Sigríður Kristjánsdóttir (Blómsturvöllum)
Sigríður Kristjánsdóttir frá Blómsturvöllum á Eskifirði, húsfreyja fæddist þar 16. júlí 1909 og lést 22. júní 2000 á Landspítalanum.
Foreldrar hennar voru Kristján Jónsson frá Vetleifsholti í Ásahreppi, Rang., landpóstur, f. 8. júní 1878, d. 14 janúar 1959, og kona hans Guðbjörg Þórdís Eiríksdóttir frá Kollaleiru í Reyðarfirði, húsfreyja, f. 8. ágúst 1873, d. 6. maí 1964.
Kristján landpóstur var bróðir
1. Magnúsar Jónssonar verkamanns í Lambhaga, f. 19. ágúst 1875, d. 28. febrúar 1939.
Sigríður var með foreldrum sínum til sextán ára aldurs.
Hún réð sig í vist til Reykjavíkur til Kaj Bruun og konu hans, Snjólaugar, og var hjá þeim í fimm ár.
Sigríður flutti til Eyja 1931 og vann hjá Kristjáni Linnet sýslumanni einn vetur. Þá var hún eitt ár á Eskifirði, en síðan réðst hún til starfa í Verslun Önnu Gunnlaugsson.
Þau Guðmundur Árnason reistu bú á Kanastöðum við Hásteinsveg 22, eignuðust Guðmund Helga þar á því ári. Þau fluttu á Skólaveg 1 síðar á árinu, en Guðmundur, sem var skipstjóri á Loka VE, drukknaði í höfninni á leið út í bátinn 14. desember á því ári.
Sigríður flutti að Jaðri við Vestmannabraut 6, vann fyrir sér með matsölu og þjónustu, hélt ,,kostgangara“.
Þau Guðmundur Kristjánsson giftu sig 1940, eignuðust fimm börn. Þau bjuggu á Jaðri við Vestmannabraut 6, þá á Lágafelli við Vestmannabraut 10, en að lokum byggðu þau hús við Faxastíg 27, sem þau nefndu Blómsturvelli og bjuggu þar lengi.
Þau höfðu ýmsa starfsemi í húsinu, m.a. matsölu, verslun, innrömmun, línuuppsetningu, reiðhjólaverkstæði.
Hjónin fluttu upp á Land við Gosið 1973, bjuggu á Álfhólsvegi 153 í Kópavogi. Sigríður bjó síðast í Vogatungu 69 þar.
Guðmundur lést 1986 og Sigríður 2000.
I. Sambýlismaður Hálfdáníu Sigríðar var Guðmundur Árnason Guðmundsson sjómaður, skipstjóri, f. 22. maí 1912 á Bjargi í Setbergssókn, drukknaði 14. desember 1935. Móðir hans var Kristjana Þorsteinsdóttir frá Gröf í Setbergssókn á Snæfellsnesi, lausakona í Langa-Hvammi 1934, f. 5. maí 1879, d. 2. ágúst 1949. Faðir hans var Guðmundur Árnason frá Björnskoti u. Eyjafjöllum, húsmaður í Gröf, f. 13. mars 1880, drukknaði 14. september 1911.
Barn þeirra:
1. Guðmundur Helgi Guðmundsson, f. 4. september 1935 á Kanastöðum, hrapaði 15. maí 1953.
II. Maður Hálfdáníu Sigríðar, (21. september 1940), var Guðmundur Kristjánsson frá Hvanneyri, sjómaður, vélstjóri, bifreiðastjóri, verslunarmaður, f. 23. júní 1915, d. 29. mars 1986.
Börn þeirra:
2. Guðbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 25. október 1940 á Jaðri. Fyrri maður hennar Magnús Runólfur Gíslason. Maður hennar Egill Ingvi Ragnarsson.
3. Kristján Sigurður Guðmundsson bóndi í Steinum III u. Eyjafjöllum, f. 18. mars 1943 á Lágafelli. Kona hans Ólöf Bárðardóttir.
4. Grétar Guðni Guðmundsson á Seltjarnarnesi, f. 10. ágúst 1945 á Lágafelli. Kona hans Anna Guðrún Hafsteinsdóttir.
5. Rannveig Olena Guðmundsdóttir, (síðar Rannveig Olena Freni), húsfreyja í New Hampshire í Bandaríkjunum, f. 4. júlí 1946 að Blómsturvöllum. Maður hennar Joseph Freni yngri.
6. Guðný Helga Guðmundsdóttir, f. 16. júní 1953 að Blómsturvöllum, ógift og barnlaus.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 30. júní 2000. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.