Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Anesarvik

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ANESARVIK



Hinn þekkti Vestmannaeyingur og fræðasjór um allt, sem að sögu Vestmannaeyja lýtur, Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti á Ísafirði, sendi Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja þessa mynd. Myndin er tekin út um glugga á Reyni, sennilega um 1915, og mun Arinbjörn bróðir Jóhanns Gunnars hafa tekið myndina.
Myndin er af Anesarviki eða Litlabæjarviki, eins og það var stundum kallað, og sér út á Eiði og innri höfnina. Anesarvik dregur nafn af norskum hákarlaskipstjóra, sem var búsettur hér og á fjölda afkomenda í Vestmannaeyjum. Lagði hann þar oft báti sínum og bjargaði eitt sinn barni frá drukknun í vikinu, sem við hann var kennt. Hann var afi Jesar á Hóli og þeirra systkina.
Á árunum 1914—1920 áttu þarna uppsátur sex- og áttrónir bátar með færeysku lagi, flestir smíðaðir eftir Óla í .
Áttu eftirtaldir menn báta þarna: Hannes á Brimhólum, Gísli Ingvarsson í Uppsölum, Gísli Þórðarson og bróðir hans Þorkell Þórðarson í Sandprýði, Erlendur á Gilsbakka, Ísleifur Guðnason á Kirkjubæ, bræðurnir Kristinn og Ólafur Ástgeirssynir í Litlabæ. Áttu þeir bræður naust alveg austur við gafl krónna þriggja. Sést bátur Ólafs í fjörunni neðan til. Var bátur hans hvítur ofan sjólínu, en botn svartmálaður.
Allt er þetta svæði nú að sjálfsögðu komið undir mannvirki, en var nokkurn veginn á sama stað og sundið, sem nú er vestan Ísfélags Vestmannaeyja, áframhaldandi frá Bárugötunni.
Í þann tíð, sem Anesarvik var og hét, var hár veggur norðan Strandvegar og bratt niður í fjöruna. Sveinn á Landamótum átti króna til vinstri, sem er þarna á horninu og ljóskerið ber í. Var vestast beituskúr m/b Sæfara og síðar Ingólfs Árnasonar.
Til vinstri er Bratti, klappirnar austan Tangans, þá sést Botninn með mótorbáta á festum. Á Eiðinu sjást stórhýsi Frakka, sem þeir reistu þar undir forystu Billouin ræðismanns.
Þeir, sem stunduðu róðra á þessum árabátum, öfluðu oft vel. Væri fiskigengd vestan og innan við Eyjar, en austan brælur, voru bátarnir settir yfir Eiðið. Í byrjun vertíðar lögðu allar skipshafnir árabátanna til grjótið austur af Réttinni, inni á Eiði, svo að setningur yfir Eiðið væri léttari. Eitt sinn kom Kristinn í Litlabæ með tvær hleðslur upp á Eiðið sama daginn, en fór með þriðju hleðsluna austur fyrir Klett. Þegar bátar komu með hleðslur á Eiðið, veifaði hver bátur á sínum sérstaka stað, og kom þá kvenfólk og krakkar, sem heyrði til skipshöfninni, til að draga fiskinn yfir Eiðið á þar til gerðum dráttarkrókum. Oft voru þar til hjálpar eldri sjómenn, sem hættir voru róðrum, og drógu þeir af seilunum. A bátum þeim, sem áttu uppsátur sitt í Anesarviki, var aðeins róið yfir vetrarvertíðina. Þeir þóttu of stórir til róðra á vor- og sumarvertíð.