Sigurbjörg Guðmundsdóttir (Smiðjunni)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Sigurbjörg Guðmundsdóttir fæddist 23. júní 1849 og lést 15. mars 1925.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Eiríksson tómthúsmaður í Smiðjunni, síðar í Fjósi, f. 1813, d. 11. júní 1867, og kona hans Kristín Björnsdóttir húsfreyja í Smiðjunni f. 8. júní 1825 í Eyjum, d. 7. febrúar 1860.

Börn Guðmundar og Kristínar voru: Börn þeirra hér:
1. Guðrún Guðmundsdóttir, f. 28. júlí 1846 á Vilborgarstöðum, d. 2. ágúst úr ginklofa.
2. Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 8. október 1847. Hún var 4. barnið, sem fæddist á Fæðingarstofnuninni. Hún dó 15. ágúst 1853 „af sáraveiki“.
3. Sigurbjörg Guðmundsdóttir, f. 23. júní 1849, d. 15. mars 1925.
4. Guðmundur Guðmundsson, f. 24. október 1850, d. 2. nóvember 1850 „af Barnaveikin“.
5. Guðmundur Guðmundsson, f. 21. september 1852, d. 28. september „af Barnaveikin“.
6. Þorkell Guðmundsson, f. 16. desember 1853, d. 7. janúar 1854 úr ginklofa.
7. Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 27. maí 1855, d. 20. nóvember 1931. Hún var húsfreyja í Staðarbæ á Kirkjubæ 1910.
8. Jón Guðmundsson, f. 1. apríl 1859, hrapaði úr Flugum 3. júní 1873.

Sigurbjörg var nýfætt tökubarn hjá Guðrúnu Jónsdóttur ljósmóður og prestkonu á Kirkjubæ í lok árs 1849, tveggja ára tökubarn hjá Guðríði Jónsdóttur og Einari Jónssyni á Kirkjubæ 1850, hjá foreldrum sínum í Smiðjunni 1851-1858, í Fjósi 1859, með ekklinum föður sínum þar 1860 og enn 1864, tökubarn hjá Sólveigu Pálsdóttur ljósmóður í Landlyst 1865, léttastúlka þar 1866 og 1867, léttastúlka hjá Ólafi og Guðríði Sigurðardóttur í Litlakoti 1868, 20 ára léttakind þar 1869, léttastúlka þar 1870.
Sigurbjörg fluttist frá Litlakoti til Reykjavíkur 1871, var ógift tómthússtúlka í Móhúsum þar 1880 með óskírðan dreng á 1. ári og með Þórði Árnasyni 48 ára tómthúsmanni, (líklega Malakoff).
Hún kom að Nýjabæ frá Reykjavík 1884, var vinnukona þar 1885-1887, er hún fór til Seyðisfjarðar. Hún var komin að Kirkjubóli í Eyjum 1890, var vinnukona á Ofanleiti 1891, í Vanangri 1892, Juliushaab 1893 og 1894, í Landlyst 1895, fór frá Ofanleiti til Seyðisfjarðar 1896, var í Húsavík í N-Múl. 1901.
Sigurbjörg var leigjandi í Nýjabæ 1910, gamalmenni á sveit í Kirkjudal 1920, átti síðast heima á Spítalastíg 10 í Reykjavík.
Hún lést 1925, var jarðsett í Reykjavík.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.