Ritverk Árna Árnasonar/Um hagagöngu og fé í úteyjum
Hagbeit fyrir fé hefir verið mikið notuð fyrr og síðar. Besta hagbeit voru Álsey og Bjarnarey taldar hafa, enda var þar ávallt fé í fullum högum, bæði vetur og sumar. Áttu jarðirnar frá 10 til 15 sauðabeit í útey. Stundum átti líka sama jörðin ítök í tveim úteyjum.
Fugla- og eggjataka fór alltaf saman við hagbeitina. Sama féð var í úteyjum ár frá ári. Það gekk þar betur úti í kuldatíð og þurrviðri, jafnvel snjó, heldur en í slyddu og rigningarveðri. Ekki var litið að fénu allan veturinn og fyrst farið í úteyjar um vertíðarlokin. Þó kom fyrir, að farið var út í úteyjar á þorra og létt á hagagöngunni, en sjaldan var það gert.
Um lokin var farið að bæta fé í hagana, en fyrr var ekki farið. Grængresið þurfti að vera komið upp, áður en hagaviðbótin fór fram. Þá var og alltaf rekið inn í réttina, féð skoðað og athugað, hve mikið vantaði, því að oft kom fyrir, að fé fór fyrir brúnir niður, fauk. Stundum var líka fé í svelti og var því þá bjargað, ef tök voru á, annars skotið.
Næst var svo farið í úteyjar í fardögum fyrst í júní til þess að rýja féð. Þó var þetta dálítið misjafnt og fór eftir því, hve féð gekk vel fram. Stundum dróst líka að komast út vegna brima, því að helst verður að vera ládautt við fjárflutningaferðir og í öðrum fjárferðum, því að oft er þá margt með af kvenfólki og unglingum.
Næst var svo farið til þess að bólusetja féð, og var það venjulega um miðjan júlímánuð.
Þarnæst var farið í september til þess að sækja hrúta og létta á seinni ferðinni, sem farin var í byrjun október. Þá var tekið heim slögtunarféð, en hitt eftirskilið, sem skyldi hafa vetrargöngu í eyjunni. Þá voru og oft settar út kindur, er komið höfðu af fastalandinu, svonefndar lífkindur og nokkuð af heimalandsfé, er gengið hafði þar yfir sumarið.
Hagagöngufé í útey fór eftir því, hve eyjan hafði mikla og góða haga. Þó var ávallt ákveðin tala fjár, sem setja mátti á í hverri útey. Aðeins veturgamalt fé og eldra var sett á í útey, nema oftast voru nokkur lömb látin ganga úti í Smáeyjum, Brandinum og Hellisey. Þar var hins vegar ekkert fé að sumri til, — vegna fýlatekjunnar.
Fólki fannst gaman að fara í úteyjar til þess að skoða féð, svo að ekki sé talað um rúningsferðirnar, sem voru í miklu afhaldi. Sæta þarf góðu leiði til þess að komast í úteyjarnar. Allrar varúðar þarf að gæta, þar eð slys hafa oft fyrirkomið í fjárflutningsferðum og öðrum því viðkomandi. Eru það hreint ekki svo fáir, sem drukknað hafa í slíkum ferðum.
Má þar til nefna slysið 1916, er Guðmundur Þórarinsson bóndi á Vesturhúsum drukknaði í fjárflutningaferð í Álsey. Fóru þeir þá með fé út í ey á róðrarbát í land í eynni. Lenti báturinn þá upp á Flá, er verið var að leggja þar að til landgöngu og festist þar um stund. Seig þá skuturinn, er útsogið kom, svo að bátinn fyllti. Flaut þá féð út og sumir mennirnir. Einn maður, Guðjón Eyjólfsson á Kirkjubæ, komst upp á Flána. Varð það hinum til lífs, nema Guðmundi Þórarinssyni, sem drukknaði við Flárnar.
Í þessari ferð voru annars þessir menn: Guðmundur Þórarinsson, Vesturhúsum, Magnús Eiríksson, Vesturhúsum, Guðjón Eyjólfsson, Kirkjubæ og Þorsteinn Þorsteinsson í Lambhaga.
Hefði Guðjón Eyjólfsson ekki komist upp á flána, er auðsætt, að allir hefðu farist þarna, en hann gat af Flánni veitt þeim öllum hjálp, nema Guðmundi Þórarinssyni, sem hafði flotið út úr bátnum og sökk þegar. Magnús Eiríksson losnaði ekki við bátinn, og varð það honum til lífs. Varð Guðjón Eyjólfsson þannig til þess að bjarga hinum frá drukknun með snarræði sínu og hugdirfsku, sem alla tíð hafði auðkennt hann.
Á seinni árum eru allar slíkar ferðir farnar á vélbátum eða góðum og stórum trillubátum. Er þá, sem áður segir, oft margt fólk í ferðum þessum. Þótt að vísu þurfi nokkuð margt fólk til fjárferða í útey, t.d. að safna fénu, reka það í réttina, rýja það o.s.frv., þá er þó margt, sem aðeins fer sér til gamans.
Nokkuð er það misjafnt, hve mikið fé menn eiga þar í högum. Menn leigja tómthúsmönnum haga, því að margir þeirra eiga fé sér til gamans.
Réttir úteyjanna voru fyrrum hlaðnar úr grjóti, þar sem vel hagaði til, en nú eru alls staðar notaðar trégrindur og réttin mynduð úr þeim.
Í Álsey var gamla réttin yst á Þjófanefi. Þangað var illt að koma fé, langur og vondur rekstur og vegur ekki sem bestur. Síðar var svo réttin færð heim undir kofann, og er staðsetning hennar þar miklum mun betri.
Í Heimakletti, Mið- og Ystakletti er alltaf haft fé, þótt miklum erfiðleikum sé það bundið. Réttin í Heimakletti er vestast á Efri-Kleifum. Mjög erfitt er að taka fé og setja í Heimakletti, en menn hafa ekki talið það erfiði eftir sér, a.m.k. ekki fyrrum.
Ystiklettur var alltaf sér. Þar var margt fé, sem tilheyrði þeim, er nytjar hans hafði, t.d. Sigurði Sveinssyni í Nýborg. Þar mátti beita um 120 fjár, en var víst oft miklu fleira, enda gekk fé ekki vel fram þar. Síðustu árin hefir verið færra fé þar og það gefist miklu betur.
Sagt er, að Sigurður í Nýborg hafi oft ekki vitað, hve mikið fé hann átti í Ystakletti, og fé hafi gengið þar í áragömlum reyfum. Er og sagt, að allt fé þar hafi ekki ætíð komið til framtals. Einu sinni komst t.d. Sigurður Briem, sem settur var hér sýslumaður um tíma, í það að verða yfirsmali hjá Sigurði í Nýborg Sveinssyni, þegar smalaður var Ystiklettur. Sigurður átti þar margt fé, sem áður segir, og fjölgaði því þar án þess að Sigurður hefði tölu á því.
Var því og haldið fram, að framtal hans á fé þar væri ekki sem áreiðanlegast. „Við smalarnir fundum þar margt fé framyfir það, sem hann vissi um,“ segir S. Briem um þetta, „og var margt af því í mörgum reyfum.“
Smalamennska Briem og þeirra varð og mörgum sauðum Sigurðar til lífs, þar eð sauðirnir voru flestir hringhyrndir, og voru hornin farin að vaxa inn í haus þeirra. Varð því verkefni nægilegt í það sinn í Ystakletti, að færa féð úr reyfunum og hornskella sauðina, suma 9 vetra gamla að sögn. Sigurður mátti því vera smölunum þakklátur fyrir að bjarga lífi sauðanna og finna margt fé áður ótalið, svo að hann varð miklu fjárríkari en áður.
Sigurður hélt þeim þó ekkert gleðigildi fyrir störf þeirra, en Briem hélt því hins vegar fram, að Sigurður gæti nú keypt sér brúðgumaföt. Hann bjó sem sé með kvenmanni, sem hann ætlaði að kvongast, en það dróst von úr viti, enda þótt hann væri búinn að fá leyfisbréfið. Þegar Briem var að rekast í þessu við Sigurð, að fá enda bundinn á þessa óleyfilegu sambúð, bar Sigurður því alltaf við, að hann ætti engin giftingarföt nógu falleg. En nú gat hann þó fengið sér slík föt, því að hann var mjög fjárríkur maður. Segir og um það í gamalli vísu, þar sem bent er á ríkidæmi Sigurðar og þá kveðið fyrir munn hans:
- Ég á allan Ystaklett
- og ótal marga sauði, o.s.frv.
Þegar farið var í Ystaklett var ávallt farið á opnum árabátum, því að stutt er að fara út í Klettsvík, en þar var báturinn eða bátarnir, ef farið var á fleirum en einum, settir upp í fjöruna, meðan verið var uppi. Menn báru stöðugt nokkurn beig af grjóthruninu niður skriðuna, þar sem farið er upp í Ystaklett. Má segja, að þar sé allt á hreyfingu og stöðugt grjóthrap. Er mesta furða, hve fá slys hafa orðið þarna.
Því var það, að um 1927-28 tóku menn sig saman um að leggja nokkurra mannhæða háan keðjustiga á Litla-Klettsnef og upp á brún. Þarna er auðvelt að leggja að báti og komast upp úr honum á nefið. Svo gat báturinn legið þarna mannlaus á floti, en vitanlega bundinn við stigann eða bergið, á meðan menn voru uppi í Kletti eða þá, að báturinn lá við stjóra. Var hann svo dreginn að, þegar farið var í land. Þessi leið var þó aðeins notuð, þegar farnar voru lausaferðir, en ekki, þegar flutt var fé. Hin síðari ár hefir keðjustiginn ryðgað sundur, þareð honum hefir ekkert verið viðhaldið.
Nú er fjárrækt í Eyjum ekki jafn snar þáttur í lífi almennings eins og var. Heimaey var um skeið mikið ræktuð upp og þess vegna hafði víða gott og mikið haglendi skapast, sem notað er sem beitilönd á Heimaey, og þá vel afgirt. Í úteyjum má nú segja, að fé fari stöðugt fækkandi og ekki mun þess langt að bíða, að engin kind verði í úteyjum. Þannig er t.d. nú með Smáeyjar og Suðurey, Hellisey og Brandinn. Þar er nú ekkert fé lengur, hvorki sumar né vetur. Hefði það einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. En svona breytist þetta eins og margt annað í lífi almennings, t.d. hvað úteyjarnar snertir, bæði hagagöngur og hvers konar fuglaveiðar. Það fer bráðum að heyra fortíðinni til.
(Þó skal fram tekið, að í Brandinum munu hafa verið um 20 kindur sl. ár, og er það sjaldgæft. Er féð þarna enn, þótt langt sé liðið á vorið. Því veldur, að nú er ekki lengur hugsað um fýlavarpið uppi á eynni.)