Ritverk Árna Árnasonar/Viðtal við Stefán Guðlaugsson í Gerði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Viðtal við Stefán Guðlaugsson
formann og útgerðarmann í Gerði


Árni)... Þá erum við nú komnir til þess að spjalla svolítið við þig, Stefán, og biðja þig að segja okkur eitthvað af þinni löngu sjómannsævi. Hvenær byrjaðir þú að róa?
Stefán)... Það var vetrarvertíðina 1901 og þá sem hálfdrættingur á róðrarskipinu Halkion. Þá réri ég í hálfan mánuð, meðan loðnan og sílfiskurinn gengu.
Árni)... Hver var formaður þá með Halkion?
Stefán)... Það var hinn mikli sjósóknari og aflamaður Friðrik Svipmundsson á Löndum.
Árni)... Ó, já, þú hefir aldeilis ekki valið þér skiprúm af verri endanum.
Stefán)... Að ég fékk skiprúm, það var víst því að þakka, að faðir minn var bitamaður á skipinu. Það þótti mikil virðingarstaða á gömlu skipunum.
Árni)... Hvaða skyldur og störf hvíldu á bitamönnunum?
Stefán)... Þeir áttu að vera meðráðamenn formannsins og taka við skipinu í hans forföllum. Bitamenn voru því oftast valdir góðir sjómenn og sem kunnu vel til allra verka. Góðir kostir þóttu einnig, að bitamenn væru veðurglöggir menn.
Árni)... Mér skilst eftir þessu sértu búinn að stunda sjóinn hér í rúmlega hálfa öld eða 55 ár. Það er vel að verið, Stefán.
Stefán)... O, já, það er nokkuð langur sjómannsferill, en þó ekki of langur, finnst mér.
Árni)... Já, einmitt, þú unir þér vel á sjónum, en þetta er nú býsna langur starfsferill, Stefán. Þú hefir auðvitað byrjað strax að róa á mótorbátum, þegar þeir komu hingað til Eyja.
Stefán)...Já, árið 1907 réri ég á mótorbátnum Bergþóru með Magnúsi Þórðarsyni í Dal. Sá bátur fórst hér vestan við Eyjar vertíðina 1908. Ég var þá á bátnum. Enskur togari bjargaði allri skipshöfninni.
Árni)... Þú manst líkelga tvenna tímana á mótorbátum, Stefán, því að mikill er munurinn á bátunum nú og bátunum 1906.
Stefán)... Já, það má nú segja, til dæmis var Bergþóra dekklaus fyrstu vertíðina, aðeins þilfar yfir hinum litla lúkar og svo vélinni, mjög líkt og nú er á trillunum. Bergþóra var líka aðeins 7,30 tonn að stærð.
Árni)...Það hlýtur að hafa verið mjög slæmt og vitanlega hættulegt að hafa þetta allt opið, því að ekki hefir alltaf verið logn hjá ykkur á sjónum. Var þetta ekki sérlega erfitt í stormi á móti og í stórsjó?
Stefán)... Jú, ekki er hægt að neita því, en þá var það til bragðs tekið að breiða seglið yfir og binda það og reira niður eins og hægt var, og halda því niðri af handafli. Svo var ausið og dælt eftir þörfum, - o, já, þetta slampaðist allt einhvernveginn af. Mastrið lá alltaf á þessum bátum, og var það notað sem mæniás fyrir yfirbreiðsluna.
Árni)... En það hefir nú verið sótt varlega á þessum litlu bátum, sem ekkert þoldu af veðri og vindi?
Stefán)... Þú heldur það já, en best gæti ég trúað, að aldrei hafi sjórinn verið sóttur af jafnmiklu kappi hér í Eyjum og á fyrstu árum vélbátanna. Kom það eflaust til af oftrausti á bátum og vélum. Vanþekking á vélum var hér oft stórkostlega áberandi og hættuleg. Ég var ekki búinn að vera lengi á vélbátunum, þegar ég sá, að ef vel ætti að fara, yrði maður að kynnast vélinni og gangi hennar. Þetta var og skoðun mín lengi fram eftir árunum.
Árni)... Já, það hafa vitanlega verið margir byrjunarörðugleikar hjá ykkur, en kom ekki vélaviðgerðarverkstæði hér nokkuð snemma?
Stefán)... Jú, það kom snemma, annars veit ég ekki, hvernig allt hefði farið. Matthías Finnbogason setti upp vélaviðgerðarverkstæði í kjallara húss síns að Jaðri.
Árni)... Já, það var vitanlega nauðsynlegt að hafa viðgerðarverkstæði í svona mikilli útgerðarstöð, þar sem þá líka var enginn lærður viðgerðarmaður.
Stefán)... Já, þess var stór þörf. Matthías vann margt þrekvirkið hér á vettvangi vélaviðgerða með mjög litlum og ófullkomnum verkfærum. Hann var bráðflinkur maður, og tel ég hann ávallt sem einhvern merkasta mann hér á sviði vélaviðgerða mótorbátanna. Hann ætti sjálfur að segja frá þessum störfum sínum, segja vélasögu sína. Hún sýnir stórmerkilegt brautryðjendastarf.
Árni)... Já, það segir þú satt, Stefán, og vissulega munum við reyna að fá Matthías til þess að tala við okkur innan tíðar. En segðu okkur, Stefán, hvað ertu annars búinn að vera lengi formaður?
Stefán)... Ég byrjaði formennsku vetrarvertíðina 1909 og hef verið það síðan.
Árni)... Já, einmitt það. Það er langur tími, hvorki meira né minna en 46 ár. Ég held, að þú hafir slegið stórt met í þessu. Segðu okkur, Stefán, hvað var hann stór hinn fyrsti Halkion þinn.
Stefán)... Hann var rúmlega 8 tonn, og var ég með hann í 10 ár. Allan þann tíma var hann stýrishúslaus og myndi slíkt ekki þykja gott núna. Ég man líka margar erfiðar sjóferðir frá þeim tímum. Þá hafði maður oft vota grön og rauð og saltbólgin augu.
Árni)... Já, því gæti ég trúað. En, hvað heldurðu nú, Stefán, að þú sért búinn að fara margar sjóferðir um ævina?
Stefán)... Já, það er nú meinið, að ég hefi ekki haldið tölu á þeim, en trúað gæti ég, að þær væru hátt á fimmta þúsund með öllu saman.
Árni)... Já, það er ekkert smáræði. Hátt í fimmta þúsund róðrar. Ég held, að það hljóti nærri því að vera einsdæmi, og þar af efalaust margir róðrar við hin erfiðustu skilyrði eins og t.d. á fyrstu árum vélbátanna hér í Eyjum.
Stefán)... O, já, það var stundum erfitt og margir erfiðleikar að yfirvinna.
Árni)... Já, vitanlega. Mér dettur í hug í sambandi við vélarnar og erfiðleika, sem þeim fylgdu fyrst í stað. Þá hafa vitanlega ekki verið haldin nein vélanámskeið eða manstu nokkuð, hvenær þau komu til sögunnar?
Stefán)... Fyrsta vélanámskeiðið mun hafa verið haldið hér 1912. Kennari var Ólafur Sveinsson vélfræðingur frá Reykjavík. Ég innritaðist þangað, ásamt 50 eða 60 öðrum, og fengu allir lærdómsbók. Vegna verklegra anna gat ég þó ekki stundað þetta nám sem skyldi og ætlaði mér þessvegna ekki að taka próf.
Árni)... En, hvernig fór? Fórstu ekki í prófið eins og aðrir?
Stefán)... Jú, ég gerði það nú, því að kennarinn hvatti mig mjög til þess. Það voru aðeins 17 af þessum fjölmenna hóp, sem gengu undir próf. Hinir hættu allir vegna þess að þeir þoldu ekki aðfinnslur kennarans vegna slæmrar ástundunar þeirra.
Árni)... En þú hefir sloppið við ávítur kennarans?
Stefán)... Nei, ég fékk vitanlega ávítur eins og aðrir, en ég sagði honum eins og var, að þar sem ég stæði í jarðabótum, úteyjaferðum til fjárgæslu o.m.fl., yrði ég að hafa vélanámið í hjáverkum. Hann tók þessu af fullum skilningi.
Árni)... Og hvernig fór svo prófið?
