Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 1968

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 1967


Sveitir Halkions(nær) og Gullbergs.

Sjómannadagurinn 1967 var hátíðlegur haldinn um land allt dagana 27. og 28. maí.
Laugardaginn 27. maí var keppt hér í ýmsum íþróttagreinum og hófst keppnin kl. rúmlega 2 e.h. Hafði fólk safnazt saman á Básaskersbryggjunni, en þar var endamark kappróðursins. Var nú breytt til frá fyrri sjómannadagshátíðahöldum. En venja hefur verið að ræsa róðrarsveitir við enda Básaskersbryggju og róa inn í Friðarhöfn.

Tunnuhlaup er erfið íþrótt....
.... sem krefst mikillar leikni!
Sveitir Ísleifs IV.(nær) og Sæbjargar.
Róðrarsveit Halkions.
Róðrarsveit Magna hf.

Þátttaka í kappróðrinum var almenn, og er ánægjulegt, ef þessa góða sjómannaíþrótt hefst nú aftur til vegs og virðingar.
Austan kaldi og rigningarslitur var á, en hvorki þátttakendur né áhorfendur létu það á sig fá og var róðurinn að venju mjög spennandi og skemmtilegur. Sumar sveitirnar reru enda snilldarlega, og hefur vart sézt hér skemmtilegri róður en var á milli sveitar Gullbergs og Halkions. Reru báðar sveitirnar af kappi miklu og með góðu áralagi, þrátt fyrir erfið skilyrði, þar sem dálítil bára var á höfninni. Verður eflaust gaman að sjá sömu sveitir etja kappi saman á nýjan leik.
Róin var 300 metra vegalengd, og má það vart styttra vera til að skera úr um góða ræðara, sem eiga í senn að sýna fallegan róður og röskan.
Hafi allar sveitir þökk og heiður fyrir þátttöku sína á þessum sjómannadegi, sem var öllum til verðugs sóma, en í betra veðri hefði róðurinn notið sín til fulls. Hér áður voru starfræktir veðbankar í sambandi við róðurinn, og hleypti það enn þá meiri spenningi í þessa grein.
Þá kepptu í koddabardaga tveir riðlar - lið „peyja og „karla“. Í „peyjariðli“ kepptu: Sigmar Þór Sveinbjörnsson, Tómas Jónsson og Valur Svavarsson. Vann Sigmar í þessum riðli, enda orðinn pústrunum vanur. Hann bar sigur úr býtum í koddaslagnum á sjómannadaginn 1966. í „karlariðli“ kepptu: Þórarinn Sigurðsson frá Hallormsstað, Ingvar Gunnlaugsson frá Gjábakka, Ríkharð Sighvatsson frá Ási og Guðmundur Guðlaugsson (Eyja). Koddabardaginn fór fram á staur miklum, sem stóð út frá Lóðsinum, og vakti slagurinn að venju mikla kátínu áhorfenda. Skemmdi það heldur ekki, að svo þekktir og gamalreyndir sjómenn voru í hópnum. En Þórarinn og Ingvar eru gamalkunnir íþróttamenn sjómannadagsins í Vestmannaeyjum og hafa sett svip á íþróttir dagsins í áratugi. Nýliðarnir í eldri riðli voru sagðir efnilegir og gömlu görpunum skeinuhættir, en Ingvar fór með sigur af hólmi.
Ólafur Kristinsson sýndi listir á sjóskíðum, og var það vel af sér vikið í þessu kalsaveðri sem var.
Tunnuhlaup var á fljótandi tunnum, og var það mjög spaugsamt, því að keppendur voru vægast sagt valtir í spori. Voru 10 tómar olíutunnur bundnar saman milli tveggja báta og var sá sigurvegarinn, sem hljóp fljótast yfir flestar tunnur, án þess að detta í sjóinn. Ekki er vitað, hvort sigurvegarinn, Kristján Óskarsson, setti Evrópumet, en áreiðanlegt var talið, að um Vestmannaeyjamet væri að ræða. HIjóp hann yfir 9 tunnur, áður en hann féll, með riddaralegum glæsibrag. Aðrir keppendur voru: Ingólfur Hansen, Rafn Sigurðsson, Kristján Guðmundsson, Páll Árnason og Sigursteinn Óskarsson.
Úrslit í kappróðrinum, sem var í 5 riðlum, voru þannig (nafn róðrarbáts í sviga; vegalengd 300 metrar):

Sveitir skipshafna (2 riðlar):
1. Halkion (Ólafur) - 1:26,3 m.
2. Gullberg (Hreyfill) 1:28,8 m.
3. Sæbjörg (Ólafur) 1:29,0 m.
4. Ísleifur IV (Hreyfill) 1:29,4 m.

Sveitir fyrirækja:
1. Magni hf. (Jötunn) 1:31,6 m.
2. Rafvirkjar (Hreyfill) 1:32,0 m.
3. Fiskiðjan hf. (Ólafur) 1:45,0 m.

Sveitir skóla:
1. Sjóskátar (Ólafur) 1:37,2 m.
2. Gagnfræðaskólinn (Hreyfill) 1:43,0 m.

Sveitir drengja:
1. Austurbær (Jötunn) 1:40,6 m.
2. Vesturbær (Ólafur) 1:54,7 m.
3. Miðbær (Hreyfill) 1:57,7 m.

Einhver kann að spyrja: Hvar voru nú sveitir Hraðfrystistöðvar og Stýrimannaskólans, sem sigruðu í sínum flokkum á sjómannadaginn 1966? Var það leitt, að þessar sveitir kepptu ekki. Hið eina til afsökunar Stýrimannaskólanum var, að nemendur skólans kepptu í flestum íþróttagreinum dagsins og voru í hópi skipshafna þátttakendur í róðrinum. Hvað dvaldi sveit Hraðfrystistöðvar er ókunnugt, en til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram, að greinarstúfur, sem birtist í Sjómannadagsblaðinu 1967 um þessa sigursælu sveit, var ekki hugsaður sem eftirmæli.
Að morgni sunnudags hófust aftur hátíðahöld og var hátíðin þá formlega sett með ræðu Steingríms Arnar af svölum Samkomuhússins. Minningarathöfn við minnismerki drukknaðra og hrapaðra var að lokinni skrúðgöngu. Síðan var sjómannamessa, og messaði sr. Jóhann S. Hlíðar. Einar J. Gíslason hélt að vanda ræðu við minnismerkið. Hann er snjall og góður ræðumaður, en ég tel, að yfirgripsmiklar og snjallar ræður hans nytu sín betur á Stakkagerðistúninu. Er þar og oftast meira fjölmenni. Athöfnin við minnismerkið er of löng í því formi, sem hún er, og vantar vegna þessa þann hátíðleika og tign, sem slíkri athöfn á að vera samfara. Óþolandi er sá vaðall barna, sem alltaf líðst við sjálft minnismerkið og í kringum ræðustólinn, meðan minningarathöfnin fer fram. Á upphækkun þeirri, sem er við minnismerkið eiga aðeins að vera fánaberar og þeir, sem flytja athöfnina. Ætti það að vera löggæzlumönnum bæjarins létt verk að halda þarna uppi röð og reglu. Ennfremur er ótækt, þó að mikið sé að snúast, að menn séu á þönum um svæðið þá stuttu stund, sem í þögn skal minnast hinna mörgu, sem hafa farizt í baráttu á sjó og í fjöllum.

Róðrarveit sjóskáta.
Róðrarsveit Austurbæjar.
Steingrímur Arnar setur hátíðina.
Koddaslagur.
Listhlaup á tunnum. Sigurvegarinn

Gerum þessa athöfn að stuttri en áhrifamikilli helgistund, þar sem minnzt er drukknaðra og hrapaðra af þeirri virðingu og helgi, sem ber. Jafn fagur siður og þessi athöfn er, á ekki að verða vanaverk. Þátttaka í sjómannamessunni er vægast sagt alltof dræm. Ef sjómenn fjölmenna til kirkju á þessum hátíðisdegi sínum og skipshafnir færu ásamt formanni sínum í kirkju, myndi það setja svip á messuna og hún fengi þann sess, sem henni ber. Í sumum kaupstöðum standa sjómenn heiðursvörð með félagsfána sína við sjómannamessu.
Eftir hádegi voru ræðuhöld og íþróttir á Stakkagerðistúninu, og flutti Sigurður heitinn Stefánsson aðalræðu dagsins. Þá voru og veitt verðlaun fyrir íþróttir og aldraðir sjómenn heiðraðir.
Bæði laugardags- og sunnudagskvöld voru fjölbreyttar skemmtanir í Samkomuhúsinu með landsþekktum listamönnum, eins og óperusöngvurunum Guðmundi Guðjónssyni, Sigurveigu Hjaltested og gamanvísnasöngvaranum Ómari Ragnarssyni. Á sunnudagskvöldið voru aflakóngar, fiskikóngur og skipshafnir þeirra heiðraðar og hæsta nemanda Stýrimannaskólans veitt VERÐANDA- úrið. Stjórnaði þeirri athöfn Páll Þorbjörnsson. Var nú einnig Herði Elíassyni veitt úr VERÐANDA, en hann var hæstur á fyrsta lokaprófi Stýrimannaskólans. Að því loknu var stiginn dans í báðum danshúsum bæjarins til kl. 4 um nóttina.
Óvíða mun jafn almenn þátttaka í sjómannadeginum og hér í Vestmannaeyjum, en hann er hátíðisdagur allra Vestmannaeyinga, hvar í stétt sem þeir ella standa. En ótækt er, að forráðamenn sjómannasamtakanna í landinu séu á hrakhólum með daginn og skjóti honum ýmist aftur eða fram á almanakinu eða láti annað skyggja á hann. Nú er t.d. hinn svokallaði H-dagur, þegar Íslendingar skipta yfir til hægri umferðar, látinn bera upp á sama sunnudag og sjómannadaginn.
Í heild fóru hátíðahöld sjómannadagsins í Vestmannaeyjum árið 1967 mjög vel fram og voru Sjómannadagsráði og öllum til sóma.