Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Menntun sjómanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
MENNTUN SJÓMANNA


Hallgrímur Þórðarson sýnir rétt bandtökí verklegri sjóvinnu.

Það á vel við í blaði sjómanna í Vestmannaeyjum að skýra nokkuð og ræða mennrunarmál þeirra. Því miður tókst ekki að koma hér á fót vélstjóraskóla s.l. haust, eins og vonir stóðu samt til. Hrepptu aðrir þann skóla a.m.k. í bili. Útskrifuðust 14 vélstjórar með 1000 hestafla réttindi frá Akureyri nú í vetur. Fór hér illa fyrir Vestmannaeyingum, og var bæði um að kenna áhugaleysi sjómanna og kraftleysi ráðandi manna í þessum efnum. Var þó full þörf að fá hér vélskóla, sem veitti 1000 ha réttindi. Verður nú Vélstjórafélag Vestmannaeyja og bæjaryfirvöld að gera eitthvað raunhæft í þessu máli. Með aukinni tækni er starf vélstjóra á hinum stærri fiskiskipum orðið mjög umfangsmikið ábyrgðarstarf, sem krefst bæði góðrar undirstöðumenntunar og mikillar reynslu.
Þá þyrfti að koma hér á stuttum námskeiðum fyrir matsveina fiskiskipaflotans, og myndi með því skapast í senn aukin sparneytni og fjölbreytni í fæði sjómanna.
Hér í Eyjum eigum við á að skipa mjög vel hæfum netagerðarmönnum. Ég, sem þetta rita, veit hve vel þeir hafa reynzt nemendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og kennt þeim margt, sem er sjómannsstarfinu nytsamlegt og nauðsynlegt. Hvernig væri nú, ef Skipstjóra- og stýrimannafélagið „Verðandi„ og netaverkstæðin í sameiningu beittu sér fyrir eins til tveggja mánaða námskeiði í viðgerð og meðferð veiðarfæra yfir hausttímann? Þannig námskeið myndi verða báðum aðilum til mikilla og góðra nota.

Frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum
Vorið 1966 útskrifuðust 8 nemendur með hið meira fiskimannapróf. Var skólanum slitið á lokadag 11. maí. Þeir, sem útskrifuðust voru: Bárður Árni Steingrímsson Vestmannaeyjum, Bjarni Jóhannesson Akranesi, Guðmundur Sveinbjörnsson Vestmannaeyjum, Helgi Kristinsson Vestmannaeyjum, Matthías Einar Angantýsson Vestmannaeyjum, Matthías Óskarsson Vestmannaeyjum, Unnar Björgólfsson Eskifirði, Valdimar Sævar Halldórsson Vestmannaeyjum.

Nemendur í 1. bekk 1966-1967.
Nemendur í 1. bekk 1966-1967.

Hæstu einkunnir á prófinu hlutu:

Stungið í gegn með stungunál („melspíru“).

Guðmundur Sveinbjörnsson 174 stig eða 7,57 í meðaleinkunn. Er þetta ágætiseinkunn og var hæsta einkunn á landinu við fiskimannapróf 1966. Einnig er einkunn Guðmundar hæsta einkunn, sem hefur verið gefin við skólann. Bjarni Jóhannesson Akranesi hlaut 168 ½ stig eða 7,32 í meðaleinkunn. Þess má geta, að Bjarni lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík nú í vor, einnig með ágætiseinkunn. Helgi Kristinsson Vestmannaeyjum fékk 166 stig eða 7,22 í meðaleinkunn, Valdimar Sævar Halldórsson fékk 163 ⅓ stig eða 7,10 í meðaleinkunn. Hæst er gefið 8 og hæstur mögulegur stigafjöldi er 184 stig. Fyrir hæstu einkunn fékk Guðmundur í verðlaun áritaða bréfapressu frá Sjóvátryggingafélagi Íslands, veggskjöld frá Einari Sigurðssyni og „Verðandaúrið 1966“, sem var afhent á Sjómannadaginn, í fyrsta skipti. Verðlaun úr verðlaunasjóði Friðfinns Finnssonar og Ástu Sigurðardóttur fyrir ástundun og stundvísi fengu: Bjarni Jóhannesson, Guðmundur Sveinbjörnsson, Unnar Erlingur Björgólfsson og Valdimar Sævar Halldórsson. Við skólaslit gaf Friðfinnur 5000 kr. til viðbótar í sjóðinn. Að loknum skólaslitum var boðið til kaffisamsætis í skólanum, sem 40-50 manns sóttu.

Formaður björgunarsveitar Björgunarfélags Vestmannaeyja, Kristinn Sigurðsson frá Skjaldbreið, kennir nemendum að hnýta tildráttarblökkina í skotlínuna.

Skólastarfið 1966-1967
Stýrimannaskólinn hófst með námskeiði 15. september 1966. Skólinn var settur 1. október, og hófu 20 nemendur nám í skólanum, 10 í hvorri bekkjardeild. Var kennsla í 1. bekk sniðin eftir breyttum lögum um stýrimannamenntun í landinu, en breytt lög um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum voru samþykkt 13. marz s.l. Hefur nú námstími 1. bekkjar lengzt um tvo mánuði, fram í endaðan marz, og námsefni verið aukið. Samkvæmt hinum nýju lögum mun nú fiskimannapróf skiptast í 1. og 2. stig, og lýkur 1. bekk með fiskimannaprófi 1. stigs, sem svarar til hins minna fiskimannaprófs eða 120 tonna skipstjórnarréttindum, sem áður var. Fyrir fiskimannapróf 1. stigs hefur einnig verið tekin upp kennsla í ensku og dönsku og meiri kröfur verið gerðar í öðrum greinum. Meira fiskimannaprófið er með breyttum lögum nefnt fiskimannapróf 2. stigs og veitir ótakmörkuð réttindi á íslenzk fiskiskip utanlands og innan og réttindi á flutningaskip innanlands allt að 400 smálestir.

Steingrímur Arnar kennir stærðfræði.
„Dúxinn" - Hilmar Arinbjarnarson á gati.

Undir fiskimannapróf 1. stigs gengu 9 nemendur og stóðust það allir. Fengu allir nemendur 1. einkunn og munu setjast í 2. bekk næsta haust.
Þeir, sem luku fiskimannaprófi 1. stigs voru:
Bragi Guðmundsson Vestmannaeyjum, Friðrik Már Sigurðsson Vestmannaeyjum, Gunnar Arnason Akranesi, Gunnlaugur Ólafsson Ísafirði, Kristján S. Kristjánsson Vestmannaeyjum, Leifur Gunnarsson Vestmannaeyjum, Ólafur Eggertsson Vestmannaeyjum, Sigmar Magnússon Vestmannaeyjum, Sverrir Guðmundsson Ísafirði.
Hæstu einkunnir fengu:
Bragi Guðmundsson og Friðrik Már Sigurðsson, sem voru jafnir með 124 ⅓ stig eða 7,31, sem er ágætiseinkunn; næstur var Sigmar Magnússon með 7,27, sem er ágætiseinkunn, þá Gunnlaugur Ólafsson með 7,14 og Ólafur Eggertsson með 7,08.
Hið meira fiskimannapróf hófst 21. apríl og lauk 9. maí. Gengu 10 nemendur undir prófið og stóðust það allir. Fékk einn nemandi ágætiseinkunn, fimm fyrstu einkunn og fjórir aðra einkunn.
Þeir, sem luku hinu meira fiskimannaprófi, voru:
Andrés Þórarinsson, Árni Óli Ólafsson, Hilmar Arinbjörnsson, Kjartan Guðfinnsson, Kristján Óskarsson, Matthías Guðjónsson, Óskar Hallgrímsson, Páll Pálmason, Sigurjón Óskarsson, Þór Í. Vilhjálmsson, allir úr Vestmannaeyjum.
Hæstu einkunnir hlutu: Hilmar Arinbjörnsson 171 ⅓ stig eða 7,45 í meðaleinkunn, og er þetta ágætiseinkunn, annar varð Kristján Óskarsson (Matthíassonar á Leó) með 7,10, Þriðji Matthías Guðjónsson (Kristinssonar á Hrauney) með 7,01.

Frá björgunaræfingu inni í Dal. Fyrirkomulag á björgunarstól sést vel.
Nemendur 2. bekkjar í tíma með skólastjóra.
2 nemenda við vörpugerð, en Andrés Þórarinsson t.h. og Kristján Óskarsson gerðu nákvæmt líkan af botnvörpu. Kennarinn í faginu, Magnús Magnússon, til vinstri.png

Skólanum var slitið á lokadag, 11. maí, og voru þar veitt ýmis verðlaun. Hilmar Arinbjörnsson fékk bréfapressu Sjóvátryggingafélags Íslands og veggskjöld Einars Sigurðssonar útgerðarmanns fyrir hæstu einkunn. Hin glæsilegu verðlaun Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda fyrir hæstu einkunn á meiraprófi, „Verðandaúrið 1967“, verða afhent á sjómannadaginn. Fyrir aðra hæstu einkunn hlaut Kristján Óskarsson vandaða landabréfabók.

Verðlaun fyrir ástundun og reglusemi, sem var í þetta skipti bókin Skipið, voru veitt úr verðlaunasjóði Friðfinns Finnssonar og Ástu Sigurðardóttur. Hlutu Andrés Þórarinsson, Sigurjón Óskarsson, Marthías Guðjónsson og Páll Pálmason þessi verðlaun. Bókaverðlaun fyrir hæstu einkunn í siglingafræði hlaut Hilmar Arinbjörnsson. Náði hann 46 stigum í siglingafræði af 48 mögulegum.
Við þessi skólaslit hefur Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum á 3 árum útskrifað 42 sjómenn með skipstjórnarréttindi, 33 með hið meira fiskimannapróf og 9 með fiskimannapróf 1. stigs.
Á liðnu skólaári hafa sjómenn og fyrirtæki í bænum stutt í hvívetna skólann með rausnarlegum gjöfum. Hafa m.a. eftirtalin fyrirtæki gefið skólanum áhöld og tæki:
Fyrirtækið Net hf. (eigendur: Júlíus Hallgrímsson, Óskar Haraldsson og Finnbogi Ólafsson) hefur gefið skólanum tvö vönduð hnattlíkön. Er annað af jörðinni og sýnir hafstrauma og afstöðu sólar, hitt er af stjörnuhimninum.
Sigurður Bjarnason skipstjóri í Svanhól hefur gefið sextant, góðan grip og eigulegan.
Útgerð Hamrabergs, fluglínutæki.
Sigurður Sigurjónsson á Freyju hefur gefið svonefnd „labb-rabb“ tæki, sem koma að góðum notum við björgunaræfingar.
Sigurjón Ólafsson í Litlabæ, áhöfn Sæfaxa og Sigurður Þórðarson hafa gefið gúmmíbát, Helgi Benediktsson gaf veggkort, Einar Guttormsson hefur gefið leikritið Íslandsklukkuna á plötu til nota við íslenzkukennslu.
Línubyssur hafa gefið Óskar Matthíasson og gamall nemandi skólans, Bárður Árni Steingrímsson. En Óskar gaf skólanum í fyrra, sem kunnugt er, vandað segulbandstæki.

Allar þessar gjafir, sem eru tugþúsunda virði, þakkar skólinn af heilum hug. Er hugur gefenda til stofnunarinnar þó mest um verð og ómetanlegur.

Nemendur í 1. og 2. bekk vinna við vírasplæs í verklegri sjóvinnu.
Erfitt splæs.
Skotið með línubyssu.
Meira fiskimannapróf 1967.
Meira fiskimannapróf 1967.
Eigendur Net hf.