Ritverk Árna Árnasonar/Stefán Guðlaugsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Stefán Guðlaugsson.

Kynning.

Stefán Sigfús Guðlaugsson skipstjóri í Gerði fæddist 6. desember 1888 og lést 13. febrúar 1965.
Foreldrar hans voru Guðlaugur Jóhann Jónsson bóndi í Gerði, f. í Prestshúsum 11. nóvember 1866, d. 25. apríl 1948, og kona hans Margrét Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. að Ytri-Skógum u. Eyjafjöllum 24. júní 1865, d. hér 29. febr 1936.

Kona Stefáns var Sigurfinna Þórðardóttir húsfreyja, f. 21. nóvember 1883 að Hellum í Mýrdal, d. 13. nóvember 1968.

Börn Stefáns og Sigurfinnu:
1. Guðlaugur Martel, f. 22. febrúar 1910, d. 13. febrúar 1911.
2. Óskar, f. 31. maí 1912, d. 14. nóvember 1916.
3. Guðlaugur Óskar, f. 12. ágúst 1916, d. 22. júlí 1989.
4. Þórhildur, f. 19. marz 1921, d. 20. september 2011.
5. Gunnar Björn, f. 16. desember 1922, d. 27. desember 2010.
6. Stefán Sigfús, f. 16. september 1930.
Fósturdóttir Sigurfinnu og Stefáns, systurdóttir Sigurfinnu var
7. Ragna Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 3. febrúar 1916, d. 3. desember 1979.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Sjá nánar í Suðureyjarbók um Stefán Guðlaugsson. Stefán hefur stundað sjómennsku síðan í barnæsku og varð formaður um tvítugt, fiskisæll og afhaldinn, prúðmenni í sjón og raun.
Fuglaveiðar hefir hann og mikið stundað og þótti góður veiðimaður. Búmaður góður, vel efnum búinn, stjórnsamur og iðjufús, veitull, fróður um margt og viðræðugóður.
Stefán er meðalmaður á hæð, þrekinn og herðabreiður, snöggur í öllum hreyfingum, fylginn sér og liðugur. Hann er dökkur á hár, en ljós yfirlitum, skemmtinn vel og glaðlyndur meðal félaga sinna.
Stefán hefir stundað fiskveiðar síðan í æsku og varð formaður fyrir bát 20 ára að aldri. Hefir hann ætíð verið mjög aflasæll, búmaður góður, með efnaðri mönnum í Eyjum, þrátt fyrir stórt heimili, og starfrækt bú sitt af prýði og mesta myndarskap í hvívetna, stjórnsamur og iðjufús, veitull, fróður um margt og viðræðugóður. Formaður er Stefán ennþá, og virðist ár og elli ekkert ráða við fjör hans og hreysti.
Stefán hefir verið við fuglaveiðar lengi, t.d. í Suðurey og Elliðaey og verið vel liðtækur veiðimaður fram til síðustu ára, þótt vitanlega hafi hann látið á sjá í viðureigninni við lundann, hvað snerpu og úthald snertir hin síðustu ár.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Stefán Guðlaugsson

ctr


Stefán í Gerði og félagar. Frá vinstri: Runólfur Runólfsson í Bræðratungu, Ólafur Ástgeirsson í Litlabæ og Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.