Ritverk Árna Árnasonar/Ólafur Ástgeirsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ólafur Ástgeirsson.

Kynning.

Ólafur Ástgeirsson bátasmiður í Litla Bæ fæddist 3. ágúst 1892 og lést 8. apríl 1966.
Foreldrar hans voru Ástgeir Guðmundsson bátasmiður í Litlabæ, f. 27. október 1858 á Bryggjum í Landeyjum, d. í Eyjum 30. september 1943, og kona hans Kristín Magnúsdóttir, f. 10. janúar 1859 á Skíðbakka í A-Landeyjum, d. 13. júlí 1938 í Eyjum.

I. Fyrri kona Ólafs var Kristín Jónsdóttir húsfreyja, f. 19. apríl 1885 að Varmahlíð u. Eyjafjöllum, d. 17. september 1943.
Börn Ólafs og Kristínar:
1. Magný, fædd 19. nóvember 1911, gift á Akranesi, dáin 20. mars 1980.
2. Ástgeir Kristinn skipstjóri, útgerðarmaður og rithöfundur, f. 27. febrúar 1914, d. 1. maí 1985. Kona hans var Friðmey Eyjólfsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 4. nóvember 1923.
3. Sigurjón skipstjóri, f. 25. janúar 1918, d. 14. ágúst 2005. Kona hans var Þórunn Gústafsdóttir húsfreyja, f. 4. desember 1914, d. 2. maí 1995.
4. Sigrún, f. 23. júlí 1924, d. 21. mars 1948.

II. Síðari kona Ólafs var Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 9. september 1920, d. 19. apríl 1993.
Barn Ólafs og Guðrúnar:
4. Kristinn Rúnar búsettur á Spáni, fréttaritari RÚV, f. 11. september 1952.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Ólafur er vel meðalmaður á hæð, en mjög þrekinn og lipurlega limaður. Hann byrjaði snemma bátasmíðar með föður sínum, enda stundað þær æ síðan með miklum ágætum og mjög eftirsóttur. Sjóinn hefir hann og stundað og gerir enn og er orðlagður fiskimaður.
Ólafur hefir mikið stundað fuglaveiðar og þykir mjög góður veiðimaður. Mest hefir hann verið við þau störf í Ystakletti og í Suðurey. Eru það vissulega margar kippur, sem hann hefir veitt um ævina og telst til skörpustu veiðigarpa Eyjanna. Hefir löngum verið sagt, að ekki sé Lögmannssæti vel skipað, síðan Stefán Gíslason féll frá veiðum þar nema Ólafur sitji þar að veiðum.
Ólafur er mjög laghentur maður, fáskiptinn, en traustur vinur og hollráður vinum sínum. Í vinahóp er hann mjög skemmtilegur, ræðinn og vel fróður um margt í þróunarsögu Eyjanna.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Ólafur Ástgeirsson


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.