Prestasteinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Prestasteinn er hraunhóll sem stendur í efst í Skuldartúni, við rætur Helgafells að norðan.

Í Vestmannaeyjum voru tvær kirkjusóknir eða prestaköll, Kirkjubæjarsókn og Ofanleitissókn. Prestsverk skiptust milli presta eftir sóknum og kirkja var í hvorri sókn. Eftir að Landakirkja var byggð, sem sameiginlegt guðshús beggja sóknanna, mun það ætíð hafa verið venja að báðir prestarnir framkvæmdu messugerðina. Sté annar í stólinn og hinn söng fyrir altari.

Áður en Landakirkja var byggð er sagt að eyjaprestar hafi „converserað og drukkið saman við Prestastein, þá er hvor fylgdi öðrum frá sínu heimili, er hvor embættaði á annars kirkju og communiceruðu,“ eins og segir á fornum texta. Prestasteinn var enda miðs vegar milli Kirkjubæjar og Ofanleitis.

Sagt er að prestar Eyjamanna á tíma Tyrkjaránsins, þeir séra Jón Þorsteinsson á Kirkjubæ og séra Ólafur Egilsson á Ofanleiti hafi við haldið þeim hinum gamla sið að messu lokinni að ganga saman að Prestasteini og kveðjast þar. Þeir fornvinir og kollegar, séra Jón píslarvottur og séra Ólafur, hafa því að öllum líkindum kvaðst þar í hinsta sinn sunnudaginn 15. júlí 1627. Prestasteinn sem slíkur tengist ekki Tyrkjaráninu á annan hátt.