Ritverk Árna Árnasonar/Súlnasker

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Súlnasker


Fuglamannabæn


Þegar komið er upp á Bænabring á Súlnaskeri er lesin bæn og hefir svo verið gert svo lengi sem vitað er.
Þegar forystumaður og hinir göngumennirnir hafa tekið ofan höfuðföt sín, segja þeir:
„Við skulum allir biðja almáttugan guð að vera með okkur“.
Síðan biðja allir:
„Ó, guð, í þínu nafni byrja ég þessa ferð og bið þig, í Jesú nafni, að vera með mér og afstýra frá mér öllum slysum og háskasemdum. Lát mér lærast að þakka þína handleiðslu eins og vera ber. Ó, fyrirgef þú mér af miskunnsemi þinni allt gáleysi mitt og gleymsku, og gef mér náð til þess hér eftir að vera þakklátari og betri. Vertu minn leiðtogi á lífsins vegi, og vertu með mér, hvar sem ég er og hvert sem ég fer. Vertu mér náðugur í lífi og dauða. Bænheyr það í Jesú nafni –Amen.“
Forystumaður segir síðan við göngumennina:
„Förum við svo allir okkar leið í ótta drottins. Guð almáttugur leggi sína vernd og blessun yfir okkur á sjó og landi þennan dag og alla tíma. Í Jesú nafni - Amen.“
Að þessu loknu hefst uppferðin upp á Súlnasker.

Úr Súlnaskeri hafa hrapað:


Árið 1833 er talið, að Davíð nokkur hafi hrapað af Súlnaskeri og látist. Mun þar átt við annan Davíð heldur en Davíð Ólafsson.
Davíð Ólafsson sat á brúninni að binda skóþveng sinn, missti jafnvægið og féll fram af. Heppnaðist honum að ná undir hnésbætur sér, kom í sjó niður ótrúlega lítið skemmdur. Þó tognaði hann eitthvað og teygðist. Komst hann í bátinn, sem þarna var og var svo fluttur í land. Lengi lá hann vegna skemmda, en komst nokkurn veginn til heilsu aftur og fór síðan til Ameríku.
Hinn fyrri Davíð, sem hrapaði, er sagt að hafi sleppt sér á lærvað. Hverra manna hann var eða hvenær það var, veit ég ekki og hef ekki fundið.

Þann 24. maí hrapaði úr Skerinu Þorsteinn Gunnarsson, Vestmannabraut 1. Hann var sonur Gunnars M. Jónssonar skipasmiðs.
Þorsteinn var víst í eggjasnatti og var á niðurleið, er slysið varð. Fór hann of hratt, missti tök á bandinu, lenti á sjóflánni og síðan í sjó. Þaðan náðist hann mikið slasaður. Þó var hann með lífsmarki og lést á sjúkrahúsinu nokkru eftir að í land kom. Hann var jarðsettur 31. maí 1958.

Það var um 1893, þegar Stefán Gíslason í Ási fór fyrst í Súlnasker, ásamt fleirum til fýla og súlna. Þeir voru átta á opnu skipi og fóru 4 þeirra upp, þ.e. Stefán, Einar í Norðurgarði Jónsson, Hannes Gíslason í Presthúsum og Magnús Vigfússon.
Nokkuð brim var og fór versnandi, eftir að þeir komu upp. Þá vandaðist málið, hvar niður skyldi fara og var endanlega ákveðið að fara austanvert á Skerinu. Allt gekk vel niður á Bænabring, en er þangað kom, leist þeim ekki á aðstæðurnar. Var svo mikið brim við steðjann að helst leit út fyrir, að enginn kæmist á skip, og þar niðri myndi engum vera stætt vegna sjógangs. Báturinn var þarna út af Steðjanum. Var því, úr því sem komið var, ekki um annað að ræða en reyna að komast á skip þar, þótt illa liti út. Var svo tekið lag og hlupu allir niður á Steðjann, nema Einar.
Er þeir höfðu verið á steðjanum örskamma stund, reið yfir mjög stórt ólag, sem gekk alla leið upp á Bænabring og það svo mjög að sjórinn tók Einari í hendur, en hann hélt sér þó föstum. Stefán hafði tekið um bolta, sem rekinn var í Steðjann, en aldan var svo kraftmikil að hún tók hina tvo og sópaði þeim út, ásamt Stefáni. Honum varð það þá fyrst fyrir að stinga upp í sig sjóvettlingi til þess að fyrirbyggja sem best, að hann sypi mikinn sjó. Nokkur stund leið, áður en bátsverjum tókst að ná honum, og veltist hann þarna um í brimiðunni. En ekki treystu bátsverjar sér til þess að innbyrða hann í bátinn, þar eð þeir voru svo fáliðaðir. Stefán hélt sér hins vegar í bátinn.
Þá reru þeir að Hannesi, sem flaut þar skammt frá. Stefán náði í hann með annarri hendinni, en með hinni hélt hann sér í bátinn. Þannig héngu þeir í bátnum, uns tekist hafði að ná í Magnús Vigfússon, sem skolast hafði nokkuð langt burtu og austur fyrir Steðjann. Þá var gengið í það að innbyrða þá Stefán og Hannes, sem heppnaðist vel, þótt erfitt væri.
Þá var eftir að ná Einari, sem beðið hafði uppi. Hann kom svo niður á steðjann, og innan tíðar komst hann í bátinn við illan leik. Hannes var mjög aðframkominn, og héldu þeir hinir, að hann væri dauður eða alveg að því kominn. Lögðu þeir hann því á grúfu yfir eina þóftuna.
Eftir nokkra stund, er þeir voru í námunda við Hellisey, fór að korra í Hannesi, og nokkurt líf að færast í hann. Hann kastaði upp miklum sjó. Ferðin heim gekk vel. En svo var Hannes þá þrekaður að ekki gat hann gengið óstuddur heim að Prestshúsum. Hann lá um hálfan mánuð eftir þessa hrakninga, en jafnaði sig þó til fulls.
Stefán hafði orðið að leggja mjög að sér að halda Hannesi og sjálfum sér við bátinn, meðan róið var til Magnúsar, sem fyrr segir. Bólgnaði Stefán mjög undir hendinni og átti lengi í þeim meiðslum. Alla tíð fann hann til þessarar ofreynslu, enda hefir þetta verið hið mesta þrekvirki, þar eð Stefán var þá ungur og varast fullþroska. Öðrum varð ekki um hrakning þennan, sem Einar gamli vildi kenna félögum sínum og sagði orðið hafa vegna óvarkárni. Þetta er aðeins ein saga af mörgum slíkum svaðilförum Eyjamanna við úteyjarnar. Var þar vissulega oft skammt bil milli lífs og dauða.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit