Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Krumlurnar
Í fýlaferðir er alltaf farið í Vestmannaeyjum, síðari hluta sumars, um það bil, að fýlunginn er að verða fleygur. Það var föst regla, að hreppstjórarnir önnuðust köllun manna til þeirra ferða, og var þá venjulega kallað fyrir dag, svo sigum væri lokið meðan dagur var á lofti. Um alllangt skeið voru þeir bændurnir, Þorsteinn Jónsson í Nýjabæ og Jón Jónsson í Dölum, hreppstjórar, og sáu þá um köllunina eins og embættisskylda þeirra sagði til um. Vinnumaður hjá Þorsteini í Nýjabæ, var um alllangt skeið, Ingvar Árnason í Hólshúsi, er átti Gróu, uppeldisdóttur Þorsteins. Einhverju sinni, er kalla skyldi í fýlaferðir, sendi Þorsteinn Ingvar fyrir sig. Lagði hann fyrst leið sína upp að Dölum til Jóns hreppstjóra, til þess að vekja hann. Barði Ingvar þar upp og vaknaði Jón þegar. Kvaðst Ingvar ætla að bíða hans, og furðaði Jón mjög á því, vegna þess að það hafði orðið samkomulag milli þeirra Þorsteins, að Jón kallaði fyrir ofan Hraun, en Þorsteinn fyrir neðan Hraun. Þegar Jón hafði búið sig, fylgdist Ingvar með honum vestur á bæi, og var það þó mikill krókur og tímatöf. Sá Jón, að nokkur geigur var í Ingvari, og spurði hann þá hverju það sætti. Sagði Ingvar honum farir sínar ekki sléttar. Sagði hann, að þegar hann hefði komið upp að Prestasteini, hefði lagst á sig einhver óskaplegur þungi, svo að hann hefði varla fengið risið undir, og hefði hann séð ljótar krumlur fram yfir herðar sér. Gat hann með engu móti losað sig við þessi ósköp, og var hann þó annálað karlmenni, og hefði hann orðið að bera þessa ófreskju alla leið upp að Dalahliði. Sagði hann, að það væri sú þyngsta byrði, sem hann hefði borið um ævina. Ekki vissi hann hvað þetta var, og hefur aldrei síðan orðið vart við neitt óhreint á þessum slóðum.
(Sögn Guðríðar Bjarnadóttur og Jóns Jónssonar).