Ritverk Árna Árnasonar/Bjarni Ólafsson (Svaðkoti)
Bjarni Ólafsson í Svaðkoti fæddist 22. janúar 1836. Hann kom til Eyja árið 1854 frá Steinmóðarbæ og fór þá að Búastöðum 18 ára gamall. Kona hans var Ragnheiður Gísladóttir.
Þau giftu sig 29. október 1858, Bjarni þá 22 ára, en Ragnheiður 25 ára fædd 1833. Var Bjarni þá tómthúsmaður í Litlakoti. Börn þeirra urðu m.a.
1. Sæmundur, f. 1860, dó úr barnaveiki 8-9 ára.
2. Ólafur, f. 5. ágúst 1863, d. 16. júní 1883.
3. Steinunn fór til Rvk, giftist þar Jóhannesi skipstjóra.
4. Gísli f. 13. maí 1870, hrapaði úr Ofanleitishamri á hvítasunnu 1883, 13 ára.
5. Guðríður, f. 29. febrúar 1875, d. 3. september 1950, gift Jóni Jónssyni frá Dölum 27. apríl 1897.
6. Halla, giftist Jóni Guðmundssyni skipstjóra á Dýrafirði. Halla fluttist til Reykjavíkur og lést þar, en Jón kom hér veikur í land og lést í Eyjum hjá Guðríði.
Alls áttu þau Bjarni og Ragnheiður 7 syni og munu allir hafa látist ungir. Dæturnar voru 3 og var Steinunn þeirra elst.
Bræður Bjarna í Eyjum voru
1. Ingvar Ólafsson bróðir Bjarna, f. 1827, kom til Eyja 1854 frá Snotru í Landeyjum.
2. Sæmundur Ólafsson bróðir Bjarna í Svaðkoti, f. 1832, kom til Eyja 1854 og fór að Kirkjubæ, kom frá Miðey. Hann fórst með Hansínu 20. mars 1864.
Bjarni Ólafsson fórst ásamt Ólafi syni sínum 16. júní 1883, fyrir sunnan Stórhöfða. Var talið, að stórhveli hefði grandað bátnum, þareð veðri var svo háttað, að stillilogn var, sumarblíða og sjódeyða. Á bátnum voru:
1. Bjarni formaður Ólafsson í Svaðkoti 47 ára.
2. Ólafur sonur hans tæpra 21 árs gamall. Fannst hann einn í bátnum. Hafði hann gripið svo fast um þóftuna, að ógerlegt var að losa dauðatak hans öðruvísi en höggva á hendur hans.
3. Tíli bóndi Oddsson í Norðurgarði.
4. Guðmundur, son Erlends Sigurðssonar í Norðurgarði, síðan á Kirkjubæ, og var Guðmundur bróðir Þorsteins Erlendssonar, er hrapaði í Ofanleitishamri 1880.
(Heimild: Guðríður Bjarnadóttir)
Sigfús Johnesn telur slys þetta hafa orðið 16. júlí 1883, en Guðríður hélt fast við 16. júní 1883.
Sjá annarsstaðar á Heimaslóð: Bjarni Ólafsson (Svaðkoti)