Helgi Konráðs Hjálmsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Helgi Konráðs Hjálmsson.

Helgi Konráðs Hjálmsson frá Bjarma viðskiptafræðingur, forstjóri fæddist þar 24. ágúst 1929 og lést 15. febrúar 2020.
Foreldrar hans voru Hjálmur Konráðsson kaupfélagsstjóri, f. 23. nóvember 1895, d. 17. desember 1933, og kona hans Sigríður Helgadóttir húsfreyja, kaupmaður, f. 8. mars 1903, d. 15. apríl 1954.

Bróðir Helga var Pétur Konráðs Hjálmsson búfræðikandídat, héraðsráðunautur, fulltrúi, f. 24. ágúst 1929 í Bjarma, d. 2. október 2011.

Helgi var með foreldrum sínum skamma stund, en faðir hans lést er Helgi var fjögurra ára.
Helgi var með móður sinni, fluttist með henni til Reykjavíkur 1934. Þau bjuggu í fyrstu á Hverfisgötu 98, en á Seltjarnarnesi frá 1940. Hann var í sveit á sumrum 9-11 ára, var í vegavinnu og á síldveiðum.
Helgi gekk í Austurbæjarskóla og tók fullnaðarpróf frá Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Hann gekk í Ingimarsskóla við Lindargötu og síðar í Menntaskólann á Akureyri og varð stúdent 1951. Síðan nam hann viðskiptafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þar cand. oecon.-viðskiptafræðingur 1956. Sigríður móðir hans átti og rak Hljófæraverslun Sigríðar Helgadóttur frá 1938. Þar varð Helgi framkvæmdastjóri 1952-1970.
Hann var fulltrúi hjá Verslunarráði Íslands 1962-64, forstjóri Tollvörugeymslunnar hf. og síðar TVG-Ziemsen 1963-96. Hann var stundakennari í hagfræði, bókfærslu og verslunargreinum við Gagnfræðaskóla Garðahrepps, síðar Fjölbrautaskóla Garðabæjar, 1967-79 og var bókari hjá Garðasókn til fjölda ára.
Helgi var ritari undirbúningsnefndar um stofnun Tollvörugeymslu 1962-63, stofnandi Hestamannafélagsins Andvara í Garðahreppi 1964 og formaður 1964-67, stofnandi Tónlistarfélags Garðahrepps og fyrsti formaður. Hann var landsforseti Junior Chamber Ísland 1969, sat í Fríhafnarnefnd 1973-75, var formaður sóknarnefndar Garðakirkju 1975-86, formaður Hjálparsjóðs Garðakirkju 1975-86, sat í héraðsnefnd Kjalarnesprófastsdæmis 1977-94.
Helgi var formaður stjórnar bókasafns Garðabæjar 1978-86, formaður húsaleigunefndar Garðabæjar 1978-82. og var varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn Garðabæjar 1978-90.
Hann var formaður leikmannaráðs íslensku þjóðkirkjunnar 1987-2007, kirkjuþingsmaður 1990-02, kirkjuráðsmaður 1994-98, sat í þjóðmálanefnd íslensku þjóðkirkjunnar 1990-2002.
Helgi var formaður Félags eldri borgara í Garðabæ 1996-99 og 2002-2004 og var formaður Landssambands eldri borgara 2004-2006 og formaður og stofnandi byggingasamvinnufélags eldri borgara í Garðabæ 2007-2019.
(Mbl. 24. ágúst 2019):
„Ég hætti í raun ekki störfum fyrr en á þessu ári, þegar ég skilaði af mér 25 einbýlishúsum fyrir Byggingasamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ, en húsin eru á Unnargrund. Ég er stoltur af því verki og sömuleiðis stoltur af því, þegar við byggðum safnaðarheimili fyrir Vídalínskirkju í Garðabæ og að sjá safnaðarstarfið springa út eins og blóm þegar safnaðarheimilið var komið. Mér finnst gaman að byggja upp frá grunni og skila góðu dagsverki og hef alltaf litið björtum augum fram á veginn. Í Hornafirði vorum við hjónin með lögbýli sem heitir Fornustekkar og þar byggðum við sumarhús og stunduðum skógrækt í 20 ár og er orðinn myndarlegur skógur þar.
Síðan hefur snar þáttur hjá mér verið kórastarf, en ég var í Kirkjukór Garðakirkju frá 1964 og síðan Kór eldri borgara í Garðabæ.“
Þau Ingibjörg giftu sig 1954, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu síðast í Kirkjulundi 14 í Garðabæ.
Helgi lést 2020.

I. Kona Helga, (14. maí 1954), er Ingibjörg Björnsdóttir Stephensen húsfreyja, skólaritari, f. 28. nóvember 1932 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Björn Ólafsson Stephensen frá Lágafelli í Mosfellssveit, járnsmiður, f. 25. ágúst 1898, d. 2. júní 1968, og kona hans Sigurborg Sigjónsdóttir Stephensen frá Meðalfelli í Nesjahreppi, A-Skaft., húsfreyja, f. 23. apríl 1893, d. 7. febrúar 1982.
Börn þeirra:
1. Björn Helgason verkfræðingur, f. 16. desember 1952. Fyrrum kona hans Ragnheiður Kristiansen
2. Sigríður Helgadóttir húsfreyja, deildarstjóri í Stokkhólmi, f. 4. apríl 1956. Maður hennar Åke Jonviken.
3. Helgi Steinar Helgason starfsmaður hjá áhaldahúsi Garðabæjar, f. 3. júní 1965.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.