Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Árni J. Johnsen: Minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Árni J. Johnsen


MINNING


Árni var fæddur í Vestmannaeyjum 13. október 1892, sonur hjónanna Sigríðar Árnadóttur og Jóhanns Jörgens Johnsens útvegsbónda, hótel- og sjúkrahúshaldara í Vestmannaeyjum.
Að Árna stóðu traustar og landskunnar ættir. Hann bar nafn forföður síns, Árna sýslumanns Torfasonar að Eiðum. Móðir hans, Sigríður, var dóttir Árna Þórarinssonar frá Hofi í Öræfum, af Svínafells- og Skaftafellsættum hinum gömlu og af ættum Þorsteins Magnússonar, sýslumanns að Þykkvabæjarklaustri og Odds biskups Einarssonar, en þær ættir hafa borið marga ágæta menn.
Jóhann faðir Árna var sonur J. Johnsens kaupmanns í Hafnarfirði og á Papós og Guðfinnu Jónsdóttur Austmanns frá Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Séra Jón Austmann var dóttursonur Jóns prófasts Steingrímssonar að Kirkjubæjarklaustri og sonarsonur Jóns Runólfssonar lögréttumanns að Höfðabrekku, af Höfðabrekkuætt. Árni ólst upp á fjölmennu athafnaheimili, þar sem bæði var stunduð útgerð og landbúskapur, því að faðir hans hélt bænhúsjörðina Kirkjubæ og fleiri járn hafði hann í eldinum, og er áður getið um hótelrekstur og sjúkrahúshald. Mun þetta hafa verið eitt fjölmennasta heimilið á Suðurlandi í þann tíma, og viðbrugðið fyrir reglusemi og höfðingsskap.
Árni missti föður sinn er hann var á fyrsta ári, en alls voru börnin 5, sem þá urðu föðurlaus, og var Gísli þeirra elztur, þá 12 ára gamall.
Það var að vísu mikið skarð fyrir skildi við föðurmissinn, en Sigríður móðir þeirra hélt búskap áfram með skörungsskap þrátt fyrir erfitt árferði og aflaleysi áranna fyrir aldamótin.
Árni var snemma liðtækur til hvers konar starfa og vandist fljótt sjómennsku og bjargfuglaveiðum, og var góður sigmaður. Árni stundaði ungur nám við Verzlunarskólann í Reykjavík og Köbmandskolen í Höfn.
Framan af ævi stundaði Árni kaupmennsku, útgerð og búskap og margs konar umboðsstörf, en hin síðari ár var hann matsmaður og vigtarmaður hjá hafnarsjóði Vestmannaeyjakaupstaðar.
Árni var alla tíð maður mjög félagslyndur og óspar á krafta sína hvar sem þurfti að ljá góðu máli lið, eða hjálpa bágstöddum og hefir hann gegnt margvíslegum trúnaðarstörfurn fyrir ýmis félagssamtök í Vestmannaeyjum.
Bindindismálin áttu hug hans allan um ára bil, og barðist hann ótrauðri baráttu í hópi góðtemplara í Vestinannaeyjum og var æðstitemplar í stúkunni „Sunnu“ samfleytt í 25 ár. Árni var einnig framarlega í flokki Sjálfstæðisflokksins um langt skeið.
Árni var söngmaður góður og áhugamaður mikill um söngmenningu. Hann var í fyrstu lúðrasveit Vestmannaeyja og söng í kórum þar í nær 60 ár og stjórnaði um tíma verkamannakórnum í Eyjum.
Hin mörgu björgunarafrek Árna bera vitni frábæru þreki og góðri sundkunnáttu, enda var hann snemma góður sundmaður og hafði á hendi sundkennslu um skeið.
Árni hefur bjargað alls 8 mönnum frá drukknun, á sundi, stundum við hinar erfiðustu aðstæður.
Hiklaust má telja að Árni hafi með snarræði og dirfsku átt mestan þátt í að það tókst að bjarga 7 mönnum úr lífsháska við Eldey hinn 26. ágúst 1939, en þar unnu einnig fleiri djarfir menn að. Árni hefur verið sæmdur mörgum heiðursmerkjum. Hann hefur 4 sinnum fengið verðlaun úr Carnegie-sjóðnum og verið sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar.
Áður en Vestmannaeyingar eignuðust björgunarskip var einatt leitað til erlendra togara til að leita að bátum, er taldir voru í hættu. Voru þetta oft hinar mestu svaðilfarir, en Árni fór oft út í skip þessara erinda, því að hann var þekktur að hjálpfýsi í þeim efnum og öruggur til forystu.
Er því viðbrugðið að í einni slíkri ferð hans út í skip hvolfdi bát hans, en honum tókst að halda sér og öðrum manni uppi á sundi í 18 stiga frosti, unz þeir komust, eftir klukkustundarvolk í sjónum, að dönsku póstskipi er lá á legunni.
Árni hefur verið heppinn með lífsförunauta. Fyrri kona hans, Margrét Jónsdóttir, ól honum 6 mannvænleg börn, sem öll eru á lífi, en þau eru: Svala, húsfreyja, Suðurgarði, Vestm., Ingibjörg, kaupkona, Vestm., Áslaug, hjúkrunarkona og trúboði, kona Jóhannesar Ólafssonar læknis í Konsó, Gísli, sjómaður, Vestm., Hlöðver, bankafulltrúi, Vestm., og Sigfús, kennari, formaður Félags ungra Sjálfstæðismanna í Vestm. Margrét kona Árna var rómuð gæða- og myndarkona. Hún lézt eftir 30 ára sambúð þeirra hjóna.
Síðari lífsförunautur Árna var Olga Karlsdóttir. Börn þeirra eru 2 mannvænlegir synir, Guðfinnur og Jóhannes. Olga er dugnaðar- og gæðakona. Auk þess átti Árni þátt í að ala upp 4 fósturbörn.
Árni var um margt sérkennileg persóna. Hann var hár vexti, stórskorinn og karlmannlegur, höfðinglegur í framgöngu. Hann var fullur af fjöri, lífsorku og smitandi kátínu og krafti, sem árin lítt gátu bugað fram á síðustu stund. Hann vildi hvers manns vandræði leysa og hikaði ekki við að tefla á tæpasta vaðið og leggja sjálfan sig í hættu er um var að ræða að bjarga mannslífum. Með Árna er genginn góður drengur, sem átti í ríkum mæli hugmyndaflug og djörfung brautryðjandans.

Vinur.