Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Mb. Sjöstjarnan VE 92

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Mb. Sjöstjarnan VE-92


Síðari hluta sumars 1915 fór síldarverðið ört hækkandi og útlitið varð hið glæsilegasta. Þeir, sem gátu náð í skip og gert þau út á veiðar, urðu stórefnamenn á fáum dögum.
Þann 17. nóvember 1915 mættu þessir menn á fundi á Akureyri: Böðvar Jónsson málafærslumaður, Lárus Rist kennari, Þorkell Þorkelsson kennari, Aðalsteinn Kristinsson heildsali, Sigurður Einarsson dýralæknir, Jón Björnsson skipstjóri og Sigurður Kristinsson kaupfélagsstjóri. Ákveðið var að stofna útgerðarfélag og skyldi það heita Sjöstjarnan að undirlagi Sigurðar Einarssonar dýralæknis, en stjörnurnar í nafninu, sem skipið siglir undir, eru framanritaðir stofnendur. 20. nóvember var samþykkt að fela Jóni Espólín, sem þá var á förum til Danmerkur, að semja um smíði á skipi, sem hann hafði teiknað eftir okkar höfði.
Um þetta leyti var styrjöldin í algleymingi og fór að efni til skipakaupa þverrandi ásamt hækkandi kaupi. Um áramótin fóru að berast fréttir um það, að skipasmíðastöðin gæti ekki staðið við smíði skipsins fyrir umsamið verð. Við þessar fregnir dignaði kjarkur nokkurra félagana og vildi þeir fá fleiri og jafnframt meiri efnamenn til að gerast eigendur með okkur. Þetta endaði með því að nýtt félag með fleiri mönnum var stofnað 6. febrúar 1916 með heitinu H/f Sjöstjarnan. Skipið kom svo til Akureyrar um áramótin 1916 og var þá ekkert við það að gera svo ákveðið var að gera það út á hákarlaveiðar, en enginn fékkst hákarlinn. Á þessum árum var skipið ýmis notað til síld- og þorskveiðar eða flutninga, en sá rekstur gaf aldrei verulegan hagnað.
Árið 1922 var svo komið að skipið var selt og félagið gert upp, því allir voru orðnir leiðir á baslinu, þegar enginn fékkst hagnaðurinn. Skipið reyndist hið traustasta og var um eitt skeið talið bezt skipa í eyfirzka flotanum.

Sjöstjarnan áður en henni var breytt.

Til Vestmannaeyja var Sjöstjarnan keypt haustið 1941. Kaupendur voru þeir feðgar Martin Tómasson og Tómas M. Guðjónsson frá Höfn og Ásmundur Friðriksson frá Löndum. Ásmundur átti í bátnum til ársins 1946, en seldi þá Tómasi sinn hluta. Fyrstu árin var Sjöstjarnan gerð út á botnvörpuveiðar á vet-urna, en síldveiðar á sumrin.
Árið 1950 var Sjöstjarnan í vöruflutningum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og var þá skipstjóri á bátnum Sigurjón Ingvarsson frá Skógum. Árið 1951 var farið með Sjöstjörnuna til Danmerkur, þar sein hún var umbyggð og sett var í hana ný vél.
Eftir þetta var hún gerð út á línu- og netaveiðar á veturna, en síldveiðar á sumrin. Í síðasta róðurinn fór Sjöstjarnan 21. október 1962. Kl. 9 um morguninn þegar skipverjar voru að draga línu skammt frá Súlnaskeri, urðu þeir varir við að eldur var kominn upp í vélarrúminu og varð hann svo magnaður á skammri stundu, að ekki varð við neitt ráðið.
Skipverjar urðu að yfirgefa bátinn og fóru í gúmmíbátinn og var bjargað um borð í m/b Sigurfara VE 138. Lóðsinn dró svo Sjöstjörnuna til Eyja, en þá var hún orðin svo mikið skemmd að ekki þótti borga sig að gera við hana og var hún dæmd ónýt. Hafði henni þá verið haldið úti í 46 ár og alltaf reynzt hin mesta happafleyta og oft aflazt vel á hana.
Skipstjórar með Sjöstjörnuna, frá því að hún var keypt til Eyja, hafa verið Ásmundur Friðriksson frá Löndum í 4 ár, Arnoddur Gunnlaugsson frá Gjábakka í 5 ár. Elías Sveinsson frá Varmadal í 11 ár og Sveinn Valdimarsson síðasta árið. Sjöstjarnan var 55 brúttósmálestir að stærð.
E. M.

Sjöstjarnan við bryggju á Siglufirði með síldarfarm.
Lóðsinn dælir sjó á eldinn í Sjöstjörnunni.