari kjör en var fyrir 40 árum, er vélstjóranámskeið voru haldin hér allreglulega og horfir þetta til vandræða fyrir bátaflotann.
Hér mun þó sem betur fer eiga að ráða bót á. Er ætlunin að reyna að koma hér á fót námskeiði í haust fyrir 1. og 2. stig vélstjóramenntunar, enda allt hér til reiðu sem til þarf. Mun stjórn Vélstjórafélags Vestmannaeyja og bæjarstjóri vinna að þessu máli í samráði við hinn framsýna skólastjóra Vélskóla Íslands. En Gunnar Bjarnason, skólastjóri, hefur sýnt þessu nauðsynjamáli Vestmannaeyinga áhuga og viljað styðja með ráð og dáð aukna vélstjóramenntun í Vestmannaeyjum.
Einn ungur maður frá Vestmannaeyjum, Ingvi Geir Skarphéðinsson, lauk 1. stigs vélstjóraprófi frá Vélskóla Íslands í Reykjavík 29. febrúar s.l. Stóð námskeið Vélskólans fyrir þetta stig frá 15. september og náðu 26 prófi.
Vélstjóraskírteini 1. stigs veitir rétt til að vera yfirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 500 ha. gangvél eftir 12 mánaða siglingatíma.
Þegar námskeiði þessu lauk, hófst við Vélskólann námskeið fyrir vélstjóra, sem hafa verið í starfi 10 ár eða lengur, en við stærri vélar en réttindi þeirra ná til. Stendur námskeið þetta í 3 mánuði og fá þátttakendur að því loknu 1000 ha. réttindi.
Hófu 45 vélstjórar nám. Fjórir gamalreyndir vélstjórar héðan úr Vestmannaeyjum eru meðal þátttakenda, það eru: Gunnar Stefánsson, Gunnar Haraldsson, Kári Birgir Sigurðsson og Sveinbjörn Guðmundsson. - Framtak þeirra er lofsvert og mun hafa sín góðu áhrif á Eyjaflotanum.