Stefán)... Það fór nú svo, að fyrstur varð Peter Andersen, annar Símon Egilsson, Miðey, ég varð þriðji og Ársæll Sveinsson fjórði. Einn féll. Þessi lærdómur hefir oft komið mér að góðu gagni, og minnist ég Ólafs Sveinssonar ávallt með virðingu og þakklæti.
Árni)... Það var gaman að heyra þetta allt, og frá miklu hefir þú að segja úr langri starfsævi, Stefán, og eflaust áttu enn margt fróðlegt í pokahorinu.
Stefán)... O, já, það tínist alltaf eitthvað til, þegar menn fara að spjalla saman. Ég skal segja ykkur, að ég tel mig hafa fundið upp olíuhreinsarann, sem enn er í fullu gildi og fylgir hverri bátavél.
Árni)... Nú, já, það hefir maður ekki heyrt, að þú værir uppfindingamaður, Stefán, og sannast hér, að margt er það í koti karls, sem kóngs er ekki í ranni. En blessaður góði, segðu okkur frá þessum olíuhreinsara. Það væri vel, að almenningur fengi að heyra um þetta.
Stefán)... Ég veitti því fljótlega eftirtekt, að í stormum og ruglanda sjóveðrum gengu vélarnar oftlega mjög skrykkjótt og jafnvel stoppuðu stundum. Þetta reyndist ávallt vera vegna óhreininda og og sjós í olíunni. Ég fékk þessvegna Einar sáluga Magnússon til þess að smíða þetta áhald fyrir mig eftir minni fyrirsögn og setja það við olíuleiðsluna að vélinni.
Árni)... Hvernig leist nú Einari á þetta, og taldi hann hugmynd þína góða?
Stefán)... Ekki virtist mér hann hafa mikla trú á þessu, en gerði þetta fyrir mig vegna þess að við vorum góðir kunningjar.
Árni)... Nú, já, en hvernig fór? Þetta hefir reynst vel og komið að góðum notum?
Stefán)... Já, sem betur fór bar þetta fljótt góðan árangur og eftir stuttan reynslutíma hér kom Gísli J. Johnsen því til Dan-verksmiðjunnar, sem hann hafði umboð fyrir. Fyrsta vélin, sem kom með þetta frá Dan var vélin í Unni aðra, eign Þorsteins í Laufási.
Árni)... Þar sem þetta er enn í notkun, hefir það auðvitað verið og er mesti þarfagripur, og þú ekki lagt svo lítið til öryggis vélanna. En fékkstu ekkert fyrir þess uppfindingu þína, og fékkstu ekki einkaleyfi fyrir henni?
[...Hér vantar svar Stefáns].
Árni)... Jæja, Stefán, geturðu nú sagt mér, hve lengi er bátsnafnið Halkion búið að vera í þinni ætt?
Stefán)... Ekki veit ég það með vissu, en Jón föðurbróðir minni í Presthúsum hér, ættaður frá Brattlandi á Síðu, var formaður með sexæringinn Halkion allan sinn búskap á Gerðisjörðinni hálfri móti föður mínum. Ekki var Jón þessi frændi minn nema 16 ára, þegar hann tók við formennsku.
Árni)... Hann hefir ekki verið gamall formaður, óvenju ungur, er það ekki?
Stefán)... Jú, hann var aðeins 16 ára og varð þá formaður í veikindaforföllum afa míns eftir áskorun skipshafnarinnar. Hann reyndist fljótt ágætur formaður og þótti alla tíð snillings stjórnari. Hannes lóðs sagði mér, að enginn Eyjamaður mundi hafa dregið fleiri flakandi lúður en Jón þessi frændi minn.
Árni)... Já, rétt er það, og þetta hefi ég heyrt fleiri segja. En þú hefir heldur ekki sótt formannshæfileika þína úrættis Stefán. Segðu mér, rerir þú aldrei með Jóni frænda þínum?
Stefán)... Jú, ég réri oft með honum á vorin og haustin þar til vélbátarnir komu. Faðir minn og hann áttu saman smáferju, 3ja manna far, sem þeir notuðu á vorvertíðunum upp úr aldamótunum. Þá rérum við Björn í Gerði, sonur Jóns, með þeim, og þá fengum við strákarnir að stýra sinn daginn hvor, þegar siglt var og ekki þurfti sérlegrar aðgæslu við.
Árni)... Var það ekki Jón frændi þinn í Gerði, sem sagt var um, að aldrei væri svo hvasst að Jón í Gerði gæti ekki kveikt í pípunni sinni?
Stefán)... Jú, sá er maðurinn. Hann reykti mikið pípu, og aldrei sá ég hann verða í vandræðum með að kveikja í henni.
Árni)... En meðal annarra orða, Stefán er það satt, að þú hafir ávallt náð höfn að kveldi úr hverjum róðri og aldrei fengið útilegunótt?
Stefán)... Já, það er satt. Samt lá ég eina nótt úti undir Eiðinu. Ég var þá ekki í fiskiróðri, heldur að sækja lifrartunnur og kol út í togarann Draupni. Þetta var snemma vertíðar 1920.
Árni)... Þú hefir verið mikill lánsmaður í þínum mörgu sjóferðum, Stefán, heppinn og fengsæll formaður.
Stefán)... Já, ekki þarf ég að vanþakka það og mun aldrei gera. Ég hef alla tíð haft yndi af að róa og var svo heppinn að fiska vel.
Það var stundum erfitt á fyrstu árum vélbátanna vegna vöntunar á nauðsynlegum, en þá óþekktum öryggistækjum. En þeim, sem þykir vont að róa núna í Vestmannaeyjum, hefðu átt að vera með á fyrstu árum mótorbátanna. Þá hefðu þeir fundið ótrúlegan mismun, þegar enginn viti var, allir bátar sem ljóslausir, engin siglingatæki nema áttavitarnir, þeir sem þá höfðu, og öryggistæki engin, nema seglið og bátarnir aðeins 6 til 8 tonn. Nú finnst manni sjómannslífið leikur og er mikið að segja það, en það er þó staðreynd, þegar miðað er við fyrstu ár vélbátanna.
Árni)... Já, það er trúlegt, að munurinn sé mikill. Þeir einir þekkja best, sem reynt hafa. Sjóslysin voru líka mikil og tíð á þeim tímum.
Stefán)... Já, þau voru mikil, og vonandi endurtaka þeir tímar sig aldrei aftur. Nú hafa menn allskonar öryggistæki til lands og sjávar, og ættu þau að gera öruggar leiðir um hafið.
Árni)... Jæja, Stefán, við skulum vona allt hið besta með tilliti til framtíðarinnar og sjómannastéttarinnar. Að síðustu, þú hefir þrátt fyrir aldur og ekki sem best heilbrigði undanfarið, verið að róa annað kastið.
Stefán)... Já, einstöku sinnum hef ég farið á sjóinn. Þar kann ég best við mig.
Árni)...Ég vil að síðustu þakka þér þetta fróðlega og skemmtilega samanspjall, Stefán, og bið þér allrar blessunar á komandi árum og góðrar heilsu framvegis, svo að þú komist í þitt rétta umhverfi á sjóinn sem allra fyrst aftur og áframhaldandi.
Ég veit, að ég tala fyrir munn allra Eyjaskeggja, þegar ég þakka þér mikil og góð störf í þágu Eyjanna fyrr og síðar.
Stefán)... Þakka þér fyrir, Árni, en ég vildi að þau hefðu getað verið miklu meiri og betri. Eyjan á allt gott skilið af okkur börnum hennar, sem höfum notið góðs af auðæfum hennar til sjós og lands.
Árni)... Er það annars nokkuð sérstakt, sem þig langaði að segja við Eyjamenn, sem þetta heyra af segulbandinu?
Stefán)... Ekki annað en það, að ég þakka Eyjamönnum langa og góða samleið og eyjunni allt, sem hún hefir borið mér og mínum í hag. Ég bið eyjunni og íbúum hennar allrar blessunar á komandi tímum.
Árni)... Þakka þér fyrir, Stefán, samtalið og allt gott á liðnum árum. Vertu nú blessaður og sæll og líði þér sem best.
Stefán)... Verið þið blessaðir og þökk fyrir komuna og samanspjallið.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit