Jón Gíslason (Stakkagerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Jón Gíslason bóndi í Stakkagerði var skírður 11. mars 1797 og lést 23. desember 1865.
Foreldrar hans voru Gísli Jónsson bóndi í Hallgeirsey og Kanastöðum í A-Landeyjum, f. 1769 í Hallgeirseyjarhjáleigu, d. 19. júlí 1846 í Hallgeirsey, og fyrri kona hans Margrét Jónsdóttir húsfreyja, skírð 12. nóvember 1775, d. 13. september 1859 í Hallgeirsey.

Börn Gísla og fyrri konu hans Margrétar Jónsdóttur, í Eyjum:
1. Jón Gíslason bóndi í Stakkagerði.
2. Ólafur Gíslason á Gjábakka, þess sem lýstur var faðir Eggerts Guðmundar Ólafssonar í Götu eftir dauða sinn.
3. Guðfinna Gísladóttir húsfreyja í Syðstu-Mörk, síðar í dvöl í Juliushaab hjá Gísla Engilbertssyni syni sínum.
Barn Gísla og Síðari konu hans Gunnvarar Ólafsdóttur:
4. Jón Gíslason bóndi í Dölum.

Jón var með foreldrum sínum í æsku, með föður sínum og Gunnvöru Ólafsdóttur stjúpu sinni 1816.
Hann fluttist til Eyja 1823, vinnumaður að Stakkagerði. Þar bjuggu þá Guðfinna Guðmundsdóttir húsfreyja og ljósmóðir og Bergur Brynjólfsson bóndi. Guðfinna og Bergur skildu 1825 og fóru þau Jón og Guðfinna að Ofanleiti. Þeim fylgdi Vigfús sonur Guðfinnu. Bergur var þá enn í Stakkagerði, en 1827 var hann farinn þaðan, en Guðfinna og Jón komin þangað. Vigfús sonur hennar var hjá þeim til 1831, er hann kvæntist Sigríði Einarsdóttur. Jón og Guðfinna bjuggu þar 1827-1832, en hún lést á því ári.
Jón kvæntist Sesselju Sigurðardóttur í júlí 1832. Þau bjuggu í Stakkagerði meðan Sesselju entist líf. Hún lést 1860.
Þau Sesselja eignuðust 4 börn, en ekkert þeirra komst upp svo víst sé. Þau fóstruðu Kristínu Jónsdóttur úr Álftaveri frá 1838-fullorðinsára.
Jón var ekkill í Stakkagerði 1862, niðursetningur á Gjábakka 1864.
Hann dó 1865, þá ekkill og niðursetningur á Kirkjubæ, „fannst örendur úti á leið milli bæja“.

I. Sambýliskona Jóns var Guðfinna Guðmundsdóttir húsfreyja og ljósmóðir, f. 1776, d. 27. júní 1832.
Þau voru barnlaus.

II. Kona Jóns, (25. júlí 1832), var Sesselja Sigurðardóttir húsfreyja og ljósmóðir, f. 14. okt. 1805, d. 31. marz 1860.
Börn þeirra hér:
1. Guðfinna Jónsdóttir, f. 13. maí 1833, á lífi 1837 í Stakkagerði, finnst ekki 1838 lífs né liðin.
2. Margrét Jónsdóttir, f. 11. ágúst 1834, d. 24. júní 1835 úr „Barnaveikindum“.
3. Sesselja Jónsdóttir, f. 18. nóvember 1836, d. 23. nóvember 1836 úr ginklofa.
4. Otti Jónsson, f. 26 nóvember 1838, d. 3. desember 1838 úr ginklofa.
5. Fósturbarn þeirra var Kristín Jónsdóttir vinnukona, f. um 1830 í Þykkvabæjarklausturssókn, d. 1. desember 1902 í Péturshúsi.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.