Ritverk Árna Árnasonar/Jóhann Gíslason (Hlíðarhúsi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jóhann Gíslason.

Kynning.

Jóhann Gíslason í Hlíðarhúsi, (Jói á Hól), fæddist 16. júlí 1883 og lést 1. marz 1944.
Foreldrar hans voru Gísli Stefánsson kaupmaður, f. 28. ágúst 1842, d. 25. september 1903, og kona hans Soffía Lísebet Andersdóttir húsfreyja, f. 8. október 1847, d. 10. júní 1936.

Jóhann var ókvæntur en bjó alla tíð samhúsa móður sinni að Hlíðarhúsi og með bústýru síðar meir, Sigríði Bergsdóttur húsfreyju frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum, f. 27. júní 1878, d. 13. febrúar 1963.

Börn Jóhanns og Sigríðar:
1. Gísli Friðrik múrarameistari í Reykjavík, f. 22. janúar 1906, d. 4. nóvember 1980. Hann var síðast í Eyjum. Gísli Friðrik var tvíkvæntur:
Fyrri kona var Stefanía Erlingsdóttir, f. 1910, d. 1992. Síðari kona var Jóna Margrét Kristjánsdóttir, f. 1915, d. 1971.
2. Bogi rafmeistari í Neista í Eyjum, f. 30. september 1920, d. 20. maí 2007, kvæntur Halldóru Björnsdóttur frá Siglufirði, f. 5. júlí 1921, d. 4. júní 2009.
3. Barn Sigríðar með Jóni Einarssyni útgerðarmanni á Faxastíg 15, Höfðabrekku, f. 5. apríl 1885, d. 26. febrúar 1978.
Barnið var Karl Jónsson íþróttafrömuður, f. 15. júlí 1909, d. 12. júlí 1995.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Jóhann Gíslason, – Jói á Hól, eins og hann var ávallt nefndur, var hár maður og þrekinn eins og flestir þeir bræður, dökkhærður, fremur breiðleitur eða feitt og allkringlulaga andlit, ekki ófrítt, brosmildur og hýrleitur og augun glampandi af fjöri. Sterkur maður og mjög átakagóður, skarpur sjómaður í hvívetna og æðrulaus.
Hann var rómaður fyrir léttlyndi, söng og glaðværð, hinn besti drengur.
Jóhann var nokkuð við veiðar á lunda, alldrjúgur veiðimaður, ef hann vildi svo við hafa, sló fast og kröftuglega upp háfnum, brotgjarn á veiðitæki, en laus við veiðiskapið, óþolinmóður í tregum fugli.
Landsþekktur æringi og gleðimaður, sem allir vildu vel. Hann var mesta ljúfmenni, síkátur og syngjandi, spriklandi af fjöri:

,,Meira fjör, meira fjör,
meira yndi.
Meira fjör, meira fjör,
Jói á Hól.“ (Árni úr Eyjum).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.