Ritverk Árna Árnasonar/Brynjólfur Sigfússon

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Brynjúlfur Sigfússon.

Kynning.
Brynjúlfur Sigfússon kaupmaður og tónlistarfrömuður fæddist 1. mars 1885 og lést 27. febrúar 1951.
Foreldrar hans voru Sigfús Árnason á Löndum, f. 10. september 1856, d. 5. júní 1922, og kona hans Jónína Kristín Nikólína Brynjólfsdóttir, f. 14. ágúst 1856, d. 16. nóvember 1906.

Brynjúlfur var tvíkvæntur:
I. Fyrri kona hans, (5. maí 1912), var Guðrún S. Þorgrímsdóttir, f. 28. maí 1882, d. 22. september 1927. Hún var áður gift Edward Frederiksen bakarameistara, en þau skildu. Sömuleiðis skildu þau Guðrún og Brynjúlfur, barnlaus.

II. Síðari kona Brynjúlfs, (11. júní 1933), var Ingrid Sigfússon frá Danmörku af íslensk-dönskum foreldrum, f. 8. ágúst 1909, d. 8. desember 2013.
Börn þeirra:
1. Aðalsteinn Brynjúlfsson, fæddur 1. nóvember 1936, d. um áramót 2013-2014.
2. Bryndís Brynjúlfsdóttir, fædd 26. apríl 1941.
3. Hersteinn Brynjúlfsson, fæddur 22. júní 1945.
4. Þorsteinn Brynjúlfsson, fæddur 3. desember 1947, d. 10. júlí 2000.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Brynjúlfur var rösklega meðalmaður á hæð, þrekinn vel og sterkur, lipur og snar í hreyfingum, skolhærður, ljós í andliti og með nokkuð stutt og breitt andlit, hátt enni og kinnbein, ljósskolhærður og ljós yfirlitum.
Hann var nokkuð skapstór, þver í skoðunum og nærri einþykkur, stríðinn stundum og hélt fast á málstað sínum, fús og fljótur til sátta eftir orðaleik, og í gleðskap kátur og skemmtilegur.
Hann var töluvert við veiðar fyrr á árum, og allgóður að veiða, en hin síðari ár hættur þeim störfum, nema sér til gamans og upplyftingar. Þar var hann góður og skemmtilegur félagi og reyndist félögum sínum vel.
Hann hafði áhuga á bættum aðbúnaði veiðimanna í úteyjum, hratt fram bættum húsakosti í Elliðaey, stofnaði gestabók og sjóð til kofans.
Góður kaupmaður, réttsýnn og ábyggilegur í öllum viðskiptum svo orð fór af.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Brynjólfur Sigfússon


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.