Sigríður Kristjánsdóttir (Blómsturvöllum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hálfdánía Sigríður Kristjánsdóttir.

Sigríður Kristjánsdóttir frá Blómsturvöllum á Eskifirði, húsfreyja fæddist þar 16. júlí 1909 og lést 22. júní 2000 á Landspítalanum.
Foreldrar hennar voru Kristján Jónsson frá Vetleifsholti í Ásahreppi, Rang., landpóstur, f. 8. júní 1878, d. 14 janúar 1959, og kona hans Guðbjörg Þórdís Eiríksdóttir frá Kollaleiru í Reyðarfirði, húsfreyja, f. 8. ágúst 1873, d. 6. maí 1964.

Kristján landpóstur var bróðir
1. Magnúsar Jónssonar verkamanns í Lambhaga, f. 19. ágúst 1875, d. 28. febrúar 1939.

Sigríður var með foreldrum sínum til sextán ára aldurs.
Hún réð sig í vist til Reykjavíkur til Kaj Bruun og konu hans, Snjólaugar, og var hjá þeim í fimm ár.
Sigríður flutti til Eyja 1931 og vann hjá Kristjáni Linnet sýslumanni einn vetur. Þá var hún eitt ár á Eskifirði, en síðan réðst hún til starfa í Verslun Önnu Gunnlaugsson.
Þau Guðmundur Árnason reistu bú á Kanastöðum við Hásteinsveg 22, eignuðust Guðmund Helga þar á því ári. Þau fluttu á Skólaveg 1 síðar á árinu, en Guðmundur, sem var skipstjóri á Loka VE, drukknaði í höfninni á leið út í bátinn 14. desember á því ári.
Sigríður flutti að Jaðri við Vestmannabraut 6, vann fyrir sér með matsölu og þjónustu, hélt ,,kostgangara“.
Þau Guðmundur Kristjánsson giftu sig 1940, eignuðust fimm börn. Þau bjuggu á Jaðri við Vestmannabraut 6, þá á Lágafelli við Vestmannabraut 10, en að lokum byggðu þau hús við Faxastíg 27, sem þau nefndu Blómsturvelli og bjuggu þar lengi.
Þau höfðu ýmsa starfsemi í húsinu, m.a. matsölu, verslun, innrömmun, línuuppsetningu, reiðhjólaverkstæði.
Hjónin fluttu upp á Land við Gosið 1973, bjuggu á Álfhólsvegi 153 í Kópavogi. Sigríður bjó síðast í Vogatungu 69 þar.
Guðmundur lést 1986 og Sigríður 2000.

I. Sambýlismaður Hálfdáníu Sigríðar var Guðmundur Árnason Guðmundsson sjómaður, skipstjóri, f. 22. maí 1912 á Bjargi í Setbergssókn, drukknaði 14. desember 1935. Móðir hans var Kristjana Þorsteinsdóttir frá Gröf í Setbergssókn á Snæfellsnesi, lausakona í Langa-Hvammi 1934, f. 5. maí 1879, d. 2. ágúst 1949. Faðir hans var Guðmundur Árnason frá Björnskoti u. Eyjafjöllum, húsmaður í Gröf, f. 13. mars 1880, drukknaði 14. september 1911.
Barn þeirra:
1. Guðmundur Helgi Guðmundsson, f. 4. september 1935 á Kanastöðum, hrapaði 15. maí 1953.

II. Maður Hálfdáníu Sigríðar, (21. september 1940), var Guðmundur Kristjánsson frá Hvanneyri, sjómaður, vélstjóri, bifreiðastjóri, verslunarmaður, f. 23. júní 1915, d. 29. mars 1986.
Börn þeirra:
2. Guðbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 25. október 1940 á Jaðri. Fyrri maður hennar Magnús Runólfur Gíslason. Maður hennar Egill Ingvi Ragnarsson.
3. Kristján Sigurður Guðmundsson bóndi í Steinum III u. Eyjafjöllum, f. 18. mars 1943 á Lágafelli. Kona hans Ólöf Bárðardóttir.
4. Grétar Guðni Guðmundsson á Seltjarnarnesi, f. 10. ágúst 1945 á Lágafelli. Kona hans Anna Guðrún Hafsteinsdóttir.
5. Rannveig Olena Guðmundsdóttir, (síðar Rannveig Olena Freni), húsfreyja í New Hampshire í Bandaríkjunum, f. 4. júlí 1946 að Blómsturvöllum. Maður hennar Joseph Freni yngri.
6. Guðný Helga Guðmundsdóttir, f. 16. júní 1953 að Blómsturvöllum, ógift og barnlaus.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.