Ritverk Árna Árnasonar/Það eru ekki allt selir, sem sýnast

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Það eru ekki allt selir, sem sýnast I.


Ísak hét maður Jónsson og bjó í Norðurgarði. Hann var faðir Hjálmars, sem kallaður var tuddi og lengi bjó hér í Kufungi.
Ísak þessi hafði útræði með öðrum fleirum úr Klaufinni, en lagði upp við svokallaðar Erlendarkrær. Hann var haltur í vinstri fæti, því að hann hafði einu sinni hrapað í Valsilluhamri við að tileinka sér egg frá öðrum.
Pétur faktor Bjarnasen í Garðinum hafði sér stundum til gamans og dægrastyttingar á morgnana að ganga út með byssu sína, ef vera kynni að eitthvað væri að sjá til að skjóta.
Einn morgun, sem oftar, gekk Pétur því út með byssu sína. Hann gekk suður með Urðum og áfram suður Hauga, en varð einskis var. Hélt hann því áfram suður í Brimurð, ef vera mætti, að þar væri eitthað að finna.
En þótt hann færi með öllum Loftunum, allri Brimurðinni og alla leið suður að Garðsenda, varð hann einskis var. Sneri hann því vondaufur heim á leið og gekk upp rimann, því að hann ætlaði beina leið heim Aur. En þegar hann er rétt kominn upp að götunni, sér hann, hvar selur liggur og sefur niðri í krikanum upp við Höfðann.
Hann greikkar nú sporið, þangað til hann er kominn svo nálægt, að selurinn geti heyrt til hans og styggst, þá leggst hann á fjórar fætur og skríður þannig dálítinn spöl. En af selnum vill hann fyrir hvern mun ekki missa. Og til þess að komast enn nær honum leggst hann alveg á magann og mjakar sér þannig áfram, þangað til hann er kominn svo nálægt, að hann þykist þess fullviss, að hann muni ekki missa af selnum og hljóti að hitta hann.
Setur hann nú patrónu í byssuna og liggur alveg hreyfingarlaus á meðan til þess að gera sem minnstan hávaða. Síðan setur hann byssuna upp að kinninni og spennir upp gikkinn.
En í þessum svifum, rís selurinn upp á afturfæturna og sér þá Pétur, að það er enginn selur, heldur enginn annar en Ísak gamli frá Norðurgarði, sem hafði verið að þvo fiskinn sinn þarna niðri við sjóinn og var fallinn í þungar hugsanir. – Það eru ekki allt selir, sem sýnast.

Það eru ekki allt selir, sem sýnast II.


Áður fyrri var svo háttað um allan reka í Vestmannaeyjum, að sá, sem fyrstur fann, hlaut happið. Var því mikið kapp um rekagöngur. Venjulega var farið í þær fyrir dögun, svo að aðrir yrðu ekki fyrri á rekann. Ofanbyggjarar gengu á reka í Klaufinni, Víkinni og Brimurð.
Það var einhverju sinni, að bóndi nokkur á einhverjum bænum fyrir ofan Hraun fór fyrir dögun á reka suður eftir eins og venja var. Hann kom ekki heim aftur um daginn og var þá farið að leita hans. Fannst hann meðvitundarlítill og mállaus liggjandi fyrir ofan Klaufarskálina. Dó hann skömmu síðar og fékk ekki málið fyrir andlátið, nema hvað menn þóttust heyra hann segja, þegar reynt var að spyrja hann um orsökina að veikindunum. „Það eru ekki allt selir, sem sýnast.“


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit