Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Þegar Sæborg strandaði 9. október 1909

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þegar Sæborg strandaði


9. október 1909


M.b. Sæborg VE 124.

Vélbáturinn Sæborg VE 124 lagði af stað 8. október 1909 til Víkur í Mýrdal til að sækja ýmsan varning eins og þá var títt. Bezta veður var og gekk ferðin vel til Víkur. Einnig var dauður sjór í Vík. Formaður með Sæborgu var Magnús Ástgeirsson í Litlabæ, og var hann nýtekinn við formennsku á honum af Ástgeiri föður sínum. Vélamaður var Sigurjón Jónsson á Bergi, sem var mágur Magnúsar. Í þessari ferð voru einnig Matthías Finnbogason, Jaðri, Stefán Ólafsson, Fagurhól og Guðlaugur Hansson, Fögruvöllum. Þeir fara í land í Vík, Stefán, Matthías og Guðlaugur, en um borð eru Magnús og Sigurjón.

Stefán Ólafsson Fagurhóli.
Sigurjón Jónsson Bergi.
Matthías Finnbogason Jaðri.
Sigurlaugur Hansson Fögurvöllum.

Þeir byrja að skipa út í bátinn og fara eina ferð og gengur allt vel eftir þá ferð. Bregður Matthías sér þá upp í Víkurkauptún að fá sér kaffi hjá frændfólki sínu, sem þar bjó. Það voru þau hjónin Erlendur Björnsson og Ragnhildur Gísladóttir. Þegar Matthías hafði lokið við kaffidrykkju, kom sendimaður úr fjörunni og bað hann að koma hið skjótasta, því sjór sé að versna. Matthías bregður fljótt við og fer niður í fjöru. Ýmsir töldu ófært, en aðrir sögðu, að hugsanlegt væri að brjótast út. Matthías víkur sér að Einari Hjaltasyni, sem var orðlagður sandamaður og taldi Einar ófært. Þá snéri Matthías sér að Jóni Gíslasyni á Norðurgötum og taldi hann einnig ófært. Þá snéri Matthías sér að Einari Brandssyni á Reyni, sem var talinn með beztu formönnum í Vík. Einar taldi hugsanlegt, að takast mætti að komast út, ef gott skip sé fyrir hendi. Matthías snýr sér þá til Halldórs Jónssonar í Vík og spyr hvort hann vilji lána skip sitt til að komast um borð í bátinn og svarar Halldór því neitandi. Þar með var fokið í öll skjól að komast út.
Sæborg liggur fram á kvöld og er þá að byrja að hvessa, og léttir þá akkerum og leggur af stað úr Víkinni. Síðast sást til Sæborgar kl. 02:00 um nóttina: var þá komið ofsa rok af austri. Segir nú ekki af ferðum hennar í bili.
Nú eru þeir félagar orðnir tepptir. Stefán og Guðlaugur halda til í Vík, en Matthías heldur vestur í Reynishverfi til Einars bróður síns að Þórisholti, og er þar um nóttina. Matthías vaknar um nóttina og er þá hávaða stormur af austri um morguninn. Fer Matthías austur í Vík aftur að hitta félaga sina og eru þeir þarna í Vík í viku. Þá breytir um til norðanáttar. Það verður að samkomulagi að þeir fari út að Hvoli. Þar bjó Eyjólfur Guðmundsson. Fara þeir þangað Stefán og Guðlaugur, en Matthías var ekki tilbúinn þegar þeir fóru af stað. Frétta þeir að m/b Ingólfur sé væntanlegur upp að Berjanesi undir Eyjafjöllum. Formaður með hann var Guðjón Jónsson á Sandfelli. Eyjólfur lætur reiða þá Stefán og Guðlaug út undir Eyjafjöll. Nú kemur Matthías að Hvoli og eru þeir þá farnir eins og áður segir. Kjartan Finnbogason reiðir Matthías bróður sinn út undir Fjöll og ætla að ná í bátinn, en þá er hann farinn til Vestmannaeyja, svo Matthías varð eftir og gisti í Berjanesi um nóttina. Daginn eftir kemur m/b Gústav upp að Berjanessandi, formaður Stefán Gíslason í Ási, og kemst þá Matthías með honum til Vestmannaeyja. Eyjamönnum fundust þeir vera heimtir úr helju, þar sem ekkert hafði af þeim heyrzt í viku, því þá var enginn sími á milli lands og Eyja. Nú fóru að berast fréttir til Vestmannaeyja. Það var af frétta af Sæborgu, að úr Austur-Landeyjum hafi sézt vélbátur fyrir viku síðan sigla út með sandi og halda slögótt og loks strandaði hann fram undan bænum Klasbarða um nótt. Með birtu fóru menn í sand af næstu bæjum og fundu bátinn mannlausan með öllum seglum uppi og allt með kyrrum kjörum á dekki. Bátinn fót út aftur og rak hann þá út í Þykkvabæ og þar upp í fjöru.
Ýmsar getgátur urðu um afdrif þeirra Magnúsar og Sigurjóns. Sumir héldu, að þeir hefðu drukknað í lendingunni, en þótti óskiljanlegt þar sem sjór var dauður. Nú eru allar þessar fregnir komnar til Vestmannaeyja, og er nú beðið eftir sandaleiði eða dauðum sjó, og er nú komið fram að veturnóttum og gengur veður þá til norðanáttar og er þá mb. Ásdís mönnuð út með vírum og þeim tækjum, sem til voru. Ásdís lagði af stað snemma morguns út í Þykkvabæ. Undir kvöld sama dag hafði Ásdís að draga Sæborgu út og kom með hana um nóttina heilu og höldnu til Vestmannaeyja. Líður nú tíminn. Um Þessar mundir bjó á Klasbarða í Landeyjum Felix Helgason. Um vorið 1910 var Felix að flytja bæ sinn. Því gamli bærinn var kominn í vatn og flutti hann nýja bæinn nokkuð upp fyrir vatnið, en gamli bærinn var orðinn að hólma úti í vatninu, en þar hafði hann kálgarð. Felix átti eina dóttur á fermingaraldri. Einnig var hjá honum drengur úr Reykjavík um fermingu, sem Axel Albertsson hét og drukknaði í Vestmannaeyjum 2. febr. 1914. Þá var þar líka stúlka um fermingu frá Kraga af Rangárvöllum, sem Pálína Eiríksdóttir heitir og er hún nú kona Ágústs Jónssonar í Varmahlíð í Vestmannaeyjum.
Felix bóndi átti bátkænu, sem hann hafði til að flytja úr og í hólmann. Þau krakkarnir tóku bátinn og réru út á vatnið. Stúlkurnar réru, en Axel sat frammi í bátnum. Þegar þau eru komin nokkra faðma út á kallar Axel: „Sjáið þið, þarna er mannseyra niðri í vatninu!“ Þær fara að gá og sjá það er rétt. Þau róa að landi. Axel segir Felix hvað hann hafi séð, Felix ætlar ekki að trúa þessu. Stúlkurnar segja við Felix að þetta sé rétt, þær hafi séð þetta líka. Fer svo Felix með þeim út á bátnum og á þann stað, sem þau sáu mannseyrað og sá þá Felix að það var satt, sem krakkarnir sögðu. Fær hann þá menn frá Sigluvík, sem var næsti bær við Klasbarða, til að hjálpa sér og fara þeir svo út á vatnið og ná þar upp líki af manni og reyndist það vera Magnús Ástgeirsson frá Litlabæ, sem var formaður með Sæborgu. Þarna hefur hann lent í vatninu haustið áður, en Sigurjón hefur aldrei fundizt. Sumir héldu, að hann hefði lent í vatninu líka, aðrir héldu að hann hefði fallið fyrir borð á leiðinni austan úr Vík, en hvorttveggja er ágizkun.
Sigurjón Jónsson var fæddur að Moldnúpi undir Eyjafjöllum 15. apríl 1880. Hann kom til Vestmannaeyja upp úr aldamótunum og giftist Jónínu Ástgeirsdóttur frá Litlabæ. Sigurjón var dugnaðarmaður og framsækinn. Sem dæmi um það átti hann orðið í 3 vélbátum i byrjun vélbátaútgerðarinnar. Einnig byggði hann húsið Berg við Bárugötu, sem flutt var þaðan fyrir tveim árum síðan.
Magnús Ástgeirsson var fæddur að Litlabæ 27. apríl 1887, sonur Ástgeirs Guðmundssonar bátasmiðs og Kristínar Magnúsdóttur. Hann byrjaði sjómennsku 15 ára gamall á opnu skipi með föður sínum og síðan á Sæborgu. En 1909 tekur Magnús við formennsku á Sæborgu af föður sínum, og er með hana þá vertíð og farnaðist það vel. Hann var talinn góður sjómaður, glöggur og athugull. Sæborgu byggði Ástgeir Guðmundsson upp úr opnu skipi, sem Sæborg hét og keypti hana af Friðrik Jónssyni á Látrum og setti í hana 8 hesta Danvél. Eigendur voru þeir Ástgeir Guðmundsson, Magnús Ástgeirsson, Guðmundur Ástgeirsson, allir frá Litlabæ; Matthías Finnbogason, Jaðri; Guðlaugur Hansson, Fögruvöllum; og Gísli Eyjólfsson, Búastöðum. Eftir að Sæborg kom úr þessari eftirminnilegu ferð, gekk hún hér í Vestmannaeyjum til vertíðarloka 1913, og voru með hana 3 formenn á þessu tímabili, þeir Einar Sæmundsson, Staðarfelli, Þorgeir Eiríksson, Skel og Vilhjálmur Magnússon, Fögruvöllum, og var þá seld til Stokkseyrar. — Ekki gat Sæborg talizt happabátur.

J. S.