Ritverk Árna Árnasonar/„Línukarlinn“ kemur til sögunnar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


„Línukarlinn“ kemur til sögunnar“


Eftir að línunotkun komst hér á til almennra nota við fiskveiðarnar, kom það brátt í ljós, að mjög voru mönnum mislagðar hendur að „leggja línuna“. Sumir urðu strax mjög fljótir, en aðrir gátu aldrei náð neinni leikni í starfinu, þó að mjög mikið væri undir því komið að fljótt væri verið að leggja línuna.
Strax frá öndverðu lögðu útgerðarmenn og formenn því megin áherslu á það við ráðningu skipshafnar að fá góðan og fljótan lagningsmann. Það þurfti mikla lipurð, ef vel átti að fara að greiða línuna upp úr bjóðunum og gefa hana út, meðan báturinn fór með hálfri ferð áfram.
Var línulagning ávallt álitin vont verk og þá sérstaklega við slæmar aðstæður, svo sem í frosti, er beitan fraus öll saman og í vondu veðri og sjólagi. Það hlutust líka oft við línulagninguna stór meiðsli, er öngull festist í mönnum og útúr reif holdinu. Það voru vond sár, er seint gréru og oft gróf í vegna slæms umbúnaðar á heimleiðinni.
Það mun hafa verið árið 1928, að Þórður sál. Jónsson frá Gamla Hrauni, til heimilis að Bergi hér, kom vestan af fjörðum, hvar hann hafði verið á fiskveiðum, heim til Eyja með hinn svonefnda „lagningskarl“. Hafði hann séð tæki þetta þar og kynnst notkun þess um sumarið og kom nú með eitt og lét setja á bátinn Ingólf Arnarson, sem hann réri á, en formaður var Sigurður Bjarnason Jónssonar, bróðir Sighvatar formanns Bjarnasonar í Ási hér. Áhald þetta munu Vestfirðingar hafa séð hjá norskum línuveiðurum og kynnst því af þeim. Það er járnslegin renna með háum kinnum, sem sett er upp á skut (hekk) bátsins, og dregst lóðin eftir henni úr bjóðinu (stampinum), sem stendur rétt við áhaldið, út í sjóinn, en báturinn þýtur áfram með fullri ferð. Tekur nú orðið ekki nema örskamma stund að leggja línuna, sem þó er orðin býsna löng sem fyr segir eða um 30 stampar, eða máske eina klst. eða tæplega það.
Áður fyrr tók það varast minna en 2 tíma að leggja eina bátslóð eða ca 12-15 bjóð, enda þótt lagningsmaður væri afburðagóður og vel beitt og niðurlagt í bjóðin.
Þegar Þórður kom með lagningskarlinn voru menn mjög vantrúaðir á nytsemi hans og spáðu því engu góðu. Töldu því til foráttu að beitan slitnaði svo mikið af krókunum o.s.frv. En þó svo væri, að eitthvað færi af, var miklu meira úr því gert en raun var á. En þrátt fyrir alla hleypidóma, setti Þórður áhaldið á Ingólf Arnarson og fór í róður. Allir aðrir, sem réru lögðu upp á gamla móðinn, þ.e. með höndunum og urðu ekki lítið hissa, er þeir sáu þá koma á fullri ferð á Ingólfi leggjandi línuna. Það varð verkfall á hinum bátunum af undrun yfir sjón þessari. Þarna öslaði Ingólfur áfram skammt frá þeim, blá reykjarstrókan stóð aftur úr honum, línan rann gegnum rennuna eins og vatn og skipverjar hans veifuðu til þeirra af gleði og ánægju. Þórður var að leggja línuna upp á nýja móðinn með lagningskarli.
Allt gekk í fljúgandi fart, örugglega og hljóðalaust. Það var svo sem eitthvað annað en hjá hinum bátunum. Þeir urðu að keyra - sló-ferð-, greiddu og köstuðu línunni úr bjóðunum með hrópum og köllum - „hægja á, - stoppa vél, - verð að sleppa“ o.s.frv. Samvinnan milli þess sem lagði og þess sem stoppaði varð að vera vel samstillt til þess að ekki hlytust meiðsli af krókunum. Það gat valdið stórslysi, ef sá er stoppaði sleppti án þess að lagningsmaður vissi, því að hann var máske með hendurnar á kafi í bjóðinu að grafa upp. Já, það var eitthvað annað hjá honum Þórði, hugsuðu menn og litu öfundaraugum til bátsins þar, sem hann þaut áfram. Og þegar hann var búinn voru þeir ekki nærri hálfnaðir að leggja línuna. Svo fór með sjóferð þá.
Menn sáu fljótt ágæti línukarlsins, enda gafst hann svo vel, að strax á fyrsta ári 1928 settu Eyjaformenn og útgerðarmenn upp lagningskarla á báta sína svo ört sem smiðirnir gátu annað pöntunum. Og svo útbreytt er áhald þetta nú, að jafnvel hver einasta trylla hefir lagningskarl. Það þykir alveg ógerningur að leggja línuna, hvort sem hún er stutt eða löng öðruvísi.
Árið 1932 var Jónas Sigurðsson frá Skuld með bátinn Súluna (Ingvar Guðjónsson á Siglufirði). Þar var þá enginn einasti bátur útbúinn lagningskarli og ekki þessi bátur, sem hann var með. Jónas kunni því vitanlega illa að þurfa að vera að leggja línuna eins og í gamla daga og fór því inn á Akureyri til þess að fá smíðaðan línukarl á bátinn. En það var nú ekki auðhlaupið að því. Þar vissu menn ekki, hver fjandinn þessi línukarl var, hvað þá að þeir vissu, hvernig hann leit út. Enda þótt Jónas væri ekki þekktur fyrir teikningu, heppnaðist honum þó að tákna áhaldið svo greinilega, að Akureyrarsmiðirnir gátu smíðað það fyrir hann. Að vísu var það ekki fyrsta flokks, en var þó vel nothæft.
Og Norðurlands fór svo alveg eins og hér heima. Menn gláptu gapandi af undrun á bátinn, sem hentist þarna áfram á fullri ferð við línulagninguna og virtist ekki hafa neit fyrir neinu. Menn komu svo að skoða áhaldið og fá upplýsingar um notkun þess og settu það von bráðar í báta sína. Þannig barst línukarlinn héðan til Akureyrar og Siglufjarðar.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit