Hjálmur Konráðsson (kaupfélagsstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hjálmur Konráðsson kaupfélagsstjóri fæddist að Syðra-Vatni í Efribyggð í Skagafirði 23. nóvember 1895 og lést 17. desember 1933 á Landakotsspítala.
Foreldrar hans voru Konráð Magnússon frá Steiná í Svartárdal, A-Hún., bóndi, f. 11. janúar 1858 í Kolgröf í Efribyggð, d. 4. janúar 1911, og kona hans Ingibjörg Hjálmsdóttir frá Norðtungu í Þverárhlíð, Mýrasýslu, húsfreyja, f. 27. september 1861, d. 30. apríl 1929.

Hjálmur var með foreldrum sínum í æsku. Faðir hans lést er Hjálmur var á sextánda árinu.
Hann var með ekkjunni móður sinni og nokkrum systkinum sínum hjá Jóni bróður sínum á Hofsstöðum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi 1915 og 1916 og skráður þar heimilismaður og námsmaður 1919 og 1920, nam við Samvinnuskólann. Hann var verslunarmaður í Prestakallshúsi í Stykkishólmi 1922 og 1923, bókhaldari þar 1924.
Hjálmur var fenginn til Eyja í ágúst mánuði 1925 til að gera upp reikninga Kaupfélagsins Bjarma frá árinu 1924, en var ráðinn kaupfélagsstjóri í október 1925 og gegndi því starfi til dánardægurs 1933.
Fyrirtækið átti í miklum erfiðleikum fjárhagslega, er hann tók við því, en náði sér vel undir stjórn hans, þó að síðar hallaði undan fæti.
Hann var bæjarfulltrúi um skeið, sat í stjórn Eyjaprentsmiðjunnar með Páli Kolka lækni og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum.
Þau Sigríður giftu sig 1928, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í Bjarma.
Hjálmur lét 1933 og Sigríður 1954.

I. Kona hans ( á jólum 1928), var Sigríður Helgadóttir húsfreyja, síðar eigandi Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur, f. 8. mars 1903, d. 15. apríl 1954.
Börn þeirra, tvíburar:
1. Helgi Konráðs Hjálmsson viðskiptafræðingur, forstjóri, f. 24. ágúst 1929 í Bjarma, d. 15. febrúar 2020.
2. Ingi Pétur Konráðs Hjálmsson búfræðikandídat, héraðsráðunautur, fulltrúi, f. 24. ágúst 1929 í Bjarma, d. 2. október 2011.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.