Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Huldukona vitjar nafns

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Huldukona vitjar nafns.


Stefán, sonur séra Jóns Austmanns, prests að Ofanleiti, bjó um tíma að Draumbæ. Kona hans var Anna Benediktsdóttir ljósmóðir, er síðar átti Sigurð Magnússon¹), en seinast Pétur Pétursson, sem drukknaði af vélbát árið 1910. Stefán var vel gefinn og listaskrifari, en allmjög drykkfelldur. Drukknaði hann á Gauk 13. marz 1874, skammt eitt utan við Beinakeldu, sökum ofhleðslu. Voru þeir á Gauk á sjó austarlega í Flóanum, í skjóli við Bjarnarey, í kappnógum fiski og hafði Stefán varað við því að ofhlaða, en engu fengið áorkað. Var vindur við austur og sökk báturinn, þegar komið var úr landvari og drukknaði Stefán þar og sex menn aðrir, en formaðurinn og tveir menn aðrir komust af. —
Meðan þau Anna bjuggu í Draumbæ eignuðust þau dóttur, efnilegasta barn. Skömmu áður en skíra átti barnið, kom kona til Önnu í draumi og bað hana um að láta barnið heita Ágústu. En engu þóttist hún lofa um það. Nóttina áður en skíra átti, dreymdi Önnu enn hina sömu konu, og ánýjaði hún, að barnið yrði skírt Ágústa. Anna þóttist þá spyrja konuna hver hún væri, og kvaðst hún vera huldukona. Neitaði Anna þá að skíra barnið að bón hennar, því að hún var þá ákveðin í að láta barnið heita öðru nafni. Um morguninn, þegar fólk vaknaði í Draumbæ, sá það, að skrifað hafði verið á baðstofuhurðina: „Láttu barnið heita Ágústu“. Svo var letrið fast á hurðinni, að það varð ekki þurrkað af. Lét Stefán bóndi höggva það burtu, og bar hurðin þess alla tíð merki síðan, meðan hún entist. Sá Sæmundur Ingimundarson, bóndi í Draumbæ, hurðina í æsku sinni og eru honum axarhöggin í henni enn minnisstæð.
Daginn eftir var séra Jón Austmann, faðir Stefáns, sóttur til þess að skíra barnið, og fór skírnin fram eins og ákveðið hafði verið, og var barnið látið heita Þorbjörg Jena Benedikta. Nokkrum dögum síðar andaðist barnið, og segja sumir, að það hafi aðeins orðið sex daga gamalt. Þegar séra Jóni var sagt frá draumum Önnu og letruninni á hurðina, varð honum að orði, að hann mundi hafa skírt barnið Ágústu, hvað, sem Anna hefði sagt, ef hann hefði vitað um þetta. Árið eftir eignaðist Anna barn að nýju og hafði engin mannsmynd verið á því, að sögn þeirra, er sáu það. Dó það barn strax eftir fæðingu. Nokkru síðar eignuðust þau hjón enn dóttur. Var hún látin heita Þorbjörg Jena Benedikta. Hún andaðist tíu ára gömul úr andarteppu. Jóhann, sonur þeirra hjóna, hrapaði til bana í Hamrinum, ellefu ára gamall. Annar sonur þeirra Stefáns og Önnu hét einnig Jóhann. Komst hann til aldurs, og átti heima í Jóhannshúsi. Var hann mjög fatlaður og ekki eins og fólk er flest að skapgerð. Hann dó árið 1918. Talið var að barnaólán þeirra hjóna hefði stafað af því, að Anna varð ekki við tilmælum draumkonu sinnar, huldukonunnar.
Þau Stefán og Anna flosnuðu upp frá Draumbæ árið 1869, en áður hafði Pétur Bryde, kaupmaður, tekið af þeim allar eigur þeirra upp í verzlunarskuldir. Fluttu þau hjón þá að Vanangri.
(Sögn Guðríðar Bjarnadóttur og Sæmundar Ingimundarsonar).
¹)Leiðr. Heimaslóð.