Guðrún Guðný Jónsdóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðrún Guðný Jónsdóttir ráðskona, prjónakona, vinnukona, fæddist 10. janúar 1873 í Hallgeirsey í A-Landeyjum og lést 9. september 1957, jarðsett í Njarðvíkum.
Faðir hennar var Jón bóndi og formaður í Hallgeirsey, f. 2. október 1835, drukknaði við Eyjar 25. mars 1893, Brandsson bónda á Syðri-Úlfsstöðum, f. 1798 á Gaddstöðum á Rangárvöllum, d. 7. janúar 1865, Eiríkssonar bónda á Gaddstöðum og í Fróðholtshjáleigu á Rangárvöllum, skírður 26. október 1775, d. 1. júli 1833, Jónssonar og konu Eiríks (2. október 1794), Ingibjargar húsfreyju, f. 1760, d. 3. febrúar 1839, Þórarinsdóttur.
Móðir Jóns Brandssonar og kona Brands Eiríkssonar var Guðrún húsfreyja, f. 10. nóvember 1794, d. 23. október 1870, Jónsdóttir bónda á Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum, skírður 22. apríl 1757, d. 13. desember 1824, Þorgilssonar og konu Jóns á Rauðnefsstöðum, Ingveldar húsfreyju, skírð 1. apríl 1762, d. 13. júlí 1834, Guðmundsdóttur.

Móðir Guðrúnar Guðnýjar og kona Jóns Brandssonar var Guðrún húsfreyja í Hallgeirsey, síðar (frá 1903) í Svaðkoti, f. 30. nóvember 1832, d. 1913, Bergsdóttir vinnumanns í Drangshlíð, f. 13. febrúar 1811, Daníelssonar bónda í Miðeyjarhólmi, skírður 15. febrúar 1777, d. 22. apríl 1845, Bjarnasonar og konu Daníels, Guðnýjar Bergþórsdóttur húsfreyju, f. 1767, d. 1840.
Móðir Guðrúnar í Svaðkoti og barnsmóðir Bergs var Steinvör, síðar húsfreyja í Hallgeirsey, skírð 9. mars 1800, d. 21. september 1882 í Hallgeirsey, Guðmundsdóttir bónda í Strandarhjáleigu o.v., f. 1754 í Ketilhúshaga, d. 8. október 1829, Oddssonar, og konu Guðmundar, Guðrúnar húsfreyju, f. 1754, d. 16. nóvember 1830, Hallsdóttur.

Systkini Guðrúnar Guðnýjar voru m.a.:
1. Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja í Suðurgarði.
2. Steinvör Guðrún Jónsdóttir húsfreyja í Nýjabæ.
3. Jón Jónsson öryrki í Svaðkoti, síðar hjá Steinvöru í Nýjabæ, f. 28. maí 1878, d. 13. ágúst 1930.

Guðrún Guðný var með foreldrum sínum í Hallgeirsey 1890, fluttist til Seltjarnarness og þaðan til Mjóafjarðar 1894.
Hún var bústýra hjá Kristjáni Guðmundssyni skósmið í Mjóafirði 1895, fluttist með honum til Reykjavíkur 1896 og þaðan fór hún til Eyja. Hún fór frá Garðinum að Hallgeirsey í A-Landeyjum á sama ári og þaðan til Reykjavíkur, kom frá Reykjavík til Eyja 1897.
Guðrún var vinnandi í Landeyjum um 1900 og var farþegi á bát í kaupstaðarferð til Eyja á því ári undir stjórn Páls Ögmundssonar í Ey. Er siglt var til baka var ekki hægt að lenda við Sandinn og ekki varð snúið til Eyja vegna vinds og kviku. Það varð að sigla til Þorlákshafnar með erfiðleikum. Ferðasagan var skráð eftir Guðnýju af Guðmundi Rósmundssyni bónda og kennara og flutt í Ríkisútvarpinu (Þorgils Jónasson). Guðrún Guðný fór aftur til Mjóafjarðar 1901 og var þar með Kristjáni Guðmundssyni og konu hans síðasta ár þeirra í Mjóafirði 1902. Hún var svo vinnukona á Borgareyri þar, en fór í brott 1904.
Guðrún Guðný var vinnukona á Arnórsstöðum á Jökuldal og kom þaðan til Eyja 1908.
Hún var vinnukona í Svaðkoti 1908-1909, verkakona í Þorlaugargerði 1910, var í Nýjabæ við fæðingu Guðjóns 1912, leigjandi í Laufholti með Guðjón hjá sér 1913, á Skjaldbreið 1914 og enn 1917, leigjandi í Stafholti 1918 með Guðjón hjá sér, lausakona á Sæbergi 1919 og 1920, en Guðjón var ekki með henni. Hann var í fóstri á Felli í Mýrdal.
Guðrún Guðný var bústýra hjá Þorsteini Sigurðssyni á Sæbergi 1922-1925.
Hún kom til Eyja frá Kanada 1928, var prjónakona á Vestmannabraut 58B (Rauðafelli) 1930, var vinnukona í Akurey í V.-Landeyjum um 1950.
Guðrún Guðný fluttist til Suðurnesja og lést þar 1957.

I. Barnsfaðir Guðrúnar Guðnýjar var Bergþór Björnsson, síðar bóndi í Austari-Krókum á Flateyjardalsheiði í S-Þing., f. 4. september 1882, d. 18. febrúar 1957.
Barn þeirra var
1. Guðlaug Ingveldur Bergþórsdóttir húsfreyja í Njarðvík, f. 18. nóvember 1908, d. 4. apríl 1985.

II. Barnsfaðir hennar var Bjarni Benediktsson vinnumaður í Bjóluhjáleigu í Djúpárhreppi 1910, f. 18. júlí 1889, d. 23. júní 1972.
Barn þeirra var
2. Marta Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 22. mars 1910, var í fóstri hjá Steinvöru móðursystur sinni í Nýjabæ, d. 2. júlí 1914.

III. Barnsfaðir hennar var Jón Guðlaugsson frá Hallgeirsey í A-Landeyjum, lögreglumaður, síðar skósmiður, f. 5. maí 1872, d. 6. nóvember 1967.
Barn þeirra var
3. Guðjón Jónsson rakari, sjómaður, f. 23. janúar 1912, d. 16. janúar 1998.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Mjófirðingasögur. Vilhjálmur Hjálmarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1987-1990.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.