Ritverk Árna Árnasonar/Viðtal Árna Árnasonar við Engilbert Gíslason málarameistara

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Viðtal Árna Árnasonar við Engilbert Gíslason málarameistara.


Góðir áheyrendur.
Það þótti á sínum tíma all einkennileg ráðstöfun eða fyrirtekt, að ungur Eyjamaður færi til útlanda til þess að læra að mála. Efa ég ekki, að margt af fólkinu þá hefir sagt eitthvað á þá leið, er það heyrði um þessa nýbreytni. „Hvílík ráðaleysa af ungum manni, sem hefur meir en nóg að starfa heima hjá foreldrum sínum“. Já, það mætti líka segja mér, að gamla fólkinu hafi virst, sem Engilbert Gíslasyni og foreldrum hans hafi ekki verið sjálfrátt, þegar ákveðið var, að hann færi utan til náms í málaralist. Í þann tíma var aðeins um tvær meginleiðir í atvinnu að fara hér, sem sé sjómennska og búskapur. Aðeins örfáir hlutu það hnoss að geta orðið verslunarmenn, en um iðnaðarmenn var ekki að ræða. Allur meginþorri ungra manna hér átti því ekki um annað að velja en verða sjómenn í viðjum erlendra kaupmanna eða taka við búskap feðra sinna, sem varast gat talist stór búskapur.
En Engilbert Gíslason málarameistari var ákveðinn að læra og fara utan, og lét ekkert aftra sér frá. Og nú erum við þremenningarnir úr Vestmannaeyingafélaginu Heimakletti staddir heima hjá Engilbert Gíslasyni og ætlum að biðja hann að segja okkur eitthvað frá tildrögunum þess, að hann fór út að læra þessa iðn, segja okkur frá námsárum sínum ytra, lífskjörum þar og öðru fleiru viðkomandi málaraiðn hans fyrr og síðar. Að venju mun ég kynna manninn dálítið fyrir ykkur, enda þótt hann sé einn af kunnustu mönnum þessa byggðarlags.


Komdu nú sæll og blessaður, Engilbert. Hvað ertu orðinn gamall, mér finnst þú nefnilega ekkert breytast þótt árin líði, hvert af öðru.
Komið þið sælir allir saman. Ég er nú orðinn 77 ára gamall, fæddur 12. október 1877 í Juliushaab, svo að ég er víst farinn að láta á sjá.
Og hverjir voru foreldrara þínir og systkini?
Foreldrar mínir voru Gísli kaupmaður Engilbertsson, er lést 1919, Ólafssonar, og móðir mín var Ragnhildur Þórarinsdóttir bónda í Neðradal Þórarinssonar frá Mörtungu á Síðu. Faðir minn flutti til Eyja 1868.
Við vorum 5 systkinin: Þórarinn á [Lundur|Lundi]] verslunarmaður og gjaldkeri við verslun G.J. Johnsen, Katrín er giftist Páli verslunarmanni við sömu verslun, en bjó á Sunnuhvoli, Elínborg kona Þorsteins í Laufási Jónssonar og Guðfinna kona Halldórs Guðmundssonar rafmagnsfræðings í Reykjavík og svo ég.
Kona mín er Guðrún frá Borg í Austurskaftafellssýslu Sigurðardóttir, og eigum við fjögur uppkomin börn.
Þakka þér fyrir, Engilbert.
Var það af innri þrá eða einhverjum ástæðum, að þú lærðir að mála?
Um málaranám mitt réði mestu, að ég varð veikur á þroskaárum mínum.
Var þá ekki um aðra atvinnu að ræða hér, sem þér hentaði betur? Til dæmis verslunarstörf hjá föður þínum?
Jú, ég gat fengið verslunarstörf við Brydesverslun, enda hafði ég verið dálítið við þau, en mér féll ekki slík störf, og gat ekki hugsað mér að gera þau að lífsstarfi.
Mig langar að spyrja þig dálítið meir um verslun hér, Engilbert. Var nú samt ekki stundum tilbreytingarsamt og skemmtilegt við verslunarstörfin áður fyrr.
Mér þótti það yfirleitt ekki skemmtilegt, nema þá helst í kauptíðinni.
Þá hafa náttúrulega verið hér bændur af fastalandinu til kaups á nauðsynjum sínum, eins og fyrr meir tíðkaðist?
Já, þá var sannkölluð landmannaös í búðinni, þegar leiði gaf frá meginlandinu, Landeyja- og Eyjafjallasöndum. Komu þá stundum mörg skip samdægurs.
Þá hefur verið nóg að gera hjá ykkur í verslununum. En segðu mér Engilbert, hvernig var það með þessar svonefndu búðarstöður?
Þær tíðkuðust aðallega á haustin og vetrarvertíðinni, þegar landlegur voru. Þá hópuðust menn niður í búðirnar til að rabba saman, fá almennar fréttir og jafnvel kankast á.
Já, búðirnar voru eiginlega nokkurskonar samkomustaðir karlmanna þá. Þar var vínsalan líka og gleðskapur manna í milli.
Já, það var oft mesta fjör í körlunum, mikið skrafað og gert að gamni sínu.
Já, ég minnist til dæmis, þegar Sigmundur beykir kom inn og sagði við Pétur faktor Bjarnasen:

„Pétur situr hátt í höllu,
í helvítanna krá“,

Og, þar sem Pétur ekki gat botnað, gall við Árni Níelsson og sagði:

„en Sigmundur er allt í öllu,
andskotanum hjá“.

Já, það var sagt, að Árni þessi hefði fengið vel borgaðan greiðan hjá Pétri Bjarnasen.
En var nú þetta ekki að mestu látið afskiptalaust af faktornum, þó að menn stæðu þarna inni glaðir og reifir?
Jú, sumir létu það þó mikið til afskiptalaust. Þó held ég, að þeim hafi verið illa við allar búðastöður. En ég man vel, að faðir minn gerði talsvert til þess að fá menn til að hætta þessum ósið, sem hann kallaði svo.
Já, ég hef heyrt það frá mönnum, sem þekktu til. En hvernig gekk það svo til á sumrin í verslununum? Var ekki hálf dauft yfir öllu þá, hvað verslun snerti.
Jú, þá var mjög dauf verslun, því að ekki voru menn að kaupa daglega vörur, heldur tíðkaðist að kaupa í slöttum, og fólk fór varlega í verslun, þareð kaupgeta var oft lítil hjá tómthúsmönnum og almenningi yfirleitt.
Kaupgetan hefur auðvitað farið eftir aflahlutnum, sem var víst misjafn stundum?
Já, og þegar hluturinn var innan við hundrað eftir vertíðina, þá mátti fólk halda vel á aurunum og versla ekki að óþörfu, t.d. fékk faðir minn eina vertíðina 60 fiska hlut eftir Frið.
Jæja, Engilbert, og þakka þér kærlega fyrir þessar upplýsingar, en nú langar mig að spyrja nánar um málaraiðn þína fyrr og síðar. Þú byrjaðir snemma að teikna þér til gamans?
Já, það gerði ég sem barn að aldri og þótti gaman að því.
En segðu mér, voru það ekki Skotar, sem gáfu þér eitt sinn málarakassa fyrir mynd, sem þú teiknaðir fyrir þá?
Jú, það voru tveir skoskir stúdentar, sem sáu blálöngu, sem ég fiskaði, en þá langaði svo að fá mynd af. Ég teiknaði lönguna fyrir þá, en gat ei litað hana, því að enga liti átti ég. Þeim fannst það slæmt, og þegar þeir svo komu til Englands aftur, sendu þeir mér vatnslitakassa. Það voru fyrstu málaratæki mín.
Þeir hafa eflaust séð hæfileika þína, Engilbert. Það er glöggt gests augað. Nú og svo fórstu til útlanda til að læra málaraiðn?
Já, ég fór út með skipinu „MORS“ 2. ágúst 1899 til Hafnar með viðkomu í Leith og vorum við tíu daga á leiðinni.
Þekktir þú þá nokkra úti í Kaupmannahöfn,t.d. Eyjamenn?
Já, Guðfinna systir mín var þá í Höfn, eins og ég hef áður sagt, og ýtti það ekki svo lítið undir utanför mína.
Og svo hefurðu auðvitað kynnst einhverjum strax gegnum hana?
Já, ég kynntist strax Einari myndhöggvara Jónssyni, og hann kom mér til náms hjá Christian Berg og Sön, sem hafði húsgagnamálarastofu. Þar vann og lærði þar samtímis Ásgrímur Jónsson listmálari. Þess utan gekk ég svo í teikniskóla.
Hvað varstu lengi við nám í Höfn. Og varstu ekki eitthvað á eftir námstímann úti?
Ég var þrjú ár og var vinnutíminn frá kl. 7 að morgni til kl. 7 að kvöldi með tveim matartímum, en úti var ég tæp 4 ár.
Hafðir þú ekki kaup við vinnuna eða meðan þú varst að læra?
Jú, ég hafði 8 krónur um vikuna, sem smáhækkaði með tveim krónum í senn, upp í 16 krónur á viku. Fæðið kostaði krónu á dag.
Það hefur verið lítill afgangur hjá þér í vasapeninga til að byrja með, svo að engan sérlegan munað hefirðu getað veitt þér.
Já, það var lítið um vasapeninga, svo að ekki var hægt að lifa hátt, en þetta lagaðist smám saman, þótt aldrei væri um neinn lúxus að ræða.
Tókstu sveinsbréf þarna hjá Berg og Sön í málaraiðn? Og var það ekki eitthvert aukagjald?
Nei, ég tók ekki sveinsbréfið, enda gerðu það fáir. Til þess hefði ég líka þurft að ganga á dagskóla, sem ég ekki gat gert, en þessu réði vitanlega féleysið að langmestu leyti.
En lærðir þú svo líka að mála myndir og þess háttar í Höfn?
Nei, það hef ég aldrei lært. Ég hef aðeins föndrað við það upp á eigin spýtur og mér til gamans.
Svo að landlagsmyndir þínar og allt annað þess háttar er þá frístundavinna. Gerðir þú nokkuð af slíku utanlands?
Já, það er allt saman frístundavinna. Ég keypti mér lítinn málarakassa í Höfn og fór stundum með hann út og málaði svolítið. Það voru mínar fyrstu myndir.
Já, einmitt það. Ég verð að segja, að þú hefur komist langt í list þinni, því að ekki þarf ég að segja þér, að myndir þínar þykja afbragðs góðar, listrænar og í miklu áliti. Viltu segja mér, hvaða tegund mynda þykir þér mest gaman að mála?
Ef ég hefði lært að mála, þá hefði ég sennilega ekki málað landlagsmyndir, en miklu fremur hugmyndir og eins viðburði daglegs lífs.
Hún þótti tilkomumikil myndin, sem þú málaðir 1927 af ræningjanum og stúlkunni við sængurkonustein.
Já, hún þótti falleg og lýsa vel þeirri sögusögn.
Þótti þér ekki gaman að mála þá mynd? Mynd af jafn sögulegum atburði?
Jú, þessi mynd hefur ávallt verið uppáhaldsmyndin mín.
Já, ég trúi því, hún er skínandi falleg. En hvað fékkstu nú að gera, þegar þú komst heim 1904. Fékkstu strax málningarstörf?
Já, ég fékk strax atvinnu við að mála kirkjuna, sem þá var verið að breyta og laga, og var það mín fyrsta sjálfstæða atvinna.
Já, en hefirðu annars ekki alltaf málað kirkjuna, þegar það hefur verið gert? Ég meina frá því þú komst upp 1904?
Jú, ég hef alltaf málað hana frá þeim tíma, þegar það hefur verið gert.
Já, ég hélt það vera. Jæja, en svo fórstu til Reykjavíkur og málaðir þar, var það ekki?
Jú, ég fór til Reykjavíkur 1905 og var til 1910. Þá var unnið í 11 tíma eða frá kl. 6 til 7 og tveir tímar í mat, en kaffitími var enginn.
Það þætti hart lögmál nú til dags að fá ekki kaffitíma, en fékkstu kannski ekki heldur kaffi á morgnanna?
Ekki þar, sem ég svaf, heldur fékk ég stundum leyfi til að fá mér kaffi, ef kaffistofa var nálægt vinnustað. Hjá Rannveigu fósturmóður Jóhönnu í Vík var alltaf hægt að fá kaffi kl. 6 á morgnana.
Segðu mér eitt, Engilbert, gerðir þú þá ekki teikninguna að kirkjustólnum í Landakirkju eins og hann er nú?
Jú, og gerði þá teikningu eftir stólnum í Fríkirkjunni í Reykjavík, samkvæmt beiðni Magnúsar Ísleifssonar trésmíðameistara hér.
Jæja, Engilbert. Þú hefur sannarlega lagt haga hönd á margt og átt víðar mörg og hög handtök en við Landakirkju. Veistu nokkuð, hversu mörg málverk þú hefur málað eða hús?
Nei, um það hef ég enga hugmynd, myndirnar eru komnar út um allt, og ég hef aldrei skrifað neitt slíkt hjá mér.
Það eru býsna margar myndir eftir þig hér í bænum, og mig minnir, að þegar Akóges hélt heiðurssýninguna í tilefni af 70 ára afmæli þínu, að þá væru þar um 70 myndir og teikningar, og komu þó ekki nærri allar myndir þínar á sýninguna héðan úr bænum og engar utan af landi.
Nei, það vantaði mjög margar myndir, gamlar og nýjar.
Jæja, Engilbert, ég hefði gjarna viljað tala við þig mikið meira, en tíminn leyfir það ekki meira í þetta skiftið. Ég þakka þér kærlega fyrir góð og greið svör og greinagóðar upplýsingar, sem nú eru festar á segulbandið og geymast þar með rödd þinni um áraraðir. Manstu eftir nokkru sérstöku, sem þú vilt segja við eyjabúa inn á segulbandið.
....
Að endingu þakka ég þér svo fyrir viðtalið og alveg sérstaklega fyrir þitt mikla og góða starf Eyjunum til heilla á innlendum og erlendum vettvangi. Fyrir hönd Vestmannaeyinga óska ég þér og fjölskyldu þinni alls góðs í framtíðinni. Vona að þín haga hönd og hugans snillimáttur megi lifa sem allra lengst og starfa í þágu byggðarlagsins og síðast en ekki síst í þágu listar þinnar og velferðar. Vertu svo blessaður og sæll.
Ég þakka góðar óskir ykkar mér og mínum til handa, og óska ykkur og Eyjunum í heild alls góðs. Verið þið sælir.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit